Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 12/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 12/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20120027

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 376/2020, dags. 5. nóvember 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2020, um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Íran (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 9. nóvember 2020. Þann 16. nóvember 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þann 23. nóvember 2020 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigagni. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar í máli KNU20110039, dags. 24. nóvember sl. Þann 14. desember 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 5. nóvember 2020.

II. Málsástæður og rök kæranda

Af greinargerð kæranda má ráða að hann krefjist endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd þar sem hann telji að úrskurður kærunefndar nr. 376/2020 sé haldinn verulegum annmarka. Kærandi telji að meðferð máls hans hafi brotið í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til ákvarðana Útlendingastofnunar í málum nr. 2019-15747, 2019-13672, 2019-03577, 2019-03573 og 2018-10735. Samkvæmt kæranda séu tilvísaðar ákvarðanir sambærilegar máli hans, en um sé að ræða ákvarðanir í málum einstaklinga frá Íran er hafi fengið alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli trúar- og/eða stjórnmálaskoðana.

Kærandi telur óeðlilegt að kærunefnd hafi gert ríkari sönnunarkröfur til hans heldur en Útlendingastofnun hafi gert til umsækjenda í umræddum málum. Samkvæmt kæranda eigi ekki að gera kröfur til umsækjenda um alþjóðlega vernd með þeim hætti að farið sé fram á að þeir styðji frásögn sína með gögnum ef hún fer ekki gegn sérstökum og almennum upplýsingum um heimaríki þeirra, líkt og í tilfelli hans. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til c-liðar 5. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/95/ESB, 42. gr. handbókar um réttarstöðu flóttamanna og úrskurðar kærunefndar frá 14. febrúar 2019 í máli nr. 64/2019.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda þann 5. nóvember 2020. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd tekur fram að tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í máli kæranda. Í úrskurðinum kemur fram að þátttaka kæranda í mótmælum gegn ríkisstjórninni í nóvember 2019 hafi ekki verið dregin í efa. Hins vegar hafi ekki verið ráðið af þeim skýrslum sem kærunefnd kynnti sér að einstaklingar sem ekki hafi gegnt lykilhlutverki í umræddum mótmælum veki sérstakan áhuga yfirvalda vegna þátttöku þeirra í mótmælunum. Engin gögn hafi legið fyrir til stuðnings frásagnar kæranda um að hann sé á sérstakri skrá yfirvalda í heimaríki eða að hans bíði málsókn og fangelsisvist. Þá hafi ekki legið fyrir nein gögn um að lögregla eða önnur yfirvöld í heimaríki hafi haft afskipti af honum áður en hann hafi yfirgefið heimaríki. Frásögn kæranda um að hann sé í hættu í heimaríki sökum þess að yfirvöldum sé kunnugt um þátttöku hans í umræddum mótmælum hafi því ekki verið lögð til grundvallar. Að framangreindu virtu hafi það verið mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á eða leitt líkur að því að hann sé á einhvern hátt eða af öðrum ástæðum í annarri eða verri stöðu vegna stjórnmálaskoðana sinna en aðrir ríkisborgarar í heimaríki hans í sambærilegri stöðu. Þá hafi gögn málsins að öðru leyti ekki bent til þess að kærandi ætti á hættu ofsóknir af því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Kærunefnd telur að ekkert í gögnum málsins eða beiðni kæranda um endurupptöku raski mati nefndarinnar hvað ofangreint varðar.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því sem hann kveður vera óskráða meginreglu um heimild til endurupptöku sé stjórnvaldsákvörðun haldin verulegum annmarka. Eins og rakið hefur verið vísar kærandi aðallega til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar í því sambandi og ákvarðana Útlendingastofnunar þar sem einstaklingum frá Íran var veitt alþjóðleg vernd. Hvað varðar vísun kæranda til ákvarðana Útlendingastofnunar sem hann telur sambærilegar sínu máli þá tekur kærunefnd fram að forsendur og rökstuðningur ákvarðana Útlendingastofnunar eru ekki bindandi fyrir kærunefnd. Jafnframt telur kærunefnd að málsatvik og aðstæður aðila tilvísaðra mála séu ekki sambærileg þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda.

Kærunefnd telur jafnframt að tilvísun kæranda til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 64/2019 frá 14. febrúar 2019 hafi ekki þýðingu fyrir þetta mál. Kærunefnd telur ljóst að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda við stöðu kærenda í framangreindum úrskurði, m.a. þar sem um var að ræða annað heimaríki. Þá var framburður kærenda í því máli studdur trúverðugum gögnum. Að mati kærunefndar getur framangreindur úrskurður því ekki haft fordæmisgildi í máli kæranda.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að rannsókn eða efnislegt mat kærunefndar á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hafi verið ófullnægjandi eða að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar við meðferð máls og ákvarðanatöku.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 5. nóvember 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað. 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum