Hoppa yfir valmynd
24. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Össur hlýtur styrk úr Heimsmarkmiðasjóði til að styðja við fórnarlömb stríðsátakanna í Úkraínu

Heilbrigðistæknifyrirtækið Össur hf. hefur hlotið styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu fyrir verkefni sem fyrirtækið setti nýlega af stað í Úkraínu. Fjöldi aflimaðra í landinu hefur aukist gríðarlega undanfarið vegna stríðsátakanna og mun Össur vinna með úkraínskum sérfræðingum við að útvega fjölda einstaklinga í neyð nauðsynleg stoðtæki.

Össur gefur vörur í verkefnið en styrkurinn, sem nemur 30 milljónum íslenskra króna, verður nýttur til að auka við þjálfun stoðtækjafræðinga og annarra heilbrigðisaðila í Úkraínu. Sérfræðingar Össurar munu leiða kennslu og sérhæfða aðstoð varðandi nýjustu stoðtækjalausnir til handa einstaklingum sem misst hafa útlimi vegna stríðsins. Þekkingin sem af þessu hlýst mun nýtast við að efla stoðtækjaþjónustu í landinu til langframa.

Össur er í samstarfi við góðgerðafélagið Prosthetika ásamt meðlimum Ukraine Prosthetic Assistance Project en bæði félög hafa veitt mannúðaraðstoð í Úkraínu um árabil. Samstarfið mun tryggja að einstaklingar sem misst hafa útlimi sökum stríðsátakanna verði tengdir við stoðtækjafræðinga í Úkraínu sem hafa þekkingu og burði til að setja vörur Össurar á sjúklinga ásamt því að geta veitt áframhaldandi endurhæfingarþjónustu.

„Össur er í einstakri stöðu til að veita mannúðaraðstoð í formi stoðtækja til fórnarlamba stríðsins í Úkraínu,“ sagði Sveinn Sölvason, forstjóri Össurar. „Okkar markmið er að vinna með sérfræðingum í landinu til að auka þekkingu og efla þjálfun þeirra sem koma til með að setja vörur okkar á sjúklinga. Sú sjálfbæra nálgun mun sjá til þess að sjúklingar fái viðeigandi endurhæfingu í sínu nærumhverfi eftir því sem aðstæður leyfa. Við erum afar þakklát utanríkisráðuneytinu fyrir styrkinn úr Heimsmarkmiðasjóðnum en það eflir okkur enn frekar til dáða í þessu mikilvæga verkefni.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir framlag Össurar skipta miklu fyrir þann aukna fjölda aflimaðra í landinu sem ekki hefur aðgang að nauðsynlegum stoðtækjum. „Með því að auka aðgengi að stoðtækjum og efla þjálfun og fræðslu á þessu sviði í Úkraínu er verið að veita mikilvæga mannúðaraðstoð á stríðstímum ásamt því að styðja innviði landsins til langframa. Framlag Össurar mun stuðla að auknum lífsgæðum til handa þeim sem hafa misst útlimi í innrás og ofbeldisverkum Rússlands,“ segir Þórdís Kolbrún.

Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu styður við fyrirtæki sem vilja vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með því að ráðast í samstarfsverkefni í þróunarlöndum. Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna á www.utn.is/atvinnulifogthroun.
  • Margrét Lára Friðriksdóttir og Edda Heiðrún Geirsdóttir frá Össur með Martini Eyjólfssyni ráðuneytisstjóra - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum