Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2008 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/2007

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 4/2007:

A

gegn

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 22. janúar 2008 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 11. júní 2007, óskaði kærandi, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hefði við starfslok hennar brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kæran ásamt meðfylgjandi gögnum var kynnt Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar með bréfi, dags. 27. júní 2007, og var óskað eftir því að umsögn stofnunarinnar bærist kærunefnd jafnréttismála fyrir 11. júlí 2007. Með bréfi, dags. 2. júlí 2007, óskaði umboðsmaður Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar eftir viðbótarfresti til 1. ágúst 2007 til þess að skila inn umsögninni og var umbeðinn frestur veittur. Umsögn Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar ásamt fylgigögnum barst með bréfi, dags. 31. júlí 2007, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri.

Athugasemdir kæranda við umsögn Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar bárust með bréfi, dags. 28. ágúst 2007, eftir að kæranda hafði verið veittur viðbótarfrestur til þess að koma þeim að. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar voru sendar athugasemdirnar til kynningar með bréfi, dags. 4. september 2007.

Athugasemdir Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar ásamt fylgigögnum bárust með bréfi, dags. 13. september 2007, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. september 2007. Athugasemdir kæranda við síðastnefndar athugasemdir Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar bárust með bréfi, dags. 26. október 2007, eftir að kæranda hafði verið veittur viðbótarfrestur til þess að koma þeim að, og voru þær sendar Flugmálastjórninni til kynningar með bréfi, dags. 2. nóvember 2007.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavaxtalýsing

Kærandi hóf störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar í október árið 1988. Í febrúar 2006, er kærandi starfaði sem starfsmannastjóri hjá Flugmálastjórninni, forfallaðist hún frá störfum vegna veikinda. Sumarið 2006, er kærandi var enn í veikindaleyfi, bauð Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar kæranda að gera starfslokasamning við stofnunina. Í ágúst 2006 gerði Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar kæranda tilboð um starfslok sem kærandi undirritaði ekki. Hóf hún ekki störf að nýju hjá stofnuninni en fékk greidd laun án vinnuframlags til áramóta.

Kærandi telur að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, einkum 24. gr., með því að bjóða henni ekki sambærilegan starfslokasamning og tveimur karlmönnum sem látið höfðu af störfum hjá stofnuninni. Umræddir karlmenn hafi notið launa og réttinda við starfslok langt umfram það sem kæranda hafi verið boðið. Engar málefnalegur ástæður hafi verið fyrir hendi sem réttlættu þennan mismun.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafnar því alfarið að stofnunin hafi brotið gegn lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að bjóða kæranda lakari starfslokasamning en tveimur karlmönnum sem starfað hafi hjá stofnuninni. Allt önnur sjónarmið hafi átt við um umrædda karlmenn en kæranda. Þeir hafi verið komnir nálægt eftirlaunaaldri og við þá hafi verið gerðir samningar um fjarvinnsluverkefni. Kærandi hafi látið af störfum að eigin ósk, hún hafi hafnað boði um annað starf og ekki mætt til starfa þegar hún hafi samkvæmt óvinnufærnisvottorði átt að vera orðin vinnufær. Í samræmi við óskir kæranda hafi henni verið greidd laun til áramóta 2006-2007.

  

III.

Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi hafið störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar í október 1988 sem ritari þáverandi flugvallarstjóra. Í áranna rás hafi kæranda hlotnast starfsframi sem fól í sér aukin verkefni og aukna ábyrgð. Þannig hafi kæranda verið boðið að taka að sér skrifstofustjórastöðu árið 2001. Það boð þáði kærandi enda hafi það falið í sér frekara loforð um starfsframa og launahækkun sem raunar hafi aldrei verið að fullu staðið við. Fljótlega hafi umrædd skrifstofustjórastaða breyst starfsmannastjórastöðu sem kærandi tók að sér. Þeirri stöðu hafi fylgt meiri ábyrgð og vinna og samkvæmt skipuriti hafi staðan verið millistjórnandastaða. Kærandi hafi því samkvæmt skipuriti verið í stjórnunarteymi stofnunarinnar. Kærandi hafi starfað á þessum forsendum til ársins 2006.

Í febrúar 2006 hafi kærandi orðið fyrir áfalli sem leiddi til óvinnufærni og hafi hún tilkynnt veikindin til yfirmanns síns. Sem starfsmaður ríkisstofnunar í um 20 ár hafi kærandi átt rétt á veikindadögum í 360 daga eða til 2. febrúar 2007, en eftir rúmlega viku veikindi í febrúar 2006 hafi yfirmaður kæranda hringt í hana og óskað eftir að fá að hitta hana heima hjá henni. Kæranda hafi ekki fundist neitt athugavert við þetta þar sem sökum stöðu hennar sem starfsmannastjóra hafi samskipti þeirra á milli oft verið utan vinnutíma, aðallega þó símleiðis. Þegar yfirmaður kæranda hafi mætt á heimili hennar hafi hann verið með aðstoðarmann sinn, skrifstofustjóra Flugmálastjórnar, með sér og hafi kæranda þótt það heldur óvenjulegt og meira en lítið óþægilegt, enda hafði aðstoðarmaðurinn aldrei áður komið á heimili kæranda. Hafi þeir þá tilkynnt kæranda að þeir hygðust gera skipulagsbreytingu á stofnuninni, þar á meðal á starfssviði kæranda. Þeir hafi útskýrt fyrir kæranda að þeir hygðust breyta starfi hennar á þann hátt að í það þyrfti að ráða menntaðri einstakling þar sem um ábyrgðarmikið starf yrði að ræða. Kærandi hafi þá skynjað að yfirmaður hennar teldi hana vanhæfa í starfi þótt ekkert hafi bent til þess áður. Kæranda hafi jafnframt verið tjáð að nóg yrði fyrir hana að gera þegar hún kæmi aftur til starfa, til dæmis að sjá um skjalavistun o.fl. Kærandi hafi litið svo á að þetta fæli í sér algjöra höfnun á hennar vinnuframlagi og að í rauninni væri verið að færa hana niður í starfi án nokkurrar útskýringar. Hafi það ekki bætt andlega líðan hennar sem var slæm vegna nýafstaðins áfalls og hafi kærandi því ekki getað hugsað sér að snúa strax aftur til vinnu.

Kærandi hafi sent yfirmanninum bréf frá lækni sínum þar sem fram kom það mat læknisins að kærandi væri ekki í stakk búin til þess að stunda vinnu sína strax. Yfirmaðurinn hafi í kjölfarið fengið nokkur bréf með ákveðnu millibili frá lækni kæranda þar sem greint hafi verið frá heilsu hennar. Eftir um þriggja mánaða veikindi, í byrjun maí 2006, hafi kærandi séð stöðu sína auglýsta lausa til umsóknar, en á þeim tíma hafi henni ekki borist nein formleg tilkynning um breytingu á stöðu sinni. Í kjölfar þessa hafi kærandi hringt í yfirmann sinn sem hafi sagt henni að hann þyrfti að manna stöðu hennar og gæti ekki beðið eftir henni endalaust. Í júní 2006 hafi yfirmaður kæranda hringt í hana og spurt hvort hún væri nokkuð að koma til baka auk þess að bjóða henni að gera starfslokasamning við stofnunina. Kærandi hafi við þetta boð séð fram á lausn á vanda sínum að hluta, en yfirmaður hennar hafi lagt til að hún þæði laun út árið.

Kærandi hafi í kjölfarið hvorki getað hugsað sér að snúa aftur til starfa né eiga í frekari samskiptum við yfirmann sinn. Kæranda hafi liðið eins og henni hefði verið algjörlega hafnað af yfirmanni sínum fyrir það eitt að verða veik á óheppilegum tíma að hans mati. Sökum veikinda kæranda hafi hún ákveðið í samráði við eiginmann sinn að hann myndi semja um starfslok fyrir hennar hönd. Yfirmaður kæranda hafi hins vegar ekkert viljað ræða við eiginmann kæranda.

Í huga kæranda hafi það verið alveg ljóst að hún gæti ekki hugsað sér að snúa aftur til starfa og að starfslokasamningur sá sem í boði var væri algjörlega óásættanlegur. Kærandi hafi svarað yfirmanni sínum þannig að hún samþykkti boð hans fyrir utan það að hún vildi áunnið orlof sitt greitt aukalega við lok samnings. Það hafi yfirmaður kæranda ekki viljað samþykkja og hafi látið aðstoðarmann sinn útbúa samkomulag milli Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og kæranda um starfslok sem henni hafi verið sent með tölvupósti. Kærandi hafi látið aðstoðarmanninn vita að hún væri ekki sátt við þetta fyrirkomulag en hún hafi ekki heyrt neitt meira frá yfirmanni sínum og aðstoðarmanni hans. Umrætt samkomulag hafi aldrei verið undirritað og ekkert hafi verið ýtt á eftir því. Kærandi hafi verið á launum til ársloka 2006, þar af hafi hún verið í þrjá og hálfan mánuð á launum eftir að veikindaleyfi hennar lauk. Kærandi hafi þó sem ríkisstarfsmaður áunnið sér rétt samkvæmt kjarasamningi til launagreiðslna í veikindum í 360 daga. Vinnuveitandi geti samkvæmt sama kjarasamningi kallað eftir læknisvottorði hvenær sem hann vill. Eins og þetta mál liggi fyrir er ljóst að yfirmaður kæranda hafi ekki gengið á eftir læknisvottorði og reyni nú að nota það gegn kæranda og haldi því fram að læknisvottorð hafi ekki verið fyrir hendi eða erfiðleikum háð að afla þess. Samkvæmt kjarasamningi eigi kærandi enn fremur rétt til þess að halda starfi sínu í tvöfaldan þann tíma sem nemi veikindarétti hennar, þ.e. til febrúarmánaðar 2007, og jafnframt rétt til að halda starfi sínu þar til í febrúar 2008 yrði hún áfram fjarverandi. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi svipt kæranda þessum rétti með harkalegum aðgerðum á þeim tíma sem hún hafi hvorki getað unnið né borið hönd fyrir höfuð sér.

Kærandi telur yfirmann sinn jafnframt hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, einkum 24. gr., með því að bjóða kæranda ekki sambærilegan starfslokasamning og tveimur karlmönnum sem látið hafi af störfum hjá stofnuninni á liðnum árum. Starfslokasamningur sá sem kæranda var boðinn feli aðeins í sér lágmarksrétt, þ.e. greiðslu launa á uppsagnarfresti eftir að launagreiðslum í veikindafjarvistum ljúki. Karlmennirnir njóti launa og réttinda við starfslok langt umfram það sem kæranda hafi verið boðið. Engar málefnalegur ástæður séu fyrir hendi sem réttlæti mismuninn á starfslokasamningunum.

Kæranda hafi verið fullkunnugt um brotthvarf varnarliðsins á þessum tíma og hafi haft fullan skilning á að starfsumfang Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar myndi að öllum líkindum breytast við það. Þegar yfirmaður kæranda hafi mætt aftur til starfa 1. apríl 2006 eftir störf erlendis hafði kærandi verið frá vinnu í um þrjá mánuði og hafi yfirmaðurinn strax ýtt mjög á eftir upplýsingum um það hvenær kærandi kæmi aftur til vinnu. Kærandi hafi gert sér grein fyrir því að yfirmaður stofnunarinnar þyrfti að fá upplýsingar frá starfsmönnum um slík atriði, en sökum eðlis veikinda sinna hafi kærandi ekki getað svarað honum á þessum tíma. Hann hafi hins vegar mátt sjá af óvinnufærnisvottorðum kæranda að það yrði ekki um sinn. Kærandi hafi ekki verið fær um að meta ástand sitt sjálf á þeim tímapunkti og látið það alfarið í hendur læknis síns sem hafi gefið út óvinnufærnisvottorð í mánuð í senn og hann hafi svo endurmetið það hverju sinni.

Rétt sé að benda á að sá tölvupóstur sem Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar nefni í umsögn sinni sé svar kæranda til yfirmanns síns við boði um starfslok. Yfirmaður kæranda hafi sagst geta boðið henni laun fram að áramótum og sagt að það væri mjög vel boðið og best fyrir alla aðila. Kærandi hafi verið í mjög slæmu ástandi og það hafi ekki verið ofarlega í huga hennar að snúa aftur til starfa að svo komnu máli. Kærandi hafi upplifað samtal þeirra þannig að yfirmaður hennar hefði greinilega ekki í hyggju að fá hana aftur sem starfsmannastjóra og sendi hún yfirmanninum því tölvupóst þar sem hún samþykkti tilboð hans, dags. 20. júlí 2006. Það hafi því ekki verið kærandi sem hafi kosið að láta að störfum líkt og komi fram í umsögn Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og í drögum yfirmanns kæranda að starfslokasamningi.

Samkomulagsdrögin, dags. 23. ágúst 2006, hafi ekki tekið mið af óskum hennar, enda hafi hún aldrei sett fram neinar óskir eða kröfur í þessu máli heldur hafi allt verið sett fram að frumkvæði yfirmanns hennar. Eina sem kærandi hafi óskað eftir var að fá orlofið sitt greitt að auki ef hún myndi ganga að samkomulaginu. Þessu hafi aðstoðarmaður yfirmanns kæranda svarað með tölvupósti, dags. 29. ágúst 2006. Af þessu sé ljóst að kærandi hafi ekki verið sátt við samkomulagsdrögin. Samkomulagsdrögin hafi falið í sér tilboð af hálfu Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar til kæranda varðandi starfslok. Samkomulagið hafi aldrei verið undirritað, tilboðið hafi ekki verið samþykkt og samningur hafi því ekki komist á. Þetta tilboð um starfslok hafi því fallið niður.

Kæranda hafi verið kunnugt um efni starfslokasamninga sem gerðir hafi verið við tvo karla sem áður störfuðu hjá stofnuninni. Í umsögn stofnunarinnar sé vísað til þess að með samningunum hafi þeim starfsmönnum sem um ræddi verið gert kleift að ljúka starfsævinni með rólegum hætti. Kærandi hafi hins vegar átt meira eftir af starfsævi sinni og því feli starfslokasamningurinn í sér meiri skaða fyrir hana. Kærandi telur það jafnframt fela í sér beina mismunun að tveir karlmenn sem hafi hætt störfum hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi fengið lengri starfslokasamninga en kæranda hafi verið boðinn. Í öðrum fyrrgreindra samninga hafi ekki verið að finna neina tilgreiningu á störfum við fjarvinnslu á gildistíma. Síðari samningurinn hafi að geyma slíka tilgreiningu, en þar sé verksviðið hins vegar algjörlega óskilgreint að öðru leyti en því að sá starfsmaður sem um ræði skuli vera til aðstoðar og ráðuneytis um þau verkefni sem hann hafi haft með höndum síðastliðna 12 mánuði. Ekki hafi dugað minna en að gera samning við starfsmanninn um þau verkefni í 22 mánuði. Samningur þessi sé augljóslega til málamynda og til þess gerður að fela þá staðreynd að umræddur starfsmaður fengi laun í 22 mánuði án vinnuframlags.

Ákvæði laga um ríkisstarfsmenn kveði á um tilhögun starfsloka starfsmanna. Þar segi að starfsmenn skuli láta af störfum við 70 ára aldur eða við uppsögn eða niðurlagningu starfs. Ekkert framangreindra tilvika eigi við um kæranda. Kærandi vill í þessu sambandi benda á að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sé bundin jafnræðissjónarmiðum og meginreglum stjórnsýsluréttar við beitingu þess úrræðis sem felist í gerð starfslokasamninga. Í tilviki Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar sé ljóst hvaða sjónarmið ráði, þ.e. að karlmenn fái langa starfslokasamninga en konur enga, svo ekki sé minnst á aðfarir þær sem kærandi hafi þurft að þola af hálfu Flugmálastjórnarinnar. Sjónarmið Flugmálastjórnarinnar við gerð starfslokasamninga séu bæði ómálefnaleg og ólögmæt og feli í sér mismunun sem brjóti í bága við ákvæði laga nr. 96/2000.

Af framangreindu leiði að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar beri að færa rök fyrir ákvörðunum og athöfnum sínum og með því sýna fram á eða að minnsta kosti leiða að því líkur að ekki hafi verið um mismunun að ræða í skilningi ákvæða laga nr. 96/2000. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi hvorki sýnt fram á né reynt að sýna fram á hvaða sjónarmið búi að baki mismunandi boðum um starfslokasamninga. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi ekki sýnt fram á eða leitt að því líkur að önnur sjónarmið en mismunun í skilningi laga nr. 96/2000 liggi að baki ákvörðunum og athöfnum stofnunarinnar. Kærandi bendir enn fremur á að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi í málatilbúnaði sínum viðurkennt að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, í tengslum við starfslokin. Engu að síður sé brýnt að fá úr því skorið hvort Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi jafnframt gerst brotleg við ákvæði laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í tengslum við starfslok.

Að lokum skuli bent á að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi í málatilbúnaði sínum lagt fram tölvupósta sem sendir hafi verið á því tímamarki sem heilsa kæranda hafi ennþá verið óstöðug vegna veikinda og eðli máls samkvæmt beri að skoða þá tölvupósta í því ljósi. Kærandi leggi áherslu á að hún hafi, í tengslum við samningaumleitanir Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar um starfslok, átt njóta jafnréttis á við þá karlmenn sem áður höfðu gengið frá samkomulagi um starfslok. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi hvorki sýnt fram á reynt að sýna fram á réttmætar ástæður þeirrar mismununar sem þar birtist. Þá hafi Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar ekki sýnt fram á að aðrar ástæður eigi hér við en þær sem varði mismunun og falli undir tilgreiningu ákvæða laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

           

IV.

Sjónarmið Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í samskiptum við kæranda.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar starfi samkvæmt ákvæðum laga um stjórn flugmála og reglum um skipulag flugmála á Keflavíkurflugvallar settum samkvæmt þeim lögum. Meginhlutverk Flugmálastjórnarinnar sé að hafa með höndum daglegan rekstur flugvallarins og að stjórna skrifstofu flugmála þar. Kærandi hafi gegnt starfi starfsmannastjóra hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Þegar kærandi verið við störf hafi starfsmenn Flugmálastjórnarinnar verið 55. Starfsmenn á skrifstofu hafi verið sjö með flugvallarstjóra. Núverandi flugvallarstjóri, sem hafi tekið við starfi árið 1999, hafi í gegnum árin átt mjög gott samstarf við kæranda. Hann hafi farið í launalaust leyfi til að starfa hjá Alþjóðaflugmálastjórninni, ICAO, í Kanada 1. janúar 2005 en annar leyst hann af á meðan. Í febrúar 2006 hafi flugvallarstjórinn verið staddur hér heima vegna tiltekins sérverkefnis. Þá hafi hann frétt það að kærandi hefði verið veik um tíma, án þess að nokkur hafi getað upplýst hann um hvað væri að. Hann hafi ákveðið að heimsækja kæranda ásamt öðrum starfsmanni Flugmálastjórnar, skrifstofustjóra stofnunarinnar. Í þessari heimsókn hafi kærandi sagt þeim frá veikindum sinum en þeir báðir tjáð henni að taka þann tíma sem hún þyrfti til að jafna sig og ná fyrri krafti og heilsu. Um annað hafi ekki verið rætt og alls ekkert hafi verið minnst á annað starf.

Þann 15. mars 2006 hafi verið tilkynnt um brotthvarf varnarliðsins og samfara því hafi flugvallarstjórinn verið kallaður heim til starfa frá Kanada þann 1. apríl 2006 og við hafi tekið gríðarleg vinna vegna brotthvarfs varnarliðsins. Með lögum nr. 34/2006, um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, sem samþykkt voru á Alþingi 15. maí 2006, hafi starfsumfang Flugmálastjórnar margfaldast en stofnunin hafi tekið við hluta af starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Meðal annars hafi stofnunin tekið við um 140 starfsmönnum varnarliðsins sumarið og haustið 2006. Fyrir brotthvarf varnarliðsins hafi starfsmannafjöldi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar verið 55, svo sem áður sagði, en sé í dag um 230.

Þegar þessar breytingar hafi átt sér stað hafi kærandi ekki verið komin til starfa aftur en tveir starfsmenn Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar höfðu bætt störfum hennar á sig. Óumflýjanlegt hafi verið að bregðast við hinum miklu umskiptum sem orðið höfðu við brotthvarf varnarliðsins og fjölgunar starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. Ráðningarskrifstofa hafi veitt Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar tímabundna ráðgjöf sumarið 2006 sem meðal annars hafi falist í starfsmannaviðtölum og undirbúningi við ráðningu starfsmanna varnarliðsins til Flugmálastjórnarinnar. Meðal annars hafi verið auglýst eftir umsækjendum í starf starfsmannastjóra, en það sé rétt að geta þess að í þá stöðu hafi enn ekki verið ráðið.

Í maímánuði 2006 hafi flugvallarstjórinn haft samband við kæranda til að fá fréttir af henni, en eins og gefi að skilja hafi verið nauðsynlegt fyrir yfirmenn hennar að vita hvenær vænta mætti hennar til starfa að nýju vegna þeirra miklu umskipta sem voru að verða á rekstri stofnunarinnar, en kærandi hafði þá verið veik frá 2. febrúar 2006. Svo sem áður sagði hafi tveir starfsmenn Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar bætt störfum hennar á sig, en mjög fáliðað hafi verið á skrifstofu Flugmálastjórnarinnar og hafi það ekki getað gengið til lengdar. Flugvallarstjórinn hafi boðið kæranda annað starf, sem hefði þýtt minna álag, en hún hefði haft sömu laun og hún hafði fyrir. Minna megi á að skv. 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hafi forstöðumaður rétt til að flytja starfsmenn til í starfi, en flugvallarstjórinn hafi gert þetta vegna bágrar heilsu kæranda. Kærandi hafi ekki þegið starfið sem henni hafi staðið til boða. Síðasta óvinnufærnisvottorðið sem kærandi hafi skilað inn hafi kveðið á um að hún væri óvinnufær til 15. júlí 2006.

Kærandi hafi sent flugvallarstjóranum tölvupóst 20. júlí 2006 þar sem hún hafi sagst vera sátt við að ljúka málinu með því að gera samning um starfslok sem skyldi gilda til áramóta. Kærandi hafi síðan sagt að það væri vegna veikinda hennar og breyttra aðstæðna sem slíkt samkomulag yrði gert, en af þessum tölvupósti sé ljóst að kærandi hafi kosið að láta af störfum. Þrátt fyrir að kærandi hafi samkvæmt síðasta óvinnufærnisvottorðinu sem hún skilaði inn átt að vera orðin vinnufær hafi verið ljóst að kærandi hafi ekki haft áhuga á því að starfa áfram hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Hafa beri í huga að á þessum tíma hafi verið gríðarlegt álag á allri starfsemi stofnunarinnar vegna brotthvarfs varnarliðsins og hafi forgangsverkefni verið að tryggja snurðulausa yfirfærslu flugtengdra verkefna varnarliðsins til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar en síðasti varnarliðsmaðurinn hafi horfið af landi brott 30. september 2006. Eftir þá dagsetningu hafi allur rekstur flugvallarins verið á ábyrgð Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.

Í framhaldi af áðurnefndum tölvupósti kæranda, dags. 20. júlí 2006, hafi Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar gert drög að samkomulagi við kæranda, dags. 23. ágúst 2006. Drögin hafi tekið mið af óskum kæranda eins og hún hafi sett þær fram í tilvitnuðum tölvupósti. Þar hafi komið fram að kærandi fengi laun til áramóta og að hún léti af störfum að eigin ósk. Kærandi hafi síðan komið í stofnunina í ágúst 2006 og kvatt alla, en hún hafi hins vegar ekki skrifað undir samkomulagið. Kærandi hafi ekki komið aftur til starfa og ekki skilað inn óvinnufærnisvottorðum og einfaldlega horfið frá störfum. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi þó litið svo á að samkomulagsdrögin, dags. 23. ágúst 2006, væru í gildi. Kærandi hafi því fengið greidd laun frá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar til áramóta 2006-2007 og hafi kærandi ekki gert neinar athugasemdir við það. Flugvallarstjórinn hafi síðan fengið tölvupóst kæranda þann 21. desember 2006 þar hún hafi þakkað honum fyrir alla hjálpina gegnum tíðina og sérstaklega „þetta ár í veikindum mínum“.

Næst hafi flugvallarstjórinn fengið tölvupóst frá kæranda 9. mars 2007 en þá hafi kærandi ekki verið lengur á launum hjá stofnuninni. Þar hafi kærandi kvartað undan því að henni hefðu ekki verið þökkuð störf og fleira. Þeim tölvupósti hafi verið svarað samdægurs. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi síðan borist bréf frá lögmanni fyrir hönd kæranda, dags. 5. júlí 2007. Í bréfinu hafi verið óskað eftir viðræðum um skaðabætur kæranda til handa. Þar sem bréfið hafi borið með sér að bréfritari hafi ekki verið upplýstur um staðreyndir málsins hafi lögmanninum verið tilkynnt að hann myndi fá sent afrit af greinargerð þessari og fylgigögnum.

Í kæru sinni til kærunefndar jafnréttismála haldi kærandi því fram að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi brotið gegn lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að bjóða henni lakari starfslokasamning en tveir karlmenn, sem hafi starfað hjá Flugmálastjórninni, hafi fengið en því sé hafnað af hálfu Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. Kæranda hafi verið fullkunnugt um þá samninga sem hún vísi til, en þeir hafi verið gerðir við tvo starfsmenn sem hafi verið komnir nálægt eftirlaunaaldri, en með þeim hafi verið samið við viðkomandi starfsmenn um tiltekin fjarvinnsluverkefni. Þeim hafi því verið gert kleift að ljúka starfsævinni með rólegum hætti með því að vinna heiman frá sér síðustu mánuðina í starfi. Allt aðrar aðstæður hafi verið hjá kæranda sem hafi sjálf óskað eftir því að láta af störfum, hafi hafnað boði um annað starf og hafi einfaldlega ekki mætt til starfa þegar hún átti samkvæmt óvinnufærnisvottorði að vera orðin vinnufær. Í samræmi við óskir kæranda hafi henni verið greidd laun til áramóta 2006-2007. Þeir samningar sem kærandi vísi til séu á engan hátt sambærilegir við starfslokasamning þann sem henni hafi verið boðinn. Þá veki það athygli að kærandi sem hafi þekkt vel til samninganna við karlmennina tvo skuli hafa látið rúma tíu mánuði líða frá því að henni hafi verið send samkomulagsdrögin, sem hafi verið í samræmi við óskir hennar sjálfrar, þar til hún kærði málið til kærunefndar jafnréttismála. Þá sé það athyglisvert að hún hafi látið sex mánuði líða frá því að síðasta launagreiðsla frá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar barst henni og þar til kæran var send.

Starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar hafi á þeim tíma sem um ræði ekki snúist um mál kæranda, hvorki um það að koma henni úr starfi né að koma í veg fyrir að hún nýtti veikindarétt sinn. Starfsemi Flugmálastjórnarinnar hafi snúist um það að taka við þeim verkefnum sem stofnunin hafi orðið að taka við frá varnarliðinu og tryggja áframhaldandi rekstur Keflavíkurflugvallar. Það hafi alls ekki verið um neinar úthugsaðar og skipulagðar aðgerðir að ræða gagnvart kæranda.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar ítrekar að lög nr. 96/2000 hafi ekki verið brotin gagnvart kæranda.

  

V.

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 14. gr. laganna skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og skulu þau viðmið sem liggja til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Með kjörum er, auk launa, átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Í máli þessu er deilt um hvort Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við starfslok þriggja starfsmanna stofnunarinnar, kæranda annars vegar og tveggja karla hins vegar.

Fyrir liggur að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar gerði samninga við tvo karlmenn sem komnir voru að lokum starfsævi sinnar fyrir aldurs sakir. Í þeim samningum var kveðið á um launagreiðslur í tilgreindan mánaðarfjölda án viðveru á vinnustað en gegn vinnslu fjarvinnsluverkefna og fleira í tilviki annars þeirra. Í tilviki hins var slíkt samkomulag um fjarvinnsluverkefni undanfari starfslokasamnings. Kærandi, sem var tæplega fertug, varð fyrir heilsubresti í febrúarmánuði 2006 sem leiddi til starfsloka hennar í lok þess sama árs en þá hafði hún fengið greidd laun frá miðju sumri án vinnuskyldu. Um sumarið var henni boðið að láta af störfum sem hún þáði. Henni voru boðin þessi starfslok gegn greiðslu launa til áramóta. Kærandi ritaði ekki undir samkomulag þar að lútandi en hafði heldur ekki uppi frekari kröfur utan þess að hún óskaði eftir því að fá jafnframt greidd áunnin orlofslaun til viðbótar. Mál þetta er lagt fyrir kærunefnd jafnréttismála á þeim grunni að um mismunun við starfslok kæranda og karlanna hafi verið að ræða. Við úrlausn þess gerist ekki þörf að leysa úr þeim ágreiningi sem kann að vera með málsaðilum um tildrög brotthvarfs kæranda úr starfi eða hvort á kæranda hefur hallað í kjarasamningsbundinni réttindanautn vegna veikindaforfalla.

Til úrlausnar er hvort gert hafi verið á annan og lakari hátt við kæranda vegna starfsloka heldur en áðurnefnda karlmenn. Í málatilbúnaði aðila er því lýst að karlmenn þessir hafi þegið laun mun lengur heldur en kæranda stóð til boða án viðveru á vinnustað.

Fallast verður á það með Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar að aðstæður við brotthvarf þessara karla úr starfi annars vegar og kæranda hins vegar hafi ekki verið sambærilegar. Þeirra starfslok komu til í lok starfsaldurs þeirra en hennar í kjölfar veikindaforfalla. Þá var samið við karlana um að sinna störfum tiltekinn hluta þess tímabils sem starfslokasamningar þeirra tóku til en svo háttaði ekki til um starfslok kæranda. Jafnframt verður ekki framhjá því litið að kærandi féllst á að láta af störfum í júlí 2006 og fékk greidd laun til ársloka 2006. Hafa engin gögn verið færð fram því til stuðnings að starfslokin hafi verið knúin fram með ólögmætum hætti eða að kærandi hafi á sumarmánuðum 2006 verið ófær um að afráða um hagsmuni sína í þessum efnum en á þeim tíma var henni jafnframt kunnugt um þau starfslokakjör sem títtnefndir karlar nutu. Því verður ekki talið að rekja megi þann mun, er var á milli starfsloka kæranda og þeirra tveggja karla sem hún ber sig saman við, til kynferðis kæranda.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ekki teljist hafa verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í máli þessu.

Afgreiðsla máls þessa hefur dregist vegna starfsanna nefndarmanna. 

  

Björn L. Bergsson

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum