Hoppa yfir valmynd
20. september 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samstarfssamningur um Heimilisfrið undirritaður

Ásmundur Einar Daðason og Andrés Proppé - myndVelferðarráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra og Andrés Proppé Ragnarsson, sérfræðingur undirrituðu í dag nýjan samstarfssamning velferðarráðuneytisins og verkefnisins Heimilisfriðs. Gildistími samningsins er eitt ár. 

Heimilisfriður er meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem beita ofbeldi í nánum samböndum sem sálfræðingar hafa veitt um árabil samkvæmt samningi við stjórnvöld, áður undir heitinu Karlar til ábyrgðar. Í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum 2016 – 2019 er kveðið á um endurskoðun starfseminnar sem hafi að markmiði að verkefnið bjóði upp á sérhæfða þjónustu fyrir karla og konur sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum og að efnt verði til útboðs um þjónustuna. Árið 2017 var gengið til samninga við verkefnið Heimilisfrið en þaðan barst eina umsóknin í opnu ferli sem Ríkiskaup höfðu umsjón með fyrir hönd ráðuneytisins.

Gerður var samstarfssamningur til eins árs sem rann út um mitt ár 2018. Heimilisfriður býður gerendum, körlum og konum, upp á meðferð með einstaklingsviðtölum og hópmeðferð. Í meðferðinni er miðað að því að gerendur viðurkenni ábyrgð á hegðun sinni og vinni að breytingum. Lögð er áhersla á að viðkomandi þiggi aðstoðina af fúsum og frjálsum vilja og sjái sjálfur um að panta sér viðtal. Undantekningar á þessari meginreglu eru t.d. þegar barnaverndarnefndir, félagsþjónusta eða lögregla vísa málum til Heimilisfriðs. Heimilisfriður býður einnig upp á þjónustu á Norðurlandi.

Samkvæmt ákvæðum samningsins veitir ráðuneytið þeim sérfræðingum sem að verkefninu koma styrk til þjálfunar eða endurmenntunar á samningstímabilinu til að styrkja þekkingu þeirra og stuðla að þróun þjónustunnar og frekari gæðum hennar. Einnig er almenningi og faglærðum einstaklingum boðið upp á fræðslu og þjálfun varðandi ofbeldi í nánum samböndum og afleiðingar þess í íslensku samfélagi.

Framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum fjallar í sérstökum kafla um karla og jafnrétti. Í velferðarráðuneytinu er nú unnið að skipun formlegs aðgerðarhóps til að vinna að stefnumótun hvað varðar karla og jafnrétti. Markmið stefnumótunar og verkefna aðgerðarhópsins verður að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi og kanna hvernig stefnumótun á sviði jafnréttismála geti með betri hætti tekið mið af samfélagslegri stöðu karla. Skal hópurinn skila skýrslu til ráðherranefndar um jafnréttismál þar sem m.a. skal gera grein fyrir stöðu þekkingar um karla og jafnrétti og setja fram tillögur að rannsóknum og aðgerðum. Horft skal til fyrirmynda og stefnumótunar um karla og jafnrétti á hinum Norðurlöndunum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum