Hoppa yfir valmynd
12. júní 2008 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra talar fyrir kraftmeiri aðgerðum í þágu afganskra kvenna

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, talaði sérstaklega fyrir kraftmeiri aðgerðum í þágu kvenna á ráðstefnu alþjóðasamfélagsins um málefni Afganistan sem haldin var í París í dag. Til ráðstefnunnar boðuðu forseti Frakklands, forseti Afganistan og aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Ráðherrar frá 67 ríkjum taka þátt í ráðstefnunni og yfirmenn 17 alþjóðastofnana sem taka þátt í uppbyggingarstarfi í Afganistan.

Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð hafa sammælst um áherslumál sín og afstöðu í sameiginlegu skjali sem liggur fyrir fundinum, þannig að þau tali einni norrænni röddu varðandi ýmis mál sem þau telja nauðsynlegt að alþjóðasamfélagið leggi ríka áherslu á. Áttu utanríkisráðherrar Norðurlandanna í morgun sameiginlega fund með Hamid Karzai, forseta Afganistan þar sem fram fóru opinskáar umræður um ýmis þau vandamál sem afgönsk stjórnvöld standa frammi fyrir, svo sem bága stöðu kvenna, spillingu, og þörfina á bættum stjórnarháttum. Lögðu norrænu ráðherrarnir áherslu á aðgerðir afganskra stjórnvalda til að axla aukna ábyrgð.

Í ræðu sinni staðfestir utanríkisráðherra vilja Íslands til að vinna að uppbyggingu í Afganistan næstu þrjú árin í samræmi við sáttmála alþjóðasamfélagsins og stjórnvalda í Afganistan frá 2006 og nýja þróunaráætlun Afganistan til fimm ára sem kynnt var á fundinum. Þrettán manns starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar í Afghanistan á sviðum þar sem íslensk reynsla og þekking í samfélagslegri uppbyggingu kemur að gagni, s.s. við byggingu vatnsaflsvirkjana, í flugumferðarmálum og í félagslegri ráðgjöf.

Frekari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á hér.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum