Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2009 Innviðaráðuneytið

Drög að frumvarpi til nýrra umferðarlaga til umsagnar öðru sinni

Drög að frumvarpi til nýrra umferðarlaga eru nú til umsagnar öðru sinni hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Unnt er að senda inn umsögn um drögin til og með 26. nóvember næstkomandi á netfangið [email protected].

Í júní skilaði nefnd sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Kristján L. Möller skipaði í lok árs 2007 drögum að frumvarpi til almennra umferðarlaga. Í framhaldi af því voru drögin sett á vef ráðuneytisins til almennrar umsagnar og var frestur veittur til 15. september sl. til að skila athugasemdum. Fjölmargar góðar og áhugaverðar athugasemdir komu fram sem unnið hefur verið úr á vegum ráðuneytisins að undanförnu. Þau drög sem nú eru sett fram til umsagnar hafa að geyma ýmsar af þeim þeim athugasemdum sem gerðar voru við fyrstu drög frumvarpsins.

Hér eru taldar upp helstu breytingar frá upphaflegum drögum að frumvarpi til nýrra umferðarlaga, en lögð skal áhersla á að ekki er um tæmandi upptalningu að ræða. varðandi þær breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu frá upphaflegri mynd.

1. Kafli.

1. gr.

Meginmarkmið frumvarpsins er að auka umferðaröryggi og hefur sérstök markmiðsgrein verið sett í 1. gr. frumvarpsins

  1. gr.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á skilgreiningar ákvæði frumvarpsins. Komið hafa inn nýjar skilgreiningar, svo sem á hugtökunum „hraðbraut”, „göngugata” og „stöðvun ökutækis” og öðrum breytt lítillega.

Skilgreining á akrein hefur verið breytt til samræmis við Alþjóðasamning um umferð á vegum (Vínarsamninginn) og er ekki áskilið að miðlína sé merkt með yfirborðsmerkingu.

Ennfremur er tekin út skilgreining á öryggisbúnaði óvarinna ökumanna en hér er um mjög víðfemt svið að ræða sem nær til allra sem ferðast í ökutæki. Þykir því réttara að kveða á um flokkun slíks búnaðar og notkun að mestu í reglugerð.

Einnig er skilgreining í 3. gr. vegalaga á hugtakinu vegur tekin upp í frumvarpið í stað skilgreiningar í núgildandi umferðarlögum, en mikilvægt þykir að hafa sömu skilgreiningu í vegalögum og umferðarlögum á hugtakinu vegur. Er það einkum í ljósi þess að þessu frumvarpi er aðaláherslan lögð á umferð á vegum nema annað sé sérstaklega tekið fram, eins og fram kemur í 2. gr. frumvarpsins.

Leitast er við að samræma orðnotkun við vegalög nr. 80/2007 og er því talað um „göngustíg” í stað „gangstígs”, „vegöxl” í stað „vegaröxl” og „reiðstíg” í stað „reiðvegar” í frumvarpinu.

II. Kafli.

6. gr.

Lagt er til að ákvæði 82. gr. núgildandi laga verði í 6. gr. frumvarpsins. Jafnframt er lagt til bann við því að henda rusli út úr ökutæki á ferð, en slíkt getur valdið hættu og óþægindum fyrir aðra vegfarendur, svo og að strengja nokkuð það yfir veg sem valdið getur vegfarendum hættu.

8. gr.

Lagt er til að 88. gr. núgildandi laga verði undir II. kafla frumvarpsins í 8. gr.

  1. gr.

Ákvæðið er breytt lítillega og  kveðið ótvírætt á um forgang gangandi vegfaranda á vistgötu.

 

III. kafli

14. gr.

Bætt er við ákvæðið um að gangandi vegfarandi skuli nota göngugötu, sbr. skilgreiningu í 3. gr.

 

IV. kafli.

18. gr.

Ekki þykir þörf að hafa ákvæði um notkun stefnuljósa í þessari grein, en í  i- og j-lið 32. gr. kemur fram þessi skylda varðandi akstur í hringtorgum.

19. gr.

Lagt er til í 4. mgr. að ökumenn skuli sjá til þess að hleypa til skiptist inná veg þegar tvær akreinar renna saman í eina. Þó er tilskilið að merkingar gefi til kynna að farið skuli eftir þessari reglu. Sífellt algengara verður að akbrautir í þéttbýli þrengist á þennan hátt og því er mikilvægt að setja reglur um akstur undir slíkum kringumstæðum. Rétt þykir að ökumenn sem eru á þeirri akrein sem þrengist „lokist” ekki inni á þeirri akrein og að ökumenn fari til skiptis inn á áframahaldandi veg, þegar því verður við komið. Þetta er þó háð því að umferðarmerki þess efnis sé sett upp á staðnum.

36. gr.

Rétt þykir að aðgreina þá vegi sem falla undir 3. mgr. 36. gr. sem hraðbraut, þar sem aðrar reglur gilda um slíka vegi, eins og fram kemur í Vínarsamningi um umferð frá 1968 sem ætlunin er að undirrita við fyrsta tækifæri. Gert er ráð fyrir að einungis ökutæki sem geta ekið hraðar en 40 km megi aka á hraðbrautum.

Jafnframt er lagt til að ökuhraði á afmörkuðum bílastæðum verði að 15 til 30 km á klst., en ekki hefur áður verið kveðið á um hámarkshraða á bílastæðum í umferðarlögum. Tölfræði sýnir að umferðarslys og óhöpp á afmörkuðum bifreiðastæðum eru mjög algeng og er þessu ákvæði ætlað að stemma stigu við því.

41. gr.

Ákvæði um hjólreiðar er breytt lítillega, ma. að er gert ráð fyrir að ef hjólastígur og göngustígur liggja samhliða skuli einungis heimilt að hjóla á hjólastígnum.

42. gr.

Í stað þess að bannað sé að reiða farþega á reiðhjóli (eldri en 7 ára) er lagt til að heimilt sé að hafa farþega á reiðhjóli ef það er sérstaklega til þess gert.

43. gr.

Hér eru sameinaðar 42. og 43. gr. upphaflega frumvarpsins og minni háttar orðalagsbreytingar lagðar til.

 

VIII. Kafli.

48. gr.

Lagt er til að gjald vegna töku sýna hækki í 20.000 krónur ( var áður 15.000 krónur).

 

IX. Kafli.

Engar efnisbreytingar breytingar hafa verið gerðar á þessum kafla enn sem komið er, að öðru leyti en því að lagt er til að hámarks upphæð sekta verði 300.000 krónur í stað 500.000 króna í upphaflegu frumvarpi.  EB reglugerð nr. 561/2006 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna hefur enn ekki verið innleidd hér á landi, en ljóst er að breytingar á þessum ákvæðum verða að einhverju leyti gerðar til samræmis við innleiðingu á reglugerðinni.

 

XI. Kafli.

57. gr.

Tekið er út ákvæði um takmörkun á fjölda farþega ungra ökumanna.aðfararnótt föstudags og laugardags, en þetta ákvæði hefur mælst misjafnlega vel fyrir hjá þeim sem hafa tjáð sig um það.

Ennfremur er gerð undantekning á því að fatlaður ökumaður geti ekið breyttri bifreið (sérútbúinni bifreið) áður en hann nær 20 ára aldri.

59. gr.

Hér er það nýmæli lagt til að áskilið verði að til þess að stjórna vinnuvél þurfi viðkomandi að hafa lokið tilskildu námi í meðferð slíkra tækja.

60. gr.

Greininni er breytt þannig að hún fjallar einungis um erlend ökuskírteini.

62. – 66. gr.

Lagt er til að ákvæði um ökukennslu og ökunám verði einfölduð nokkuð og jafnframt er  ökunámsnefnd sem lagt var til að sett yrði á stofn í upphaflega frumvarpinu tekin út í þessum drögum. Er það talið bæði kostnaðarsamt og til þess fallið að flækja stjórnsýslulega meðferð mála á sviði ökunáms og ökukennslu að hafa ákvæði um slíka nefnd í frumvarpinu.

67. gr.

Lagt er til að heimild til æfingaaksturs verði lengd í 18 mánuði, en tillögur hafa komið fram um að hafa þetta tímabil allt að 24 mánuðum.

Jafnframt er kveðið á um að æfingaakstur á bifhjóli skuli fara fram á lokuðum svæðum, þar sem hagsmunaaðilar telja að ekki gangi að leiðbeinandi sitji á bifhjóli nemanda. Ekki þykir hins vegar fært að leiðbeinandi sé á öðru bifhjóli í umferðinni við æfingar með nemanda.

 

XII. Kafli.

71. gr.

Lagt er til að gjald vegna einkamerkis verði hækkað í 50.000 krónur (var 25.000 krónur).

 

XIII. Kafli.

74. gr.

Til samræmis við ákvæði tilskipunar 2003/20/EB um öryggis- og verndarbúnað í ökutækjum, sem er breyting á tilskipun 91/671/EBE um sama efni, svo og tilhögun þessara mála á Norðurlöndunum er lagt til börn verði að vera 135 sm eða hærri til mega sitja í framsæti bifreiðar. Við skoðun á viðmiðunum um hæð barna kemur í ljós að börn yfir 9 ára aldri hafa náð þessari hæð og því ætti að vera tryggt að þau geti verið í framsæti ökutækis án hættu. Jafnframt er lagt bann við því að barn í barnabílstól sé í framsæti. Jafnframt er lagt til að barn í barnabílstól megi ekki vera í framsæti bifreiðar.

75. gr.

Þar sem hagsmunaaðilar hafa sett fram ítarleg rök fyrir því að óraunhæft sé með öllu að lögbinda notkun hlífðarfatnaðar við akstur bifhjóla er lagt til að þetta ákvæði verði tekið út í frumvarpinu, en þetta ákvæði kom inn í umferðarlög árið 2007. Eftir sem áður er kveðið á um heimild fyrir ráðherra til að setja reglur um flokkun og notkun öryggisbúnaðar þeirra sem ferðast á bifhjólum. Á það ekki síst við um þá sem taka þátt í aksturskeppnum og aka á bifhjóli í atvinnuskyni.

Ennfremur er lagt til að börn verði að vera 135 sm á hæð til að vera farþegar á bifhjóli.

 

XV. Kafli.

81. gr.

í frumvarpinu er leitast við að efla aðkomu sveitarfélaga og veghaldara að ákvörðunum um varanleg sérákvæði um notkun vega, hraðamörk osfrv. Það er síðan lögreglu og sveitarfélaga (stöðuvarða) að hafa eftirlit með framfylgni þessara ákvarðana.

82. gr.

Hér er lagt til að sveitarstjórn, að höfðu samráði við Vegagerðina megi takmarka umferð þegar mengunarmörk fara yfir ákveðin viðmið. Ennfremur er  sveitarstjórn heimilað að taka gjald fyrir notkun negldra hjólbarða að höfðu samráði við Vegagerðina. Þetta ákvæði er ekki endanlega útfært í drögum þessum, en ljóst er að um vandasamt verk að ræða að koma slíku kerfi á svo vel sé.

85.  gr.

Sömu sjónarmið og í 81. gr. eiga hér við, en gert er ráð fyrir að það verði í höndum      veghaldara að setja upp umferðarmerki, en í fyrri drögum var þetta í höndum lögreglu.

 

 XVII. Kafli.        

Ákvæði þessa kafla eru óbreytt að öðru leyti en því að lagt er til að máli verði vísað til lögreglu ef bílstjóri hefur gerst brotlegur við ákvæði XVII. kafla tvisvar sinnum á þremur árum. Lagt er til að sektarhjárhæð verði að hámarki 300.000 krónur í stað 500.000 króna í upphaflegu frumvarpi.

 

XVIII. Kafli.

94. gr.

lagt er til í 6. mgr. 94. gr. að helmingi innkominna sekta vegna hraðakstursbrota sem numin eru í löggæslumyndavél skuli varið til að standa straum af uppbyggingu og rekstri kerfis löggæslumyndavéla og ennfremur til umferðaröryggismála, en það var ekki í fyrri drögum.

97. gr.

Lagt er til að sektarfjárhæð verði að hámarki í 500.000 krónur en í fyrri drögum var gert ráð fyrir að sektarfjárhæð gæti orðið að hámarki 750.000 krónur.

 

XIX. Kafli.

113. gr.

Lagt er til að tekið verði út að Umferðarstofa annist stjórnsýslu umferðarmála í umboði ráðherra, en slíkt orðalag getur orkað tvímælis þegar stjórnsýsluákvörðun Umferðarstofu er kærð til ráðuneytisins.

Eins og áður sagði skulu umsagnir um  frumvarpið berast samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í síðasta lagi fyrir lok dags fimmtudaginn 26. nóvember næstkomandi á netfangið [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum