Hoppa yfir valmynd
27. desember 2007 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/2007

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 5/2007:

A

gegn

Háskólanum á Akureyri

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 27. desember 2007 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 26. júní 2007, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort launagreiðslur til kæranda, sem námsráðgjafa hjá Háskólanum á Akureyri, fælu í sér mismunun sem bryti í bága við ákvæði laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Háskólanum á Akureyri með bréfi, dags. 3. júlí 2007, og var óskað eftir því að umsögn skólans um kæruna bærist kærunefnd jafnréttismála fyrir 17. júlí 2007. Með tölvubréfi, dags. 5. júlí 2007, óskaði Háskólinn á Akureyri eftir framlengingu á fresti til þess að skila inn umsögninni vegna sumarleyfa starfsmanna skólans og var umræddur frestur framlengdur til 10. ágúst 2007. Umsögn Háskólans á Akureyri barst með bréfi, dags. 26. júlí 2007, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri.

Athugasemdir kæranda við umsögn Háskólans á Akureyri bárust með bréfi, dags. 13. ágúst 2007, og voru þær sendar Háskólanum á Akureyri til kynningar með bréfi, dags. 17. ágúst 2007.

Með tölvubréfi, dags. 1. október 2007, óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir upplýsingum og gögnum frá Háskólanum á Akureyri vegna meðferðar málsins fyrir nefndinni. Óskað var eftir starfslýsingum vegna þeirra starfa sem þeir tveir karlmenn er kærandi ber sig saman við gegndu áður en þeir voru færðir til í starfi. Einnig var óskað eftir upplýsingum um hvert stöðuheiti umræddra karlmanna var í eldra starfi, hvenær þeir voru færðir til, hvaða launaflokki þeir tilheyrðu og hve margir fastir yfirvinnutímar fylgdu eldra starfi. Enn fremur var óskað eftir starfslýsingum vegna núverandi starfa umræddra karlmanna. Umbeðin gögn og upplýsingar, fyrir utan starfslýsingar, bárust kærunefnd jafnréttismála með tölvubréfi, dags. 3. október 2007, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við þær á framfæri.

Með tölvubréfi, dags. 25. október 2007, óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir nánari upplýsingum frá Háskólanum á Akureyri. Óskað var eftir upplýsingum um ástæður þess að breytingar urðu á störfum þeirra tveggja karlmanna sem kærandi ber sig saman við og í hverju breytingarnar fólust hvað annan karlmanninn varðar. Þá var aftur óskað eftir starfslýsingum á núverandi störfum umræddra karlmanna. Umbeðin gögn og upplýsingar bárust kærunefnd jafnréttismála með tölvubréfi, dags. 2. nóvember 2007, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við þær á framfæri.

Með tölvubréfi, dags. 15. nóvember 2007, bárust athugasemdir kæranda við ofangreind gögn og upplýsingar frá Háskólanum á Akureyri og voru þær sendar skólanum til kynningar með bréfi, dags. 19. nóvember 2007.

Með tölvubréfum, dags. 23. og 27. nóvember 2007 kom kærandi að frekari athugasemdum vegna málsins og voru þær sendar Háskólanum á Akureyri til kynningar með tölvubréfi, dags. 27. nóvember 2007. Háskólanum á Akureyri var jafnframt á ný sent bréf kæranda, dags. 13. ágúst 2007, til kynningar með tölvubréfi, dags. 27. nóvember 2007, þar sem að í ljós kom að bréfið mun hafa misfarist innan skólans eftir móttöku þess í ágúst 2007.

Athugasemdir Háskólans á Akureyri við áður fram komnar athugasemdir kæranda bárust með tölvubréfi, dags. 3. desember 2007, og voru þær sendar kæranda til kynningar með tölvubréfi, dags. 4. desember 2007. Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

Við meðferð málsins voru lögð fyrir kærunefnd jafnréttismála gögn sem varða laun tiltekinna starfsmanna Háskólans á Akureyri. Í samræmi við 4. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, tilkynnti kærunefndin umræddum starfsmönnum með bréfi, dags. 19. október 2007, að upplýsingar sem þá varða hefðu verið veittar nefndinni og að fyllsta trúnaðar yrði gætt við meðferð upplýsinganna.

Það athugast að með bréfi, dags. 19. desember 2007, var kæranda sent bréf þar sem gerð var grein fyrir afstöðu nefndarinnar til afmörkunar kæruefnisins.

Úrlausn máls þessa hefur tafist hjá kærunefnd jafnréttismála, meðal annars vegna tafa við gagnaöflun og umfangs hennar.

II.

Málavaxtalýsing

Kærandi starfar sem námsráðgjafi við kennslusvið Háskólans á Akureyri og hefur gert það síðan 1. september 1995. Kærandi hefur þegið laun samkvæmt tilteknum launaflokki og hefur fengið greiðslu fyrir unna yfirvinnu upp að vissu marki. Við kennslusvið Háskólans á Akureyri starfar S sem er sérfræðingur í upplýsingakerfum. Við fjármála-, starfsmanna- og rekstrarsvið starfar annar karl, E, sem kerfisstjóri. Báðir þessir karlar fá hærri laun en kærandi. Stöðum kæranda og framangreindra karla er skipað með sambærilegum hætti í skipuriti Háskólans á Akureyri. Stöður kæranda og S heyra undir forstöðumann kennslusviðs en staða E undir forstöðumann fjármála-, starfsmanna- og rekstrarsviðs. Stöðurnar heyra allar undir háskólaskrifstofu en yfirmaður hennar er framkvæmdastjóri Háskólans á Akureyri.

Kærandi telur sér vera mismunað í launakjörum sem námsráðgjafi við Háskólann á Akureyri sökum þess að ofangreindir tveir karlmenn sinni jafnverðmætum og sambærilegum störfum og kærandi við skólann en fái greidd hærri laun en hún. Kærandi vísar meðal annars til að staða hennar sé á sama stað í skipuriti Háskólans á Akureyri og stöður umræddra karlmanna. Jafnframt sé eðli starfanna mjög líkt. Kærandi telur að um óútskýrðan kynbundinn launamun sé að ræða sem brjóti gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Háskólinn á Akureyri hafnar því að kærandi sæti mismunun í launakjörum. Staða í skipuriti hafi ekki áhrif á ákvörðun um laun enda sé skipuritið lýsing á ábyrgðarlínum en ekki launaviðmiðum. Báðir starfsmennirnir sem kærandi beri sig saman við hafi verið færðir til í starfi án þess að þáverandi launakjör þeirra hafi verið skert, en þeir hafi gegnt stjórnunarstörfum fyrir tilfærsluna. Þá sé það skoðun og stefna Háskólans á Akureyri að laun starfsmanna hans séu sambærileg og starfsmanna annarra ríkisháskóla. Háskólinn á Akureyri hafi því litið svo á að laun námsráðgjafa við skólann ættu að vera sambærileg við laun námsráðgjafa við Háskóla Íslands.

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er byggt á því að tveir karlmenn sem sinni jafnverðmætum og sambærilegum störfum og kærandi við Háskólann á Akureyri fái greidd hærri laun en hún. Kærandi telur að hún sé beitt óútskýrðum kynbundnum launamun og að með því sé brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi unnið við námsráðgjöf við Háskólann á Akureyri frá 1. september 1995. Kærandi hafi fyrst verið í hlutastarfi auk annarra viðbótarstarfa, en frá 1. september 1999 hafi hún gegnt fullu starfi. Þegar starf námsráðgjafa hafi verið auglýst laust til umsóknar hafi meðal annars verið gerð krafa um að umsækjendur hefðu háskólamenntun á sviði námsráðgjafar. Kærandi sé með M.Sc.-gráðu frá Syracuse University, Syracuse, New York.

Starf námsráðgjafa sé umfangsmikið og taki til margra mismunandi þátta. Kærandi hafi verið eini námsráðgjafinn við Háskólann á Akureyri frá því að til starfsins var formlega stofnað. Þau ár sem kærandi hafi unnið hjá Háskólanum á Akureyri hafi hún því borið ábyrgð á að þróa og vinna allt það faglega starf sem fram fari undir merkjum námsráðgjafar við skólann. Auk þess sem standi í starfslýsingu námsráðgjafa við Háskólann á Akureyri hafi kæranda verið falin ýmis önnur störf af yfirmönnum sínum. Þannig hafi kærandi tekið þátt í ýmsum nefndarstörfum á vegum Háskólans á Akureyri á hartnær 12 ára starfstíma sínum. Kærandi hafi meðal annars verið í nefnd sem samdi jafnréttisstefnu Háskólans á Akureyri og nefnd sem samdi stefnu um aðgengi fatlaðra nemenda og starfsfólks að skólanum. Um hríð hafi hún skrifað og staðið fyrir útgáfu á innanhússfréttablaði auk þess sem hún hafi tekið þátt í ýmsum stjórnsýslu- og þróunarstörfum sem tilheyri kennslusviði og stjórnsýslu Háskólans á Akureyri almennt. Kærandi hafi jafnframt gegnt trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélag sitt, Félag háskólakennara á Akureyri, en félagið sé aðili að Bandalagi háskólamanna.

Skipurit Háskólans á Akureyri sé stjórnsýslulegt og ekki hafi farið fram önnur röðun starfanna með tilliti til verðmætis og sambærileika en sú sem komi fram í skipuritinu. Þeir karlmenn sem kærandi beri sig saman við séu á sama stað og kærandi í skipuritinu. Annars vegar sé um að ræða E, kerfisstjóra. Hann fái greidd laun eftir samningi Háskólans á Akureyri við Starfsmannafélag ríkisstofnana. Launaflokkur hans sé X og dagvinnulaun hans Y krónur á mánuði. Hann hafi 15 fasta yfirvinnutíma á mánuði sem gefi Z krónur og sé því með Þ krónur í heildarlaun á mánuði. Hér sé um að ræða föst laun fyrir dagvinnu og fasta yfirvinnu. Hins vegar sé um að ræða S, sérfræðing í upplýsingakerfum. Hann fái greidd laun eftir samningi Háskólans á Akureyri við Félag háskólakennara á Akureyri. Launaflokkur hans sé Æ og heildarlaun hans Ö krónur á mánuði. Hann hafi 25 fasta yfirvinnutíma á mánuði sem gefi R krónur og sé því með T krónur í heildarlaun á mánuði. Hér sé um að ræða laun fyrir dagvinnu og fasta yfirvinnu. Kærandi, sem sé með menntun til að sinna starfi námsráðgjafa og hafi unnið hjá Háskólanum á Akureyri í nær 12 ár, sé í launaflokki Y og sé með U krónur í laun á mánuði sem séu eingöngu dagvinnulaun. Kærandi hafi 15 tíma yfirvinnuþak fyrir unna yfirvinnu. Laun kæranda fari eftir kjarasamningi Félags háskólakennara á Akureyri við Háskólann á Akureyri.

Kærandi telur að staða hennar sem námsráðgjafi sé sambærileg og jafnverðmæt stöðum kerfisstjóra og sérfræðings í upplýsingakerfum. Stöðurnar séu allar jafnsettar í skipuriti Háskólans á Akureyri. Þær falli undir háskólaskrifstofu en yfirmaður hennar sé framkvæmdastjóri Háskólans á Akureyri. Staða kerfisstjóra tilheyri fjármála-, starfsmanna- og rekstrarsviði en stöður námsráðgjafa og sérfræðings í upplýsingakerfum tilheyri kennslusviði. Sviðin hafi sinn sviðsstjórann hvort sem heyri beint undir framkvæmdastjóra. Eðli starfanna sé einnig mjög líkt þó þau tilheyri mismunandi fræðasviðum. Vænta megi þess að í öllum störfunum séu gerðar kröfur um einhvers konar sérfræðiþekkingu. Sérfræðikröfur til námsráðgjafa séu þó skýrar hvað formlega menntun varðar en óljóst sé hvaða kröfur séu gerðar til hinna starfanna. Í engu þessara starfa sé bein stjórnunarskylda nema sú sem lúti að faglegri stjórnun hvers starfs um sig. Ekkert starfanna feli í sér ábyrgð á fjármunum. Kærandi telur ekkert réttlæta það að umræddir karlmenn séu með hærri laun en hún, hvorki menntun, starfsaldur, kjarasamninga né annað.

Að sögn kæranda hefur hún um langa hríð verið óánægð með laun sín hjá Háskólanum á Akureyri og ítrekað reynt að ræða launamál sín við yfirmenn sína. Kærandi hafi á vormánuðum 2006 farið fram á það við yfirstjórn Háskólans á Akureyri að fá formlegt launaviðtal, en án árangurs. Kærandi hafi því ákveðið að bíða komu nýráðins framkvæmdastjóra til að ræða um launamál sín. Á fundi sem kærandi hafi átt með framkvæmdastjóra Háskólans á Akureyri skömmu eftir að hann kom til starfa vorið 2006 hafi hann vísað til þess að í gangi væru viðræður við Félag háskólakennara á Akureyri, meðal annars um að taka hugsanlega upp framgangs- og starfamatskerfið SKREF.

Kærandi hafi þann 26. apríl 2007 ritað framkvæmdastjóra Háskólans á Akureyri tölvupóst en í framhaldi af honum hafi verið haldnir tveir fundir, sá fyrri þann 11. maí 2007, en fyrir fundinn hafi kærandi fengið upplýsingar frá launafulltrúa Háskólans á Akureyri um laun 15 karlmanna sem séu á sama stað og kærandi í skipuriti því sem gildir fyrir skólann. Á fundinum hafi verið rætt um mismun á launum kæranda og tveggja af þeim sjö karlmönnum sem hafi haft hærri laun en kærandi. Nánar tiltekið hafi verið rætt um E, kerfisstjóra, og S, sérfræðing í upplýsingakerfum. Báðir þessir karlmenn hafi áður gegnt öðrum stöðum við Háskólann á Akureyri og við flutning í núverandi stöður hafi þeir samið um að launum þeirra yrði ekki breytt. Báðir þessir karlmenn séu með minni menntun en kærandi og séu auk þess með styttri starfsaldur hjá Háskólanum á Akureyri en kærandi.

Eftir að launafulltrúi og framkvæmdastjóri höfðu farið nokkuð nákvæmlega yfir röðun starfa í launaflokka og ýmsar breytingar á launakerfi Háskólans á Akureyri í gegnum tíðina hafi það staðið upp úr að þessir tveir karlmenn höfðu gert samning um óbreytt laun er stöður þeirra breyttust.

Síðari fundurinn hafi verið haldinn þann 30. maí 2007. Með vísan til fyrri fundar hafi kærandi haft þann skilning að á síðari fundinum yrði málið rætt á grundvelli laga nr. 96/2000. Ekki fékkst niðurstaða á fundinum hvað það varðar og leitaði kærandi því til kærunefndar jafnréttismála vegna ágreinings þessa.

Að því er varðar gögn og upplýsingar sem kærunefnd jafnréttismála fékk frá Háskólanum á Akureyri tekur kærandi fram að hún dragi í efa að starfssvið kerfisstjóra hafi ekki breyst frá því hann var ráðinn í janúar 2000. Undanfarin misseri hafi starfsfólk Háskólans á Akureyri fengið ýmsar tilkynningar frá yfirstjórn skólans um breytingar á starfssviði kerfisstjóra og að starfsfólki bæri að leita til annarra greina í stoðþjónustu með ósk um aðstoð sem áður hafi verið leitað til kerfisstjóra með. Kærandi telur enn fremur að það megi að minnsta kosti leiða líkur að því að með örum vexti Háskólans á Akureyri á þessum tíma, þ.e. frá árinu 2000, og tíðum breytingum í skipulagi stoðþjónustu að starfssvið kerfisstjóra hafi breyst.

Í umræddum gögnum og upplýsingum frá Háskólanum á Akureyri komi einnig fram að S, sérfræðingur í upplýsingakerfum, haldi sömu launum og hann hafði sem framkvæmdastjóri kennslusviðs. Kærandi vill í því sambandi benda á að starf sérfræðings í upplýsingakerfum sé nú skýrt skilgreint í skipuriti Háskólans á Akureyri. Starf sérfræðings í upplýsingakerfum heyri undir framkvæmdastjóra kennslusviðs og sé á nákvæmlega sama stað í skipuriti Háskólans á Akureyri og starf kæranda. Sérfræðingi í upplýsingakerfum hafi því verið raðað á sama stað í launakerfi Háskólans á Akureyri og þeirri konu sem tekið hafi við starfi hans sem framkvæmdastjóri kennslusviðs frá upphafi þess að hann tók við stöðu sérfræðings í upplýsingakerfum. Auk þessa haldi hann fastri yfirvinnu framkvæmdastjóra kennslusviðs við breytinguna eða 25 tímum á mánuði. Kærandi furðar sig á þeim stjórnarháttum að hafa starfsmann í fullu starfi við stofnunina í fjögur ár á sömu launum og yfirmaður hans. Kærandi dregur lögmæti slíkrar stjórnsýslu í efa.

Kærandi telur, eftir yfirferð gagna og upplýsinga frá Háskólanum á Akureyri, að skólinn mismuni starfsfólki sínu í launum eftir kyni.

IV.

Sjónarmið Háskólans á Akureyri

Háskólinn á Akureyri hafnar því í umsögn sinni að kærandi sæti mismunun í launagreiðslum. Rök kæranda fyrir því að hún sæti mismunun byggi á þeirri forsendu að hún sinni starfi sem sé jafnverðmætt og starf kerfisstjóra og sérfræðings í upplýsingakerfum en í erindi kæranda sé nákvæmlega tilgreint hver séu laun þessara tveggja starfsmanna Háskólans á Akureyri og séu þau umtalsvert hærri en laun kæranda. Sú skoðun kæranda að þessi störf séu jafn verðmæt byggist á tvennu. Í fyrsta lagi að þau séu á sama stað í skipuriti og í öðru lagi að þau geri sambærilegar kröfur um hæfni og menntun.

Staða í skipuriti hafi ekki áhrif á ákvörðun launa enda sé skipuritið lýsing á ábyrgðarlínum en ekki launaviðmiðunum. Ekki sé deilt um að kærandi fái laun eftir löglegum kjarasamningi heldur einungis um hvort hún ætti að njóta sambærilegra kjara við þá sem hún kjósi að miða sig við. Það hafi verið skoðun og stefna Háskólans á Akureyri að laun starfsmanna hans séu sambærileg og starfsmanna annarra ríkisháskóla, þannig eigi laun námsráðgjafa við skólann að vera sambærileg við laun námsráðgjafa við Háskóla Íslands. Viðmiðunarhópurinn séu námsráðgjafar en ekki starfsmenn á sviði tölvu- og upplýsingamála.

Launakjör þeirra sem starfi við tölvu- og upplýsingamál við Háskóla Íslands séu til dæmis ekki þau sömu og námsráðgjafanna við sama skóla, ekki frekar en við Háskólann á Akureyri. Samkvæmt nýja starfsmatskerfinu sem og því gamla raðist starf kerfisstjóra hærra en námsráðgjafa. Þess megi geta að báðir starfsmennirnir sem kærandi beri sig saman við hafi verið færðir til í starfi án þess að þáverandi launakjör þeirra hafi verið skert, en báðir hafi þeir gegnt stjórnunarstörfum fyrir tilfærsluna. Í öðru tilfellinu hafi kona verið ráðin í stað karls og hún fengið sömu laun og karlinn hafði.

V.

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 14. gr. laganna skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og skulu þau viðmið sem liggja til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Fyrir liggur í máli þessu að kærandi sættir sig ekki við launaflokkaröðun og mismunandi launagreiðslur til sín annars vegar og tveggja tilgreindra karlkyns starfsmanna Háskólans á Akureyri hins vegar. Telur kærandi að þeir gegni störfum sem séu jafnverðmæt og sambærileg starfi hennar hjá Háskólanum á Akureyri. Vísar kærandi í því sambandi meðal annars til skipurits Háskólans á Akureyri en kærandi telur að samkvæmt því séu umræddar stöður jafnsettar. Að auki byggir kærandi á því að eðli starfanna sé líkt þó þau heyri undir mismunandi fræðasvið innan Háskólans á Akureyri. Gerðar séu svipaðar kröfur til starfanna en öll krefjist þau sérfræðimenntunar. Kærandi telur að störfin séu jafnsett að því er varðar stjórnunarskyldu. Telur kærandi að umræddur launamunur verði ekki réttlættur með málefnalegum og hlutlægum hætti, þ.m.t. vegna menntunar, starfsaldurs eða annars. Kærandi telur að um kynbundinn launamun sé að ræða.

Fyrir liggur að karlar þeir sem kærandi ber sig saman við voru báðir ráðnir til Háskólans á Akureyri til að gegna störfum sem þá höfðu aðra stöðu innan skipurits skólans en síðar varð. Annars vegar var um að ræða stöðu kerfisstjóra sem heyrði undir framkvæmdastjóra skólans, síðan undir forstöðumann samskiptasviðs og nú undir fjármála-, starfsmanna- og rekstrarsvið. Hins var um að ræða stöðu framkvæmdastjóra kennslusviðs, en sá gegnir nú starfi sérfræðings í upplýsingakerfum.

Í umsögn Háskólans á Akureyri til kærunefndarinnar er fullyrt að báðir umræddir karlmenn, sem kærandi ber sig saman við, hafi verið færðir til í starfi, sbr. að ofan, án þess að launakjör þeirra hafi verið skert en báðir hafi þeir gegnt stjórnunarstörfum fyrir tilfærsluna.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að nægilega sé fram komið í máli þessu að mismunur sá sem er á kjörum kæranda annars vegar og þeirra tveggja karla sem hún ber sig saman við hins vegar megi rekja til þess að umræddir karlar voru upphaflega ráðnir til annarra starfa hjá Háskólanum á Akureyri og að kjör þeirra leiði af þeirri stöðu mála. Þegar af þessari ástæðu er á það fallist af hálfu kærunefndar jafnréttismála, eins og hér stendur á, að af almennum sjónarmiðum á sviði vinnuréttar og þeim takmörkunum sem vinnuveitandi hefur á einhliða breytingum á launakjörum starfsmanna í starfi, að málefnalegar ástæður þyki skýra þann launamun sem kærandi vísar til í máli þessu. Af því leiðir að líta verður svo á að umræddur launamunur skýrist af öðrum þáttum en kynferði, sbr. til hliðsjónar álit kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 2/2001.

Með vísan til framangreinds þykir Háskólinn á Akureyri ekki hafa brotið gegn lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása ÓlafsdóttirEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira