Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2010 Dómsmálaráðuneytið

Kynning á frambjóðendum til stjórnlagaþings opnuð á vefnum kosning.is

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur nú opnað vefsvæði með kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings á vefnum kosning.is. Þar er líka að finna hjálparkjörseðil þar sem kjósendur geta raðað þeim frambjóðendum sem þeir hafa áhuga á að kjósa, prentað seðilinn út og tekið með sér á kjörstað.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur nú opnað vefsvæði með kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings á vefnum kosning.is. Þar er líka að finna hjálparkjörseðil þar sem kjósendur geta raðað þeim frambjóðendum sem þeir hafa áhuga á að kjósa, prentað seðilinn út og tekið með sér á kjörstað. Einnig er unnið að gerð prentaðs kynningarefnis sem sent verður á hvert heimili í landinu þriðjudaginn 16. nóvember nk. og kynningarkjörseðils sem sendur verður öllum kjósendum sama dag.

Rafræn kynning á frambjóðendum
Frambjóðendur sjálfir eru höfundar þess kynningartexta sem birtur er á vefnum kosning.is. Kynningarefnið hefur verið yfirlesið og lagfært með tilliti til málfars og stafsetningar. Á sérsíðu um hvern frambjóðanda kemur fram í samandregnu máli af hverju viðkomandi býður sig fram, birtar eru upplýsingar um menntun, starfsreynslu, aldur, netfang og vefsíður sem vísa á frekara kynningarefni, hafi frambjóðendur kosið að láta það fylgja framboði sínu. Þá kemur fram fjögurra tölustafa auðkennistala sem hverjum frambjóðanda var úthlutað af landskjörstjórn og færa þarf á kjörseðil á kjördag í stað nafns.

Rafrænn hjálparkjörseðill

Á vefnum kosning.is er leitarvél þar sem hægt er kalla fram upplýsingar um frambjóðendur eftir stafrófsröð (upphafsstaf í nafni frambjóðanda) starfsheiti, póstnúmeri, sveitarfélagi eða kyni.

Á hjálparkjörseðilinn á vefnum kosning.is geta kjósendur raðað þeim frambjóðendum sem þeir hafa hug á að velja til setu á stjórnlagaþingi, minnst 1 og mest 25. Kjósendur geta forgangsraðað þar frambjóðendum að eigin vali, eftir að hafa aflað sér upplýsinga um þá, prentað út seðilinn og haft með sér á kjörstað.

Er þetta gert til þess að auðvelda kosninguna en markmiðið er að hún gangi greiðlega fyrir sig. Með útfylltan hjálparkjörseðil í farteskinu á kjördag þurfa kjósendur eingöngu að færa auðkennistölur frambjóðenda yfir á kjörseðilinn sem þeir fá afhentan á kjörstað. Þeir geta að sjálfsögðu notað heimsendu hjálparkjörseðlana í sama tilgangi.

Prentað kynningarblað og kynningarkjörseðill
Í kynningarblaðinu, sem dómsmála- og mannréttindaráðuneytið gefur út, verða birtar sömu upplýsingar um frambjóðendur og er að finna á kosning.is. Blaðið verður sent inn á hvert heimili landsins þriðjudaginn 16. nóvember, ásamt hjálparkjörseðli handa hverjum kjósenda. Í  blaðinu verður einnig fjallað um ýmsa þætti er varða framkvæmd kosninganna, kosningakerfið og talningu atkvæða. Markmiðið er að kjósendur eigi þess kost að undirbúa sig sem best fyrir kosninguna því á kjörseðilinn verða ekki færð nöfn þeirra frambjóðenda sem kjósandinn velur heldur auðkennistölur þeirra.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira