Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 245/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 245/2020

Miðvikudaginn 26. ágúst 2020

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. maí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. febrúar 2020 þar sem umönnun dóttur kæranda, B var felld undir 3. flokk, 35% greiðslur. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umönnunarmati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. febrúar 2020, var umönnun dóttur kæranda felld undir 3. flokk, 35% greiðslur, fyrir tímabilið 1. maí 2020 til 30. apríl 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. maí 2020. Með bréfi, dags. 29. maí 2020, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Með tölvubréfum 29. júní og 4. júlí 2020 bárust athugasemdir frá kæranda.

II.  Sjónarmið kæranda

Ráða má af kæru að óskað sé endurskoðunar á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um umönnunarmat vegna dóttur kæranda.

Í kæru kemur fram að kærandi sé ósátt við niðurstöðu Tryggingastofnunar og að ekki hafi verið tekið tillit til vissra gagna sem hún hafi lagt fram. Henni hafi verið endursendar kvittanir sem stofnunin hafi sagt að tengist ekki barninu.

Í athugasemdum kæranda vegna kærufrests frá 4. júlí 2020 er greint frá því að það hafi verið mikið álag í lífi kæranda sem hafi haft þær afleiðingar að hún hafi ekki verið til staðar andlega og líkamlega. Kærandi sé greind með vefjagigt og það sé mikið álag á henni vegna einhverfrar dóttur hennar. Þann […] hafi […] og það hafi allt verið frekar í lausu lofti í kringum kæranda.

III.  Niðurstaða

Mál þetta varðar umönnunarmat Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. febrúar 2020 þar sem umönnun vegna dóttur kæranda var metin til 3. flokks, 35% greiðslna, fyrir tímabilið 1. maí 2020 til 30. apríl 2023.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmir þrír mánuðir frá því að kæranda var birt hin kærða ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. febrúar 2020, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. maí 2020. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 13. febrúar 2020 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. maí 2020, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Með tölvubréfi frá 29. júní 2020 greinir kærandi frá álagi og áfalli í lífi kæranda sem hafi gert það að verkum að hún hafi hvorki verið til staðar andlega né líkamlega. Úrskurðarnefndin telur að ekki verði ráðið af framangreindum athugasemdum kæranda að hún hafi ekki verið fær um að leggja fram kæru til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru framangreindar upplýsingar því ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ætti ekkert að standa því í vegi að kærandi geti sótt um umönnunarmat á ný.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

 

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum