Jafnvægisvoginni veittur áframhaldandi styrkur
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, veitti í dag Félagi kvenna í atvinnulífinu styrk til áframhaldandi þróunar og kynningar á hreyfiaflsverkefninu Jafnvægisvoginni, sem hefur það að markmiði að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi.
„Jafnvægisvogin er öflugt verkefni sem stuðlar að því að konur og karlar hafi jöfn tækifæri til áhrifa og ábyrgðar í atvinnulífinu. Með þessum stuðningi leggjum við okkar af mörkum til að viðhalda og efla þann góða árangur sem þegar hefur náðst,“ segir dómsmálaráðherra.
Hvatning til að jafna hlutfall kynja í stjórnunarstöðum
Með Jafnvægisvoginni er fyrirtækjum veitt hvatning og stuðningur til að jafna hlutfall kynja í æðstu stjórnunarstöðum. Verkefnið hefur á undanförnum árum haft veruleg jákvæð áhrif á vitund og aðgerðir fyrirtækja þegar kemur að jafnréttismálum.
Styrkurinn gerir FKA kleift að halda áfram að þróa mælikvarða, fylgjast með framvindu verkefnisins og efla samstarf við fyrirtæki og stofnanir sem hafa undirgengist Jafnvægisvogina. Markmiðið er að tryggja að fleiri fyrirtæki taki þátt og að áhrif verkefnisins verði enn sýnilegri í íslensku atvinnulífi.