Hoppa yfir valmynd
1. júní 2017 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/2017

Mál nr. 1/2017

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Endurhæfingarlífeyrir vegna meðgöngu og fæðingar barns.

Tryggingastofnun ríkisins synjaði kæranda, sem er kona, um endurhæfingarlífeyri í tvo mánuði og taldi kærandi að henni hefði verið mismunað vegna kyns þar sem henni hefði verið synjað vegna barnsburðar en upplýst var að kærandi lagði ekki stund á endurhæfingu þessa tvo mánuði nema í óverulegum mæli. Kærunefnd taldi að samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð væri það ófrávíkjanlegt skilyrði til að eiga rétt á endurhæfingarlífeyri að leggja stund á endurhæfingu. Synjun kærða hafi byggt á hlutrænni forsendu ótengda kynferði enda myndu slíkar greiðslur falla niður með sama hætti hjá öðrum sem ekki legðu stund á endurhæfingu.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 1. júní 2017 er tekið fyrir mál nr. 1/2017 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 2. Með kæru, dagsettri 2. febrúar 2017, kærði A ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um endurhæfingarlífeyri vegna aðstæðna sem leiddu af meðgöngu og fæðingu barns. Kærandi telur að með synjuninni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 3. febrúar 2017. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 24. febrúar 2017, og var hún kynnt kæranda með tölvupósti kærunefndar 28. febrúar 2017.

 4. Kærunefndinni barst tölvupóstur frá kæranda 2. mars 2017 með athugasemdum við greinargerð kærða sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 3. mars 2017. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 24. mars 2017, og voru þær sendar kæranda til kynningar með tölvupósti 24. mars 2017.

 5. Auk þess bárust kærunefndinni fleiri erindi kæranda þar sem hún óskaði eftir að koma á framfæri viðbótarathugasemdum. Um er að ræða tvö bréf, dagsett 6. og 26. mars 2017, og tvo tölvupósta sem bárust 31. mars og 28. apríl 2017.

 6. Með tölvupósti kærunefndarinnar frá 28. apríl 2017 voru framangreind fjögur erindi kæranda send kærða til kynningar.

 7. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Kærði hefur í greinargerð og athugasemdum sínum brugðist við málatilbúnaði kæranda og eftir atvikum veitt andsvör eftir því sem hann hefur talið tilefni til. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR

 8. Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá kærða fyrir tímabilið 1. febrúar 2014 til 31. maí 2014. Á þessu tímabili gekk kærandi með barn sem hún fæddi 19. júní 2014. Með endurmati, dagsettu 19. júní 2014, var kæranda synjað um áframhaldandi greiðslu endurhæfingarlífeyris á þeim forsendum að hún hefði ekki sinnt endurhæfingu nema að hluta á fyrra endurhæfingartímabili, endurhæfingaráætlun væri óljós og endurhæfingarlífeyrir væri ekki veittur á meðan kærandi ætti rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar almannatrygginga og var úrskurður í máli nr. 210/2014 kveðinn upp 12. febrúar 2015 þar sem hin kærða ákvörðun var felld úr gildi á þeirri forsendu að kærði hefði ekki rannsakað málið nægilega með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1997. Málinu var vísað aftur til kærða til nýrrar meðferðar. Með endurmati, dagsettu 19. maí 2015, samþykkti kærði að greiða kæranda endurhæfingarlífeyri fyrir tímabilið frá 1. ágúst 2014 til 31. ágúst 2014 en synjaði á ný um greiðslur fyrir tímabilið 1. júní 2014 til 31. júlí 2014. Sú ákvörðun var einnig kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga sem kvað upp úrskurð í máli nr. 261/2015 7. september 2016 og staðfesti synjun á greiðslum fyrir þessa tvo mánuði.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 9. Kærandi bendir á að þegar væntanlegir foreldrar meti hvort þeir geti leyft sér að taka barnsburðarleyfi sé ekki ólíklegt að þeir horfi til þess hve mikið framfærsla þeirra skerðist við að þiggja greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Þegar kærandi hafi orðið ófrísk af öðru barni sínu og staðið frammi fyrir þessu mati vorið 2014 hafi hún verið í starfsendurhæfingu á vegum VIRK og þegið jafnframt endurhæfingarlífeyri frá kærða. Þar sem endurhæfingarlífeyrir er undanþeginn greiðslu tryggingagjalds hafi kærandi ekki átt rétt á fæðingarorlofi heldur einungis fæðingarstyrk frá Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, skuli fæðingarstyrkur vera 59.137 krónur á mánuði. Mánuðina á undan hafði endurhæfingarlífeyrir kæranda verið 196.894 krónur. Þannig lækkaði framfærsla um 70% við að taka barnsburðarleyfi og þiggja greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði.

 10. Ljóst sé að 59.137 krónur á mánuði dugi ekki fyrir framfærslu. Til samanburðar nefnir kærandi að framfærsluviðmið kærða fyrir einstakling sem búi ekki einn sé 188.313 krónur á mánuði. Umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir að matur og hreinlætisvörur fyrir hjón með tvö börn kosti 122.385 krónur á mánuði. Fæðingarstyrkurinn sé því um það bil helmingur af kostnaði við mánaðarleg matarinnkaup fyrir fjölskyldu kæranda. Þá fari útgreiðsla fæðingarstyrks samkvæmt lögum um fæðingarorlof fram eftir á, fyrir undanfarandi mánuð, öfugt við endurhæfingarlífeyri. Það þýddi að kærandi yrði án framfærslu mánuðinn sem barn hennar kæmi í heiminn.

 11. Því hafi blasað við að kærandi gæti ekki leyft sér að fara í barnsburðarleyfi, og hafi í staðinn ákveðið að halda áfram í endurhæfingu sinni eftir fæðinguna og þiggja áfram endurhæfingarlífeyri. Ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir að nýbökuð móðir í starfsendurhæfingu mætti gera eitthvað annað en að fara í barnsburðarleyfi eftir fæðingu barns. Fyrst hafi VIRK ekki ætlað að vilja vinna endurhæfingaráætlun fyrir kæranda af þeirri ástæðu að hún hafi átt von á barni. Það hafi tekið þrjá mánuði að fá VIRK til að vinna endurhæfingaráætlun svo unnt hefði verið að senda umsókn til kærða fyrir tímabilið júní, júlí og ágúst 2014. En þá hafi komið í ljós að kærði hafi haft þá vinnureglu að synja fólki sjálfkrafa um endurhæfingarlífeyri eftir fæðingu barns, enda væri eðli málsins samkvæmt yfirleitt ekki um starfsendurhæfingu að ræða strax eftir fæðingu. Í samræmi við það hafi umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri verið synjað af kærða þann 19. júní 2014, sem hafi einnig verið fæðingardagur barns kæranda. Þegar á reyndi hafi því eini kostur kæranda verið að þiggja fæðingarstyrkinn.

 12. Synjun kærða hafi verið kærð til æðra stjórnvalds og málið hafi velkst um í stjórnsýslunni í yfir tvö ár. Málið hafi ekki fengið formlegan endi fyrr en 7. september 2016 þegar úrskurðarnefnd velferðarmála hafi komist að þeirri niðurstöðu að kærða hefði verið heimilt að láta konur gjalda þess að hafa gengið með og fætt barn. Á þessum rúmu tveimur árum hafi orðið til alls fjögur kærumál og verið rekin fyrir þremur stjórnsýslunefndum.

 13. Fyrst hafi verið rekið kærumál nr. 210/2014 fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga á tímabilinu 16. júlí 2014 til 12. febrúar 2015. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar frá 12. febrúar 2015 hafi komið fram að synjun kærða hafi ekki byggst á lögum, að málið hafi ekki verið rannsakað áður en ákvörðun var tekin og að ekki mætti synja umsóknum sem séu illar fylltar út. Með hliðsjón af þessum ágöllum hafi málinu verið heimvísað til kærða til að taka nýja ákvörðun. Niðurstöðunni hafi fylgt það skilyrði að kærði skyldi rannsaka hvenær á tímabilinu sem synjað hafði verið fyrir hafi orðið stutt rof á endurhæfingu kæranda vegna meðgöngu og fæðingu barns hennar. Kærði hafi því átt að taka málið fyrir á ný með því að rannsaka hvernig kærandi hefði staðið sig í endurhæfingunni á meðan hún fékk fæðingarstyrkinn. Endurhæfingarlífeyrir hefði getað staðið kæranda til boða að svo miklu leyti sem endurhæfingu hafi verið sinnt sem skyldi. Kærði hafi tekið nýja ákvörðun í málinu 19. maí 2015 og komist að því að kærandi hefði stundað næga endurhæfingu í ágúst en ekki í júní og júlí 2014.

 14. Þá næst hafi kærumál nr. 261/2015 verið rekið fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála á tímabilinu 16. september 2015 til 7. september 2016. Ekki megi gera auknar kröfur til kæranda eftir á þegar henni hafði verið synjað á ólögmætum forsendum. Sérstök áhersla hafi verið lögð á þá staðreynd að hin upphaflega synjun hafði byggst á kynjamismunun, fyrir utan þær ógildingarástæður sem úrskurðarnefnd almanntrygginga hafi byggt heimvísun sína á. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi kveðið upp úrskurð í málinu 7. september 2016 og sagt meðal annars að það fælist ekki kynjamismunun í því að láta konur gjalda þungunar sinnar þegar um ástundun í endurhæfingu væri að ræða. Ákvörðun kærða skyldi því standa.

 15. Þriðja kærumálið nr. 192/2016 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála hafi verið um aðgang að gögnum málsins, en varði ekki efnisþætti þessa máls sem rekið er nú fyrir kærunefnd jafnréttismála og verður því ekki reifað frekar. Auk þess hafi kærandi rekið fjórða kærumálið nr. 9/2014 og þá fyrir kærunefnd jafnréttismála. Því máli hafi aftur á móti vísað frá af kærunefndinni þar sem ákvörðun kærða hafði áður verið ógilt af úrskurðarnefnd almannatrygginga og til hafi staðið að taka nýja ákvörðun í málinu.

 16. Kærandi bendir á að samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 210/2014 hafi kærði ekki átt að taka nýja ákvörðun í málinu eins og hin fyrri ólögmæta ákvörðun hefði aldrei verið tekin. Þvert á móti hafi kærði átt að taka nýja ákvörðun sérstaklega með tilliti til hegðunar kæranda eftir hina upphaflegu ákvörðun. Með vísan til niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga hefði úrskurðarnefnd velferðarmála því viljað að kærði rannsakaði eftir á hvernig endurhæfingu hefði verið háttað til að geta tímasett hvenær hefði komið rof í endurhæfingu kæranda vegna meðgöngu og fæðingu barns svo ekki kæmi til greiðslu endurhæfingarlífeyris fyrir umrætt tímabil. Samkvæmt þessu séu forföll í endurhæfingu sem komi til vegna meðgöngu og fæðingar barns ekki lögmæt forföll og því beri að telja þau sem skróp í endurhæfingarþætti að viðlagðri synjun um endurhæfingarlífeyri.

 17. Með hliðsjón af þessum skilyrðum úrskurðarnefndar almannatrygginga hafi kærði skoðað endurhæfingu kæranda í aðdraganda og strax eftir fæðinguna sumarið 2014. Í kjölfarið hafi kærði tekið nýja ákvörðun í málinu 19. maí 2015 og komist að þeirri niðurstöðu að umrætt rof í endurhæfingu hefði staðið mánuðina júní og júlí 2014, en endurhæfing hefði verið næg í ágúst. Þar með hafi kæranda verið veittur endurhæfingarlífeyrir fyrir ágúst en áfram synjað fyrir júní og júlí.

 18. Í kærumáli nr. 261/2015 fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála hafi kærandi lagt mikla áherslu á kynjasjónarmið. Í fyrsta lagi hafi kærandi haldið því fram að kærði hefði ekki getað krafist þess að hún hefði átt að stunda endurhæfingu fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns hennar. Í 1. mgr. 8. gr laga nr. 95/2000 sé tekið fram að móðir skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Karlar þurfi aftur á móti ekki að sæta neinum slíkum skilyrðum og þurfi ekki að taka neitt fæðingarorlof frekar en þeir kjósi. Kæranda hafi þótt einsýnt að sömu sjónarmið ættu einnig við um konur í starfsendurhæfingu og því ættu þær að fá tveggja vikna orlof frá sinni endurhæfingu eftir fæðingu barns. Kærandi hafi einnig bent á að það væri áhugavert stökk hjá kærða að telja sjálfkrafa að kærandi hefði ekki getað stundað endurhæfingu í þrjá mánuði eftir fæðingu til þess að gera þá kröfu að kærandi hefði átt að stunda endurhæfingu strax eftir að barnið kom í heiminn. Kærði hafi ekkert fjallað um þetta atriði í málinu og úrskurðarnefnd velferðarmála ekki minnst orði á það í niðurstöðu sinni. Það sé því óhætt að fullyrða að kærði hafi talið að stofnunin gæti gert kröfu um ástundun í endurhæfingu hjá nýbökuðum mæðrum fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns og að æðra stjórnvald geri ekki athugasemd við þetta vinnulag.

 19. Í öðru lagi hafi kærandi bent á að sú niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 210/2014 að rannsaka þyrfti ástundun kæranda í endurhæfingu eftir á fengist ekki staðist með vísun í forgangsreglur laga. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar hafi verið skilyrt með vísun í ákvæði 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Upphafleg synjun kærða hafi aftur á móti falið í sér kynjamismunun á tvennan hátt. Þar með hafi þessi ákvörðun kærða brotið gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvörðun sem byggist á broti gegn 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar sé ótæk og fáist ekki staðist, burtséð frá því sem annars standi í sérlögum. Sé kæranda synjað um framfærslu á þeirri forsendu að hún sé kona sem hafi eignast barn sé ekki hægt að skilyrða greiðslu þessarar framfærslu með vísun í ákvæði sérlaga um virka ástundun í endurhæfingu.

 20. Til að þessi röksemd gengi upp hafi fyrst þurft að kveða upp úrskurð um hvort vinnubrögð kærða hafi í raun falið í sér kynjamismunun. Það hafi því orðið að koma til kasta úrskurðarnefndar velferðarmála að taka afstöðu til þess hvort vinnubrögð kærða hefðu falið í sér kynjamismunun í kærumáli nr. 261/2015.

 21. Hvað eðlishyggjuna varði sé rétt að benda á að allt frá því að það sjónarmið að nýbakaðir foreldrar gætu eðli málsins samkvæmt ekki stundað endurhæfingu strax eftir fæðingu hafi fyrst verið kynnt til sögunnar í greinargerð kærða í máli nr. 210/2014 og hafi kærandi reynt að fá upplýsingar frá kærða um hvað það sé sem valdi þessu getuleysi foreldra til að stunda endurhæfingu eftir fæðingu. Það hafi þó enn ekki tekist. Þegar ný ákvörðun kærða hafi verið kærð í máli nr. 261/2015 hafi kærandi lagt fjórar spurningar fyrir kærða, meðal annars um hver sé orsakavaldurinn sem geri nýbökuðum foreldrum ókleift að stunda endurhæfingu eftir fæðingu barns, hvort geta foreldra til að stunda endurhæfingu sé ætíð metin eftir fæðingu barns og hvort aðstæður sem leiði af meðgöngu og fæðingu séu lagðar til grundvallar því mati. Kærði hafi synjað kæranda um þessar upplýsingar og í máli nr. 192/2016 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála hafi kærði upplýst að orðalagið eðli málsins samkvæmt væri lögfræðilegt hugtak um hvað sé eðlilegt að felist í tilteknum aðstæðum.

 22. Kærandi hljóti að meta það svo að æðra stjórnvald hafi talið að hér hafi ekki verið um að ræða kynjamismunun í vinnubrögðum lægra stjórnvalds. Kærandi sé vægast sagt ósammála niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála og leggur því fyrir kærunefnd jafnréttismála að meta hvort það sjónarmið kærða að synja henni um endurhæfingarlífeyri í þrjá mánuði eftir fæðingu barns hennar, af því að eðli málsins samkvæmt sé yfirleitt ekki um að ræða endurhæfingu strax eftir fæðingu barns, feli í sér kynjamismunun.

 23. Hvað varði skerta getu til að stunda endurhæfingu á meðgöngu sem ástæða synjunar þá hafi það komið fram að kærði hafi talið að forföll í endurhæfingu sem komi til vegna meðgöngu og fæðingar teljist ekki lögmæt forföll heldur skróp sem beri að refsa fyrir með synjun á endurhæfingarlífeyri. Álitaefnið hér sé hvort kærða hafi verið heimilt að láta konur í endurhæfingu gjalda þess að hafa gengið með og eignast barn þegar umsóknir um endurhæfingarlífeyri séu metnar.

 24. Kærandi telji að kærða sé óheimilt að synja konum um endurhæfingarlífeyri af þeirri ástæðu að geta þeirra til að stunda endurhæfingu skerðist vegna meðgöngu og fæðingar, jafnvel þótt jafnréttislög fjalli ekki með berum orðum um þær aðstæður. Máli sínu til stuðnings bendir kærandi á athugasemdir við lagafrumvarp sem hafi orðið að stjórnsýslulögum um að það teldist ekki brot gegn 2. mgr. 11. gr. þótt tekið væri sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar. Þar sem löggjafinn hafi gefið sérstakt leyfi til að ívilna konum vegna þungunar og barnsburðar þegar opinber aðili tekur stjórnvaldsákvörðun, megi spyrja hvort það hafi jafnframt verið vilji löggjafans að opinber aðili geti látið konur gjalda þess að hafa gengið með og fætt barn þegar tekin sé stjórnvaldsákvörðun.

 25. Varðandi það hvort það feli í sér kynjamismunun að láta konur gjalda þess að hafa gengið með og fætt barn, þá hafi úrskurðarnefnd velferðarmála tekið afstöðu til þess í máli nr. 261/2015. Í niðurstöðu sinni hafi úrskurðarnefndin sagt að það fæli ekki í sér kynjamismunun að láta konur gjalda þess að hafa gengið með og eignast barn. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi því viljað flokka heilsubrest sem leiði af meðgöngu og fæðingu sem kynjaðan kvilla sem konan ein verði að bera hallann af. Þeirri niðurstöðu sé kærandi ósammála. Ekki viti kærandi hvert úrskurðarnefndin hafi farið með flokkunarkerfi á kvillum sem geti einungis verið bundnir við annað kynið.

 26. Almennt verði það að teljast gamaldags viðhorf að líta svo á að meðganga og fæðing sé einkamál kvenna. Bæði karlar og konur eignast barn, þótt konan ein gangi með og fæði barnið. Þess vegna hafi verið talin ástæða til að jafna rétt bæði kvenna og karla í tengslum við fæðingu barns. Þannig hafi lagasetning miðað að því að gera feðrum kleift að njóta samvista við barn sitt eftir fæðingu og vísar kærandi máli sínu til stuðnings til athugasemda við frumvarp sem varð að lögum nr. 95/2000.

 27. Í samræmi við það sjónarmið um að stuðla að jafnri stöðu foreldra mætti segja að það felist ákveðið óréttlæti í því að láta konur gjalda fyrir heilsubrest sem leiði af meðgöngu og fæðingu, af því að karlar sleppi nokkuð vel að því leytinu til. Bendir kærandi á að samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 sé það áskilið að móðir skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Ástæðan fyrir þessu sé sú að talið sé að konur sem nýlega hafi alið börn þurfi að njóta hvíldar eftir fæðingu barns til að jafna sig líkamlega áður en þær hefja störf að nýju.

 28. Með niðurstöðu sinni í þessu máli hafi úrskurðarnefnd velferðarmála verið að stíga stór skref frá því sjónarmiði að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Sama hvað líði ákvæðum laga um félagslega aðstoð geti úrskurðarnefnd velferðarmála ekki upp á sitt einsdæmi vikið til hliðar 65. gr. stjórnarskrárinnar og ákveðið að það sé í lagi að mismuna kynjunum. Kærandi telur þvert á niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála að kærði geti aldrei notað aðstæður sem leiði af meðgöngu og fæðingu á íþyngjandi hátt gegn konum. Að svo miklu leyti sem endurhæfing væntanlegra eða nýbakaðra mæðra líði fyrir ástand þeirra geti það einungis talist málefnaleg forföll sem kærði verði að samþykkja.

 29. Annars vegar sé það kærði sem hafi skilgreint hvað teljist fullnægjandi endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð og hins vegar hafi komið fram í athugasemdum við frumvarp sem varð að stjórnsýslulögum að það teljist ekki brot á jafnræðisreglu laganna að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar. Kærði hafi því leyfi til að ívilna konum vegna þungunar og fæðingar þegar komi að því að taka stjórnvaldsákvörðun.

 30. Að lokum ítrekar kærandi það sjónarmið að henni beri að fá þann endurhæfingarlífeyri sem hún hafi sótt um fyrir tímabilið júní, júlí og ágúst 2014. Eins og kærandi hafi bent á í máli nr. 261/2015 sé ekki hægt að taka ákvörðun sem byggir á kynjamismunun og skilyrða hana með vísun í 7. gr. laga nr. 99/2007 líkt og úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi gert. Samkvæmt forgangsreglum laga er stjórnarskráin rétthærri sérlögum og ákvæði hennar skáka ákvæðum sérlaga ef ákvæðin rekast á. Kæranda hafi verið synjað af því að hún sé kona sem hafi eignast barn og skilyrði sérlaga um ástundun í endurhæfingarþætti hafi einfaldlega ekkert vægi í samanburði.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 31. Kærði greinir frá því að ákvæði um greiðslu endurhæfingarlífeyris sé að finna í 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Þar segi að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18–67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Kærði hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

 32. Kærði fellst ekki á að ákvörðun stofnunarinnar frá 19. maí 2015 hafi falið í sér mismunun á grundvelli kynferðis. Jafnræðis sé gætt í hvívetna því viðskiptavinir, hvort sem er karl eða kona, fái sambærilega afgreiðslu við sambærilegar aðstæður. Þungun eða fæðing barns þurfi ekki að útiloka það að staðið sé við endurhæfingaráætlun ef endurhæfing teljist fullnægjandi og við hana staðið. Hvert tilvik sé metið sérstaklega og stuðst sé við upplýsingar sem fram komi í umsókn, svo og læknisvottorði og endurhæfingaráætlun.

 33. Ástæða þess að kæranda hafi verið synjað um endurhæfingarlífeyri fyrir tímabilið 1. júní 20104 til 31. júlí 2014 hafi verið sú að kærandi hafi ekki verið í virkri endurhæfingu á þessu tímabili. Í kjölfar úrskurðar í máli nr. 210/2014 hafi kærði óskað eftir því að kærandi framvísaði upplýsingum frá VIRK og endurhæfingaraðilum um virka endurhæfingu á tímabilinu 1. júní 2014 til 31. ágúst 2014. Samkvæmt upplýsingum frá lækni hafi kærandi mætt í viðtal 3. júlí 2014 og 19. ágúst 2014. Samkvæmt upplýsingum frá sjúkraþjálfara hafi kærandi mætt í sjúkraþjálfun 12., 14. og 26. ágúst 2014 en þar á undan hafi kærandi mætt síðast 1. apríl 2014. Samkvæmt upplýsingum frá sálfræðingi hafi kærandi mætt í viðtal 2. júní 2014 og svo ekki fyrr en 12. ágúst 2014.

 34. Samkvæmt þessum upplýsingum hafi ekki verið um endurhæfingu með starfshæfni að markmiði að ræða í júní og júlí 2014. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki sinnt sjúkraþjálfun þennan tíma eða vikurnar fyrir fæðingu barns síns samkvæmt læknisráði hefði kærandi átt að geta sinnt öðrum endurhæfingarþáttum, þ.e. læknisviðtölum og sálfræðiviðtölum, þrátt fyrir fæðingu barnsins 19. júní 2014. Ekkert sálfræðiviðtal hafi farið fram á þessum tíma og einungis eitt læknisviðtal. Af þessum sökum hafi kæranda verið synjað um endurhæfingarlífeyri fyrir þessa tvo mánuði.

 35. Ástæðan fyrir því af hverju kærandi hafi ekki sinnt endurhæfingunni skipti í raun ekki máli, þ.e. hvort það hafi verið vegna þungunar, annars heilsufars, búsetu eða af öðrum ástæðum. Þegar endurhæfingu sé ekki sinnt, alveg sama af hvaða ástæðu, þá sé ekki hægt að segja að um eiginlega starfsendurhæfingu sé að ræða. Skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Allir þurfi að uppfylla framangreint skilyrði óháð kyni, heilsufari, búsetu eða öðru. Ekki sé veitt undanþága frá því skilyrði að greiðsluþegi stundi endurhæfingu meðan á greiðslum standi. Verði rof á endurhæfingu sé ekki greiddur endurhæfingarlífeyrir og skipti ekki máli af hverju það rof sé tilkomið. Einnig sé ekki veitt sumarfrí á endurhæfingarlífeyri eða sambærileg leyfi. Þetta sé vegna þess að endurhæfingarlífeyrir sé greiddur í mjög skamman tíma hverju sinni, þ.e. í 18 mánuði með takmarkaðri heimild til framlengingar. Afar mikilvægt sé að endurhæfingarlífeyrisþegi sé á þessum tíma í virkri endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Tilgangurinn með greiðslunum sé að styðja við greiðsluþega á meðan þeir stunda endurhæfingu. Áréttar kærði að ákvæði 7. gr. laga nr. 99/2007 séu mjög skýr hvað þetta varði. Í 1. mgr. 24 gr. laga nr. 10/2008 sé lagt bann við hvers kyns mismunun á grundvelli kyns. Þá segi í 3. mgr. sömu greinar að það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna meðgöngu og barnsburðar. Kærði hafi metið það svo vegna tilgangs umræddra greiðslna að nauðsynlegt sé að greiðsluþegi sinni samfelldri endurhæfingu og að barnsburður breyti þar engu. Eins og rakið sé að framan hafi fallið niður bæði viðtöl hjá lækni, sálfræðingi og hjá sjúkraþjálfara umrætt tímabil. Verði ekki séð að barnsburður hafi þurft að koma í veg fyrir þau viðtöl.

 36. Kæranda hafi því ekki verið synjað um endurhæfingarlífeyri fyrir tímabilið 1. júní til 31. júlí 2014 af því að hún hafi ekki stundað endurhæfingu vegna þungunar eða fæðingar, heldur af því að hún hafi ekki stundað þá endurhæfingu sem lagt hafði verið upp með í endurhæfingaráætlun og sé skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris. Með vísan til framangreinds hafnar kærði því að synjun stofnunarinnar hafi falið í sér mismunun á grundvelli kynferðis.

 37. Kærði ítrekar það að í hverju tilfelli fyrir sig sé horft á endurhæfingaráætlunina sem slíka og þær upplýsingar sem þar komi fram. Horft sé á hvort í gangi sé virk endurhæfing með starfsendurhæfingu að markmiði. Ef endurhæfingaráætlun sé skýr þá telur kærði skilyrði vera uppfyllt fyrir áframhaldandi endurhæfingarlífeyri. Það hafi hins vegar ekki verið svo í tilviki kæranda umrædda tvo mánuði og því hafi kæranda verið synjað um endurhæfingarlífeyri fyrir þann tíma.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA

 38. Kærandi bendir á að kærði hafi í greinargerð sinni gert mikið úr því hvernig endurhæfingu kæranda hafi verið háttað eftir að henni hafði verið synjað um endurhæfingarlífeyri. Bendir kærandi kærða á að kæra hennar til kærunefndar jafnréttismála hafi fjallað um hina upphaflegu synjun kærða á umsókn hennar um endurhæfingarlífeyri frá 19. júní 2014. Í synjunarorði kærða hafi sagt meðal annars að við skoðun máls hafi ekki þótt rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem kærandi hafi ekki sinnt endurhæfingu nema að hluta á fyrra endurhæfingartímabili, en þá hafi kærandi átt að vera í sjúkraþjálfun einu sinni í viku. Samkvæmt skráningu hjá Sjúkratryggingum Íslands hafi verið skráðir sjúkraþjálfunartímar tvisvar í febrúar, einu sinni í mars og tvisvar í apríl. Ekki hafi verið skráðir fleiri sjúkraþjálfunartímar eftir það.

 39. Hér komi skýrt fram að kæranda hafi verið synjað af því að hún hafi ekki stundað sjúkraþjálfun sem skyldi á fyrra endurhæfingartímabili. Ekkert hafi verið minnst á ástundun í aðra endurhæfingarþætti. Kærandi telur að það feli í sér kynjamismunun að nota þessa synjunarástæðu af því að kæranda hafi verið ráðlagt af ljósmóður og sjúkraþjálfara að stunda ekki sjúkraþjálfun vegna samdráttarverkja.

 40. Í greinargerð kærða hafi aftur á móti verið litið sérstaklega á það tímabil sem kæranda hafi verið synjað fyrir og hvernig ástundun hennar í endurhæfingarþætti hafi verið háttað á því tímabili. Þannig hafi kærði sagt að það hafi ekki verið um endurhæfingu með starfshæfni að markmiði að ræða í júní og júlí 2014. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki sinnt sjúkraþjálfun þennan tíma eða vikurnar fyrir fæðingu barns síns samkvæmt læknisráði hefði kærandi átt að geta sinnt öðrum endurhæfingarþáttum, þ.e. læknisviðtölum og sálfræðiviðtölum, þrátt fyrir fæðingu barnsins þann 19. júní 2014.

 41. Hér sé rétt að ítreka að kæra kæranda snúi að eftirfarandi: Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri fyrir tímabilið júní, júlí og ágúst 2014 en verið synjað af því að kærandi hafði ekki stundað sjúkraþjálfun sem skyldi á fyrra endurhæfingartímabili. Kærandi telur að með þessari ákvörðun hafi kærði gerst sekur um kynjamismunun. Í þessu felist hin kærða ákvörðun. Þess vegna hafi kærði fjarlægst kjarna málsins með því að líta á ástundun kæranda í endurhæfingu á öðru tímabili og auk þess í aðra endurhæfingarþætti en sjúkraþjálfun.

 42. Í niðurstöðu máls nr. 210/2014 hafi hin upphaflega synjun kærða frá 19. júní verið dæmd ólögmæt á þremur forsendum. Í fyrsta lagi að kærði hafi ekki rannsakað ástæður forfalla í endurhæfingu á fyrra endurhæfingartímabili, í öðru lagi að kærði hafi ekki leiðbeint kæranda um rétt form á endurhæfingaráætlun og í þriðja lagi að yfirlýst lagastoð hafi ekki verið fyrir hendi. Í framhaldinu hafi kærða verið gert að taka nýja ákvörðun um rétt kæranda til endurhæfingarlífeyris, með skilyrðum þó.

 43. Samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar hafi kærði ekki átt að taka nýja ákvörðun í málinu eins og hin fyrri ólögmæta ákvörðun hefði aldrei verið tekin. Þvert á móti hafi kærði átt að taka nýja ákvörðun sérstaklega með tilliti til hegðunar kæranda eftir hina upphaflegu ákvörðun.

 44. Kærandi telur að hér sé málið komið á algerar villigötur og kjarni málsins týnist, sem sé að fyrir utan fyrrgreindar þrjár synjunarástæður hafi synjun kærða frá 19. júní 2014 byggst á kynjamismunun. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar hafi falið í sér að málið hafi hætt að snúast um hina upphaflegu ólögmætu ákvörðun kærða og réttaráhrif hennar, og farið að snúast um hvað kærandi hafi gert og ekki gert, eftir að á henni hafi verið brotið.

 45. Kærandi telur að niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 210/2014 þess efnis að kærði hafi átt að meta ástundun kæranda í endurhæfingu eftir á fáist ekki staðist með vísun í forgangsreglur laga. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar hafi verið skilyrt með vísun í ákvæði 7. gr. laga um félagslega aðstoð. En upphafleg synjun kærða hafi falið í sér kynjamismunun og brotið þar með gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar.

 46. Þá hafi kærandi þurft að sæta ítarlegri skilyrðum en venja sé af því að brotið hafi verið á henni. Það sjónarmið að kærði geti metið eftir á hvernig endurhæfingu kæranda hafi verið háttað feli í sér að kærandi hafi verið látin sæta ítarlegri skilyrðum en gangi og gerist þegar komi að umsóknum um endurhæfingarlífeyri. Það þýði að kærði hafi synjað kæranda fyrst um endurhæfingarlífeyri af því að hún sé kona sem hafi orðið ófrísk, og þegar málið hafi verið tekið upp að nýju hafi kærði sett ítarlegri skilyrði en hún hefði þurft að sæta ef umsókn hennar hefði verið samþykkt og engin lög brotin. Í þessu felist að kæranda sé í raun refsað fyrir kynjamismunun kærða. Um sé að ræða þrjú atriði. Í fyrsta lagi að kærandi hafi ekki haft nothæfa endurhæfingaráætlun til að fara eftir, í öðru lagi að endurhæfingarlífeyrir sé greiddur út fyrir fram en ekki eftir á og í þriðja lagi að kærandi hafi ekki notið þess stuðnings sem endurhæfingarlífeyrir eigi að veita til að stunda endurhæfingu.

 47. Í fyrsta lagi hafi endurhæfingaráætlun sú sem kærandi hafi átt að vinna eftir verið ótæk. Eins og sagt hafi í niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga sé heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris skv. 7. gr. laga nr. 99/2007 meðal annars bundin því skilyrði að umsækjandi taki þátt í virkri endurhæfingu. En skilyrðin séu einnig þau samkvæmt 7. gr., þ.e. að greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Í tilviki kæranda hafi endurhæfingaráætlun þeirri sem VIRK hafi sent verið hafnað af kærða. Þannig að í áætlun hafi verið óljóst hversu oft kærandi hafi átt að sinna þeim endurhæfingarþáttum sem lagt hafi verið upp með. Þessi endurhæfingaráætlun hafi vissulega verið illa unnin af VIRK og því taki kærandi undir þær athugasemdir kærða hún hafi verið ótæk. En einmitt af þeirri ástæðu verði að teljast ósanngjarnt að gera þá kröfu að kærandi hafi engu að síður átt að fylgja henni. Hafi verið óljóst fyrir kærða hvernig ástundun í endurhæfingarþættina hafi átt að vera háttað út frá þessari innsendu áætlun, þá hafi það einnig átt vera óljóst fyrir kæranda.

 48. Þegar nánar sé að gáð hafi kærði þó ekki virst hafa tekið nýja ákvörðun í málinu með hliðsjón af því hvernig kærandi hafi sinnt endurhæfingu í samræmi við hina gölluðu endurhæfingaráætlun sem kærði hafði hafnað. Þess í stað hafi kærði haft samband við VIRK sem hafi skilað af sér gallaðri áætlun til að komast að því hvernig endurhæfingaráætlunin hefði litið út ef hún hefði uppfyllt skilyrðin um skýrleika. Síðan hafi verið gerð krafa um ástundun í samræmi við þessar nýju upplýsingar þegar tekin hafi verið ný ákvörðun í málinu. Það hafi því í raun verið gerð sú krafa eftir á að kærandi hafi átt að fylgja endurhæfingaráætlun sem hafi uppfyllt skilyrði kærða um skýrleika. En kærandi hafi einungis verið með í höndunum hina illa unnu áætlun sem hafi verið hafnað af kærða. Það hafi því verið gert ráð fyrir að kærandi hafi átt að fylgja endurhæfingaráætlun sem hún hafi ekki haft í höndunum.

 49. Kærandi telur ástæðu þess að kærði hafi gert svo miklar kröfur um að ástundun sé til staðar þótt endurhæfingaráætlun hafi verið ótæk þá hafi það verið á ábyrgð kærða að sjá til þess að endurhæfingaráætlun væri nægilega skýr til að hún teldist fullnægjandi. Það felist í leiðbeiningarskyldu stjórnvalda að leiðbeina borgurunum um rétt form á umsóknum. Kæranda hafi því verið synjað af því að endurhæfingaráætlun hennar hafi ekki verið rétt fyllt út. Það hafi einmitt verið niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 210/2014 að kærði hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni. Staðreynd málsins sé að kærandi hafi átt rétt á fullnægjandi endurhæfingaráætlun til að fara eftir og það sé á ábyrgð kærða að hún hafi ekki legið fyrir.

 50. Kærandi telur að það sé í andstöðu við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga að synja fólki um endurhæfingarlífeyri af því að innsend endurhæfingaráætlun sé ekki skýr. Einnig hafi það verið á ábyrgð kærða að sjá til þess að sú endurhæfingaráætlun sem kærandi hafi átt að vinna eftir væri skýr og því sérstakt að synja kæranda á þeim forsendum að hún hafi verið óskýr.

 51. Þá sé endurhæfingarlífeyrir greiddur út fyrirfram á forsendum endurhæfingaráætlunar sem nái til tiltekins tímabils. Endurhæfingarlífeyrir sé ekki greiddur út eftir á, að svo miklu leyti sem staðið hafi verið við framlagða endurhæfingaráætlun á því tímabili sem sótt sé um. Ef fólki sé synjað um endurhæfingarlífeyri vegna ónógrar ástundunar í endurhæfingarþætti sé vísað í ástundun á fyrra endurhæfingartímabili en ekki á því tímabili sem sótt sé um, rétt eins og þegar kærði hafi vísað í ónóga ástundun í endurhæfingu á fyrra endurhæfingartímabili sem forsendu fyrir því að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri 19. júní 2014.

 52. Þegar kærði hafi sérstaklega rannsakað hvenær kærandi hafi stundað virka endurhæfingu á tímabilinu frá 1. júní 2014 til 31. ágúst 2014 til að meta hvort kærandi hafi átt rétt á endurhæfingarlífeyri fyrir sama tímabil feli það aftur á móti í sér að greiðsla endurhæfingarlífeyris fari fram eftir á og byggist á ástundun í endurhæfingu á sama tímabili og sótt hafi verið um. En það feli í sér frávik frá reglunni um hvernig staðið sé að úthlutun endurhæfingarlífeyris. Þar með séu gerðar auknar kröfur til kæranda en gangi og gerist um þiggjendur endurhæfingarlífeyris.

 53. Einnig sé endurhæfingarlífeyrir forsenda fyrir fullri ástundun í endurhæfingu. Hinn raunverulegi tilgangur með útgreiðslu endurhæfingarlífeyris sé að styðja við greiðsluþega á meðan þeir stunda endurhæfingu, en 7. gr. laga nr. 99/2007 sé mjög skýr hvað þetta varði.

 54. Hér sé rétt að benda á að á því tímabili sem kærði hafi viljað meta hvort kærandi hafi stundað næga endurhæfingu hafi kærandi ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri. Synjun kærða á umsókn hennar um endurhæfingarlífeyri 19. júní 2014 hafi þýtt að einu greiðslurnar sem kærandi hafi fengið greiddar á umræddu tímabili hafi verið fæðingarstyrkur.

 55. Sú krafa kærða að kærandi þurfi fyrst að sýna fram á ástundun til að fá greiddan út endurhæfingarlífeyri feli því í sér að kærandi sitji ekki við sama borð og þeir sem fái greiddan út endurhæfingarlífeyri fyrirfram fyrir tiltekið endurhæfingartímabil eins og reglan sé. Ástæðan sé sú að við synjun kærða hafi kærandi hrapað í framfærslu á umræddu tímabili og fengið mun lægri fjárhæð en þeir sem fái greiddan endurhæfingarlífeyri.

 56. Kærði hafi komið því mjög skýrt á framfæri að greiðsla endurhæfingarlífeyris hafi þann tilgang að styðja við greiðsluþega á meðan þeir stundi endurhæfingu. Þessum forsendum sé ekki hægt að beita eftir á. En það sé einmitt það sem kærði hafi gert með því að synja kæranda fyrst um endurhæfingarlífeyri, af því að hún sé kona sem hafi orðið ófrísk, og krefja hana síðan um fulla ástundun í endurhæfingu.

 57. Kærandi bendir á að kærði hafi gert mikið úr því atriði að ekki hafi verið næg endurhæfing eftir fæðinguna og hafi þar ekki gert greinarmun á því hvort um væri að ræða fæðingardaginn sjálfan eða aðrar dagsetningar. Það sé því ljóst að kærði telji sig hafa heimild til að krefja nýbakaðar mæður í starfsendurhæfingu um ástundun í endurhæfingarþætti strax eftir fæðingu barns.

 58. Kærandi bendir jafnframt á að í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu stjórnvalda hefði kærði átt að rannsaka ástæður forfalla hennar í sjúkraþjálfun áður en ákvörðun hafi verið tekin, en í þessu tilfelli hefði það ekki breytt neinu um afstöðu kærða þótt fram hefði komið að forföllin mætti rekja til meðgöngu kæranda. Kærði hafi haldið því fram að með því að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri af því að hún hafi misst úr sjúkraþjálfun vegna samdráttarverkja á meðgöngu hafi stofnunin einungis verið að fylgja ákvæðum 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. það sem fram hafi komið í greinargerð kærða.

 59. Kærði hafi þar sett fram afstöðu sína á mjög skýran hátt. Engin forföll séu leyfð sama af hvaða ástæðu þau verði. Ástæðan sé sú að endurhæfingarlífeyrir sé greiddur út til að styðja við þá sem stundi „eiginlega starfsendurhæfingu“ sem kærði hafi skilgreint sem ástundun í endurhæfingarþætti. Á grundvelli þessara sjónarmiða hafi kærði talið að sér hafi verið heimilt að gera ýtrustu kröfur um ástundun í endurhæfingu til ófrískra kvenna og nýbakaðra mæðra. Ef ástundun þeirra í endurhæfingu líði fyrir ástand þeirra, sé þeim þegar af þeim sökum synjað um endurhæfingarlífeyri sem þýði jafnframt að framfærsla þeirra skerðist verulega. Kærði virðist hafa gefið í skyn að þessi stjórnsýsla stofnunarinnar væri undanþegin ákvæðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008 með vísan í tilgang umræddra greiðslna.

 60. Það hafi verið málflutningur kærða að ákvæði 7. gr. laga um félagslega aðstoð um skilyrði fyrir útgreiðslu endurhæfingarlífeyris beri að skilgreina þannig að engin forföll í endurhæfingarþætti séu leyfð.

 61. Athygli veki að í ákvæðinu komi ekki fram að engin forföll í endurhæfingu séu leyfð eða að við forföllum liggi sú refsing að synja fólki um endurhæfingarlífeyri næst þegar það sækir um. Það standi í lagaákvæðinu að gert sé ráð fyrir að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Þetta orðalag geti þýtt sitthvað annað en að fólk verði að mæta skilyrðislaust í alla endurhæfingarþætti. Aðstæður fólks geti breyst tímabundið meðan á endurhæfingu standi sem geti gert viðkomandi erfitt að standa við framlagða endurhæfingaráætlun, en þungun myndi falla að þessari skilgreiningu. Ef fagaðilar mæli fyrir um forföll í tiltekna endurhæfingarþætti vegna breyttra aðstæðna fólks, eins og í tilviki kæranda, sé erfitt að skilja áherslur kærða á skilyrðislausa ástundun í endurhæfingarþætti með hliðsjón af lagaákvæðinu.

 62. Kærandi telur þá fullyrðingu kærða, að þegar endurhæfingu sé ekki sinnt, alveg sama af hvaða ástæðu, þá sé ekki hægt að segja að um eiginlega starfsendurhæfingu sé að ræða, ekki eiga sér stoð. Kæranda hafi verið ráðlagt af fagaðilum að stunda ekki sjúkraþjálfun miðað við ástand hennar.

 63. Kærandi telur því að þau rök kærða að vísa í tilgang umræddra greiðslna til að réttlæta skilyrðislausa ástundun í endurhæfingu fái ekki staðist þegar að sé gáð, hvorki með vísan í skilgreiningu á hugtakinu „endurhæfing með starfshæfni að markmiði“ né lögfræðilega yfirleitt. Kærði hafi fullyrt að yrði rof á endurhæfingu þá sé ekki greiddur endurhæfingarlífeyrir og skipti ekki máli af hverju það rof sé tilkomið. Kærandi telur að kærði hafi ekki getað sótt sér heimild í 7. gr. laga fyrir því vinnulagi sem lýst hafi verið í greinargerðinni þar sem endurhæfingarlífeyrisþegum sé synjað um endurhæfingarlífeyri ef komi til forfalla í endurhæfingu, alveg sama af hvaða ástæðu.

 64. Kærði hafi tekið sérstaklega fram að aðstæður tengdar meðgöngu og fæðingu falli undir þetta vinnulag, sama hvað líði ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ef kona forfallast í endurhæfingu vegna meðgöngu eða fæðingar geti hún því búist við að fá synjun næst þegar hún sæki um endurhæfingarlífeyri af því að kærði telji að nauðsynlegt sé að greiðsluþegi sinni samfelldri endurhæfingu og að barnsburður breyti þar engu. Í þessum rökum hljóti að felast viðurkenning á því að kærði mismuni kynjunum af því að kærði hafi lýst því beinlínis yfir að ekkert tillit sé tekið til þess að meðganga og fæðing skerði getu kvenna til að stunda endurhæfingu. Á móti megi gera ráð fyrir að endurhæfing karla sem eigi von á barni þurfi ekki að skerðast af þeirri ástæðu að kona þeirra þjáist af samdráttarverkjum. Kynjamismunun sé beinlínis innbyggð í þessa röksemdafærslu. Eins og kærandi skilji þennan málflutning hafi kærði talið að ákvæði 7. gr. laga um félagslega aðstoð veiti kærða heimild til að mismuna kynjunum.

 65. Kærandi undrist fullyrðingu kærða um að jafnræðis sé gætt í hvívetna því viðskiptavinir, hvort sem það sé karl eða kona, fái sambærilega afgreiðslu við sambærilegar aðstæður. Aðstæður karla og kvenna sem eigi von á barni séu ekki sambærilegar af því að konur ganga með börnin en ekki karlar. Sambærileg afgreiðsla við aðstæður sem séu ekki sambærilegar sé ekki uppskrift að jafnræði heldur ójafnræði. Kærði hafi einnig haldið því fram að þungun eða fæðing barns þurfi ekki að útiloka að staðið sé við endurhæfingaráætlun ef endurhæfing teljist fullnægjandi og við hana staðið. Þetta sé alveg rétt. En það sé alveg jafn rétt að þungun eða fæðing geti komið í veg fyrir að staðið sé við endurhæfingaráætlun. Við þær aðstæður feli sambærileg afgreiðsla á umsóknum karla og kvenna um endurhæfingarlífeyri í sér uppskrift að mismunun á grundvelli kyns. Um það snúist þetta mál.

 66. Eins og fram komi í kæru telur kærandi að það sjónarmið að eðli málsins samkvæmt sé yfirleitt ekki um að ræða starfsendurhæfingu strax eftir fæðingu hljóti að fela í sér kynjamismunun. Öll tilvísun í eðlishyggju sem eigi að skerða getu fólks almennt til að stunda endurhæfingu eftir fæðingu geti einungis átt við um konur en aldrei um karla.

 67. Kærandi hafi aldrei skilið hvernig reglan eigi að gilda bæði fyrir konur og karla. Þess vegna hafi kærandi mikið reynt að fá kærða til útskýra hvað það sé sem eðli málsins samkvæmt geri það að verkum að yfirleitt sé ekki um að ræða virka starfsendurhæfingu strax eftir fæðingu barns, en ekki fengið við því svar.

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA

 68. Í athugasemdum kærða er bent á að kærandi hafi sagt að kæran hafi fjallað um hina upphaflegu synjun kærða frá 19. júní 2014 á umsókn hennar um endurhæfingarlífeyri.

 69. Kærði bendir á að kærandi hafi áður kært þá synjun til kærunefndar jafnréttismála, sbr. mál nr. 9/2014, og hafi nefndin vísað málinu frá þar sem úrskurðarnefnd almannatrygginga hafði fellt þá ákvörðun úr gildi með úrskurði sínum nr. 210/2014. Kærunefnd jafnréttismála hafi tiltekið í úrskurði sínum að þar sem ákvörðun kærða hefði verið felld úr gildi með úrskurði æðra stjórnvalds væri það mat kærunefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins væru ekki til staðar.

 70. Kærði telur að þar sem kæran virðist enn snúast um upphaflegu ákvörðun kærða, þrátt fyrir að ný ákvörðun hafi verið tekin 19. maí 2015, þá óski kærði eftir því að nefndin vísi málinu frá að nýju með sömu rökum og síðast. Að öðru leyti og ef ekki verði fallist á það vísar kærði til fyrri greinargerðar sinnar í málinu.

  NIÐURSTAÐA

 71. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna er hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, óheimil. Þá segir í 3. mgr. 24. gr. að það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna meðgöngu og barnsburðar. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.

 72. Með kæru þeirri sem er til úrlausnar í máli þessu kærði kærandi öðru sinni til kærunefndar jafnréttismála afgreiðslu kærða á endurhæfingarlífeyri sem henni var synjað um 19. júní 2014. Kærunefndin hefur áður kveðið upp úrskurð í máli nr. 9/2014 en því máli var vísað frá nefndinni 22. apríl 2015. Frávísun málsins byggði á því að úrskurðarnefnd almannatrygginga hefði fellt synjun kærða frá 19. júní 2014 úr gildi með úrskurði sem kveðinn var upp 12. febrúar 2015. Þar sem hin kærða ákvörðun hefði verið felld úr gildi hefði kærandi ekki lögvarða hagsmuni af rekstri málsins fyrir kærunefnd jafnréttismála. Kærði tók í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nýja ákvörðun og synjaði kæranda um endurhæfingarlífeyri í júní og júlí 2014. Þeirri synjun skaut kærandi til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti synjun kærða með úrskurði sem kveðinn var upp 7. september 2016. Í úrskurðinum var lagt til grundvallar að óheimilt væri að veita undanþágu frá skilyrði 3. málsliðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um að styrkþegi stundi endurhæfingu meðan á endurhæfingargreiðslum standi. Úrskurður þessi varð kæranda tilefni til að kæra málið að nýju til kærunefndar jafnréttismála.

 73. Í málatilbúnaði kæranda er ítrekað vikið að sjónarmiðum sem kærði reifaði fyrir upphaflegri synjun sinni sem felld var úr gildi eins og áður gat með úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga 12. febrúar 2015. Úr fyrirliggjandi kæru verður ekki leyst á grundvelli andmæla kæranda gegn sjónarmiðum sem kærði byggði ekki á við síðari ákvörðun sína. Á hinn bóginn eru ekki efni til að verða við kröfu kærða um að vísa máli kæranda frá á þessum forsendum. Nægjanlega skýrt liggur fyrir að kærandi byggir á því að um kynbundna mismunun hafi verið að ræða konum í óhag tilkomin vegna þungunar og barnsburðar kæranda.

 74. Málsaðilar hafa deilt um rétt kæranda til endurhæfingarlífeyris á grundvelli 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Kveðið er á um heimild til greiðslu slíks lífeyris í allt að 18 mánuði. Skylt er að fyrir liggi endurhæfingaráætlun greiðslunum til grundvallar. Síðan er það meðal lögbundinna skilyrða fyrir greiðslum að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila. 

 75. Fyrir liggur að kærandi eignaðist barn 19. júní 2014. Einnig liggur fyrir að kærandi tók ekki þátt í endurhæfingu þann mánuð og í júlí sama ár að öðru leyti en að mæta í sálfræðiviðtal í júní og viðtal hjá lækni í júlí. Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð er þátttaka í endurhæfingu lögbundið skilyrði fyrir greiðslum. Bregði út af því af einhverjum sökum skortir á skilyrði laga til að eiga rétt til endurhæfingarlífeyris og skiptir þá ekki máli af hvaða ástæðu ekki er tekið þátt í endurhæfingu, hvort það er vegna barnsburðar eða vegna annarra forfalla eða frátafa.

 76. Kærandi hefur haldið því fram að 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð og skýring kærða á ákvæðinu brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Telur kærandi að þar sem eingöngu konur verði barnshafandi og fæði börn, en ekki karlar, sé það andstætt framangreindum lagaákvæðum að fella niður endurhæfingarlífeyri vegna barnsburðar kvenna. Af dómi Hæstaréttar frá 25. september 2008 í máli nr. 484/2007 má ráða að líffræðilegur munur á kynjunum, og áhrif þess munar þegar kemur að málefnum tengdum meðgöngu og barnsburði, geti réttlætt að gerður sé greinarmunur á milli þeirra eða litið svo á að staða kvenna og karla sé ekki sambærileg í þeim efnum. Verður þá einnig að horfa til þess að ýmis atvik, kvillar og sjúkdómar geta herjað á annað kynið en ekki hitt og valdið því að viðkomandi verði ókleift að fylgja endurhæfingaráætlun. Það er því mat kærunefndar að jafnvel þótt kæranda hafi ekki verið kleift að fylgja endurhæfingaráætlun vegna barnsburðar og þar með misst rétt til endurhæfingarlífeyris skv. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, felist ekki í slíkri lagatúlkun brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar eða 2. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Breytir í þeim efnum ekki niðurstöðu nefndarinnar þótt kærði hafi ekki nýtt heimild 3. mgr. 24. gr. laganna til jákvæðrar mismununar, konum í vil, við beitingu á ákvæðum laga um félagslega aðstoð. Í ljósi ofangreinds verður ekki talið að kærði hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 með því að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri í júní og júlí 2014.

   

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Tryggingastofnun ríkisins, braut ekki gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar kæranda var synjað um endurhæfingarlífeyri í júní og júlí 2014.

 

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Grímur Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira