Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 560/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 560/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070059

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. júlí 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. júní 2019, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar á grundvelli 1. mgr. 55. gr. og 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að fallið verði frá því að brottvísa henni á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga og/eða kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara þann 3. maí 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. júní 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 19. júlí sl. og þann 24. júlí sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 21. ágúst sl. Með bréfi til kærunefndar, dags. 9. september sl., óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann sama dag féllst kærunefndin á þá beiðni.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að þann 12. febrúar 2019 hafi kæranda verið brottvísað frá Danmörku ásamt því að fá endurkomubann inn á Schengen-svæðið til 12. febrúar 2021, vegna ólögmætrar dvalar og atvinnuþátttöku þar í landi. Var það mat Útlendingastofnunar að bæði e-liður 1. mgr. 98. gr. og b-liður 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga ætti við um umsókn kæranda og þá væri ljóst að aðstæður kæranda væru ekki slíkar að þær féllu innan 102. gr. sömu laga. Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki grunnskilyrði d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga og yrði stofnunin því að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga. Var kæranda gert að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku ákvörðunar Útlendingastofnunar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi gerir í greinargerð margvíslegar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Byggir kærandi á því að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki samrýmst 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga enda sé ákvörðun stofnunarinnar órökstudd og sé kæranda ekki ljóst á hverju mat stofnunarinnar byggi. Þá vísar kærandi til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, sbr. 10. gr., en í tilfelli kæranda sé stjórnvaldsákvörðunin afar íþyngjandi þar sem kærandi muni verða nauðbeygð til þess að snúa aftur til heimaríkis, sem sé stríðsþjáð land. Sé því óhjákvæmilegt að líta til aðstæðna í heimaríki við mat á því hvort ráðstöfun stjórnvalda teljist ósanngjörn gagnvart kæranda eða aðstandanda hennar, þ.e. eiginmanni hennar. Útlendingastofnun hafi gefist fullt tilefni til þess að óska eftir gögnum áður en mat hafi verið lagt á hvort ráðstöfunin teldist ósanngjörn. Hafi málsmeðferð stofnunarinnar því brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi vísar ennfremur til þess breska utanríkisráðuneytið vari við ferðalögum til ákveðinna svæða í [...], þ. á m. til [...] í [...] en kærandi sé frá því bæjarfélagi. Ástæða þess séu vopnuð átök [...]. Í frétt New York Times komi fram að landið sé á barmi borgarastyrjaldar og að [...]. Þá áréttar kærandi að það sé grundvallarlögskýringarregla íslensks réttar að túlka skuli lagaákvæði til samræmis við þjóðarrétt og vísar hún m.a. til Vínarsamnings um þjóðarréttarsamninga í þessu sambandi. Sé ljóst að brottvísun kæranda frá Íslandi sé í raun brottvísun til heimaríkis en aðstandendur og fjölskylda kæranda séu frá svæði þar sem nú geysi átök. Í skýrslu Human Rights Watch komi fram að [...]. Feli sú ákvörðun að brottvísa kæranda m.a. í sér brot gegn 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var með lögum nr. 62/1994. Verði kæranda vísað frá landinu sé lífi hennar stefnt í hættu; hún eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð af [...]. Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi loks til tilgreindra dóma Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi afmörkun á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. laganna með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna.

Meðal grunnskilyrða dvalarleyfis er að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að útlendingi verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að þau atvik sem geti leitt til synjunar séu ákvæði laganna um frávísun og brottvísun.

Í XII. kafla laga um útlendinga eru ákvæði um frávísun og brottvísun. Í 98.-100. gr. laganna er mælt fyrir um hvaða atvik geti orðið grundvöllur þess að útlendingi sé vísað úr landi. Séu atvik með þeim hætti sem þar greinir getur stjórnvöldum verið heimilt að vísa útlendingi úr landi. Ákvörðun um brottvísun verður hins vegar aðeins tekin ef fyrir liggur að ákvæði 102. gr. laga um útlendinga um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun standa brottvísun ekki í vegi. Í því sambandi kemur helst til skoðunar ákvæði 3. mgr. 102. gr., en samkvæmt ákvæðinu skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Samkvæmt framangreindu er m.a. lagt á stjórnvöld að meta, við töku ákvörðunar um brottvísun, hvort atvik séu þess eðlis að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Komist stjórnvöld að niðurstöðu um að svo sé verður ákvörðun um brottvísun ekki tekin.

Ákvörðun um hvort útlendingi verði synjað um dvalarleyfi á grundvelli þess að skilyrði d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga séu ekki uppfyllt verður eins og áður greinir aðeins reist á því að ekki liggi fyrir atvik sem geti valdið því að útlendingi verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda brottvísað frá Danmörku vegna ólögmætrar dvalar og atvinnuþátttöku þar í landi og var henni ákveðið endurkomubann til 12. febrúar 2021. Ljóst er að endurkomubann kæranda gildir til allra aðildarríkja Schengen-samstarfsins, sbr. d-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 562/2006 um för fólks yfir landamæri. Þá er mælt fyrir um í e-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að heimilt sé að vísa frá útlendingi sem er án dvalarleyfis ef stjórnvald í Schengen-ríki hefur tekið endanlega ákvörðun um frávísun eða brottvísun fyrir brot gegn ákvæðum laga um komu og dvöl útlendinga. Jafnframt er heimilt að frávísa útlendingi frá Íslandi ef honum hefur verið vísað úr landi hér eða í öðru norrænu ríki, endurkomubann er enn í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins, sbr. b-liður 1. mgr. 106. gr. laganna, og ef útlendingur er skráður í Schengen-upplýsingakerfið í því skyni að honum verði synjað um komu, sbr. i-liður ákvæðisins. Samkvæmt 5. mgr. 106. gr. laganna er heimilt að vísa útlendingi frá landi eftir reglum 1. mgr. þótt sjö sólarhringa fresturinn sé liðinn en þá verður meðferð máls að hefjast innan níu mánaða frá komu til landsins. Samkvæmt framansögðu er ljóst að fyrir liggja atvik sem valdið geta því að kæranda verði meinuð dvöl hér á landi, sbr. d-liður 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð til kærunefndar vísar kærandi m.a. til aðstæðna í heimaríki og telur að brottvísun frá Íslandi muni brjóta gegn 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var á Íslandi með lögum nr. 62/1994. Þá má leiða af greinargerð að kærandi beri jafnframt fyrir sig meginreglunni um non-refoulement, sem lögfest er í 42. gr. laga um útlendinga. Jafnframt vísar kærandi til þess að verndarsjónarmið 3. mgr. 102. gr. laganna eigi við í máli hennar.

Að framan var rakið að ákvörðun um brottvísun á grundvelli 98.-100. gr. laga um útlendinga verður aðeins tekin ef útlendingur nýtur ekki verndar gegn brottvísun og brottvísun felur ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 102. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar verður að túlka orðalag d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, um að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geti því að útlendingi verði meinuð dvöl hér á landi, á þann hátt að við beitingu ákvæðisins fari fram sama mat og við töku ákvörðunar um brottvísunar á grundvelli 98.-100. gr. laga um útlendinga. Umsókn útlendings um dvalarleyfi verði því ekki synjað á þeim grundvelli einum að aðstæður hans falli undir 98.-100. gr. laga um útlendinga, heldur verði jafnframt að leggja mat á hvort ákvæði sem takmarka ákvörðun um brottvísun, sbr. t.d. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, kæmi í veg fyrir að slík ákvörðun yrði tekin.

Í ákvörðun sinni vísaði Útlendingastofnun til þess að ekki væru uppi ástæður í málinu sem leiddu til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart henni eða nánustu aðstandendum hennar, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Gögn málsins bera ekki með sér að kærandi hafi borið fyrir sig aðstæðum í heimaríki við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna á þann hátt að þeir fái skoðun á máli sínu á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar er það til hagsbóta fyrir kæranda að Útlendingastofnun taki afstöðu til málsástæðna kæranda um aðstæður í heimaríki kæranda, m.a. m.t.t. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærandi getur þá eftir atvikum leitað eftir endurskoðun á því mati hjá kærunefnd. Þykir því rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

Kærunefnd bendir kæranda jafnframt á að telji hún að lífi sínu eða öryggi kunni vera stefnt í hættu í heimaríki er henni heimilt, líkt og öðrum einstaklingum sem telja sig vera í sambærilegri stöðu, að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd í samræmi við IV. kafla laga um útlendinga og samkvæmt þeim skilyrðum sem gilda um slíkar umsóknir. Með þessum leiðbeiningum hefur nefndin ekki tekið afstöðu til slíkrar umsóknar.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Áslaug Magnúsdóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                       Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum