Hoppa yfir valmynd
19. mars 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 128/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 128/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110009

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. nóvember 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Marokkó (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. október 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 25. október 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 2. og 17. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 15. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 5. nóvember 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum þann 18. nóvember 2019. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa honum kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi og vegna stjórnmálaskoðana sinna.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er því haldið fram að kærandi sé fæddur og uppalinn í Vestur- Sahara, nálægt borginni [...]. Hann hafi neyðst til að flýja vegna þess áreitis og óréttlætis sem hann og annað fólk frá Vestur- Sahara upplifi í Marokkó. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að afi hans og faðir hafi verið virkir í réttindabaráttu Vestur-Sahara, sem hafi leitt til þess að afi hans hafi verið myrtur og faðir hans hafi verið dæmdur í fangelsi í fimm ár. Sjálfur hafi kærandi verið virkur í ungmennahreyfingu sem kallist Movement of the unemployed Saharan Youth sem styðji stjórnmálaflokkinn Polisario. Kærandi kvaðst hafa verið dæmdur til fangelsisvistar í eitt ár vegna þátttöku í mótmælum til að berjast fyrir sjálfstæði Vestur-Sahara.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um ástand mannréttindamála í Vestur-Sahara og Marokkó og vísað í alþjóðlegar skýrslur um landið. Þar kemur m.a. fram að samtökin Polisario (e. The Popular Front for the Liberation of Saguia el Hamra en Rio de Oro) berjist fyrir sjálfstæði Vestur-Sahara og viðurkenni ekki stjórn Marokkó. Átök hafi geisað reglulega á milli Polisario og marokkóskra yfirvalda á árunum 1975 til 1991 en þá hafi aðilar samið um vopnahlé. Enn sé deilunni þó ekki lokið og báðir aðilar hafi gerst sekir um að brjóta gegn vopnahléssamningum. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttindamála í Vestur-Sahara komi fram að staða mannréttindamála á svæðinu sé að mestu sú sama og annars staðar í Marokkó. Þá komi fram að þolinmæði gagnvart mótmælum vegna stöðu Vestur-Sahara fari þverrandi. Í mars 2018 hafi viðbrögð yfirvalda vegna mótmæla í Jerada t.a.m. verið margra vikna kúgun, óhófleg valbeiting gegn mótmælendum og handtaka forsprakka sem síðar hafi fengið margra mánaða fangelsisrefsingu. Marokkósk yfirvöld komi kerfisbundið í veg fyrir að fólk safnist saman í Vestur-Sahara til að styðja stjórn Polisario, komi í veg fyrir starfsemi mannréttindasamtaka á svæðinu og beiti baráttumenn og blaðamenn ofbeldi hvort sem þeir séu í varðhaldi eða á götum úti. Þá verði einstaklingar sem eigi uppruna sinn að rekja til Vestur-Sahara ítrekað fyrir mismunun, handahófskenndum handtökum og pyntingum. Í greinargerð kæranda er auk þess haldið fram að þrátt fyrir að engin refsing liggi við því að snúa frá íslam þá samþykki samfélagið slíkt almennt ekki og það leiði gjarnan til félagslegrar útilokunar, mismununar á atvinnumarkaði og jafnvel til ofbeldis.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi á hættu ofsóknir vegna kynþáttar, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi, stjórnmálaskoðana og trúarskoðana hans. Þá telji kærandi að samsafn ástæðna eigi við í máli hans. Með vísan til þeirra upplýsinga sem liggi fyrir um réttindi og stöðu einstaklinga frá Vestur-Sahara í Marokkó telur kærandi að ljóst sé að þeir einstaklingar verði fyrir mikilli mismunun af hálfu marokkóskra yfirvalda sem hafi tögl og hagldir í stærstum hluta Vestur-Sahara. Yfirvöld taki ákvarðanir og fari í aðgerðir sem miði að því að styrkja stöðu stjórnvalda á svæðinu á kostnað Polisario og einsetji sér að draga úr samheldni og þjóðarvitund fólks sem eigi uppruna sinn í Vestur-Sahara. Þá sé gengið út frá því að stjórnmálaskoðanir kæranda feli í sér gagnrýni á stefnu og aðferðir stjórnvalda og að þær séu stjórnvöldum ekki þóknanlegar. Kærandi hafi þegar sætt fangelsisvist vegna þátttöku sinnar í mótmælum og ljóst sé að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þá eigi kærandi á hættu að vera ofsóttur vegna trúleysis. Í Marokkó aðhyllist langflestir íbúar íslam og refsivert sé að gagnrýna íslam og brjóta reglur sem gilda í Ramadan. Kærandi vísar til leiðbeiningareglna Flóttamannastofnunar þar sem fram komi m.a. að ekki sé hægt að gera þær kröfur til kæranda að hann feli trúleysi sitt til að koma í veg fyrir ofsóknir. Kærandi telur ljóst að hann hafi raunhæfar ástæður til að óttast ofsóknir vegna trúarskoðana sinna verði honum gert að snúa aftur til Marokkó.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann óttist fyrst og fremst yfirvöld í heimaríki en þó telji hann að einnig sé ástæða til að leggja til grundvallar að hann hafi ástæðu til að óttast aðra aðila sem ekki fari með ríkisvald, m.a. vegna uppruna hans frá Vestur-Sahara og trúarskoðana hans. Gagnrýni á marokkósk stjórnvöld sé ekki liðin í landinu og þá sé illa brugðist við hvers kyns gagnrýni á stöðu Vestur-Sahara. Kærandi telji að leggja beri til grundvallar í máli hans að yfirvöld í heimaríki hans hafi hvorki getu né vilja til að veita honum vernd.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er sú krafa gerð til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga enda eigi kærandi á hættu ofsóknir og ómannúðlega og vanvirðandi meðferð vegna uppruna síns frá Vestur-Sahara, stjórnmálaskoðana sinna og trúarskoðana.

Til þrautavara er sú krafa gerð að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. Ljóst sé að langvarandi deilur hafi ríkt um stöðu Vestur- Sahara innan Marokkó og átök milli stríðandi fylkinga verið tíð. Þá sé ljóst að félagslegar aðstæður kæranda yrðu mjög slæmar ef honum yrði gert að snúa aftur til Marokkó. Hann hafi þegar lýst fordómum og áreiti sem einstaklingar frá Vestur-Sahara verði fyrir. Þá eigi hann á hættu að vera útskúfaður úr samfélaginu vegna trúleysis síns. Að mati kæranda yrði auk þess brotið gegn grundvallareglu þjóðarréttar um non-refoulement verði hann sendur aftur til heimaríkis, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Að lokum gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað í málinu. Útlendingastofnun hafi einvörðungu fjallað almennt um að það væri erfitt efnahagslegt ástand í Marokkó og atvinnumál í ólestri en ljóst sé að einstaklingar frá Vestur-Sahara eigi enn erfiðara með að fá atvinnu í landinu. Þá komi fram í ákvörðun stofnunarinnar að ljóst sé að heilbrigðisþjónusta í heimaríki standi kæranda til boða. Hið rétta sé að kærandi hafi ítrekað sagst ekki hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu og nefnt í dæmaskyni að faðir hans sem hafi verið virkur í þágu Polisario hafi ekki fengið viðunandi aðstoð vegna þess og þá hafi ekki verið fjallað um aðgengi einstaklinga frá Vestur-Sahara að heilbrigðisþjónustu. Þá gerir kærandi athugasemdir við það að Útlendingastofnun hafi ekki spurt hann um aðstæður hans sem trúleysingja í Marokkó. Auk þess hafi ekki verið spurt nánar um það áreiti sem hann hafi greint frá að hafa orðið fyrir af hálfu almennings vegna uppruna síns.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað marokkósku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé marokkóskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Marokkó m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og er eftirfarandi umfjöllun samantekt á helstu upplýsingum sem þar koma fram og varða mál kæranda:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Morocco/Western Sahara (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Cooperation Strategy. Morocco (WHO, uppfært maí 2018);
  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices – Morocco (U.S. Department of State, 13. mars. 2019);
  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices – Western Sahara (U.S. Department of State, 13. mars. 2019);
  • 2018 Report on International Religious Freedom-Morocco (US Department of State, 28. maí 2018);
  • Freedom in the World: Western Sahara (Freedom House, sótt 17. febrúar 2020);
  • Morocco, country cooperation strategy, 2017-2021 (World Health Organization, maí 2018);
  • New Country Partnership Framework between the Kingdom of Morocco and the World Bank Group- 2019-2024 (upplýsingar af vefsíðu Alþjóðabankans (e. The World Bank), vefslóð: https://www.worldbank.org/en/news/factsheet/2019/02/19/morocco-new-country-partnership-framework-2019-2024);
  • Social Security Programs Throughout the World: Africa (Social Security, september 2019);
  • Summary of stakeholders´ submissions on Morocco (UN Human Rights Council, 20. febrúar 2017);
  • The Morocco Case Study: Positive Practice Environments (The Global Health Workforce Alliance, 2010);
  • The World Factbook. Western Sahara (Central Intelligence Agency), síðast skoðað 17. febrúar 2020);
  • The World Factbook. Morocco (Central Intelligence Agency, síðast skoðað 28. janúar 2020);
  • Situation concerning Western Sahara – Report of the Secretary General (S/2019/282) (UN Security Council, 1. apríl 2019);
  • World Report 2020 (Human Rights Watch, 14. janúar 2020) og
  • World Reoprt 2019, Morocco and Western Sahara (Human Rights Watch, skoðað 17. febrúar 2020).

Marokkó er konungsríki með um 35 milljónir íbúa, þar sem konungurinn, Mohammed VI., fer með yfirstjórn ríkisins. Árið 1956 gerðist Marokkó aðili að Sameinuðu þjóðunum. Árið 1976 gerðist ríkið aðili að bæði alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Marokkó gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1990.

Í Vestur-Sahara býr um hálf milljón manna á um 270 þúsund ferkílómetra svæði. Vestur-Sahara var undir stjórn Spánverja til ársins 1975. Þá hafi Marokkómenn og Máritanar tekið við stjórn svæðsisins, en Marokkó hafi þó gert tilkall til svæðisins frá árinu 1957. Samtökin Polisario (The Popular Front for the Liberation of Saguia el Hamra en Rio de Oro) hafi árið 1976 lýst yfir stjórn flokksins Sahrawi Arab Democratic Republic (SADR). Sá flokkur geri tilkall til alls landssvæðis Vestur-Sahara en Marokkó hafi raunverulega stjórn yfir stærstum hluta þess svæðis. Marokkómenn hafi hernumið stærstan hluta Vestur-Sahara árið 1979 en alþjóðasamfélagið hafi ekki viðurkennt innlimum Marokkós á Vestur-Sahara og skilgreini Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðadómstóllinn landið sem „svæði sem ekki nýtur sjálfsstjórnar“. Átök hafi komið reglulega upp á milli Polisario og marokkóskra yfirvalda á árunum 1975-1991 en þá hafi aðilar samið um vopnahlé. Íbúar Vestur-Sahara tali um leiðtoga Polisario sem forseta svæðisins en ekki hafi verið haldið sjálfstæðar kosningar á svæðinu. Forsetinn, Brahim Ghali, sem verið hafi virkur í sjálfstæðisbaráttu svæðisins sé umdeildur stjórnmálamaður. Amnesty International hefur ályktað að Polisario standi, líkt og marokkósk yfirvöld, að baki kúgun á almennum borgurum. Refsileysi sé vandamál og skortur á rannsókn og sakfellingum fyrir mannréttindabrot öryggissveita, valdi vantrausti. Erindreki Sameinuðu þjóðanna starfi á svæðinu og leiti lausna á deilumálunum. Þá hafi Sameinuðu þjóðirnar í tæp þrjátíu ár starfrækt verkefni á svæðinu, MINURSO, sem miði að því að tryggja þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir Sahrawi-fólkið. Af skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá mars 2019 verður ekki ráðið að íbúar Vestur-Sahara séu beittir kerfisbundnu áreiti eða kúgun af hendi stjórnvalda í Marokkó. Þá sé ástand mannréttindamála á svæðinu með svipuðu móti og annars staðar í Marokkó. Tilkynningum um pyndingar hafi fækkað á undanförnum árum en frjálsum félagasamtökum og öðrum landssamtökum berist þó tilkynningar um slæma meðferð einstaklinga sem hafi verið fangelsaðir í tengslum við sjálfstæðisbaráttu Vestur-Sahara.

Kveðið er á um hugsana-, tjáningar- og fundafrelsi í stjórnarskránni. Þrátt fyrir það sæta þegnar Marokkó og Vestur-Sahara töluverðum takmörkunum á þessum rétti, sérstaklega vegna gagnrýni á stöðuna í Vestur-Sahara, marokkósk yfirvöld eða íslam.

Einnig kemur fram að þrátt fyrir að trúfrelsi sé tryggt í stjórnarskrá landsins þá sé Íslam hin eiginlega ríkistrú sem móti allt daglegt líf marokkóskra borgara og sé mikilvægur hluti af menningu og persónu þeirra. Þá séu 99% þegna ríkisins súnní-múslimar. Stjórnarskráin kveði á um rétt allra til að iðka trú sína en refsivert sé samkvæmt landslögum að hvetja múslima til að skipta um trú og óheimilt sé að gagnrýna Íslam. Brot gegn Íslam séu litin alvarlegum augum og þeir sem skipti um trú eigi á hættu fordæmingu af hálfu þeirra eigin fjölskyldu og samfélagsins alls. Þekkt sé að lögregla grípi stundum til aðgerða gegn kristnum hópum.

Samkvæmt vefsíðu bandarísku velferðarstofnunarinnar (USAID) sé almannatryggingakerfi við lýði í Marokkó. Þá eigi íbúar landsins m.a. rétt á atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofi og barnabótum. Þá kemur fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2019 að stjórnarskrá ríkisins tryggi borgurum þess rétt til heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfi landsins sé bæði ríkis- og einkarekið og hafi allir íbúar landsins aðgengi að endurgjaldslausri heilbrigðisþjónustu hins opinbera. Þá sé lögbundin heilbrigðistrygging hjá opinberum aðilum og einkaaðilum.

Marokkó, í samstarfi við Alþjóðabankann, hafi sett rammaáætlun fyrir árin 2019-2024 með það að markmiði að styðja við þróun atvinnumála í landinu og m.a. til að bæta stöðu þeirra sem séu fátækir og standi höllum fæti í samfélaginu. Meðal verkefna séu þróun og styrking innviða í velferðarkerfi, bætt skráning og betra aðgengi að þjónustu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann hann óttist stjórnvöld í heimaríki vegna stuðnings hans við sjálfstæðisbaráttu Vestur-Sahara og vegna stjórnmálaþátttöku föður hans. Telji kærandi að stjórnvöld fylgist með sér. Þá byggir kærandi á því að hann eigi á hættu að verða fyrir mismunun vegna þess að hann komi frá Vestur-Sahara og hafi verið tengdur hópnum Polisario. Jafnframt byggir kærandi á því að eiga á hættu ofsóknir vegna trúleysis.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 2. september 2019 kvaðst kærandi hafa vera meðlimur í ungliðahreyfingu ungra atvinnulausra frá Sahara (e. Movement of unemployed Saharan youth) og að hann styðji stjórnmálaaflið Polisario Front. Árið 2002 hafi hann verið dæmdur í fangelsi fyrir þátttöku í mótmælum til stuðnings sjálfstæðisbaráttu Vestur-Sahara og hafi setið inni í 11 mánuði af eins árs dómi. Eftir að hafa lokið afplánun hafi kærandi klárað nám sitt og í kjölfarið sótt um ýmis störf, m.a. hjá lögreglu, innanríkisráðuneyti og menntamálaráðuneytinu en ekki fengið. Því hafi kærandi að lokum ákveðið að yfirgefa landið. Kærandi lagði fram gögn sem hann kveður sýna fram á uppruna hans og þátttöku í framangreindri ungliðahreyfingu. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi hafi verið meðlimur ungliðahreyfingar í heimaríki og kunni að hafa setið í fangelsi þar í landi vegna þátttöku í mótmælum. Kærandi kvaðst þó hafa hætt þátttöku í stjórnmálaviðburðum eftir að hann hafi lokið afplánun árið 2002. Þá kvaðst kærandi hafa yfirgefið heimaríki sitt árið 2007 þar sem hann hafi ekki fengið atvinnu eftir nám og flust búferlum fyrst til Tyrklands en svo til Grikklands þar sem hann hafi dvalið síðan. Þá kvaðst kærandi hafa sóst eftir því að starfa hjá marokkóskum stjórnvöldum sem að mati kærunefndar leiðir að því líkur að hann hafi ekki óttast þau á þeim tíma. Af frásögn kæranda verður ekki séð að hann hafi verið virkur í fyrrgreindum samtökum eða tekið þátt í mótmælum eða öðrum aðgerðum til stuðnings sjálfstæði Vestur-Sahara eftir 2002 enda kvaðst hann sjálfur hafa hætt stjórnmálaþátttöku frá þeim tíma. Kærandi kvaðst ennfremur hafa ferðast tvisvar til heimaríkis eftir að hann flutti til Grikklands. Kærandi kvaðst hafa verið stöðvaður í eitt skipti og yfirheyrður í 12 klukkustundir og verið hótað af landamæralögreglu.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um Marokkó við meðferð málsins er ljóst að tjáningar, funda- og félagafrelsi þegna Marokkó og Vestur-Sahara sætir töluverðum takmörkunum, sér í lagi vegna gagnrýni þeirra á stefnu stjórnvalda er lýtur að Vestur-Sahara. Hafa stjórnvöld m.a. beitt aðgerðum gegn mótmælendum og handtekið forsprakka þeirra. Verður þó ekki séð að einstaklingar sem styðji Polisario og sjálfstæðisbaráttu Vestur-Sahara eigi á hættu ofbeldi og ofsóknir af hálfu stjórnvalda af þeim sökum. Það er því mat kærunefndar að þó svo að kærandi kunni að þurfa að glíma við mótlæti og mismunun á einhverjum sviðum gefi frásögn kæranda og önnur gögn málsins ekki til kynna að kærandi eigi á hættu ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. sömu laga, verði honum gert að snúa til heimaríkis.

Eins og fram hefur komið hefur kærandi einnig borið fyrir sig að hafa orðið fyrir mismunun í heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu í heimaríki vegna uppruna síns. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér gefa til kynna að einstaklingar frá Vestur-Sahara kunni að eiga á hættu einhverja mismunun í heimaríki kæranda. Það er hins vegar mat kærunefndar að slík mismunun nái ekki því alvarleikastigi að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Þá hefur kærandi borið fyrir sig að vera trúlaus og hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki af þeim sökum. Kærandi kveðst ekki hafa orðið fyrir áreiti eða ofsóknum vegna trúleysis síns. Í gögnum um heimaríki kæranda kemur fram að óheimilt sé að gagnrýna Íslam en að ekki sé óheimilt að gefa upp trú sína. Heimildir benda ekki til þess að einstaklingar sem iðki ekki trú í Marokkó verði fyrir ofbeldi eða séu myrtir á grundvelli þess, hvorki af hálfu stjórnvalda eða annarra borgara. Að mati kærunefndar er staða kæranda ekki slík að hann eigi á hættu ofsóknir vegna trúleysis síns.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir kröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á því að hans bíði erfiðar efnahagslegar aðstæður í heimaríki en hann hafi átt erfitt með að afla tekna þar í landi og því hafi hann flutt til Grikklands og unnið þar síðan 2009. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum.

Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að kæranda sé heilsuhraustur. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir í greinargerð sinni. Má af greinargerð ráða að kærandi telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga með því að hafa ekki skoða nægilega vel einstaklingsbundnar aðstæður kæranda sem einstaklings frá Vestur-Sahara.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Það er mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 25. október 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 7 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                  Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum