Hoppa yfir valmynd
23. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 308/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 308/2021

Fimmtudaginn 23. september 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. júní 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. júní 2021, um að hann uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu 100.000 kr. styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 31. janúar 2019 til 31. júlí 2020 og 5. janúar 2021 til 30. apríl 2021. Með erindi 11. júní 2021 óskaði kærandi eftir upplýsingum um greiðslu 100.000 kr. styrks til atvinnuleitenda með vísan til lagabreytinga þar um. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. júní 2021, var kæranda tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu styrksins þar sem hann hefði ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. júní 2021. Með erindi úrskurðarnefndar 25. júní 2020 var óskað eftir að kærandi legði fram afrit af hinni kærðu ákvörðun. Sú beiðni var ítrekuð 6. júlí og 5. ágúst 2021. Gögn bárust frá kæranda 6. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 2. september 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. september 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið atvinnulaus frá árinu 2018. Frá febrúar 2019 hafi hann verið á atvinnuleysisbótum en tekið sér hlé frá þeim í sex mánuði sumarið 2020 og fram í febrúar 2021 og hafi þá verið á bótum frá félagsþjónustu Kópavogsbæjar. Kærandi hafi síðan skráð sig aftur á atvinnuleysisbætur í febrúar 2021. Kæranda skiljist að hann fái ekki 100.000 kr. styrkinn sem stjórnvöld hafi samþykkt til þeirra sem væru á bótum. Að mati kæranda sé um mismunun að ræða.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 31. janúar 2019. Kæranda hafi verið tilkynnt með erindi, dags. 5. mars 2019, að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Kærandi hafi sótt að nýju um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 5. janúar 2021. Kæranda hafi verið tilkynnt með erindi, dags. 19. febrúar 2021, að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Frá því að bótatímabil kæranda hafi hafist með umsókn, dags. 31. janúar 2019, hafi hann þegið atvinnuleysisbætur á tímabilinu 31. janúar 2019 til 31. júlí 2020 og á tímabilinu 5. janúar 2021 til 30. apríl 2021.

Þann 11. júní 2021 hafi kærandi óskað eftir upplýsingum um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar varðandi greiðslu sérstaks 100.000 kr. styrks til atvinnuleitanda, sem þá hafi nýlega verið samþykkt á Alþingi. Erindi kæranda hafi verið svarað þann 21. júní 2021 og honum greint frá því að hann uppfyllti ekki skilyrði umrædds styrks þar sem hann hefði ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Þann 9. júní 2021 hafi verið samþykkt á Alþingi lög nr. 73/2021, um breytingu á lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og lögum nr. 155/2020 um greiðslu til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs. Með 3. gr. laga nr. 73/2021 hafi nýtt ákvæði til bráðabirgða bæst við lög um atvinnuleysistryggingar sem sé svohljóðandi:

,,Innan fjögurra vikna frá gildistöku þessa ákvæðis skal Vinnumálastofnun greiða þeim atvinnuleitanda sem hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 og verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla á umræddum tíma sérstakan 100.000 kr. styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir aprílmánuð 2021. Þrátt fyrir framangreint skal biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikning á fjárhæð styrks, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun á fyrrnefndum biðtíma.

,Hafi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 og verið tryggður hlutfallslega á umræddum tíma skal Vinnumálastofnun greiða honum hlutfallslegan styrk skv. 1. mgr. í samræmi við það tryggingahlutfall sem greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á fyrrnefndu tímabili miðuðust við. Þrátt fyrir framangreint skal biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikning á fjárhæð styrks, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun á fyrrnefndum biðtíma.“

Í athugasemdum með 3. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 73/2021 segi að tilefni setningar umrædds bráðabirgðaákvæðis hafi verið að ljóst þætti að þau úrræði sem stjórnvöld hefðu gripið til fram til þessa vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar hefðu illa nýst þeim einstaklingum sem væru án atvinnu í upphafi faraldursins og væru enn að fá greiddar atvinnuleysisbætur 1. maí 2021 þar sem möguleikar þeirra til að komast að nýju inn á vinnumarkaðinn minnkuðu enn frekar eftir að áhrifa faraldursins hafi farið að gæta hér á landi. Jafnframt hafi verið tekið fram í því sambandi að lenging tekjutengda bótatímabilsins innan atvinnuleysistryggingakerfisins hefði ekki náð til þessara einstaklinga.

Skilyrði fyrir greiðslu styrks samkvæmt umræddu bráðabirgðaákvæði sé að atvinnuleitandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021. Með 14 mánaða samfelldu tímabili sé átt við að viðkomandi atvinnuleitandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur óslitið í 14 mánuði hinn 1. maí 2021 og því sé ekki átt við þau tilvik þegar um sé að ræða atvinnuleitanda sem hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 14 mánuði á umræddu tímabili með hléum, enda sé þá ekki um óslitið tímabil að ræða.

Eins og rakið sé að framan hafi kærandi þegið atvinnuleysisbætur á tímabilinu 31. janúar 2019 til 31. júlí 2020 og á tímabilinu 5. janúar 2021 til 30. apríl 2021. Kærandi hafi því ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur óslitið í 14 mánuði hinn 1. maí 2021 og uppfylli því ekki skilyrðin fyrir greiðslu styrks samkvæmt umræddu bráðabirgðaákvæði.

Með vísan til alls ofangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu styrks á grundvelli ákvæðis XIX. til bráðabirgða sem hafi verið samþykkt á Alþingi þann 9. júní 2021 með lögum nr. 73/2021.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu 100.000 kr. styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli ákvæðis XIX. til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Með lögum nr. 73/2021 voru samþykktar breytingar á lögum nr. 54/2006 þar sem nýtt ákvæði til bráðabirgða bættist við lögin. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Innan fjögurra vikna frá gildistöku þessa ákvæðis skal Vinnumálastofnun greiða þeim atvinnuleitanda sem hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 og verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla á umræddum tíma sérstakan 100.000 kr. styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir aprílmánuð 2021. Þrátt fyrir framangreint skal biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikning á fjárhæð styrks, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun á fyrrnefndum biðtíma.

Hafi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 og verið tryggður hlutfallslega á umræddum tíma skal Vinnumálastofnun greiða honum hlutfallslegan styrk skv. 1. mgr. í samræmi við það tryggingahlutfall sem greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á fyrrnefndu tímabili miðuðust við. Þrátt fyrir framangreint skal biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikning á fjárhæð styrks, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun á fyrrnefndum biðtíma.“

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 31. janúar 2019 til 31. júlí 2020 og 5. janúar 2021 til 30. apríl 2021. Kærandi hafði því ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021.

Kærandi hefur vísað til þess að framangreint ákvæði feli í sér mismunun. Samkvæmt jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994 skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Sömu reglu er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur í 1. mgr. að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Í framangreindu ákvæði til bráðabirgða er skýrt kveðið á um að styrkurinn greiðist eingöngu til þeirra sem hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021. Sú regla er án mismununar gagnvart þeim sem hún gildir um og því bendir ekkert til annars en að jafnræðis hafi verið gætt.

Þar sem kærandi hafði ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 átti hann ekki rétt á greiðslu 100.000 kr. styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði og er ákvörðun Vinnumálastofnunar því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. júní 2021, um að A, uppfylli ekki skilyrði til greiðslu 100.000 kr. styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum