Hoppa yfir valmynd
10. júní 2010 Innviðaráðuneytið

Konur eru 40% kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum

Alls hlutu 512 frambjóðendur kosningu fulltrúa í sveitarstjórnir landsins í kosningunum 29. maí síðastliðinn, 308 karlar og 204 konur. Konur eru því 40% kjörinna fulltrúa og í meirihluta í 16 sveitarstjórnum af 76.

Eftir kosningar árið 2006 voru konur 36% kjörinna fulltrúa. Breytingin milli kosninga 2006 og 2010 nemur því fjórum prósentustigum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði á liðnum vetri starfshóp til að huga að aðgerðum til að jafna hlut kvenna og karla í sveitarstjórnum og voru aðgerðir kynntar í október. Var í framhaldi af því efnt til fjölmargra funda með ýmsum aðilum og samtökum til að vekja athygli á nauðsyn þess að jafna hlut kynjanna í sveitarstjórnum. Ráðuneytið fagnar þessari þróun og mun áfram fylgjast með henni.

Þá kemur fram á vefsíðu Jafnréttisstofu að með þeim úrslitum sem nú tryggja konum 40% hlut í fagni Jafnréttisstofa áframhaldandi jákvæðri þróun í þróun í átt til aukins jafnréttis og jafnra möguleika karla og kvenna til að hafa áhrif á samfélag sitt.

Hlutur kvenna í sveitarstjórnum á Íslandi hefur hægt og bítandi aukist síðastliðna hálfa öld. Á tímabilinu 1958 til 1978 jókst hlutur kvenna í sveitarstjórnum úr 1% í 6%. Með aukinni umræðu um mikilvægi þátttöku beggja kynja í ákvarðanatöku í samfélaginu jókst þátttaka kvenna í stjórnmálum á sveitarstjórnarstigi. Konur voru 13% kjörinna fulltrúa 1982 og 19% árið 1986. Árið 1990 varð hlutur kvenna í sveitarstjórnum 22%, 25% árið 1994 og 1998 voru konur 28% fulltrúa í sveitarstjórn. Árið 2002 eru konur orðnar 32% og sem fyrr segir 36% árið 2006. Þannig hefur hlutur kvenna í sveitarstjórnum aukist jafnt og þétt síðustu áratugi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum