Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 528/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 528/2021

Fimmtudaginn 20. janúar 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. ágúst 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 19. mars 2020 og var umsókn hennar samþykkt 12. júní 2020. Þann 9. ágúst 2021 bárust Greiðslustofu Vinnumálastofnunar upplýsingar um að kærandi hefði ekki mætt í viðtal vegna starfs hjá Reykjavíkurborg. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 18. ágúst 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnuviðtali hjá sveitarfélaginu. Skýringar bárust frá kæranda 23. ágúst 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar væru stöðvaðar á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. október 2021. Með bréfi, dags. 13. október 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 17. nóvember 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 13. desember 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. desember 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar hafi verið stöðvaðar með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. ágúst 2021, vegna þess að hún hafi ekki mætt í atvinnuviðtal. Skýringar kæranda til Vinnumálastofnunar hafi ekki verið teknar gildar. Kærandi segi að það geti vel verið að hún hafi misskilið með atvinnuviðtalið en viðurlögin séu þau að allar greiðslur til hennar séu felldar niður. Kærandi hafi hingað til verið að vinna sem leiðsögumaður í ferðaþjónustunni, aðallega með ferðamönnum frá Japan, en eftir að Covid hafi skollið á hafi ferðamenn ekki komið þaðan. Kærandi hafi ekki sótt um neinar aukabætur vegna launaskerðingar. Hún hafi verið að vinna með atvinnuleysisbótum við liðveislu í 16 tíma á mánuði og sé á skrá hjá túlkaþjónustu Alþjóðaseturs. Einnig hugsi kærandi um móður sína sem sé næstum full vinna en móðir hennar sé stöðugt hjá læknum, auk þess sem kærandi versli inn fyrir hana. Móðir kæranda vilji ekki þiggja neina utanaðkomandi heimilisaðstoð og þó að það teljist ekki til vinnu sé það samt mikil ólaunuð vinna og kærandi sé að spara samfélaginu mikið fé. Kærandi fái ekki metinn nema um 60% bótarétt og sé mánaðarleg útborgun um 80 til 100 þúsund þegar búið sé að draga allt frá. Kærandi sé að bíða eftir að geta unnið við sitt fag og voni að ástandið lagist á næstunni. Það sé bara spurning um nokkra mánuði til viðbótar. Það komi sér afar illa fyrir kæranda að missa þessar tekjur. Þegar búið sé að vera frá vinnu jafnlengi og kærandi og á sama aldri og hún, sé erfitt að taka að sér hvað sem er. Kæranda langi og geti enn unnið við leiðsögn ferðamanna og ætli sér það. Vinnumálastofnun hafi metið rökstuðning hennar ófullnægjandi. Kærandi hafi aldrei þegið neinn stuðning vegna uppeldis barna sinna né neinar bætur fyrr en síðustu ár vegna skerts atvinnuframboðs. Þá skuldi hún ekkert og hjálpi börnum sínum að vera heilsteypt, útivinnandi og óháð utanaðkomandi aðstoð. Kærandi biðli til úrskurðarnefndar velferðarmála að fara yfir mál hennar og leyfa henni að klára bótarétt sinn. Hún sé viss um að þetta lagist um áramótin og þá fari hún á fullt skrið og fari að vinna á ný.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 19. mars 2020. Með erindi, dags. 12. júní 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 79%.

Þann 9. ágúst 2021 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá Reykjavíkurborg. Um hafi verið að ræða starf við ýmis konar þjónustu við einstaklinga. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hafi verið haft samband við kæranda tvisvar til þrisvar sinnum vegna umrædds starfs en kærandi hafi ekki mætt í starfsviðtal. Með erindi, dags. 18. ágúst 2021, hafi verið óskað eftir afstöðu kæranda til höfnunar á umræddu starfi. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að ef atvinnuleitandi hafi hafnað atvinnutilboði eða atvinnuviðtali, án gildra ástæðna, gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta.

Þann 23. ágúst 2021 hafi Vinnumálastofnun borist skýringar frá kæranda vegna höfnunar á umræddu atvinnuviðtali. Kærandi greini þar frá því að hún hafi tvisvar sinnum fengið símtal frá Reykjavíkurborg þar sem henni hafi verið kynnt sumarafleysingarstarf. Kærandi kveðist hafa ætlað að hugsa málið. Aftur á móti hafi kærandi ekki átt nein frekari samskipti við Reykjavíkurborg og hafi því gert ráð fyrir að annar hefði verið ráðinn í starfið.

Þann 30. ágúst 2021 hafi kæranda verið tilkynnt að skýringar hennar vegna höfnunar á atvinnuviðtali hefðu ekki verið metnar gildar og að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar væru stöðvaðar. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þess að kærandi hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá stofnuninni lengur en í 24 mánuði hafi greiðslur til hennar verið stöðvaðar, sbr. 5. mgr. 57. gr. laganna.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað því að mæta í atvinnuviðtal hjá Reykjavíkurborg. Komi því til álita hvort þær skýringar sem kærandi hafi veitt stofnuninni og úrskurðarnefnd velferðarmála séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði um að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. 

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi: 

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Í athugasemdum með 57. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé áréttað að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem bjóðist. Ástæðan sé einkum sú að atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þyki mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi.

Þær skýringar sem kærandi hafi veitt Vinnumálastofnun vegna höfnunar á umræddu atvinnutilboði snúi að því að hún hafi ekki átt í frekari samskiptum við Reykjavíkurborg eftir að hafa tilkynnt þeim að hún ætlaði að hugsa málið. Að mati Vinnumálastofnunar séu framangreindar skýringar kæranda ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Eins og áður segi hvíli rík skylda á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Hið sama gildi um boðun í atvinnuviðtal. Þá sé ekki hægt að ætlast til þess að atvinnurekendur bíði lengi eftir því að fá svar við boðun í atvinnuviðtal. Að því virtu telji Vinnumálastofnun að kærandi hafi hafnað atvinnuviðtali sem henni hafi boðist með sannanlegum hætti samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. skuli Vinnumálastofnun meta við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna atvinnuviðtali hafi verið réttlætanleg, en í 4. mgr. segi orðrétt:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Gert sé ráð fyrir því að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfu um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Þær skýringar sem kærandi greini frá í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi ekki legið fyrir þegar ákvörðun um viðurlög á grundvelli 57. gr. hafi verið tekin. Þær skýringar sem kærandi beri fyrir sig í kæru til nefndarinnar snúi að því að starfið hafi hvorki hentað reynslu hennar né áhugasviði. Að mati Vinnumálastofnunar geti atvinnuleitendur ekki hafnað störfum á þeim forsendum að áhugasvið, starfsþjálfun og reynsla þeirra liggi í annarri atvinnugrein. Þá greini kæranda jafnframt frá því í kæru að henni standi mögulega starf til boða eftir áramót. Í athugasemdum með 57. gr. laganna í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til ráðningar hins tryggða í ótímabundið starf við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu, enda þótt hinn tryggði hefji ekki störf þegar í stað. Beri þá meðal annars að meta hvort tíminn þangað til hinn tryggði hefji störf geti talist viðunandi eða hvort eðlilegra sé að líta svo á að hinum tryggða beri að taka starfinu sem í boði sé. Þá skuli við matið meðal annars líta til þess hvort um raunverulegt framtíðarstarf sé að ræða. Vinnumálastofnun hafi engar upplýsingar borist um það starf sem kærandi kveðist mögulega standa sér til boða, en stofnunin telji þó ljóst að það séð háð mikilli óvissu. Að mati Vinnumálastofnunar geti atvinnuleitendur þannig almennt ekki hafnað atvinnuviðtölum á þeim forsendum að annað starf standi þeim mögulega til boða og þá enn síður ef fyrir liggi að það starf sé háð mikilli óvissu. Í ljósi alls framangreinds sé það því mat Vinnumálastofnunar að þær skýringar sem kærandi beri fyrir sig í kæru séu ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði, sbr. 4. mgr. 57. gr. laganna.

Vinnumálastofnun vilji jafnframt vekja athygli á því að við móttöku umsóknar um atvinnuleysistryggingar veiti Vinnumálastofnun öllum atvinnuleitendum leiðbeiningar um hvar finna megi upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitanda. Þannig sé öllum atvinnuleitendum vísað á heimasíðu Vinnumálastofnunar þar sem meðal annars sé að finna skýrar upplýsingar um afleiðingar þess að hafna starfi án gildra ástæðna. Ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar séu skýr hvað varði skyldu atvinnuleitanda til að taka störfum sem í boði séu og um höfnun á atvinnutilboðum. 

Frá því að bótatímabil kæranda samkvæmt 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi byrjað með umsókn, dags. 21. nóvember 2018, hafi kærandi þegið greiðslu atvinnuleysistrygginga í 29,55 mánuði. Í samræmi við 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi bótaréttur kæranda því verið felldur niður. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrr en hún hafi starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hún hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 31. gr. laganna. 

Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði hjá Reykjavíkurborg geti ekki talist gildar í skilningi laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Beri kæranda því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna, sbr. 5. mgr. sömu greinar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í athugasemdum við 57. gr. í frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram:

„Enn fremur þykir mikilvægt að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan er einkum sú að atvinnuviðtal er venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykir það mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi. Verður að teljast óeðlilegt að hinn tryggði geti neitað því að fara í atvinnuviðtal án viðbragða frá kerfinu en þeir sem fóru í viðtalið og var boðið starfið þurfi að þola biðtíma eftir atvinnuleysisbótum taki þeir ekki starfinu.“

Í 5. mgr. 57. gr. segir að hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili samkvæmt 29. gr. þegar atvik sem lýst sé í 1. mgr. eigi sér stað skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. Í því ákvæði kemur fram að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins sinnti kærandi ekki atvinnuviðtali hjá Reykjavíkurborg. Í skýringum kæranda vegna þessa hjá Vinnumálastofnun kemur fram að hún hafi fengið símtal frá Reykjavíkurborg þegar hún hafi verið í fjölskylduerindum og það hafi ekki staðið vel á. Hún hafi svo fengið annað símtal þar sem sumarafleysingarstarf hafi verið kynnt fyrir henni. Kærandi hafi sagst ætla að hugsa málið en hafi svo ekki heyrt neitt meira og því haldið að annar einstaklingur hefði verið ráðinn í starfið. Í skýringum fyrir úrskurðarnefndinni vísar kærandi meðal annars til þess að hún sé að bíða eftir að geta unnið við sitt fag sem verði vonandi á næstunni. Þá sé erfitt að taka að sér hvað sem er vegna aldurs og þar sem hún sé búin að vera frá vinnu lengi.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður og skýringar sem kærandi hefur gefið séu ekki þess eðlis að þær réttlæti það að sinna ekki framkomnu atvinnuviðtali hjá Reykjavíkurborg. Atvinnuviðtöl eru oft undanfari atvinnutilboðs og bar kæranda því að sinna atvinnuviðtalinu.

Úrskurðarnefndin bendir á að í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. en í því felst meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, sbr. c. lið 1. mgr. ákvæðisins.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. ágúst 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum