Hoppa yfir valmynd
15. mars 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ályktað um lausnir við áskorunum í umhverfismálum, sjálfbæra neyslu og plast í hafi á Umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna

Umhverfisþingi SÞ lauk í dag með samþykkt ályktana um ýmis umhverfismál.  - mynd

Umhverfisráðherrar heimsins ályktuðu m.a. um sjálfbæra neyslu og framleiðslu, úrgangsstjórnun og sjálfbæra nýtingu lands á Umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna í dag. Einnig voru fjölmargar ályktanir um tiltekin málefni samþykktar, þar á meðal ályktun um ferli til að ná á alþjóðavísu utan um plastmengun í hafi og örplast. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur tekið þátt í fjölda leiðtogaumræðna, funda og annarra viðburða á þinginu.

Í ályktun umhverfisráðherranna er lögð áhersla á hringrásarhagkerfið og að skilgreind verði sem fyrst metnaðarfull landsmarkmið ríkja við að draga úr myndun úrgangs, auka endurnýtingu hluta og endurvinnslu úrgangs. Ráðherrarnir lýsa því einnig yfir að þeir muni með afgerandi hætti takast á við þær afleiðingar sem einnota plastvörur hafi á vistkerfi, þar með talið með því að hætta notkun á þeim einnota plastvörur sem mestum vandkvæðum valda fyrir umhverfið fyrir árið 2025.

Ein af fjölmörgum samþykktum þingsins í dag var ályktun um að ná á alþjóðavísu utan um plastmengun í hafi og örplast. Ræddi Guðmundur Ingi einmitt mikilvægi þessa í ávarpi sínu á þinginu í gær.

Í gær tók Guðmundur Ingi þátt í ráðherraumræðu um líffræðilega fjölbreytni, ásamt umhverfisráðherrum Svíþjóðar, Noregs, Kosta Ríka og fleirum. Ráðherra sagði meðal annars frá undirbúningi við þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Sérstaka athygli vakti að áform væru um að þjóðgarðurinn myndi ná yfir stór og víðáttumikil víðerni og yrði þá langstærsti þjóðgarður Evrópu.

Rætt var hvernig styrkja megi þá vinnu sem þörf er á til að koma í veg fyrir eyðingu búsvæða og tegunda í heiminum, hvaða stjórntækjum henti best að beita og hvernig framtíðaráherslur og skuldbindingar eigi að vera undir Samningnum um líffræðilega fjölbreytni. Á næsta ári stendur til að samþykkja nýja stefnumótun fyrir samninginn fram til ársins 2030.

Í gær tók Guðmundur Ingi einnig þátt í leiðtogaumræðum um þær umhverfislegu áskoranir sem tengjast fátækt og stjórnun náttúruauðlinda. Í dag hitti ráðherra framkvæmdastjóra eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna og sat einnig hádegisfund um skapandi stefnur og lausnir varðandi hringrásarhagkerfið. Fundurinn var á vegum stjórnvalda í Finnlandi, Japan og Kenía.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum