Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Málefni Úkraínu og Mið-Austurlanda í brennidepli á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna

Málefni Úkraínu og Mið-Austurlanda í brennidepli á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna  - myndJohannes Jansson/norden.org

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, málefni Úkraínu og samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins voru helst til umræðu á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna, sem fram fór í gær. Fundurinn var fyrsti fundur ársins í norrænu samstarfi utanríkisráðherranna. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra tók þátt í fundinum með fjarfundarbúnaði. 

Ráðherrarnir ræddu meðal annars um leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins, sem fram fer í Washington DC í Bandaríkjunum í sumar á 75 ára afmælisári bandalagsins, en vonir standa til að Svíar hljóti inngöngu í varnarbandalagið í tíma fyrir leiðtogafundinn. Voru þeir sammála um mikilvægi þess að Norðurlöndin og bandalagsríki undirstriki enn og aftur óbilandi stuðning sinn við varnarstríð Úkraínumanna.  

„Okkar sterkustu skilaboð eru áframhaldandi og ófrávíkjanlegur stuðningur við Úkraínu sem og þau gildi sem Úkraínumenn eru að berjast fyrir, það er frelsi og fullveldi. Norðurlöndin hafa góða sögu að segja í þeim efnum og við ættum að vera í fararbroddi í baráttunni fyrir þessum gildum,“ segir Bjarni.   

Norðurlöndin eiga sömuleiðis í þéttu samráði vegna stöðu mála í Miðausturlöndum. Öll hafa þau lýst yfir þungum áhyggjum af mögulegri stigmögnun átaka á svæðinu sem og ástandi mannúðarmála á Gaza sem sé óviðunandi og kallað eftir tafarlausu mannúðarhléi.  

Svíþjóð tók við formennsku í norræna utanríkismálasamstarfinu af Íslandi í ársbyrjun, en í formannstíð Íslands var lögð áhersla á fjölþjóðasamstarf, jafnrétti, mannréttindi og lýðræði.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum