Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 70/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 70/2021

Föstudaginn 30. apríl 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. febrúar 2021, um að synja umsókn kæranda um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 18. nóvember 2020, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. febrúar 2021, á þeirri forsendu að skilyrði laga nr. 24/2020 væru ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 16. febrúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. mars 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafa farið í sóttkví þegar hann hafi verið tiltölulega nýbyrjaður að vinna hjá B. Áður hafi hann starfað í ferðaþjónustu hjá fyrirtækinu C og þar af leiðandi hafi hann fengið greitt frá báðum aðilum í septembermánuði. Kærandi hafi rætt við Vinnumálastofnun þar sem honum hafi verið bent á að hann hafi aðeins greitt 65 þúsund krónur í skatt þann mánuðinn sem sé ekki rétt þegar báðir launaseðlar séu skoðaðir. Kærandi hafi verið í sóttkví í viku og ekki fengið greitt frá vinnuveitanda þar sem hann hafi átt rétt á atvinnuleysisbótum í sóttkví.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, taki til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafa launamönnum, sem sæta sóttkví, laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví. Markmið laga nr. 24/2020 sé að styðja við atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Mál þetta varði synjun Vinnumálastofnunar á umsókn kæranda um greiðslur í sóttkví þar sem skilyrði laga nr. 24/2020 hafi ekki verið uppfyllt, sbr. 6. gr. laganna. Í 1. mgr. 6. gr. laganna segi að greiðsla til atvinnurekanda skuli taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá hafi verið í sóttkví. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni hafi verið gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skuli miða við 30 daga í mánuði. Synjun stofnunarinnar á greiðslum í sóttkví byggi á 2. mgr. 6. gr. laganna. Þar segir að þegar launamaður sæki um greiðslu á grundvelli 2. mgr. 5. gr. skuli greiðsla taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum hafi verið gert að vera í sóttkví eða hann hafi annast barn í sóttkví. Heildargreiðslur til launamanns geti þó aldrei verið hærri en sem nemur mismun heildarlauna þann mánuð sem honum hafi verið gert að vera í sóttkví eða hann hafi annast barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar.

Umsókn kæranda hafi verið hafnað þar sem skilyrði fyrir greiðslu hafi ekki verið uppfyllt. Samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem hafi legið til grundvallar umsókn kæranda hafi laun sóttkvíarmánaðar hjá B verið hærri en heildarlaun undanfarandi almanaksmánuð áður en hann hafi sætt sóttkví.

Í kæru til nefndarinnar komi fram að kærandi hafi verið tiltölulega nýbyrjaður hjá B. og hafi áður starfað hjá C og hafi þar af leiðandi fengið greitt frá báðum aðilum í septembermánuði. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins hafi laun kæranda frá C fyrir septembermánuð numið alls 419.115 kr. Við úrvinnslu umsókna vegna greiðslna í sóttkví hjá stofnuninni sé tekið mið af launum launþega hjá þeim atvinnurekanda sem tilgreindur sé í umsókn launþega, þ.e. hjá þeim atvinnurekanda sem hafi ekki greitt launþega laun í sóttkví. Laun kæranda frá B. fyrir septembermánuð hafi numið alls 65.541 kr. Laun kæranda frá B í sóttkvíarmánuði, þ.e. október, hafi alls verið 449.610 kr.

Vegna skilyrða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020 geti greiðslur til launþega aldrei orðið hærri en sem nemi mismun heildarlauna þann mánuð sem launþega hafi verið gert að vera í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar. Á þeim grundvelli hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að synja umsókn kæranda um greiðslur í sóttkví.

Í ljósi fyrirliggjandi gagna sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði laga nr. 24/2020.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Ágreiningur málsins lýtur að útreikningi Vinnumálastofnunar sem leiddi til þess að umsókn kæranda var synjað.

Í 2. gr. laga nr. 24/2020 kemur fram að markmið laganna sé að styðja við atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Í 5. gr. laganna er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna en þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að greiða atvinnurekanda launakostnað eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í lögunum. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til laganna kemur fram að lagt sé til að heimilt verði að greiða atvinnurekanda launakostnað hafi hann greitt launamanni sem sæti sóttkví laun. Gert sé ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslum verði það að launamaður hafi sætt sóttkví og hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví. Þannig sé gert ráð fyrir að ekki geti komið til greiðslna til atvinnurekanda hafi launamaður sinnt starfi sínu áfram þaðan sem hann hafi sætt sóttkví, enda hafi atvinnurekandi þá notið vinnuframlags starfsmannsins á því tímabili sem um ræði hverju sinni. Jafnframt sé gert ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslu til atvinnurekanda sé það að önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi mætt til vinnu á vinnustað og að atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann sætti sóttkví. Í 2. mgr. 5. gr. segir að heimilt sé að greiða launamanni launatap hafi hann ekki fengið greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda, enda séu skilyrði a-c-liða 1. mgr. uppfyllt. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá atvinnurekanda um að laun hafi ekki verið greidd og upplýsingum um ástæður þess. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til laganna kemur fram að í yfirlýsingu forsætisráðherra, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sé gert ráð fyrir því að Samtök atvinnulífsins muni beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til launamanna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Í ljósi þess megi ætla að það muni heyra til undantekninga að launamenn sæki um greiðslur þar sem þeir hafi ekki fengið greidd laun á meðan þeir sættu sóttkví.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020 skal greiðsla til launamanns taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum var gert að vera í sóttkví eða hann annaðist barn í sóttkví. Heildargreiðslur til launamanns geta þó aldrei verið hærri en sem nemur mismun heildarlauna þann mánuð sem honum var gert að vera í sóttkví eða hann annaðist barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar. Í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi til laganna kemur fram að gert sé ráð fyrir að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni var gert að sæta sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skal miða við 30 daga í mánuði. Í athugasemdum við 2. mgr. 6. gr. í frumvarpi til laganna segir svo um þessa reiknireglu.

„Sem dæmi má nefna launamann sem sætir sóttkví í apríl. Atvinnurekandi greiddi honum ekki laun í sóttkví og námu skert laun hans 220.000 kr. umræddan mánuð en laun hans í febrúar námu hins vegar 420.000 kr. Sú reikniregla sem hér er lögð til leiðir til þess að greiðslur til viðkomandi starfsmanns vegna tekjutaps hans nema 14.000 kr. á dag (420.000/30). Hafi hann sætt sóttkví í 14 daga getur hann því átt rétt á greiðslu að fjárhæð 196.000 kr.(14.000x14). Hafi launamaður í framangreindu dæmi fengið greiddar 300.000 kr. í apríl getur hann í mesta lagi átt rétt á greiðslum að upphæð 120.000 kr. (420.000-300.000=120.000 kr.), þar sem mismunur launa hans milli mánaða 120.000 kr. og getur hann því ekki fengið hærri greiðslu en sem því nemur. Gert er ráð fyrir að hámarksgreiðsla fyrir heilan mánuð verði 633.000 kr. eða 21.000 á dag. Tekið skal fram að heildargreiðsla getur orðið hærri þegar 11,5% mótframlagi Vinnumálastofnunar hefur verið bætt við.“

Líkt og að framan greinir lýtur ágreiningur málsins að útreikningi Vinnumálastofnunar vegna greiðslna til kæranda fyrir þá daga er hann sætti sóttkví. Sóttkví starfsmannsins stóð yfir í átta daga á tímabilinu 2. til 9. október 2020. Af gögnum málsins má sjá að kærandi hafi starfað hjá tveimur fyrirtækjum í september 2020, þ.e. hjá C. og B. Laun kæranda fyrir septembermánuð námu 419.115 kr. hjá C og 65.541 kr. hjá B, alls 484.656 kr. Í sóttkvíarmánuði, október 2020, starfaði kærandi hins vegar aðeins hjá B. og námu laun hans þá  449.610 kr. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að við úrvinnslu umsókna vegna greiðslna í sóttkví hjá stofnuninni sé tekið mið af launum launþega hjá þeim atvinnurekanda sem tilgreindur er í umsókn launþega, þ.e. hjá þeim atvinnurekanda sem ekki greiddi launþega laun í sóttkví sem í tilfelli kæranda hafi verið B. Laun kæranda hafi því verið hærri í október heldur en í september og því hafi stofnunin synjað umsókn kæranda um greiðslur í sóttkví á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála á sú afstaða Vinnumálastofnunar sér ekki stoð í lögum nr. 24/2020. Í áðurnefndri 2. mgr. 6. gr. laganna kemur skýrt fram að greiðsla til launamanns skal taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum var gert að vera í sóttkví eða hann annaðist barn í sóttkví. Ljóst er að laun kæranda hjá C. og B. teljast til heildarlauna kæranda í september 2020. Með framkvæmd Vinnumálastofnunar fær kærandi ekki greiðslu í réttu hlutfalli við þau heildarlaun sem hann fékk fyrir septembermánuð. Að því virtu og með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Vinnumálastofnunar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. febrúar 2021, um að synja umsókn A, um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum