Hoppa yfir valmynd
1. mars 2021 Forsætisráðuneytið

Spurningar um gervigreindarstefnu fyrir Ísland í samráðsgátt

Nefnd um ritun gervigreindarstefnu fyrir Ísland, sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði í október 2020, vinnur nú drög að stefnu Íslands um gervigreind. Lögð er áhersla á að lýðræðislegar reglur ráði því hvernig gervigreind er notuð og öllum sé tryggður jafn réttur til að móta þjóðfélag framtíðarinnar. Með það að leiðarljósi hefur nefndin birt eftirfarandi spurningar í samráðsgátt og vill beina þeim til umsagnaraðila til íhugunar:

  1. Hvaða gildi á íslenskt samfélag að hafa að leiðarljósi við innleiðingu nýrrar tækni gervigreindar?
  2. Hvert á hlutverk tækni gervigreindar að vera í íslensku samfélagi?
  3. Á hvaða vettvangi ætti Ísland að ræða og leysa álitamál sem upp munu koma varðandi innleiðingu og notkun nýrrar gervigreindartækni?
  4. Hvað þarf til svo að íslenskt atvinnulíf geti að fullu nýtt tækni gervigreindar?

Að auki eru til kynningar og samráðs í samráðsgátt fyrstu hugmyndar nefndarinnar um upplegg stefnunnar en megináhersla er lögð á samfélagslegu hliðina á tækni gervigreindar. Auk þess er leitast við að draga fram þær stoðir sem helst þarf að styrkja svo unnt verði að hámarka þann samfélagslega og efnahagslegan ábata sem af þróun, innleiðingu og notkun gervigreindar hlýst. Allt er þetta sett fram í samhengi við þá stefnumótunarvinnu sem þegar hefur farið fram um ýmis málefni tengd gervigreind og ber þar helst að nefna skýrslu og aðgerðaáætlun um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna, Nýsköpunarlandið Ísland, áherslur og verkefni Stafræns Íslands og stefnu Vísinda- og tækniráðs.

Óskað er eftir viðbrögðum, hugmyndum og almennri endurgjöf á drög nefndarinnar að uppleggi stefnu Íslands um gervigreind.

Umsagnarfrestur við drög að uppleggi gervigreindarstefnu fyrir Ísland er til 15. mars nk.

Stefna um gervigreind í samráðsgátt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum