Hoppa yfir valmynd
14. mars 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 4/2008. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála: Félag sjálfstætt starfandi arkitekta gegn Umhverfisráðuneytinu og Vatnajökulsþjóðgarði

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 25. febrúar 2008

í máli nr. 4/2008:

Félag sjálfstætt starfandi arkitekta

gegn

Umhverfisráðuneytinu og Vatnajökulsþjóðgarði

        

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2008, bar Félag sjálfstætt starfandi arkitekta kæru undir kærunefnd útboðsmála, f.h. eftirtalinna félaga: Arkitektar Hjördís & Dennis ehf., Arkis ehf., Kanon arkitektar ehf., Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Skapa & Skerpa arkitektar ehf., Teiknistofan ehf., Teiknistofan Tröð ehf., VA arkitektar ehf. og Vinnustofan Þverá ehf.

Kærð var tilhögun útboðs nr. 14426 – Vatnajökulsþjóðgarður, Gestastofa á Skriðuklaustri, hönnunarsamkeppni. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Þess er krafist, með vísan til 97. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi þann hluta keppnislýsingar (skilmála) um gestastofu á Skriðuklaustri, útboð nr. 14426, er fellur undir grein 4.3. Þóknun hönnuða, í keppnislýsingunni.

 

Til vara er þess krafist að kærunefndin úrskurði ógilda samkeppnislýsingu, útboð nr. 14426 Vatnajökulsþjóðgarður Gestastofa á Skriðuklaustri.

 

Þá er þess krafist, með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar hönnunarsamkeppnina og stöðvi að gengið verði til samninga við vinningshafa á grundvelli samkeppnislýsingarinnar þar til endanlega hefur verið úrskurðað í máli þessu.

 

Loks krefst kærandi þess, með vísan til 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, að kærunefnd útboðsmála ákveði að umhverfisráðuneytið og Vatnajökulsþjóðgarður greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi. Er áskilinn réttur til að leggja fram gögn um þann kostnað kæranda á síðari stigum.“

           

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Með bréfi kærða, dags. 18. febrúar 2008, krafðist kærði þess að hafnað yrði kröfu um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva innkaupaferli.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Hinn 15. janúar 2008 auglýsti kærði útboð nr. 14426, Vatnajökulsþjóðgarður, Gestastofa á Skriðuklaustri, hönnunarsamkeppni. Í „samkeppnislýsingu“ segir að keppendur eiga að gera tillögu að gestastofu (meginstarfstöð/þjónustumiðstöð) á Skriðuklaustri en auk þess „að sýna hugmyndir höfunda að ímynd (minni) og tengingu milli allra stofanna fjögurra“. Þá segir að eftirtalin atriði verði þungvæg við mat dómnefndar á úrlausnum:

„a) Listræn úrlausn – góð og sannfærandi byggingarlist.

b) Samræming hlutverks og umhverfis – að húsið svari aðstæðum.

c) Fyrirkomulag – tenging rýma og uppfylling rýmisáætlunar.

d) Efnisval – varanleiki og lágmörkun viðhalds.

e) Hagkvæmni – gætt sé hófs í stofn og rekstrarkostnaði.

f) Aðlögunarhæfni – breytanleiki og stækkunarmöguleikar.

g) Hugmyndir hönnuða um augljósa tengingu (minni) stofanna fjögurra, texti (skýringarmyndir - riss)“

 

Verðlaun verða veitt fyrir efstu þrjú sætin í samkeppninni, alls kr. 4.000.000 án virðisaukaskatts. Kærði fer fram á „að tillöguhöfundar myndi hönnunarhóp um tillöguna sem samanstendur af þeim hönnuðum sem að verkinu koma t.d. arkitektum, verkfræðingum, landslagsarkitektum, innanhúss­hönnuðum og/eða sýningar­hönnuðum. Eiginleg hönnun sýningar er þó ekki hluti af verkinu.“ Þá kemur fram að vinningshafi fyrstu verðlauna verði ráðinn til fullnaðarhönnunar gestastofu á Skriðuklaustri og að þóknun til hönnunarhópsins fyrir fullnaðarhönnun verksins skuli vera alls kr. 13.500.000 án virðisaukaskatts.

 

II.

Kærandi telur að af athugasemdum með frumarpi sem varð að lögum nr. 84/2007 megi ráða að hönnunarsamkeppni sé ekki eiginlegt innkaupaferli og sé því ekki aðferð við opinber innkaup. Telur kærandi að kærði brjóti þannig gegn lögum um opinber innkaup með því að fastsetja verð fyrir þjónustu arkitekta, verkfræðinga, landslagshönnuða og fleiri einhliða og án beinna tengsla við það verkefni sem þjónustan lýtur að. Kærandi segir að sú þjónusta sem felist í fullnaðarhönnun gestastofunnar sé útboðsskyld samkvæmt lögum um opinber innkaup og hönnunarsamkeppni komi ekki í stað þeirra innkaupaaðferða sem lögin heimila. Þá telur kærandi að skylt sé að efna til samningskaupa í kjölfar hönnunarsamkeppninnar.

 

III.

Kærði segir að kærandi hafi eingöngu sett fram lagarök er varði efnishlið málsins en til þess að samningsgerð verði stöðvuð skipti máli hvort einhverjir óafturkræfir hagsmunir færu forgörðum við það að halda samningsferlinu áfram. Telur kærði að niðurstaða kærumálsins breyti engu um það hvers sé ætlast til af þátttakendum til að undirbúa og setja fram tillögur sínar. Þá telur kærði að þar sem skilafrestur tillagna sé til 2. apríl 2008 sé fullljóst að hægt sé að halda samkeppninni áfram þrátt fyrir meðferð kærumálsins.

 

IV.

Mál þetta lýtur að því hvort heimilt sé að ákveða fyrir fram það verð sem kaupandi mun greiða fyrir keypta þjónustu á fullnaðarhönnun vinningstillögu í hönnunar­samkeppni. Hin kærða hönnunarsamkeppni er í raun hluti af samningskaupa­ferli samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Þar sem kaupandi hefur skuldbundið sig til að semja um þjónustuna við sigurvegara hönnunarsamkeppninnar er því rétt að líta heildstætt á keppnina og eftirfarandi samningskaup.

Kaupendum er almennt játað nokkuð svigrúm við ákvörðun um það hvaða forsendur þeir leggja til grundvallar mati á tilboðum. Í 1. mgr. 45. gr. laga nr. 84/2007 segir að forsendur fyrir vali tilboðs skulu annaðhvort miðast eingöngu við lægsta verð eða fjárhagslega hagkvæmni frá sjónarhóli kaupanda. Ákvæðið gerir þannig ráð fyrir því að hægt sé að velja tilboð út frá öðrum forsendum en verði. Ýmsar forsendur má leggja til grundvallar vali tilboðs og í ákvæðinu eru í dæmaskyni taldar upp nokkrar  mögulegar forsendur, m.a. tæknilegir eiginleikar, útlit, notkunareiginleikar, umhverfislegir eiginleikar, rekstrarkostnaður og rekstrarhagkvæmni.

Hönnunarsamkeppni sú sem deilt er um í máli þessu er liður í kaupum á þjónustu. Kaupandi hefur skuldbundið sig til þess að ganga til samninga við sigurvegara keppninnar um fullnaðarhönnun vinningstillögu og hefur þegar tekið fram að greiddar verði kr. 13.500.000 fyrir þá þjónustu. Þar sem forsendur fyrir vali tilboðs eru ekki „lægsta verð“ er ekki ólögmætt af kaupanda að gefa fyrirfram upp heildar­kaupverðið. Raunar er það eina leiðin til þess að val á tilboði muni ekki að einhverju leyti ráðast af verði tilboðsins.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, telji nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum. Miðað við fyrirliggjandi gögn telur nefndin ekki verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Félags sjálfstætt starfandi arkitekta, um stöðvun „útboðs nr. 14426 – Vatnajökulsþjóðgarður, Gestastofa á Skriðuklaustri, hönnunarsamkeppni“, er hafnað.

 

Reykjavík, 25. febrúar 2008.

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 25. febrúar 2008.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum