Hoppa yfir valmynd
19. mars 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Lífæð velferðarþjónustunnar

Heilbrigðisþjónustuna er lífæð velferðarkerfisins og það er hlutverk okkar að standa vörð um þjónustuna og starfsöryggi heilbrigðisstarfsmanna. Þetta sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra meðal annars á fyrsta fundinum af þremur um heilbrigðismál sem ráðherra hefur boðað til á næstunni undir yfirskriftinni: Heilbrigðisþjónusta á tímamótum: Ný viðhorf - nýjar lausnir - aukinn jöfnuður. Hann vék að þeim miklu hagræðingarkröfu sem gerð er til heilbrigðisþjónustunnar í fjárlögum ársins og sagði viðfangsefnið tröllaukið. Ráðherra undirstrikaði það sem hann hefur lagt áherslu á fundum sínum með heilbrigðisstarfsmönnum um land allt undanfarið að hann óskaði eftir nýjum sjónarmiðum og nýrri hugsun af hálfu stjórnenda heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna til að takast á við og skapa nýjar áherslur í heilbrigðisþjónustu á tímamótum. Ögmundur Jónasson dró sérstakleg fram þverstæðurnar sem felast í því að sitja við ríkisstjórnarborðið og segja frá uppsögnum heilbrigðisstarfsmanna og leita svo við sama borð leiða til að auka atvinnustarfsemi í landinu. Ráðherra vakti sérstaklega athygli á að það væru fyrst og fremst konur sem sinntu umönnunarstörfum í heilbrigðisþjónustunni og að það þyrfti að hafa hagsmuni þeirra sérstaklega í huga á hagræðingartímum, ekki síst þegar í hönd færi fjárlagagerð vegna ársins 2010.

Í erindi Guðbjargar Lindar Rafnsdóttur, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands, kom einmitt fram hin athyglisverða kynjaskipting starfsmanna í heilbrigðisþjónustunni sem er að miklum meirihluta mönnuð konum. Sigurður Thorlacius, dósent við læknadeild Háskóla Íslands, sagði á fundinum frá rannsóknaniðurstöðum sínum og sambandi atvinnuleysis annars vegar og sjúkdóma og örorku hins vegar. Er það ma. skoðun Sigurðar að mikil fylgni sé á milli atvinnuleysis, örorku og sjúkdóma, eins og til dæmis hjartasjúkdóma. Á morgunverðarfundinum kynnti Inga Jessen, atvinnulaus viðskiptafræðingur, fyrir fundarmönnum hvernig það er að vera atvinnulaus. Hvernig það er að takast á við hvunndaginn eftir að hafa unnið hörðum höndum í mörg ár og hve mikilvæg fjölskyldan og sterk fjölskyldutengsl væru fyrir þá sem lenda í því að missa vinnuna. Næsti fundur heilbrigðisráðherra undir yfirskriftinni Heilbrigðisþjónusta á tímamótum: Ný viðhorf - nýjar lausnir - aukinn jöfnuður verður 24. mars og verður hann auglýstur nánar þegar nær dregur.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum