Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Lífæð velferðarþjónustunnar

Heilbrigðisþjónustuna er lífæð velferðarkerfisins og það er hlutverk okkar að standa vörð um þjónustuna og starfsöryggi heilbrigðisstarfsmanna. Þetta sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra meðal annars á fyrsta fundinum af þremur um heilbrigðismál sem ráðherra hefur boðað til á næstunni undir yfirskriftinni: Heilbrigðisþjónusta á tímamótum: Ný viðhorf - nýjar lausnir - aukinn jöfnuður. Hann vék að þeim miklu hagræðingarkröfu sem gerð er til heilbrigðisþjónustunnar í fjárlögum ársins og sagði viðfangsefnið tröllaukið. Ráðherra undirstrikaði það sem hann hefur lagt áherslu á fundum sínum með heilbrigðisstarfsmönnum um land allt undanfarið að hann óskaði eftir nýjum sjónarmiðum og nýrri hugsun af hálfu stjórnenda heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna til að takast á við og skapa nýjar áherslur í heilbrigðisþjónustu á tímamótum. Ögmundur Jónasson dró sérstakleg fram þverstæðurnar sem felast í því að sitja við ríkisstjórnarborðið og segja frá uppsögnum heilbrigðisstarfsmanna og leita svo við sama borð leiða til að auka atvinnustarfsemi í landinu. Ráðherra vakti sérstaklega athygli á að það væru fyrst og fremst konur sem sinntu umönnunarstörfum í heilbrigðisþjónustunni og að það þyrfti að hafa hagsmuni þeirra sérstaklega í huga á hagræðingartímum, ekki síst þegar í hönd færi fjárlagagerð vegna ársins 2010.

Í erindi Guðbjargar Lindar Rafnsdóttur, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands, kom einmitt fram hin athyglisverða kynjaskipting starfsmanna í heilbrigðisþjónustunni sem er að miklum meirihluta mönnuð konum. Sigurður Thorlacius, dósent við læknadeild Háskóla Íslands, sagði á fundinum frá rannsóknaniðurstöðum sínum og sambandi atvinnuleysis annars vegar og sjúkdóma og örorku hins vegar. Er það ma. skoðun Sigurðar að mikil fylgni sé á milli atvinnuleysis, örorku og sjúkdóma, eins og til dæmis hjartasjúkdóma. Á morgunverðarfundinum kynnti Inga Jessen, atvinnulaus viðskiptafræðingur, fyrir fundarmönnum hvernig það er að vera atvinnulaus. Hvernig það er að takast á við hvunndaginn eftir að hafa unnið hörðum höndum í mörg ár og hve mikilvæg fjölskyldan og sterk fjölskyldutengsl væru fyrir þá sem lenda í því að missa vinnuna. Næsti fundur heilbrigðisráðherra undir yfirskriftinni Heilbrigðisþjónusta á tímamótum: Ný viðhorf - nýjar lausnir - aukinn jöfnuður verður 24. mars og verður hann auglýstur nánar þegar nær dregur.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira