1266/2025. Úrskurður frá 9. apríl 2025
Hinn 9. apríl 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1266/2025 í máli ÚNU 25030003.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 4. mars 2025, kærði […] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. að synja beiðni hans, dags. 6. febrúar 2025, um aðgang að ráðningarsamningi við framkvæmdastjóra félagsins. Beiðni hans var synjað með erindi, dags. 24. febrúar 2025, með vísan til þess að félaginu væri óskylt að afhenda samninginn.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar segir að framkvæmdastjóri félagsins sé æðsti stjórnandi þess. Laun hans séu opinbert gagn. Ráðningarsamningar bæjarstjóra og forstöðumanna stofnana Vestmannaeyjabæjar hafi fúslega verið afhentir. Hið sama hljóti að eiga við í þessu tilviki.
Kæran var kynnt Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi með erindi, dags. 6. mars 2025, og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að félagið afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál þau gögn sem kæran varðar.
Umsögn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs barst úrskurðarnefndinni 17. mars 2025. Afrit af gagninu sem deilt er um aðgang að barst nefndinni 24. mars 2025. Í umsögninni er vísað til eldri úrskurða úrskurðarnefndarinnar þar sem deilt hafi verið um aðgang að sambærilegum gögnum og í þessu máli og nefndin talið heimilt að takmarka aðgang að þeim.
Umsögn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs var kynnt kæranda með erindi, dags. 18. mars 2025, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust 28. mars 2025.
Niðurstaða
1.
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að ráðningarsamningi framkvæmdastjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. Ákvörðun félagsins er byggð á því að gögnin falli undir 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og verði ekki afhent. Ákvæðið hljóðar svo:
Réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.
Í athugasemdum við 7. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur fram að með gögnum í málum sem varða starfssambandið sé átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna, t.d. mál þar starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að gögn í málum einstakra starfsmanna sem varða ráðningu þeirra í starf teljist einnig varða starfssambandið í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Ráðningarsamningur viðkomandi starfsmanns er gagn í slíku máli og verður því að telja að aðila sem heyrir undir gildissvið upplýsingalaga sé almennt heimilt að takmarka aðgang að slíkum samningi.
2.
Samkvæmt 2. tölul. 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga ber lögaðila sem fellur undir gildissvið laganna að veita almenningi upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda og menntun þeirra. Vestmannaeyjaferjan Herjólfur fellur undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Þá hefur úrskurðarnefndin áður komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdastjóri félagsins teljist til æðstu stjórnenda þess, sbr. úrskurði nr. 1217/2024 og 860/2019. Samkvæmt því er ljóst að almenningur á rétt til aðgangs að upplýsingum um launakjör framkvæmdastjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir gagnið sem kæran lýtur að og telur að Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi hafi verið heimilt að hafna beiðni kæranda um aðgang að ráðningarsamningnum sem óskað var eftir. Í 7.–9. gr. ráðningarsamnings framkvæmdastjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs, sem gerður var í janúar 2025, eru hins vegar ákvæði um laun, önnur kjör og fríðindi. Með vísan til þess að framkvæmdastjórinn telst til æðstu stjórnenda félagsins verður að telja að kærandi eigi rétt til aðgangs að þessum upplýsingum. Þótt úrskurðarnefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að aðilum sem heyra undir gildissvið upplýsingalaga sé almennt heimilt að takmarka aðgang að ráðningarsamningum þarf að horfa til þess að ef ákvæði 6.–10. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á upplýsingarétti eiga aðeins við um hluta gagns skal veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Verður því að ætla að ef ráðningarsamningur inniheldur þær upplýsingar sem getið er um í 2. tölul. 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga sé lögaðila skylt að afhenda þann hluta ráðningarsamningsins sem hefur að geyma upplýsingarnar. Því telur úrskurðarnefndin að Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi sé skylt að afhenda kæranda þann hluta ráðningarsamningsins sem hefur að geyma upplýsingar um launakjör framkvæmdastjóra félagsins. Að öðru leyti verður ákvörðun félagsins að hafna beiðni kæranda staðfest.
Úrskurðarorð
Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. skal veita kæranda, […], aðgang að upplýsingum um launakjör framkvæmdastjóra félagsins sem finna má í 7.–9. gr. ráðningarsamnings hans, dags. 1. janúar 2025. Að öðru leyti er ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., dags. 24. febrúar 2025, staðfest.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir