Hoppa yfir valmynd
9. desember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 613/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. desember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 613/2021

í stjórnsýslumálum nr. KNU21110048 og KNU21110049

 

Beiðni […] og […] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 31. ágúst 2017 sóttu kærendur; […], fd.[…], ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu (hér eftir K), og […], fd. […], ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu (hér eftir M), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Með ákvörðunum, dags. 20. júní 2018, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvarðanir Útlendingastofnunar voru staðfestar af kærunefnd útlendingamála hinn 1. nóvember 2018. Samkvæmt gögnum málsins fóru kærendur sjálfviljug aftur til heimaríkis hinn 9. nóvember 2018.

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi að nýju hinn 19. október 2020. Með ákvörðun, dags. 22. febrúar 2021, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvarðanir Útlendingastofnunar voru staðfestar af kærunefnd útlendingamála hinn 21. apríl 2021. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum hinn 26. apríl 2021. Hinn 30. apríl 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 230/2021, dags. 18. maí 2021, var beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað.

Hinn 15. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda hinn 23. nóvember 2021.

Beiðni kærenda um endurupptöku á málum þeirra er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á því að ákvarðanir í málum þeirra hafi verið byggðar á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurðir kærunefndar voru kveðnir upp. 

Kærendur telja nauðsynlegt að kanna betur aðstæður í Bosníu og Hersegóvínu. Í því sambandi er m.a. vísað til fréttagreina Guardian og Vísis, dags. 2. nóvember 2021, þar sem fram kemur að Christian Scmidt, æðsti sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Bosníu og Hersegóvínu (e. high representative for Bosnia and Herzegovina), hafi varað við því að stríðsátök kunni að brjótast út á ný í landinu. Þá kemur fram að Alida Vračić, stjórnmálafræðingur og framkvæmdarstjóri Populari, hafi gert grein fyrir stöðugt versnandi ástandi í landinu. Kærendur vísa auk þess til skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2021 þar sem fram kemur m.a. að hætta á alvarlegum mannréttindabrotum sé til staðar í landinu.

Með vísan til framangreinds telja kærendur ástæðu til að draga í efa þá mynd sem kærunefnd hafi dregið af aðstæðum í Bosníu og Hersegóvínu. Landið geti ekki talist vera öruggt upprunaríki og hafi rökstuðningur kærunefndar fyrir því byggst á ófullnægjandi upplýsingum. Vísað hafi verið með almennum hætti til fjölda skýrslna sem gefi litla innsýn í stöðu þeirra einstaklinga sem séu á flótta frá landinu. Þá hafi umfjöllun nefndarinnar verið svo knöpp að erfitt sé að átta sig á því hvaða sjónarmiðum sé byggt á.

Í greinargerð kærenda er vísað til læknisfræðilegra gagna sem þau telja varpa betra ljósi á heilsu þeirra. Fram komi m.a. að K hafi orðið fyrir árás hinn […]. Henni hafi verið hrint harkalega og hafi hún hlotið áverka á […]. Þá bendi framlögð gögn til þess að andlegt ástand M hafi versnað til muna og að hann glími hugsanlega við ofsóknarranghugmyndir.

Í ljósi alls framangreinds telja kærendur að það séu skýr og haldgóð rök fyrir því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í máli þeirra. Aðstæður í heimaríki þeirra séu verulega breyttar í skilningi ákvæðisins. Þá feli framlögð gögn í sér ný atriði sem hafi ekki legið fyrir þegar ákvörðun var tekin á fyrri stigum. Kærunefnd beri því að endurupptaka málið og kanna umrædd gögn til hlítar. Í því sambandi vísa kærendur til þess að kærunefnd hafi endurupptekið mál við minna tilefni, en nefndinni beri að gæta jafnræðis.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurðum kærunefndar í málum kærenda, dags. 21. apríl 2021, var komist að þeirri niðurstöðu að kærendur uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda í heimaríkjum þeirra væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Við upphaf meðferðar á málum kærenda hjá kærunefnd voru öll gögn málsins yfirfarin, þ. á m. viðtöl við kærendur hjá Útlendingastofnun ásamt greinargerðum sem skilað var inn bæði til Útlendingastofnunar og kærunefndar. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem þar komu fram kannaði nefndin aðstæður í heimaríkjum kærenda sem og einstaklingsbundnar aðstæður þeirra. Í úrskurðum kærunefndar frá 21. apríl 2021 eru listar yfir helstu heimildir sem voru rannsakaðar við meðferð mála kærenda hjá nefndinni, en um er að ræða rúmlega tuttugu skýrslur og gögn frá stjórnvöldum í ýmsum ríkjum, alþjóðlegum samtökum og frjálsum félagasamtökum. Kærendur hafa ekki lagt fram nein gögn sem gefa til kynna að rannsókn kærunefndar í málum þeirra hafi verið ábótavant eða að málsmeðferð hafi verið áfátt. Þar að auki kemur ekki fram í beiðni um endurupptöku hvaða frekari upplýsinga kærunefnd hefði verið unnt að afla við meðferð umsóknar kærenda um alþjóðlega vernd.

Í umræddum úrskurðum kom fram að kærendur hafi borið fyrir sig sömu málsástæður og þegar þau sóttu upphaflega um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2017. Var það mat kærunefndar að kærendur hefðu ekki lagt fram nein gögn sem væru til þess fallin að styðja við frásagnir þeirra af atburðum og aðstæðum í heimaríki. Þá var það mat kærunefndar að frásagnir þeirra hefðu verið óljósar og í ósamræmi við framlögð gögn sem og þau gögn sem kærunefnd hefði kynnt sér um aðstæður í Bosníu og Hersegóvínu. Í ljósi framangreinds var það mat kærunefndar að kærendur hefðu ekki leitt að því líkur að aðstæður þeirra í heimaríki hefðu breyst frá því að upphafleg umsókn þeirra um alþjóðlega vernd hefði verið til meðferðar hér á landi og hefði ekkert komið fram sem benti til þess að kærendur hefðu sætt ofsóknum eða að þau hefðu ástæðu til að óttast ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríkjum þeirra, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá hefði ekki verið sýnt fram á að yfirvöld í heimaríkjum kærenda gætu ekki eða vildu ekki veita þeim vernd.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, þar á meðal framlögð fylgigögn, og er það mat nefndarinnar að ekkert í þeim gefi til kynna að niðurstöður hennar um kröfur kærenda um alþjóðlega vernd í framangreindum úrskurðum hafi verið byggðar á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Þá hefur kærunefnd kannað nýleg gögn um aðstæður í Bosníu og Hersegóvínu, þ. á m. upplýsingar á vefsvæðum OSCE Mission to Bosnia and Herzegovina, International Crisis Group, UK Home Office og UHNCR. Að virtum þeim gögnum er það mat kærunefndar að aðstæður í landinu hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál kærenda upp að nýju, sbr. 24. stjórnsýslulaga.

Kærendur byggja jafnframt beiðni sína um endurupptöku á því að ný læknisfræðileg gögn geti varpað betra ljósi á heilsu þeirra. Til stuðnings framangreindu lögðu kærendur fram ýmis heilbrigðisgögn, þ. á m. læknabréf frá […], dags. […], þar sem fram kemur að K hafi orðið fyrir árás hinn […]. Henni hafi verið hrint harkalega og sé ekki hægt að útiloka brot í gegnum […]. Þá hafi hún hlotið áverka á […]. Kærendur lögðu einnig fram göngudeildarnótu frá […]. Kemur þar m.a. fram að M gráti af og til og hafi lýst því yfir að hann vildi […] og deyja. M hafi verið metinn í lítilli sjálfsvígshættu en þó í krónískri sjálfsvígshættu vegna áfallasögu og núverandi veikinda. Erfitt hafi verið að meta M vegna þess hve stjarfur hann hafi verið og ákveðið hafi verið að leggja hann inn til að skoða lyfjamál og meta sjálfsvígshættu. Þá lögðu kærendur fram greinargerð sálfræðings og geðlæknis á Landspítalanum, […]. Kemur þar m.a. fram að M hafi áður lagst inn á móttökugeðdeild eftir inntöku lyfja, n.t.t. hinn […], og verið greindur með þunglyndi, geðrofseinkenni og mögulega áfallastreituröskun. Fram kemur að veikindi M hafi einkennst af mikilli vanlíðan og sjálfsvígshugsunum. Hann hafi upplifað mikinn ótta við hryðjuverkamenn, sofið lítið og greint frá því að hann hafi heyrt raddir. Fyrir […] sem M kvaðst hafa orðið fyrir […] hafi hann verið heilsuhraustur en eftir […] hafi áfallaeinkenni farið að gera vart við sig. Í aðdraganda síðustu innlagnar hafi hann frosið heima hjá sér og átt í erfiðleikum með að tjá sig. Í kjölfar innlagnar hafi M verið ávísað lyfjum vegna veikinda sinna og hafi hann þá tekið framförum. Unnt hafi verið að létta á gát og hafi hann greint frá því að raddir sem hann hafi áður heyrt hafi nær horfið. Um miðja legu hafi hann losnað við sjálfsvígshugsanir en orðið hafi bakslag vegna þess að hann og eiginkona hans hafi ekki fengið fregnir um dvalarstað sonar þeirra í […]. Viðkomandi sérfræðingar hafi ekki séð þörf á frekari breytingum á lyfjagjöf þar sem heilsu hans hafi farið umtalsvert batnandi. Að mati þeirra glími M við langvarandi áfallastreituröskun, gríðarlega streitu og óvissu. Hann sé vel „funkerandi“ maður í grunninn en upplifi ranghugmyndir og heyri raddir. M hafi verið vísað í áframhaldandi meðferð á göngudeild Landspítalans […] þar sem hann muni fá þjónustu hjá geðrofsteymi spítalans. 

Í úrskurði kærunefndar nr. 179/2021 var fjallað um heilsufar M og byggt á læknisfræðilegum gögnum sem þá lágu fyrir. Í framlögðum heilsufarsgögnum sem litið var til kom m.a. fram að M hefði leitað á bráðamóttöku og móttökugeðdeild. M hefði verið lagður inn vegna sjálfsvígshættu eftir inntöku lyfja, en sjálfsvígsgát hafi verið aflétt snemma í meðferðarferlinu. Við útskrift af móttökugeðdeild hefði ekki verið að merkja geðrof og hefði M neitað sjálfsvígshugsunum. Fjallað var í úrskurðinum með ítarlegum hætti um heilbrigðiskerfin í heimaríkjum M og í ljósi þeirrar umfjöllunar var lagt til grundvallar að hann gæti leitað sér heilbrigðisaðstoðar í þeim ríkjum, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Þá var það mat kærunefndar, að teknu tilliti til framlagðra heilsufarsgagna, að M væri ekki í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt væri að rjúfa.

Að virtum framlögðum læknisfræðilegum gögnum með beiðni kærenda um endurupptöku telur kærunefnd að í þeim sé að finna nýrri og ítarlegri upplýsingar um andleg veikindi M sem kærunefnd hefur þegar fjallað um og tekið afstöðu til í fyrrnefndum úrskurði. Þá telur kærunefnd að læknisfræðileg gögn er varði K séu ekki þess eðlis að atvik í máli hennar hafi breyst verulega í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga. Auk þess hefur K aðgang að heilbrigðisþjónustu í heimaríki hennar.

Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að gögn málsins bendi ekki til þess að aðstæður kærenda eða aðstæður í heimaríkjum kærenda, t.a.m. hvað varðar aðgang að heilbrigðisþjónustu, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málunum á þann hátt að nefndin telji að það geti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málanna. Þá telur kærunefnd að kærendur hafi ekki sýnt fram á að M sé í meðferð hér á landi sem sé læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa. Líkt og rakið er í úrskurði kærunefndar nr. 179/2021 stendur M, sem ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu, til boða endurgjaldslaus aðgangur að geðheilbrigðisþjónustu í þeim ríkjum. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem bendi til þess að M geti ekki ferðast til heimaríkja sinna og leitast eftir slíkri þjónustu. Þá muni M jafnframt eiga auðveldara með að vinna með meðferðaraðilum í heimaríkjum sínum án þess að tungumálaörðugleikar trufli slíka samvinnu, en samkvæmt gögnum málsins hefur M þurft á túlki að halda til að eiga samskipti við heilbrigðissérfræðinga hér á landi.

Í greinargerð kærenda kemur fram að kærunefnd hafi endurupptekið mál við minna tilefni, en nefndinni beri að gæta jafnræðis. Sú staðhæfing kærenda er hvorki rökstudd né studd neinum gögnum. Er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessa málsástæðu kærenda.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik í máli kærenda hafi breyst verulega frá því að úrskurðir kærunefndar frá 21. apríl 2021 voru birtir, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samantekt

Að framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að atvik í málum kærenda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál þeirra upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kærenda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kærenda um endurupptöku málsins.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants to re-examine the cases is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum