Hoppa yfir valmynd
19. júní 2018 Utanríkisráðuneytið

Rúmlega 50% flótta- og farandfólks eru börn – mörg fylgdarlaus

Stríð, ofbeldi og ofsóknir ollu því að vegalausu fólki á flótta fjölgaði enn árið 2017, fimmta árið í röð, vegna átaka í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, stríðs í Suður-Súdan og flótta hundruð þúsunda Rohingja frá Mjanmar til Bangladess. Í langflestum tilfellum eru það þróunarríkin sem takast á við afleiðingarnar.

Í árlegri skýrslu Þróun á heimsvísu, sem gefin er út í dag, segir  UNHCR, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, að 68,5 milljónir hafi verið á flótta í árslok 2017. Af þeim voru 16,2 milljónir sem urðu vegalausar á árinu 2017, annaðhvort í fyrsta skipti eða endurtekið – sem gefur til kynna mikinn farandfólks. Það jafngildir því að 44,500 manns hafi verið á flótta á hverjum degi, eða að einn einstaklingur verði vegalaus á tveggja sekúndna fresti.

Aðrar tvær staðreyndir úr Þróun á heimsvísu eru að flestir flóttamenn búa í þéttbýli (58%) en ekki í flóttamannabúðum eða í sveitum; og að flóttamenn eru ungir, 53 prósent eru börn og mörg þeirra eru án fylgdarmanna eða hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar.

Flóttamenn sem hafa flúið heimaland sitt vegna átaka og ofsókna voru um 25,4 milljónir af þessum 68,5 milljónum. Það er 2,9 milljónum meira en árið 2016, og mesta aukningin sem UNHCR hefur séð á einu ári. Umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem enn biðu niðurstöðu umsóknar sinnar 31. desember 2017, fjölgaði á sama tíma um 300 þúsund, urðu 3,1 milljón. Vegalaust fólk innan eigin lands voru 40 milljónir af heildinni, lítilsháttar fækkun frá 40,3 milljónun 2016.

Einn af hverjum 110 jarðarbúum hefur hrakist á flótta

Í stuttu máli voru nánast eins margir á þvinguðum flótta í heiminum árið 2017 og allir íbúar Tælands. Á heimsvísu er 1 af hverjum 110 einstaklingum flóttamaður.

„Við stöndum frammi fyrir flóðgátt, þar sem árangur við stjórnun þvingaðs flótta á heimsvísu krefst nýrrar og mun áhrifaríkari nálgunar svo lönd og samfélög séu ekki skilin eftir ein með vandann,“ sagði Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. „En það eru ástæður sem vekja von. Fjórtán lönd hafa þegar hrint í framkvæmd nýju skipulagi til að takast á við flóttamannavandann og innan nokkurra mánaða mun nýtt hnattrænt samkomulag vera tilbúið til samþykktar hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Í dag, kvöldið fyrir alþjóðlega flóttamannadaginn, bið ég aðildarríkin um að styðja þetta. Enginn verður flóttamaður að eigin vali; en við hin getum valið hvernig við hjálpum.“

Skýrsla UNHCR, Þróun á heimsvísu sem gefin er út árlega um allan heim fyrir alþjóðlega flóttamannadaginn, 20. Júní, gefur upplýsingar um þvingaðan flótta og byggir á gögnum sem safnað er af UNHCR, ríkisstjórnum og öðrum samstarfsaðilum. Í henni er umhverfi alþjóðlegrar verndar ekki skoðað, því UNHCR gefur út sérstaka skýrslu um það en árið 2017 sáust tilvik um þvingaðan brottflutning fólks, flóttamenn voru gerðir að blórabögglum og nýttir í pólitískum tilgangi, þeir fangelsaðir og neitað um leyfi til að vinna, og nokkur lönd neita jafnvel að nota orðið „flóttamaður“.

Samt sem áður býður skýrslan upp á innsýn, m.a. inn í hvernig þvingaður flótti lítur út og hvernig hann er í raun og veru og hvernig ósamræmi getur verið milli þessara tveggja hugmynda.

Meðal þeirra er hugmyndin um að flóttamenn heimsins séu aðallega norðan heimskautsbaugs. Gögnin sýna að hið gagnstæða er rétt – um 85 prósent flóttamanna eru í þróunarríkjunum, sumum sárfátækum og þau fá lítinn stuðning til að sinna þessu fólki. Fjórir af hverjum fimm flóttamönnum eru í löndum sem liggja að þeirra eigin.

Tveir af hverjum þremur vegalausir í eigin landi

Stórfelldur flótti yfir landamæri er einnig sjaldgæfari en þær 68 milljón flóttamanna sem eru á heimsvísu gefa til kynna. Nær tveir þriðju þeirra sem neyðast til að flýja eru vegalausir í eigin landi og hafa ekki farið frá heimalandi sínu. Af 25,4 milljónum flóttamanna er rúmlega fimmtungur Palestínumenn undir verndarvæng UNRWA, Palestínuflóttamannaaðstoðar SÞ. Af hinum, sem UNHCR ber ábyrgð á, koma tveir þriðju frá einungis fimm löndun: Sýrlandi, Afganistan, Suður Súdan, Mjanmar og Sómalíu. Sé bundinn endir á átök í einhverju þeirra getur það haft mikil áhrif á ástandið í flóttamannamálum um allan heim.

En rétt eins og það eru fá lönd sem mikill fjöldi flóttamanna kemur frá, þá eru fá lönd sem taka á móti mörgum flóttamönnum. Tyrkland er það land sem tekur á móti flestum, 3,5 milljónum, aðalega Sýrlendingum. En Líbanon tekur á móti flestum miðað við höfðatölu. Á heildina litið voru 63 prósent allra flóttamanna á vegum UNHCR í aðeins 10 löndum.

Því miður er skortur á lausnum á þessu öllu. Stríð og átök eru enn helsta orsökin og lítill sýnilegur árangur í átt til friðar. Um fimm milljónir einstaklinga gátu snúið aftur heim árið 2017 en flestir snéru aftur til að vera vegalausir í eigin landi og meðal þeirra var fólk sem sneri aftur undir þvingun eða í viðkvæmar aðstæður. Vegna þess að færri pláss bjóðast til búferlaflutninga með aðstoð, fækkaði þeim flóttamönnum sem sneru heim með hjálp um 40%; þeir voru um 100 þúsund talsins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira