Hoppa yfir valmynd
17. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 241/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 241/2016

Miðvikudaginn 17. maí 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 21. júní 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. mars 2016 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 6. nóvember 2015. Með örorkumati, dags. 25. nóvember 2015, var fyrra örorkumat hennar um örorkustyrk framlengt til 31. mars 2016 á meðan unnið var að nýju örorkumati. Kærandi kærði synjun Tryggingastofnunar ríkisins um örorkulífeyri og tengdar greiðslur til úrskurðarnefndar velferðarmála, kærumál nr. 15/2016. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 21. september 2016, var kærunni vísað frá á þeim grundvelli að ákvörðun Tryggingastofnunar frá 25. nóvember 2015 hafi ekki bundið enda á mál kæranda og hafi þar af leiðandi ekki verið kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt nýju örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. mars 2016, var umsókn kæranda synjað en henni metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. apríl 2016 til 30. mars 2019. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi stofnunarinnar með tölvubréfi, dags. 5. apríl 2016, og var hann veittur með bréfi, dags. 28. apríl 2016. Undir meðferð þessa kærumáls framkvæmdi Tryggingastofnun nýtt örorkumat, dags. 22. nóvember 2016, og var niðurstaðan óbreytt frá fyrra mati.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. júní 2016. Með bréfi, dags. 27. júní 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. júlí 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 22. ágúst 2016 og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Þann 5. október 2016, barst úrskurðarnefnd velferðarmála beiðni Tryggingastofnunar um frávísun málsins þar sem ný gögn gáfu tilefni til að boða kæranda í nýtt örorkumat. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, óskaði nefndin eftir afstöðu kæranda til framkominnar beiðni stofnunarinnar. Þann 10. október 2016 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda, dagsettar sama dag. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. október 2016, var Tryggingastofnun kynnt afstaða kæranda. Þann 19. desember 2016 barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. desember 2016. Kærandi lagði fram frekari athugasemdir þann 9. janúar 2016 og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Þann 3. mars 2017 bárust úrskurðarnefndinni upplýsingar Tryggingastofnunar, dagsettar sama dag, þess efnis að málið hafi verið tekið til nýrrar efnismeðferðar. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. mars 2017, var óskað eftir afstöðu kæranda til framangreinds. Þann 21. mars 2017 bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. mars 2017. Þann 5. apríl 2017 barst greinargerð Tryggingastofnunar, dagsett sama dag, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. apríl 2017. Þann 19. apríl 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda, dags. 18. apríl 2017, og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi, dags. 24. apríl 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála felli hina kærðu ákvörðun úr gildi og að henni verði veittur réttur til örorkulífeyris og tengdra greiðslna.

Í kæru segir að vefjagigt hafi orsakað fjarveru kæranda frá vinnumarkaði. Frá því í árslok X hafi hún ekki getað unnið fyrir sér vegna verkja sem séu misslæmir á milli daga en allir dagar séu verkjadagar. Hún hafi frá árinu X þegið öll boð um endurhæfingu en án mikils árangurs. Í X hafi hún lent í bílslysi og hafi alvarlegustu afleiðingar þess verið tognun í mjöðm sem hafi ekki gengið til baka og þurfi hún í dag að notast við mjaðmaspelkur í gönguferðum. Eftir átak hjá VIRK hafi hún byrjað í 10% vinnu við liðveislu með frjálsum vinnutíma. Um tíma hafi starfshlutfall hennar verið aukið í 20% en það hafi ekki gengið og sé það aftur orðið 10%. Að hennar mati þá henti færnimat vegna örorkumats illa fyrir þá sem séu með vefjagigt því verkirnir séu misjafnir á milli daga og færnimatið geri ekki ráð fyrir þess háttar sjúkdómseinkennum. Þó megi draga ályktun út frá staðlinum í reglugerð nr. 379/1999 að þar sem „valinn er sá þáttur sem gefur fleiri stig“ eigi að miða við þá daga sem verkir séu mestir og reikna út frá þeim.

Í athugasemdum kæranda, dags. 21. ágúst 2016, gagnrýnir hún skoðunarskýrslu sem Tryggingastofnun hafi lagt til grundvallar örorkumati. Athugasemd er gerð við að skoðunarlæknir sé endurhæfingarlæknir en ekki gigtarlæknir sem hafi sérhæft sig í vefjagigt. Við skoðun virðist sem að læknirinn hafi verið að meta einstakling sem sé ekki með verkjaviðbrögð vefjagigtarsjúklings. Þá gerir kærandi athugasemd við að matslisti sem skoðunarlæknir hafi notað hafi ekki verið í samræmi við fylgiskjal 1 í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Í athugasemdum kæranda er sérstaklega vikið að átta atriðum í skoðunarskýrslu sem hafi legið til grundvallar örorkumati.

Varðandi liðinn að sitja á stól þá hafi það verið mat skoðunarlæknis að hún geti setið í tvær klukkustundir. Kærandi segir að eina leiðin fyrir hana til að koma í veg fyrir mikla verki við setu sé að hreyfa sig reglulega, annað hvort að skipta um stellingu þegar hún sitji eða standa upp með reglulegu millibili. Í svari hennar í spurningalista vegna færniskerðingar hafi hún tilgreint að hún geti ekki setið kyrr lengur en í fimm mínútur. Eftir það komi verkjaeinkenni sem aukist ef hún geri engar ráðstafanir. Að sitja í bifreið í meira en 30 mínútur leiði til verkja sem geri það að verkum að hún geti ekki gert neitt meira þann daginn þó svo að hún taki sterk verkjalyf fyrir bílferð.

Varðandi liðinn að standa upp af stól þá hafi það verið mat skoðunarlæknis að hún geti það án vandræða. Kærandi segir að þegar hún standi upp af stól finni hún fyrir verkjum í mjöðmum og baki. Stundum séu verkirnir það slæmir að hún þurfi að styðja sig við eða snúa sér úr sætinu til að geta staðið upp.

Varðandi liðinn að beygja sig og krjúpa þá hafi það verið mat skoðunarlæknis að hún geti það án vandræða. Kærandi segir að þegar hún sé með mikla vefjagigtarverki þá eigi hún erfitt með þetta, bæði vegna verkja og skerts jafnvægisskyns. Hún geti misst jafnvægið fyrirvaralaust og hafi það verið talið eitt af einkennum vefjagigtarinnar hjá henni.

Varðandi liðinn að standa þá hafi það verið mat skoðunarlæknis að hún eigi erfitt með að standa í 30 mínútur án þess að ganga um. Kærandi segir að hún finni fyrir verkjum í mjöðmum og baki ef hún standi kyrr í tíu til fimmtán mínútur og þurfi hún því að hreyfa sig á þeim tímapunkti. Ef hún geti ekki gengið um þá verði hún að setjast niður eftir 30 mínútur vegna verkja eða fyrr hafi hún ekki tekið inn verkjalyf.

Varðandi liðinn að ganga á jafnsléttu þá hafi það verið mat skoðunarlæknis að hún eigi ekki í vandræðum með það. Kærandi segir að hún finni fyrir verkjum í mjöðmum eftir að hafa gengið 200 metra. Eftir 400 metra finni hún fyrir miklum óþægindum. Það hafi ekki komið fram í svörum hennar í spurningalistanum að hún hafi fengið mjaðmaspelku sem hún verði nota við lengri göngur en 200 metra.

Varðandi liðinn að ganga upp og niður stiga hafi það verið mat skoðunarlæknis að hún eigi ekki í vandræðum með það. Kærandi segir að hún geti gengið upp og niður eina hæð án vandræða en hún finni fyrir verkjum í mjöðm og baki þegar hún fer upp eða niður meira en eina hæð. Þá finni hún oft fyrir svima og jafnvægisleysi og haldi sér því alltaf í handrið til öryggis.

Varðandi liðinn að nota hendurnar þá hafi það verið mat skoðunarlæknis að hún eigi ekki í vandræðum með það. Kærandi segir að hún hafi farið í mælingar sem hafi sýnt að gripstyrkur hennar sé skertur í báðum höndum og að hann sé mun lakari í hægri hendi. Hún eigi erfitt með að lyfta hlutum og eigi það til að missa gripið fyrirvaralaust.

Varðandi liðinn að teygja sig eftir hlutum þá hafi það verið mat skoðunarlæknis að hún geti það án vandkvæða. Kærandi segir að við endurtekningar, einnig við að lyfta þungum hlutum, komi vefjagigtarverkir í axlir, háls og bak sem orsaki það að hún geti ekki lyft hlutum upp fyrir sig og þeir verkir geti varað dögum saman þrátt fyrir að hún taki sterk verkjalyf.

Í athugasemdum kæranda, dags. 9. janúar 2017, ítrekaði kærandi að fyrri skoðunarlæknir hafi notast við matslista sem hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur. Þá segir kærandi að hún hafi ekki gert athugasemd við þann hluta skoðunarskýrslu matslæknis, dags. 1. mars 2016, er varðaði andlega færni hennar. Tryggingastofnun hafi boðið henni að koma í nýtt örorkumat þann 4. október 2016 og hafi hún gert ráð fyrir því að ástæða þess væri að fyrri skoðunarlæknir hafi í mars 2016 notað rangan matslista við matið er varðaði líkamlega færniskerðingu.

Nýja skoðunin hafi einungis tekið um 15 mínútur. Hún gerir athugasemdir við að skoðunarlæknir hafi ekki spurt hana um sum atriði er vörðuðu andlega hluta matsins, enda hafi langstærsti hluti matsins varðað líkamlega færni. Kærandi segir að líkamlegt ástand hennar hafi verið metið mun verra í þessu nýja mati og þannig hafi grunur hennar verið staðfestur að um vanmat í fyrri skoðun hafi verið að ræða. Hún sé þó ekki sátt við matið þar sem að það sé ekki í samræmi við vefjagigtarsjúkdóm hennar. Þá hafi hvorugur matslæknanna tekið á afleiðingum bílslyssins í X. Áverkar þeir sem hún hafi fengið við slysið hafi bara að litlu leyti gengið til baka. Þá hafi vefjagigtin líka versnað til mikilla muna eftir slysið og nú líði aldrei sá dagur að hún þurfi ekki að taka verkjalyf eða svefnlyf og suma daga verði hún að taka sterk verkjalyf sem hún hafi nánast aldrei þurft áður. Fyrir slysið hafi hún aldrei tekið þunglyndislyf og það ætti því að vera ljóst að slysið hafi haft mjög slæm áhrif til hins verra á heilsu hennar, bæði líkamlega og andlega.

Hún geti ekki merkt neinar breytingar á andlegri heilsu sinni á milli matsskoðananna tveggja og því geti hún ekki áttað sig á því hvers vegna þessir læknar hafi metið hana með svo ólíkum hætti. Það hafi kannski vantað betri upplýsingar um bílslysið til að matslæknarnir hefðu tekið meira mark á áverkunum sem hún hafi hlotið.

Um beiðni Tryggingastofnunar að kærandi leggi fram nýtt læknisvottorð segir í athugasemdum kæranda, dags. 21. mars 2017, að hún samþykki að leggja fram nýtt læknisvottorð. Þá segir að það sé ljóst að fyrri skoðunarlæknir hafi ekki farið eftir staðli í fylgiskjali 1 með reglugerð nr. 379/1999 hvað varðar líkamlega færni. Komið hafi í ljós við seinna mat skoðunarlæknis að skoðun á líkamlegri færni hennar hafi ekki verið rétt metin í fyrri skoðun. Hún telji að líkamleg færni hennar sé mun verri en síðara matið hafi kveðið á um. Þrátt fyrir að gögn málsins beri með sér að andleg færni hennar hafi verið skoðuð í seinni skoðuninni sé ljóst að það hafi ekki verið gert. Það sjáist líka við samanburð þessara tveggja mata, en fyrra matið hafi verið mjög vel rökstutt og hafi verið í fullu samræmi við upplifun hennar. Alþekkt sé að andleg heilsa fólks sé slæm hafi það langvinna sjúkdóma sem ekki sé hægt að lækna. Andleg heilsa fólks í þeirri stöðu sé langt frá því að vera eins og hjá heilbrigðu fólki og sé það því í hæsta máta mjög óeðlilegt að matslæknir skuli meta andlega færni hennar í fullkomnu lagi.

Þá óskar kærandi sérstaklega eftir afstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála til greiðslu útlagðs lögfræðikostnaðar hennar vegna máls þessa.

Í athugasemdum kæranda, dags. 19. apríl 2017, segir að lögfræðingur hennar hafi kannað stöðu málsins hjá Tryggingastofnun. Hann hafi rætt við lögfræðing sem hafi upplýst hann um að þegar læknisvottorðið bærist stofnuninni þá yrði hún boðuð í skoðun á ný. Í greinargerð Tryggingastofnunar hafi ekki komið fram af hverju það hafi ekki verið gert. Það sé með ólíkindum að það hafi verið lögfræðingur sem hafi metið hvort nýtt læknisvottorð hennar uppfylli stig samkvæmt örorkustaðli. Það hljóti að vera gerð sú krafa í eðlilegri stjórnsýslu að það sé matslæknir sem framkvæmi það mat en ekki lögfræðingur.

Þá segir að það verði líka að teljast undarleg vinnubrögð að í örorkumatinu í október 2016 hafi ekki verið óskað eftir nýju læknisvottorði heldur hafi verið stuðst við meira en árs gamalt vottorð. Þá segir að eins og Tryggingastofnun hafi viðurkennt þá hafi það orsakað að andleg færniskerðing hafi ekki verið rétt metin. Það hafi gerst þó svo að matið í mars 2016 hafi verið vel rökstutt og að hennar mati rétt og að fullu leyti í samræmi við hennar upplifun.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé örorkumat stofnunarinnar dags. 22. mars 2016. Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar sem skiptist í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Við örorkumatið hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 21. september 2015, svör við spurningalista, dags. 2. desember 2015, skoðunarskýrsla, dags. 1. mars 2016, og umsókn, dags. 6. nóvember 2015, auk eldri gagna.

Fram hafi komið að kærandi stríði við stoðkerfiseinkenni auk þreytu og svefntruflana. Henni hafi verið metinn örorkustyrkur undanfarið en þar sem hugsanlegt væri að færni hennar hefði versnað hafi verið fengin ný skoðun með tilliti til staðals.

Við skoðun með tilliti til staðals hafi komið fram að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Þá komi geðrænt ástand hennar í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður og geðsveiflur valdi henni óþægindum einhvern hluta dagsins, svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf, hún forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau valdi of mikilli þreytu eða álagi, hún kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna og geðræn vandamál valdi henni erfiðleikum í tjáskiptum við aðra.

Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið uppfyllt en færni kæranda til almennra starfa hafi verið talin skert að hluta og henni metinn örorkustyrkur frá 1. apríl 2016 til 30. mars 2019.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 5. október 2016, segir að vegna nýrra upplýsinga hafi þótt tilefni til að boða kæranda í nýtt örorkumat.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 19. desember 2016, segir að við nýtt örorkumat lífeyristrygginga, dags. 22. nóvember 2016, hafi legið fyrir skoðunarskýrsla C læknis, dags. 13. október 2016, og spurningalisti útfylltur af kæranda, móttekinn 14. október 2016.

Í hinu kærða örorkumati frá 22. mars 2016 hafi kærandi fengið þrjú stig fyrir líkamlega færniskerðingu og sjö stig fyrir andlega færniskerðingu. Í læknisvottorði sem hafi borist með umsókn um örorkulífeyri komi fram að kærandi þjáist af svefntruflunum en ekki hafi komið aðrar upplýsingar fram um andlega færni.

Í athugasemdum kæranda hafi eingöngu verið andmælt niðurstöðu skoðunarskýrslunnar hvað varðaði líkamlega færniskerðingu, þ.e. að sitja á stól, að standa upp af stól, að beygja sig og krjúpa, að standa, að ganga á jafnsléttu, að ganga upp og niður stiga, að nota hendur og að teygja sig eftir hlutum. Tekið hafi verið fram að ekki væru gerðar athugasemdir við önnur atriði í skýrslunni.

Í nýjum spurningalista hafi kærandi svarað spurningum um líkamlega færniskerðingu á sama hátt og í innsendum athugasemdum sínum. Spurningu um geðræn vandamál hafi hún svarað játandi og lýsi hún þeim nánar með orðunum:

„Þunglyndiseinkenni, félagsleg einangrun, kvíði. Eftir bílslysið í X finn ég fyrir einkennum heilaþoku. Ég á erfitt með að muna hluti. Á erfitt með að skrifa og lesa. Fæ mjög auðveldlega svima.“

Í nýrri skoðun varðandi líkamlega færni hafi verið fallist á eina breytingu í liðnum „að sitja á stól”, frá fyrri skoðun þannig að nú hafi verið metið að kærandi gæti ekki setið nema eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp. Rökstuðningur fyrir þessari niðurstöðu hafi verið sá að á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sögu og athugunar þá taldist kærandi þreytast við langar setur og kveðst hún þurfa að rétta úr sér þegar hún sitji heima fyrir framan sjónvarp og á langkeyrslum. Að öðru leyti sé niðurstaða nýrrar skoðunarskýrslu samhljóða þeirri fyrri varðandi líkamlega færni. Mat á líkamlegri færniskerðingu kæranda hafi þannig hækkað úr þremur stigum í sex stig.

Við mat á andlegri færniskerðingu þá hafi kærandi svarað neitandi spurningum um þau atriði sem hafi verið metin í fyrri skoðun, þ.e. að geðrænt ástand kæmi í veg fyrir að hún sinnti áhugamálum sem hún hafi sinnt áður, að geðsveiflur yllu henni óþægindum einhvern hluta dags, að svefnvandamál hefðu áhrif á dagleg störf, að hún forðaðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau myndu valda of mikilli þreytu eða álagi, hún kviði því að sjúkleiki hennar versnaði færi hún aftur að vinna og geðræn vandamál yllu henni erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Á hinn bóginn hafi komið fram að saga væri um kvíðaröskun og kærandi væri á lyfjum. Kærandi hafi ekki fengið stig fyrir geðrænt ástand.

Samkvæmt skoðunarskýrslu hafi kærandi hlotið samtals sex stig í líkamlega hlutanum og ekkert í þeim andlega. Kærandi hafi ekki verið talin uppfylla skilyrði efsta stigs samkvæmt staðli en hafi verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks sem þegar hafi verið veittur frá og með 1. apríl 2016 til 31. mars 2019.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 3. mars 2017, segir að þar sem fyrirliggjandi gögn í málinu séu misvísandi hafi verið óskað eftir því við kæranda að hún legði fram nýtt læknisvottorð.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 21. mars 2017, segir að ástæða þess að Tryggingastofnun hafi óskað eftir nýju læknisvottorði hafi verið sú að líkamleg færniskerðing kæranda hafi ekki nægt ein og sér til þess að komið geti til 75% örorkumats. Þau atriði sem komið hefðu fram í skoðunarskýrslu, dags. 1. mars 2016, varðandi andlega færniskerðingu kæranda hafi ekki verið studd af öðrum gögnum málsins og hafi því þótt rétt að gefa kæranda tækifæri til þess að framvísa nýju læknisvottorði um andlega færniskerðingu sem staðfesti þau atriði.

Í læknisvottorði sem kærandi hafði lagt fram hafi ekki verið að finna upplýsingar um andlega færniskerðingu í dag sem veiti nægilega mörg stig samkvæmt örorkumatsstaðli Tryggingastofnunar til þess að hægt sé að samþykkja 75% örorkumat. Fyrri ákvörðun um örorkumat standi því óbreytt.

Varðandi afstöðu Tryggingastofnunar til greiðslu útlagðs lögfræðikostnaðar þá hafi það val kæranda að fá lögfræðilega aðstoð við kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála ekki í för með sér heimild til að krefja Tryggingastofnun um greiðslu þess kostnaðar.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar örorkumöt Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. mars 2016 og 22. nóvember 2016. Umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn örorkustyrkur tímabundið. Ágreiningur snýst um hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá stofnuninni samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Samkvæmt fylgiskjalinu fjallar fyrri hluti örorkustaðalsins um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni. Þar leggjast öll stig saman og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Með umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 6. nóvember 2015, fylgdi vottorð B, læknis, dags. 21. september 2015, en samkvæmt því voru sjúkdómgreiningar kæranda eftirfarandi:

„Fibromyalgia,

Tognun á brjósthrygg

Tognun/ofreynsa á hálshrygg.“

Þá er sjúkrasögu hennar lýst svo:

„[…] Um er að ræða konu sem veiktist þegar hún er á [...]. Óregla á svefni, mikil þreyta og dreyfðir verkir. Hefur sennilega haft þessi einkenni lengi en versnar til muna á þessum tímapunkti þegar er undir miklu álagi. Síðan hefur gengið á ýmsu, var á Reykjalundi X. NLFÍ þar áður og versnar við það en er í þokkalegu standi eftir Reykjalund. Kemst eftir það undir verndarvæng Virk og hafði náð punkti þar sem hún var í 20% starfi við [...]. Lendir í býsna harkalegu bílslysi í X […] með heilahristing, innri blæðingar, marbletti og hnykk á háls og bak. Bæði hefur hún þurft að eiga við afleiðingar þess og einnig versna hennar vefjagigtareinkenni við þetta með auknum svefntruflunum og þreytu. Nú með dæmigerð einkenni, þrekleysi og þreytu, verki og eymsli víðast hvar. Lotubundið og fer eftir álagi. Setgeta um 15 mín., göngugeta um 1km. Fer nokkrum sinnum á dag til að viðhalda þreki. Konan hlýtur að teljast óvinnufær“

Um skoðun á kæranda 21. september 2015 segir í vottorðinu:

„Þéttvaxin, skýr og gefur greinargóða sögu. Kannski eilítið þreytuleg. BÞ 136/84p79 reglul. Eðlileg líkamsstaða en smáv. stirðleiki við gang og standa upp. Fín hreyfigeta í öllum liðum, jafnvel hypermobil. Fjöldi triggerpunkta, bæði dæmigerðir vefjagigtarpunktar jafnt dreyfðum en mest áberandi í öllum vöðvum í hálsi og svo um miðjan brjósthrygg sem eru til komnir eftir áðurnefnt slys.“

Um starfsgetu og batahorfur kæranda segir í læknisvottorðinu:

„Óvunnfær frá x. Vinnur 20% vinnu í [...] ekki sjáanlegt að vinnufærni aukist eitthvað umfram það. Öll helstu endurhæfingarúrræði hafa verið reynd með tamörkuðum árangri.“

Við örorkumatið þann 22. mars 2016 lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 2. desember 2015. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að um sé að ræða vefjagigt, tognun í mjöðm og hrygg. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hún geti ekki setið kyrr lengur en í fimm mínútur vegna verkja í mjöðmum, mjóbaki og baki. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að hún finni fyrir verkjum í mjöðmum og baki. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig og krjúpa þannig að hún eigi í erfiðleikum með það vegna verkja. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að hún finni fyrir verkjum við að standa lengur en í tíu til fimmtán mínútur vegna verkja í mjöðmum og baki. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga á jafnsléttu þannig að hún geti gengið innan við einn kílómetra, hún finni fyrir verkjum í mjöðmum og baki, sé orkulaus og finni fyrir svima. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga þannig að gangi hún meira en eina hæð upp eða niður þá finni hún fyrir verkjum, aðallega í mjöðmum en stundum einnig í baki. Þá svimi hana stundum. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í vandræðum með að nota hendurnar þannig að hún geti notað þær í stuttan tíma en eftir tíu til fimmtán mínútur fái hún verki í axlir, háls og bak. Þá eigi hún það til að missa grip í höndum í tíma og ótíma. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að hún geti teygt sig eftir einum hlut en við endurtekningar komi verkir í axlir, háls og bak. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera hluti þannig að það fari eftir þyngd og vegalengdum, hún ráði við létta hluti í stuttar vegalengdir annars komi verkir í mjaðmir og bak. Þá örmagnist hún fljótt. Kærandi svarar spurningu um hvort sjónin bagi hana þannig að hún fái sjóntruflanir. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í talerfiðleikum þannig að það taki hana stundum smá tíma að finna rétt orð yfir hluti. Kærandi svarar spurningu um hvort að heyrnin bagi hana þannig að hún fái stundum suð fyrir eyrun. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi og lýsir því þannig að hún sé með þunglyndiseinkenni, sé félagslega einangruð og kvíðin.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 1. mars 2016. Samkvæmt skýrslunni er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp og þá geti hún ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Þá valdi geðsveiflur kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda og þá forðist hún hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Þá valdi geðræn vandamál kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun þannig í skýrslu sinni:

„Lágvaxin, í rúmum meðalholdum. Hreyfir sig tiltölulega lipurlega. Dreifð þreifieymsli víða í stoðkerfi. Eðlileg hreyfing í öllum stórum liðum. Óþægindi virðast aðallega í mjóbaki. Beygir sig og bograr án verulegs vanda. Skoðun á grip- og ganglimum eðlileg. Taugaskoðun eðlileg.“

Um geðheilsu kæranda segir að hún búi við þunglyndis- og kvíðaeinkenni. Þá lýsir skoðunarlæknir atferli kæranda í viðtali með eftirfarandi hætti:

„Gefur þokkalega sögu. Situr kyrr í viðtali. Grunnstemning telst eðlileg. Væg kvíðaeinkenni.“

Undir rekstri kærumálsins var framkvæmt annað örorkumat eins og fram hefur komið.

Við seinna örorkumatið lá fyrir nýr spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 13. október 2016. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda segir að hún sé með vefjagigt, tognun í mjöðm og hrygg. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja í stól þannig að hún geti ekki setið kyrr lengur en í fimm mínútur vegna verkja í mjöðmum, mjóbaki og baki. Eftir fimm mínútna setu byrji verkjaeinkenni sem aukist geri hún engar ráðstafanir. Sitji hún í bíl lengur en í 30 mínútur orsaki það svo mikla verki að hún geti ekki gert neitt meira þann daginn. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að þegar hún standi upp finni hún fyrir verkjum í mjöðmum og baki. Mjaðmirnar séu sérstaklega slæmar eftir bílslysið. Stundum séu verkirnir það slæmir að hún þurfi að styðja sig við eða snúa sér úr sætinu til að geta staðið upp. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa til að taka smáhlut upp af gólfinu og rétta sig upp aftur þannig að það sé erfitt að beygja sig, meðal annars vegna verkja í baki og vegna þess að jafnvægisskyn hennar sé slæmt. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi erfitt með að standa þannig að ef hún standi kyrr þá byrji hún að finna fyrir verkjum í mjöðmum og baki eftir tíu til fimmtán mínútna stöðu og þurfi hún þá að hreyfa sig. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga á jafnsléttu þannig að hún finni fyrir verkjum í mjöðmum og baki. Eftir bílslysið byrji verkirnir eftir að hún hafi gengið 200 metra. Eftir 400 metra göngu finni hún fyrir miklum óþægindum. Í apríl 2016 hafi hún fengið mjaðmaspelku sem hún verði að nota þegar hún ætli að ganga meira en 200 metra án mikilla verkja. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi erfitt með að ganga upp og niður stiga þannig að hún geti það án vandræða en finni fyrir verkjum í mjöðm og baki ef hún fari meira en eina hæð upp eða niður, þá haldi hún sér alltaf í handrið vegna jafnvægisleysis. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að nota hendurnar þannig að hún sé með vefjagigtarverki í fingrum og eftir tíu til fimmtán mínútur komi verkir í axlir, háls og bak. Þá eigi hún erfitt með að lyfta hlutum, hún eigi það til að missa gripið fyrirvaralaust og missa hluti. Hún hafi farið í mælingu á gripstyrk sem sýni að gripstyrkur sé skertur á báðum höndum og lakari í hægri hendi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að það fari eftir þyngd og vegalengdum. Kærandi svarar spurningu um hvort sjónin bagi hana þannig að hún fái sjóntruflanir. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með tal þannig að það taki hana stundum smá tíma að finna rétt orð yfir hluti. Kærandi svarar spurningu um það hvort heyrnin bagi hana þannig að hún fái stundum suð fyrir eyrun. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða þannig að hún sé með þunglyndiseinkenni, hún sé félagslega einangruð og kvíðin. Eftir bílslysið 2014 finni hún fyrir einkennum heilaþoku, hún eigi erfitt með að muna hluti, eigi erfitt með að skrifa og lesa og hún fái auðveldlega svima.

Skýrsla C skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 13. október 2016. Samkvæmt skýrslunni er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki setið nema í eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp og þá geti hún ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Skoðunarlæknir telur að kærandi eigi ekki við andlega færniskerðingu að etja samkvæmt skoðun.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„1. Almennt

Umsækjandi er X cm á hæð og X kg. BMI = X = offita. Situr eðlilega í viðtalinu í 45 mín. Stendur þó einu sinni upp til þess að rétta úr sér. Göngulag er eðlilegt. Hreyfingar almennt liprar. Líkamsstaða bein.

2. Stoðkerfi

Getur staðið á tám og hælum og sest niður á hækjur sér. Hreyfiferlar í hálsi eru aðeins stirðir og með óþægindum við endamörk. Lyftir báðum örmum beint upp. Getur haldið höndum fyrir aftan hnakka. Krossleggur hendur fyrir aftari bak. Við framsveigju í hrygg vantar 5 cm á að fingur nái gólfi. Tekur ekki í stutta aftanlærisvöðva. Aftursveigja er eðlileg og hliðarsveigja og snúningur lítið eitt skertur með óþægindum í mjóbaki.“

Um geðheilsu kæranda segir að saga sé um kvíðaröskun og að hún sé á lyfjum. Þá lýsir skoðunarlæknir atferli kæranda í viðtali með eftirfarandi hætti:

„Gott samband, saga og svör. Lýsir ágætlega sínum högum. Geðslag er metið eðlilegt. Ekki ber á kvíða. Engin geðrofseinkenni.“

Undir rekstri kærumálsins fór Tryggingastofnun þess á leit við kæranda að hún legði fram nýtt læknisvottorð svo að fram gæti farið nýtt mat á örorku. Var það sérstaklega tilgreint að í nýju læknisvottorð yrði tekið sérstaklega á andlegri færni hennar. Kærandi lagði fram nýtt læknisvottorð B, dags. 13. mars 2017. Þar segir:

„Fibromyalgia

Tognun á brjósthrygg

Tognun / ofreynsla á hálshrygg

Depressio mentis“

Í sjúkrasögu segir að kærandi hafi sögu um kynferðisofbeldi og síðan ofbeldissamband. Í kjölfar þess hafi hún lagst í þunglyndis- og kvíðatímabil sem lýsi sér með depurð og tilhneigingu til að loka sig af. Greint er frá vefjagigtareinkennum og sérstaklega er tilgreind óregla á svefni og mikil þreyta hjá kæranda. Það taki hana langan tíma að koma sér af stað á morgnanna, þ.e. fram undir hádegi. Þá segir að kærandi hafi verið með lækkað geðslag eftir bílslys 2014, hún hafi náð þokkalegu jafnvægi og haldi sér þar meðan hún geti haldið sinni rútínu og ákveðinni hreyfingu en þar hái henni nokkuð líkamleg færni. Þá segir:

„Getur sitið um 15 mín en er þá orðin óróleg, göngugeta um 1km Eins og dæmigert er fyrir fibromyalgiu fylgir versnun ef farið er umfram ákveðin mörk.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslur matslækna og virt þær í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu.

Eins og fram er komið hefur kærandi tvívegis verið skoðuð af skoðunarlæknum, annars vegar þann 1. mars 2016 og hins vegar þann 13. október 2016.

Samkvæmt skoðunarskýrslu D, dags. 1. mars 2016, er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema í tvær klukkustundir. Slíkt gefur ekki stig samkvæmt örorkustaðli. Að mati skoðunarlæknis getur kærandi ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Að öðru leyti er það mat skoðunarlæknis að kærandi búi ekki við frekari líkamlega færniskerðingu með hliðsjón af örorkustaðlinum. Að mati skoðunarlæknis er andleg færniskerðing sú að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Skoðunarlæknir metur það svo að geðræn vandamál kæranda valdi erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt staðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til þriggja stiga samtals og andleg færniskerðing til sjö stiga samtals.

Samkvæmt skoðunarskýrslu C, dags. 13. október 2016, er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Að mati skoðunarlæknis getur kærandi ekki setið nema í eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Að öðru leyti er það mat skoðunarlæknis að kærandi búi ekki við frekari líkamlega færniskerðingu með hliðsjón af örorkustaðlinum. Á grundvelli skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga samtals. Að mati skoðunarlæknis er kærandi ekki með andlega færniskerðingu.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við framangreindar skoðunarskýrslur og málsmeðferð Tryggingastofnunar ríkisins. Til að mynda er gerð athugasemd við matslista fyrri skoðunarlæknis og því haldið fram að matslistinn hafi ekki verið í samræmi við reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Við skoðun málsgagna er það mat úrskurðarnefndar að umræddur matslisti, sem notast var við í örorkumati sem fram fór þann 22. mars 2016, hafi verið í fullu samræmi við framangreinda reglugerð.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndar að umtalsvert misræmi sé í gögnum málsins varðandi mat á bæði andlegri og líkamlegri færni kæranda. Fyrir liggur að kærandi fór í nýtt örorkumat undir rekstri þessa máls og óhjákvæmilegt er að bera saman þessi tvö möt ásamt tilkomu nýs læknisvottorðs sem leiddi ekki til nýrrar skoðunar af hálfu Tryggingastofnunar. Í hinu kærða örorkumati er það niðurstaða skoðunarlæknis að kærandi sé metinn til þriggja stiga í líkamlegri færniskerðingu og til sjö stiga í andlegri færniskerðingu. Í því örorkumati, sem framkvæmt var síðar undir rekstri þessa máls, mat skoðunarlæknir kæranda með sex stig í líkamlegri færniskerðingu en ekki með neina andlega færniskerðingu. Úrskurðarnefndin telur óhjákvæmilegt í ljósi misvísandi niðurstaðna hjá skoðunarlæknum og niðurstöðu stofnunarinnar í kjölfarið að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til framkvæmdar á nýju örorkumati.

Kærandi óskaði eftir afstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála til greiðslu útlagðs lögfræðikostnaðs vegna kærumálsins. Það er meginregla íslensks réttar að borgararnir verða sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafa af málarekstri fyrir stjórnvöldum. Sérstök lagaheimild þarf að vera fyrir hendi svo að unnt sé að krefjast greiðslu slíks kostnaðar úr hendi stjórnvalda. Slík heimild er ekki í lögum um almannatryggingar. Þá er ekki að finna ákvæði í lögum nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála sem heimila greiðslu lögmannsþóknunar.

Að öllu framangreindu virtu er synjun Tryggingastofnunar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum