Hoppa yfir valmynd
14. október 2010 Dómsmálaráðuneytið

Sendingar hælisleitenda til Grikklands stöðvaðar að svo stöddu

Dómsmála- og mannnéttindaráðherra hefur ákveðið að stöðva að svo stöddu endursendingar hælisleitenda til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Dómsmála- og mannnéttindaráðherra hefur ákveðið að stöðva að svo stöddu endursendingar hælisleitenda til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þessi ákvörðun er tekin í ljósi nýrra tilmæla Mannréttindadómstóls Evrópu til Noregs og breytinga á afstöðu norskra stjórnvalda í kjölfar þeirra. Umsóknir um hæli, sem ella bæri að taka  til efnismeðferðar í  Grikklandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, verða því afgreiddar hér á landi þar til annað verður ákveðið.

Í samræmi við niðurstöður skýrslu um endursendingar hælisleitenda til Grikklands, sem ráðuneytið kynnti 11. júní 2009, hafa íslensk stjórnvöld fylgt þeirri reglu að hvert tilvik fyrir sig sé skoðað og aðstæður viðkomandi einstaklings metnar áður en ákvörðun er tekin um endursendingu til Grikklands. Sú niðurstaða byggði á framkvæmd annarra ríkja sem eiga aðild að Dyflinnarreglugerðinni, einkum framkvæmdar norskra yfirvalda og á dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 2. desember 2008 í máli gegn Bretlandi.

Mannréttindadómstóllinn hefur nú til meðferðar nýtt mál sem höfðað var gegn belgískum stjórnvöldum þar sem reynir á hvort endursendingar til Grikklands séu enn samrýmanlegar Mannréttindasáttmála Evrópu, en dómur í málinu liggur ekki fyrir. Með tilkynningu sinni til norskra stjórnvalda 7. október sl. lýsti dómstóllinn þeirri fyrirætlan sinni að fallast á allar beiðnir um stöðvun til bráðabirgða vegna sendinga hælisleitenda til Grikklands þar til dómur félli í málinu gegn Belgíu. Jafnframt var skorað á norsk stjórnvöld að stöðva sendingar til Grikklands að svo stöddu. Norsk stjórnvöld hafa nú orðið við þeirri umleitan og birtu 12. október sl. þá ákvörðun sína að sendingar hælisleitenda til Grikklands færu ekki fram að svo stöddu.

Dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur, í samráði við Útlendingastofnun, ákveðið að fara að dæmi Norðmanna og stöðva sendingar hælisleitenda til Grikklands meðan beðið er nýs dóms Mannréttindadómstólsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum