Hoppa yfir valmynd
17. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 294/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 294/2016

Miðvikudaginn 17. maí 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 4. ágúst 2016, kærði B, f.h. bróður síns A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. júní 2016 á umsókn kæranda um styrk til bifreiðakaupa.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 29. apríl 2015, sótti kærandi um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Með umsókninni fylgdi vottorð C læknis, dags. 28. apríl 2015. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. júlí 2015, var uppbót vegna kaupa á bifreið samþykkt en synjað var um styrk. Þá barst stofnuninni nýtt vottorð um hreyfihömlun vegna bifreiðakaupa, undirritað af D lækni, dags. 3. september 2015. Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. júní 2016, segir að nýtt vottorð gefi ekki tilefni til breytinga á fyrra hreyfihömlunarmati og því sé umsóknin ótímabær þar sem ekki séu liðin fimm ár frá síðustu úthlutun. Tekið var fram að þegar sé í gildi ákvörðun um uppbót til bifreiðakaupa sem renni út 31. júlí 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. ágúst 2016. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 2. september 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. september 2016. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi, mótteknu 21. september 2016, og voru þær kynntar stofnuninni með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. september 2016. Viðbótargreinargerð, dags. 29. september 2016, barst frá stofnuninni og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um styrk til kaupa á bifreið verði endurskoðuð.

Í kæru segir að kærandi og læknar hans telji hann uppfylla öll skilyrði reglugerðar um styrk til kaupa á bifreið og þar með eigi hann lögmætan rétt á honum. Hann telji augljóslega brotið á sér af hálfu Tryggingastofnun ríkisins. Þrátt fyrir að hann uppfylli öll skilyrði í reglugerð hafi stofnunin í tvö skipti hafnað umsókn hans. Kærandi telji að úrskurður og útskýringar stofnunarinnar séu ekki í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 170/2009. Hann telji ranglega farið með orðalag reglugerðar í ákvörðun stofnunarinnar til þess eins að útiloka að hann nái rétti sínum.

Útskýringar Tryggingastofnunar ríkisins séu að innihaldi til tvenns konar. Annars vegar að kærandi sé ekki nægilega fatlaður, þrátt fyrir að hann vanti annað lungað, til að fá umbeðinn styrk, enda sé skilyrði styrksins að viðkomandi sé annaðhvort bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri. Hvorugt eigi við um kæranda. Vitnað sé til reglugerðar nr. 170/2009.

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda, dags. 14. júlí 2015, segi meðal annars orðrétt:

„Umsókn um styrk er aftur á móti synjað. Að mati tryggingarlæknis taldist þú ekki uppfylla læknisfræðileg skilyrði til að fá styrk. Samkvæmt reglugerð nr. 170/2009 þarf umsækjandi að vera bundinn við hjólastól og/eða nota tvær hækjur að staðaldri til að eiga rétt á styrk.“

Þannig meti stofnunin það svo að kærandi sé ekki nógu fatlaður til að eiga rétt á styrk til kaupa á bifreið. Hins vegar hafi stofnunin tjáð kæranda með bréfi, dags. 16. júlí 2016, eftirfarandi:

„Nýtt læknisvottorð gefur ekki tilefni til breytinga á fyrra hreyfihömlunarmati og því er umsóknin ótímabær þar sem ekki eru liðin fimm ár frá síðustu úthlutun.“

Þar sé átt við svokallaða uppbót að fjárhæð 360.000 krónur sem kæranda hafi verið boðin af Tryggingastofnun í stað þess styrks sem sótt hafi verið um. Hann hafi hafnað uppbótinni, enda sótt um annað sem hann hafi talið sig hljóta að eiga rétt á að fá, þ.e.a.s. styrk til kaupa á bifreið.

Kærandi sé mjög fatlaður maður. Í kjölfar […] hafi annað lunga hans verið fjarlægt fyrir tæpum X árum. Hann vanti þannig líffæri. Eins og gefi að skilja hafi dregið mjög af honum við þessa aðgerð og hafi hann síðan þjáðst af stöðugri mæði við minnstu hreyfingu. Þetta ástand hafi farið síversnandi. Hann sé nú alls ófær um að ganga nema örfá skref í senn sökum mæði. Útilokað sé fyrir kæranda að komast leiðar sinnar gangandi, þó ekki sé nema á milli húsa, vegna mæði og óstyrks, sem stafi af viðvarandi súrefnisskorti sem magnist við alla hreyfingu. Hann sé þannig algerlega bundinn við heimili sitt án bifreiðar. Veikindi hans hái honum þó á engan hátt við akstur og reyndar líði honum einna bærilegast við þær kringumstæður.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sem Tryggingastofnun ríkisins vísi til, sé fjallað um markmið og gildissvið hennar þar sem standi meðal annars:

„Með líkamlegri hreyfihömlun er átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar er fyrst og fremst um að ræða:

a. lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar.

b. mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóms (Undirstrikanir undirritaðs).

c. annað sambærilegt“

Veikindi kæranda falli þannig augljóslega undir markmið og gildissvið 2. gr. reglugerðarinnar.

Hvergi segi að viðkomandi verði að notast við hjólastól eða hækjur til að reglugerðin teljist uppfylla markmið sín og gildissvið.

Tryggingastofnun ríkisins vitni, að því er best verði séð vísvitandi, ranglega til 4. gr. reglugerðarinnar í ákvörðun sinni. Það sem í raun og veru standi í tilvitnaðri grein sé meðal annars eftirfarandi:

„Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. (undirritun undirritaðs) bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.“

Hér kjósi stofnunin að sleppa skammstöfuninni til dæmis í tilvitnun sinni í reglugerð, undirritaðri af forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands 30. janúar 2009. Með því að breyta þannig orðalagi 4. gr. reglugerðarinnar í ákvörðun sinni, telji stofnunin sér leyfast að takmarka lögmætan rétt til styrks til bifreiðakaupa við þá einstaklinga (eingöngu, að því er virðist), sem séu bundnir hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri. Slík vinnubrögð, af hálfu hins opinbera, hljóti að teljast verulega athugaverð, að ekki sé meira sagt.

Umboðsmaður kæranda hafi símleiðis fengið svör frá stofnuninni um að svona væri túlkun hennar á reglugerðinni.

Tryggingastofnun hafi aftur á móti láðst, af einhverri ástæðu, algerlega að geta þess í ákvörðun sinni, sem einnig standi í sömu grein, aðeins nokkrum línum ofar:

„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.....(Undirstrikun undirritaðs).

Kærandi uppfylli öll þau skilyrði, sem reglugerðin setji, til að eiga rétt á styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 4. gr. Hann vanti annað lungað. Hann teljist, augljóslega, verulega hreyfihamlaður samkvæmt skilgreiningu reglugerðarinnar. Honum gagnist hvorki hækjur né hjólastólar, en hann styðji sig gjarnan við veggi, húsgögn og dyrastafi og færi sig á milli stóla, eftir þörfum og getu, og sé með gilt bílpróf. Nauðsyn á bifreið sé ótvíræð. Án bifreiðar séu honum allar bjargir bannaðar og hann komist hvorki lönd né strönd. Þá sé hann sjúkratryggður hér á landi.

Að lokum sé gerð athugasemd við að Tryggingastofnun ríkisins hafi tekið sér nær níu mánuði til að afgreiða seinni umsókn hans og læknisvottorð. Tími hans sé enda of dýrmætur til að sóa honum, frekar en orðið sé, í að elta ólar við stofnunina í máli þessu.

Kærandi telji alls óvíst að hann verði á lífi eftir þau fjögur ár, sem honum sé ætlað að bíða eftir að mega sækja um bifreiðastyrk á ný. Hann eigi því ekki annarra kosta völ en að snúa sér til úrskurðarnefndar í máli þessu.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að hann hafi sótt um styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð en samkvæmt greininni sé „heimilt [að] greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.“

Þannig sé komið fyrir kæranda að hann vanti meira en helming öndunarfæra sinna, þ.e.a.s. hægra lunga. (Hægra lunga sé stærra en hið vinstra). Þá vanti hann hluta af hjartavöðva sínum […]. Loks vanti hann loku í ósæð, sem veiti blóðinu frá hjartanu til annarra líkamshluta, og sé nú með gerviloku í hennar stað.

Tveir valinkunnir læknar hafi með vottorðum sínum staðfest að kærandi sé verulega hreyfihamlaður af þessum sökum. Hann komist hvorki til vinnu né annað út fyrir heimili sitt án umrædds hjálpartækis. Hann komist til dæmis ekki í eftirlit hjá þeim allmörgu læknum sem annist hann og ekki í þá endurhæfingu sem hann hafi þörf fyrir án bifreiðar. Hann sé þannig algerlega bundinn við það hjálpartæki til þessara athafna.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sem fjalli um markmið og gildissvið hennar, standi meðal annars eftirfarandi: „Jafnframt er það markmið með styrkjum….vegna bifreiða að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu,….og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.“

Kærandi sé svo lánssamur að vinna hans krefjist takmarkaðrar hreyfingar, svo fremi að hann komist á vinnustað. [...].

Súrefnisupptaka kæranda sé, vegna vöntunar hans á líffæri, mjög skert, sem lýsi sér meðal annars þannig að hann mæðist mjög fljótt við minnstu hreyfingu, þó ekki sé nema að fara á milli herbergja heima fyrir. Hann sé af þessum sökum með mjög skerta göngugetu, sem takmarkist, bæði innan húss og utan, við 25 til 30 metra á jafnsléttu, vegna súrefnisskorts og kæfandi mæði, sem allar hreyfingar hafi í för með sér. Hann hafi hvorki gagn af hækjum né hjólastól.

Þrátt fyrir augljósa og mjög hamlandi fötlun kæranda, hafi báðum vottorðum verið hafnað af Tryggingastofnun ríkisins. Þá komist stofnunin að þeirri óvæntu niðurstöðu að kærandi sé ekki nógu hreyfihamlaður til að eiga rétt á styrk frá stofnuninni til kaupa hjálpartækis af gerðinni bifreið. Því til sönnunar bendi stofnunin á að hann noti hvorki tvær hækjur né hjólastól og geti því ekki talist það fatlaður að hann hafi þörf fyrir bifreið. Mat stofnunarinnar sé að ekkert bendi til þess, þrátt fyrir að hann sé nánast algerlega ósjálfbjarga utandyra.

Eftirfarandi komi fram í niðurstöðu stofnunarinnar, þrátt fyrir að hafa tiltekið eftirfarandi undir liðnum „Mat á hreyfihömlun“:

„Fram kom að kærandi hefði kransæðasjúkdóm og einnig hefði hægra lunga verið fjarlægt […]. Þá var getið um stoðkerfiseinkenni. Upplýst var að kærandi væri þreklaus og mæðinn og gæti aðeins gengið stuttar vegalengdir án þess að hvíla sig. Ekki komu fram upplýsingar um hjálpartæki.“

Í 2. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar séu skilyrði um að hinn hreyfihamlaði hafi ökuréttindi og að nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar sé ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir. Kærandi sé með ökuréttindi og seinni skilyrðin séu ótvírætt uppfyllt.

Tryggingastofnun ríkisins segi:

„Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla, sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.“

Kærandi uppfylli augljóslega einnig öll þessi skilyrði.

Þá vísar kærandi til skilyrða í 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 og segir að kærandi sé bundinn hjálpartæki, þ.e.a.s. bifreið. Enda liggi í augum uppi að þau hjálpartæki, sem nefnd séu í þessari grein, þ.e. hjólastóll og hækja, séu mjög augljóslega tekin sem dæmi um þau hjálpartæki, almennt, sem gagnist mörgum hreyfihömluðum, en langt frá því öllum sem þurfi á hjálpartækjum að halda, og séu að sjálfsögðu algerlega gagnslaus fyrir kæranda. Að knýja áfram hjólastól eða ganga á hækjum krefjist súrefnis, sem kæranda skorti mjög, því hann vanti annað lungað.

Varla geti það verið tilgangur laganna, né löggjafans, að engir skuli fá styrk til kaupa á bifreið frá stofnuninni nema þeir einir sem noti og hafi gagn af hjólastól og/eða hækjum að staðaldri.

Næst komi fram mat stofnunarinnar á hreyfihömlun kæranda. Þrátt fyrir að stofnunin viðurkenni að kæranda vanti meira en helming af einu mikilvægasta líffæri líkamans og sé alvarlega hjartveikur að auki eftir kransæðastíflu og geti enga björg sér veitt án bifreiðar, vegna mæði og súrefnisskorts, og geti aðeins gengið um það bil 25 metra í senn á jafnsléttu, telji stofnunin ekki rétt að veita honum umbeðinn styrk til kaupa á bifreið.

Í ákvörðun stofnunarinnar segi:

„Tryggingastofnun vill vekja athygli á því að í 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar kemur skýrt og afdráttarlaust fram að umsækjandi þarf að vera verulega hreyfihamlaður.“

Kærandi sé samkvæmt þessu ekki nægilega hreyfihamlaður að mati stofnunarinnar til að fá styrk til öflunar bifreiðar.

Þetta eigi kærandi erfitt með að skilja eða sætta sig við. Það blasi nú við að hann verði að hætta að vinna sem hann hafi mikið yndi af, þó af veikum mætti sé, og í raun hætta að fara út úr húsi.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að umsókn kæranda hafi verið tekin upp á nýjan leik eftir að nýtt læknisvottorð, dags. 3. september 2015, hafi borist stofnuninni 10. maí 2016. Niðurstaðan hafi verið sú að vottorðið breytti ekki fyrra mati og hafi kæranda verið tilkynnt um það með bréfi, dags. 1. júní 2016.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar sé sýnt að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laganna sé Tryggingastofnun ríkisins heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða vantar líkamshluta.

Í 1. - 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi meðal annars fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar sé sýnt að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar, en 2. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

„Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla, sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.“

Strangari kröfur séu gerðar til þess að hljóta styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í þeim tilvikum sé það skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður og bundinn við notkun hjálpartækja, til dæmis noti tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá styrkinn þurfi umsækjandi því meðal annars að sýna fram á að hreyfihömlun sé svo veruleg og hjálpartækjaþörf slík að hann þurfi að miða bifreiðakaup sín við þessi hjálpartæki og þurfi því dýrari og stærri bíl en einstaklingur sem uppfylli 3. gr., en skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

„Styrkur skal vera kr. 1.200.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.

4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“

Í 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar komi einnig fram skilyrði um að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja.

Við mat á hreyfihömlun 23. maí 2016 hafi legið fyrir læknisvottorð D, dags. 3. september 2015, móttekið 10. maí 2016. Fram hafi komið að kærandi væri með kransæðasjúkdóm og einnig hafi hægra lunga verið fjarlægt […]. Þá hafi verið getið um stoðkerfiseinkenni. Upplýst hafi verið að kærandi væri þreklaus og mæðinn og gæti aðeins gengið stuttar vegalengdir án þess að hvíla sig. Ekki hafi komið fram upplýsingar um hjálpartæki.

Kærandi hafi áður fengið metna uppbót til reksturs bifreiðar og til kaupa á bifreið. Þau skilyrði hafi áfram talist uppfyllt en ekki viðbótarskilyrði vegna styrks.

Fyrra mat hafi því staðið óbreytt.

Tryggingastofnun ríkisins vilji vekja athygli á því að í 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar komi skýrt og afdráttarlaust fram að umsækjandi þurfi að vera verulega hreyfihamlaður og bundinn hjálpartækjum, til dæmis hjólastól eða tveimur hækjum. Það sé því lögð sérstök áhersla á það í ákvæðinu að meta skuli þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja. Af gögnum málsins sé ljóst að kærandi noti ekki hjólastól, tvær hækjur eða önnur sambærileg hjálpartæki.

Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við almannatryggingalög og reglugerð nr. 170/2009. Stofnunin telji ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

Í viðbótargreinargerð stofnunarinnar segir að í athugasemdum kæranda segi að hann uppfylli skilyrði hreyfihömlunar samkvæmt 1. og 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Í ljósi viðbótargagna ítreki stofnunin að kærandi hafi verið metinn hreyfihamlaður samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Sú hreyfihömlun sé slík að hann eigi rétt á uppbót til kaupa á bifreið samkvæmt 3. gr. sömu reglugerðar, en sú uppbót sé að fjárhæð 360.000 krónur. Kærandi uppfylli hins vegar ekki viðbótarskilyrði 4. gr. reglugerðarinnar.

Það sé rétt hjá kæranda að orðalag fyrra bréfs stofnunarinnar hafi verið rangt. Í málum eins og kæranda sé ekki eingöngu horft til þess hvort hann noti tvær hækjur eða hjólastól, heldur sé einnig horft til sambærilegra hjálpartækja sem einstaklingar í sambærilegri stöðu og hann sé noti. Af gögnum málsins sé ljóst að kærandi noti engin slík hjálpartæki.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um styrk til kaupa á bifreið. Kæranda var synjað um styrk til bifreiðakaupa með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. júlí 2015. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. júní 2016, var kæranda tilkynnt um að nýtt vottorð gæfi ekki tilefni til breytinga á fyrra hreyfihömlunarmati.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. [...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 segir að með líkamlegri hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða:

  1. lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar,
  2. mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma,
  3. annað sambærilegt.

Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er það skilyrði fyrir veitingu uppbótar til bifreiðakaupa að nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar sé ótvíræð og að mat á hreyfihömlun liggi fyrir. Þá er í 4. gr. reglugerðarinnar að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða styrk til kaupa á bifreið. Í 2. mgr. þeirrar greinar koma eftirtalin skilyrði fram:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er til dæmis bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.

4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.

Ágreiningsefni þessa máls snýst um hvort skilyrði 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé uppfyllt í tilviki kæranda. Tryggingastofnun ríkisins byggir á því að í ákvæðinu komi skýrt og afdráttarlaust fram að viðkomandi þurfi bæði að vera verulega hreyfihamlaður og bundinn hjálpartækjum, til dæmis að nota hækjur eða hjólastól. Þar sem ljóst sé af gögnum málsins að kærandi noti ekki hjálpartæki sé skilyrði þar um ekki uppfyllt í tilviki hans.

Við túlkun á framangreindu reglugerðarákvæði lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að í 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð er ekki kveðið á um að það sé skilyrði fyrir veitingu styrks til bifreiðakaupa að umsækjandi sé bundinn hjálpartæki. Úrskurðarnefndin telur að orðasambandið „til dæmis“ sem kemur fram í umræddu reglugerðarákvæði vísi til þess að þörfin fyrir hjálpartækin sem nefnd eru í ákvæðinu séu tekin sem dæmi til að skýra hvað við sé átt með verulegri hreyfihömlun. Því telur nefndin að það sé ekki fortakslaust skilyrði fyrir veitingu bifreiðastyrks að umsækjandi sé bundinn hjálpartæki.

Við mat á því hvort skilyrði um verulega hreyfihömlun sé uppfyllt þarf að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig. Í vottorði D læknis, dags. 3. september 2015, segir að hægra lunga kæranda hafi verið fjarlægt á árinu 2012 og síðan þá hafi hann verið þreklaus og mæðinn. Hann geti aðeins gengið stuttar vegalengdir án þess að hvílast. Staðfest er í vottorðinu að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Fyrir liggur að kærandi notar ekki hjálpartæki en í kæru segir að hann styðji sig gjarnan við veggi, húsgögn og dyrastafi og færi sig á milli stóla, eftir þörfum og getu. Einnig segir að hvorki hækjur né hjólastóll gagnist honum.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið gögn málsins og telur sýnt af þeim að kærandi búi við verulega skerta göngugetu og töluvert þrekleysi vegna lungnaveikinda þrátt fyrir að hann noti ekki hjálpartæki. Með hliðsjón af því er það mat nefndarinnar að kærandi uppfylli skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um verulega hreyfihömlun. Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um styrk til kaupa á bifreið er því felld úr gildi. Fallist er á að skilyrði fyrir greiðslu styrks séu uppfyllt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um styrk til kaupa á bifreið er felld úr gildi. Fallist er á að skilyrði fyrir greiðslu styrks séu uppfyllt.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum