Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 241/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 241/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20050018

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. maí 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2020, um að afturkalla dvalarleyfi hennar með vísan til 59. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi fyrir maka Íslendings þann 10. maí 2016 og fékk það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum, nú síðast með gildistíma til 5. júní 2020. Þann 17. febrúar 2020 var skráð í þjóðskrá að kærandi og maki hennar hefðu skilið að lögum. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí sl., var dvalarleyfi kæranda afturkallað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 13. maí sl. Þann 2. júní sl. var kæranda skipaður talsmaður í málinu. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd þann 18. júní sl.Kærandi lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi þann 9. ágúst 2019 sem var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2020. Þann 13. maí sl. kærði kærandi þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála en leyst verður úr því máli í sérstökum úrskurði.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til ákvæðis 59. gr. laga um útlendinga sem heimili stofnuninni að afturkalla dvalarleyfi sé skilyrðum fyrir veitingu leyfisins ekki lengur fullnægt. Væri dvalarleyfi fyrir maka íslensks ríkisborgara bundið við þann hjúskap sem er grundvöllur útgefins dvalarleyfis. Þar sem ljóst væri að kærandi og maki hennar hefðu skilið að borði og sæng væru forsendur fyrir leyfisveitingu til 5. júní 2020 brostnar og var dvalarleyfi kæranda því afturkallað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi við meðferð málsins brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga og 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en stofnunin hafi t.a.m. ekki leiðbeint kæranda um að leggja fram gögn áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Þá byggir kærandi á því að mál hennar hafi ekki fengið sambærilega meðferð og önnur sambærileg mál, en þá sé aðilum að jafnaði leiðbeint um að leggja fram frekari gögn. Hafi Útlendingastofnun því brotið gegn jafnræðisreglunni, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt brjóti hin kærða ákvörðun gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga en hún sé bæði röng og íþyngjandi og hafi mátt taka með öðru og vægara móti. Hefði Útlendingastofnun fullnægt leiðbeiningarskyldu sinni hefði stofnunin að mati kæranda átt að komast að annarri ákvörðun en við það mat hefði átt að koma til skoðunar að hún væri nýbúin að eignast barn hér á landi. Þá vísar kærandi til þess að um eitt ár hafi liðið frá framlagningu dvalarleyfisumsóknar þar til Útlendingastofnun hafi tekið ákvörðun en svo langur málsmeðferðartími geti ekki talist standast meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sem og 1. mgr. 9. gr. sömu laga um málshraða. Kærandi byggir jafnframt á því að Útlendingastofnun hafi brotið gegn andmælareglunni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, þar sem henni hafi fyrir töku ákvörðunar ekki verið gefið færi á að koma á framfæri andmælum. Þá sé nú forsendubrestur fyrir afturköllun dvalarleyfis en hún hafi gift sig að nýju þann 10. maí sl., aðeins fjórum dögum eftir ákvörðun Útlendingastofnunar. Að mati kæranda hafi ekki verið ástæða til þess að afturkalla dvalarleyfi hennar þar sem hún sé gift að nýju en um sama dvalarleyfisgrundvöll sé að ræða. Loks fjallar kærandi um vandaða og góða stjórnsýsluhætti og að túlka eigi vafa málsaðilum í hag.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun m.a. heimilt að afturkalla dvalarleyfi útlendings ef ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Í 7. mgr. 70. gr. laganna kemur fram að makar og sambúðarmakar skuli hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi.

Í úrskurðarframkvæmd hefur kærunefnd vísað til þess að það leiði af eðli dvalarleyfa á grundvelli hjúskapar og athugasemdum við 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga að samvistarslit geti ekki talist sérstakar tímabundnar ástæður sem heimili að vikið sé frá því skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis að hjón hafi fasta búsetu á sama stað. Sé um samvistarslit að ræða er Útlendingastofnun því heimilt að afturkalla dvalarleyfi útlendings skv. 59. gr. laga um útlendinga.

Þann 17. febrúar 2020 var skráð í Þjóðskrá Íslands að kærandi og fyrrverandi maki hennar hefðu skilið að lögum. Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki lengur skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar og er því heimilt að afturkalla leyfið, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga.

Vegna athugasemda í greinargerð áréttar kærunefnd að dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar skv. 70. gr. laga um útlendinga er bundið við tiltekinn hjúskap. Líkt og áður greinir var kærandi með útgefið dvalarleyfi hér á landi á tímabilinu 10. maí 2016 til 6. maí 2020 á grundvelli hjúskapar við einstakling sem kærandi er nú skilin við að lögum. Forsendur dvalarleyfis hafa því breyst og hefur hjúskapur kæranda við núverandi maka ekki áhrif á afturköllun dvalarleyfis sem bundið var við fyrrum maka.

Í 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga segir að áður en tekin er ákvörðun í máli útlendings skal hann eiga þess kost að tjá sig um efni máls skriflega eða munnlega enda komi ekki fram í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft að mati viðkomandi stjórnvalds. Sambærilega efnisreglu er að finna í 13. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis hefst að frumkvæði Útlendingastofnunar, sbr. 59. gr. laga um útlendinga. Af gögnum málsins er ljóst að kæranda var ekki gefið tækifæri á að tjá sig um hinar framkomnu upplýsingar í þjóðskrá við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og var meðferð málsins að þessu leyti ekki í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga. Hins vegar lítur kærunefnd til þess að kæranda gafst kostur á að tjá sig um efni málsins við meðferð málsins hjá kærunefnd og er annmarkinn ekki slíkur að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar, enda hefur kærunefnd eftir skoðun á öllum gögnum málsins komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Kæranda er leiðbeint um að hún getur lagt inn umsókn fyrir nýtt dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 656/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 10. ágúst 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                            Daníel Isebarn Ágústsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum