Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Aukið fé til norræns menningarsamstarfs

Menningarmálaráðherrar Norðurlandanna funduðu á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn í dag. Á fundinum voru samþykktar auknar fjárveitingar til norræns menningarsamstarfs en fyrirhugaður niðurskurður á því sviði hafði áður verið gagnrýndur.

„Við gerðum athugasemdir við þennan niðurskurð, ekki síst í ljósi þess að menningarstarf hefur liðið mikið fyrir áhrif COVID-19 faraldursins. Samstarf á lista- og menningarsviðinu er gríðarlega mikilvægt í norrænni samvinnu og því fagna ég þessari hækkun framlaga,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Hækkunin sem um ræðir nemur um 180 milljónum kr. Heildarframlag vegna menningarsamstarfsins samkvæmt fjármálaáætlun Norðurlandaráðs 2022 verður rúmlega 3,3 milljarðar kr.

Yfirlýsing fundarins

Á fundi ráðherranna var einnig samþykkt yfirlýsing um listir og menningu sem hvata til sjálfbærrar þróunar. Yfirlýsingin byggir á samstarfsáætlun Norðurlandaráðs 2021-2024 þar sem norrænu menningarmálaráðherrarnir skilgreina hvernig menningin getur verið drifkraftur sjálfbærrar þróunar á Norðurlöndum. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram:

„… Við leggjum áherslu á að allar norrænu menningarstofnanirnar fimm (Norræna húsið í Reykjavík, Norðurlandahúsið í Færeyjum, Norræna stofnunin á Grænlandi, Norræna stofnunin á Álandseyjum og Norræna menningargáttin) gegna mikilvægu menningarpólitísku hlutverki. Eitt af verkefnum þeirra er að auka þekkingu og skilning á hlut lista og menningar sem skilyrði sjálfbærrar þróunar. Vinnan felst m.a. í að miðla góðum dæmum og hvetja til grænnar menningarframleiðslu, menningardreifingar og menningarneyslu …“

Endurbætur á Norræna húsinu í Reykjavík

Á fundinum var fjallað um málefni Norræna hússins en það er eina byggingin sem er einvörðungu í eigu Norrænu ráðherranefndarinnar. Norræna húsið varð til við sameiginlegt framtak norrænu ríkisstjórnanna árið 1965. Það var vígt árið 1968, teiknað af arkitektinum Alvar Aalto og er eitt af þekktustu kennileitum Reykjavíkur.

Á fundinum var samþykkt að verja rúmum 76 milljónum kr. í endurbótaverkefni vegna aðkallandi viðgerða á byggingunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum