Hoppa yfir valmynd
1. ágúst 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Vinnuumhverfi flugumferðastjóra verði skoðað

Sturla Böðvarsson átti í morgun fundi með fulltrúum Flugmálastjórnar Íslands og Félags íslenskra flugumferðarstjóra þar sem fjallað var um vandkvæði sem upp hafa komið meðal annars varðandi nýtt vaktakerfi í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík. Ákveðið var að fá utanaðkomandi aðila til að gera úttekt á vinnuumhverfi flugumferðarstjóra á Íslandi.

Samgönguráðherra segir fundi með báðum aðilum hafa verið gagnlega og menn skipst á upplýsingum og skoðunum. Niðurstaðan hafi verið sú að fá utanaðkomandi aðila, til dæmis erlenda sérfræðinga, til að gera úttekt á vinnuumhverfi flugumferðarstjóra og fulltrúar Félags ísl. flugumferðarstjóra munu einnig leita til Alþjóða sambands flugumferðarstjóra eftir ráðgjöf varðandi málið. Samgönguráðherra segist líta svo á að meðan á athuguninni stendur verði flugumferðarþjónusta með eðlilegum hætti og starfsemin mönnuð og rekin í samræmi við reglur og fyllsta öryggis sé gætt.

Fyrri fundinn sátu auk Sturlu Böðvarssonar þau Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Karl Alvarsson, settur skrifstofustjóri. Fulltrúar Flugmálastjórnar voru Þorgeir Pálsson flugmálastjóri og Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugumferðarsviðs. Síðari fundinn sátu ráðherra, ráðuneytisstjóri og þrír fulltrúar Félags ísl. flugumferðarstjóra, þau Loftur Jóhannsson formaður, og stjórnarmennirnir Halldóra Klara Valdimarsdóttir og Stefán Mikaelsson.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira