Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 9/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 9/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19100038

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. október 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. október 2019, um að synja umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsóknina til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir maka Íslendings þann 24. október 2011 með gildistíma til 29. september 2012. Var það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum. Þann 13. febrúar 2015 fékk kærandi útgefið dvalarleyfi á grundvelli sérstaks og lögmæts tilgangs með gildistíma til 13. febrúar 2016. Þann 3. febrúar 2016 fékk kærandi útgefið dvalarleyfi fyrir maka Íslendings með gildistíma til 3. febrúar 2017. Þann 9. janúar 2017 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi og var þeirri umsókn synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 1. mars 2017. Þann 19. apríl 2017 sótti kærandi um dvalarleyfi hér á landi fyrir maka Íslendings og var henni veitt dvalarleyfi með gildistíma frá 16. maí 2017 til 16. maí 2018. Var það leyfi endurnýjað, með gildistíma til 1. maí 2020. Þann 10. apríl 2019 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi að nýju. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. október 2019, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 10. október sl. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 17. október sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að samkvæmt b-lið 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga megi veita útlendingi sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og dvalist hefur hér á landi samfellt í þrjú ár eftir stofnun hjúskapar ótímabundið dvalarleyfi. Þann 1. mars 2017 hefði Útlendingastofnun synjað umsókn kæranda, dags. 9. janúar s.á., um ótímabundið dvalarleyfi og hefði kærandi móttekið ákvörðunina þann 3. mars s.á. Í ákvörðuninni hefði kæranda verið veittur 15 daga frestur til að leggja fram nýja umsókn þar sem eldra dvalarleyfi væri fallið úr gildi. Hafi kærandi lagt fram dvalarleyfisumsókn 47 dögum eftir að hún móttók fyrrgreinda ákvörðun og hefði Útlendingastofnun því afgreitt umsóknina sem umsókn um fyrsta leyfi en ekki endurnýjun, og hefði kæranda verið send tilkynning þess efnis þann 10. maí 2017. Hafi kærandi svo fengið útgefið dvalarleyfi að nýju hinn 16. maí 2017 með gildistíma til 1. maí 2020. Með vísan til framangreinds uppfyllti kærandi því ekki búsetuskilyrði 58. gr. laga um útlendinga um samfellda lágmarksdvöl hér á landi og var umsókn hennar því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að hún uppfylli skilyrði b-liðar 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um heildardvöl. Jafnframt uppfylli hún skilyrði 1. mgr. 58. gr. laganna um samfellda dvöl, enda sé heildardvöl hennar á landinu rúmlega sjö ár. Vísar kærandi til þess að í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. mars 2017, hafi ekki verið leiðbeiningar um kæruheimild þar sem hún hafi ekki notið aðstoðar fyrirtækis við að leggja fram kæruna. Þá hafi Útlendingastofnun brostið lagaskilyrði til þess að veita kæranda einungis 15 daga frest til þess að leggja fram nýja umsókn um dvalarleyfi, enda hafi það brotið gegn kæruheimild hennar. Þá hafi Útlendingastofnun ekki gefið henni kost á því að útskýra nánar hvers vegna hún hefði lagt fram umsókn sína um dvalarleyfi of seint. Hafi stofnunin ekki metið hvort ríkar sanngirnisástæður væru til staðar í máli hennar, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Þá hafi kærandi ekki móttekið tilkynningu Útlendingastofnunar, dags. 10. maí 2017, þess efnis að umsókn hennar yrði unnin sem umsókn um fyrsta leyfi. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun borið að senda framangreinda tilkynningu í ábyrgðarpósti og leiðbeina um kæruheimild. Vísar kærandi loks til þess að þótt hún hún hafi lagt fram dvalarleyfisumsókn sína of seint eigi það ekki að leiða til þess að hún missi uppsöfnuð réttindi til ótímabundins dvalarleyfis.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a – e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Þá er heimilt í vissum tilvikum að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl skv. 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt þegar útlendingur er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og hefur búið með honum hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í þrjú ár eftir stofnun hjúskapar.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi hafi verið synjað þar sem stofnunin hafi talið að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um að hafa dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi. Ástæða þessa er að sú að með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. mars 2017, var umsókn kæranda , sem hafði verið lögð fram þann 9. janúar 2017, um ótímabundið dvalarleyfi synjað. Í ákvörðuninni vísaði Útlendingastofnun til þess að svo kærandi ætti rétt á áframhaldandi dvöl á landinu þyrfti hún að sækja um dvalarleyfi á öðrum forsendum innan 15 daga frá móttöku ákvörðunar. Samkvæmt gögnum málsins móttók kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar þann 3. mars s.á. og lagði fram nýja umsókn um dvalarleyfi þann 19. apríl s.á. sem hafi verið 22 dögum of seint. Dvalarleyfi hennar hafi því ekki verið endurnýjað árið 2017 heldur hafi Útlendingastofnun afgreitt umsókn kæranda sem „nýtt leyfi“, sem hafi verið útgefið þann 16. maí s.á.

Vegna tilvísunar Útlendingastofnunar til þess að stofnunin hafi afgreitt umsókn kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir maka Íslendings, dags. 19. apríl 2017, sem umsókn um nýtt leyfi, óskaði kærunefnd eftir ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis og frekari gögnum, s.s. er varðaði samskipti við kæranda við málsmeðferð þeirrar umsóknar. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun var kæranda send tilkynningar, dags. 26. apríl 2017 og 10. maí s.á., þess efnis að farið yrði með umsóknina sem umsókn um nýtt dvalarleyfi þar sem kærandi hefði ekki lagt fram umsókn innan þess tímaramma sem tilgreindur hafi verið í ákvörðun Útlendingastofnunar frá 1. mars 2017. Samkvæmt svari Útlendingastofnunar, dags. 11. desember sl., voru bréfin ekki send með ábyrgðapósti en skv. dagbók Útlendingastofnunar kom kærandi í afgreiðslu stofnunarinnar þann 16. maí sl. og greiddi áskilið gjald vegna „nýrrar“ umsóknar svo það væri ekki ólíklegt að hún hafi móttekið bréfið á tímabilinu 11.-16. maí 2017. Hins vegar liggur ekki fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar um veitingu dvalarleyfis þann 16. maí 2017, en samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun kemur fram að leyfið hafi verið veitt þann dag. Samkvæmt gögnum málsins var dvalarleyfiskortið framleitt þann 19. maí s.á.

Í 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að útlendingur sem óskar eftir endurnýjun dvalarleyfis skuli sækja um hana eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi falli úr gildi. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sé ekki sótt um endurnýjun innan gildistíma fyrra dvalarleyfis skuli réttur til dvalar falla niður og fara skuli með umsókn skv. 51. gr. laganna. Í 4. mgr. 57. gr. segir að Útlendingastofnun geti heimilað útlendingi að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar um endurnýjun leyfis sem borist hefur eftir þann frest sem um getur í 2. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Að mati kærunefndar kemur 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga ekki í veg fyrir að lagt sé mat á hvort ríkar sanngirnisástæður samkvæmt 4. mgr. 57. gr. laganna eigi við í málinu þótt umsækjandi sæki um endurnýjun eftir að upphaflegur gildistími dvalarleyfis sé runninn út. Fallist stjórnvöld á að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli umsækjenda ber því að fara með málið á þann hátt að um umsókn um endurnýjun dvalarleyfis umsækjanda sé að ræða en ekki setja umsóknina í farveg skv. 3. mgr. 57. gr., sbr. 51. gr. laganna.

Í 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Í 2. mgr. er kveðið á um að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita tilteknar leiðbeiningar, þ.m.t. um kæruheimild og rétt aðila til að fá ákvörðun rökstudda. Ekki þarf þó að veita leiðbeiningar hafi umsókn aðila verið tekin til greina að öllu leyti, sbr. 3. mgr. 20. gr. laganna.

Þegar umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi er samþykkt er Útlendingastofnun því ekki skylt að veita leiðbeiningar um heimild til að fá ákvörðun rökstudda og um kæruheimild. Þegar umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi er ekki tekin til greina að öllu leyti, þ.m.t. í þeim tilvikum þar sem farið er með umsókn um endurnýjun sem umsókn um „nýtt leyfi“ skv. 51. gr. af því hún barst of seint, sbr. 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, er aftur á móti skylt að veita slíkar leiðbeiningar.

Af gögnum málsins verður ráðið að kæranda hafi verið tilkynnt um að henni hefði verið veitt dvalarleyfi fyrir maka Íslendings á ný í kjölfar umsóknar dags. 19. apríl 2017 með því að Útlendingastofnun sendi henni nýtt dvalarleyfisskírteini. Aftur á móti er ljóst að hún fékk ekki leiðbeiningar um að umsókn hennar um endurnýjun leyfis hefði ekki verið tekin til greina að öllu leyti með ákvörðuninni. Þótt kærandi hafi verið send tilkynning þann 10. maí 2017 þess efnis að umsókn hennar yrði afgreidd sem „fyrsta leyfi“ er ljóst að meðferð máls hennar var að þessu leyti ekki í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt framansögðu varð kærandi af rétti til að fá ákvörðun Útlendingastofnunar um að umsókn hennar um endurnýjun á dvalarleyfi hafi komið of seint og yrði því meðhöndluð sem ný umsókn, rökstudda og endurskoðaða. Meðal annars af þeirri ástæðu liggur ekki fyrir mat Útlendingastofnunar á því hvort ríkar sanngirnisástæður mæltu með því að henni yrði á þeim tíma veitt heimild til að dvelja áfram hér á landi á grundvelli fyrra leyfis, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Í ljósi þessarar málsmeðferðar er það mat kærunefndar að atvik málsins verði metin kæranda í hag að þessu leyti og að lagt verði til grundvallar við úrlausn málsins að umsókn hennar um endurnýjun á dvalarleyfi, dags. 19. apríl 2017, hafi verið tekin til greina að öllu leyti.

Af því leiðir að kærandi uppfyllir skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 3. mgr. 58. gr., um samfellda dvöl hér á landi skv. dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Ákvörðun Útlendingastofnunar verður því felld úr gildi.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                      Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum