Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 1995 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 3/1995

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 3/1995

A
gegn
Reiknistofu bankanna

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 24. nóvember 1995 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 8. júní 1995 fór A, yfirkerfisfræðingur, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort brotin hefðu verið lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar Reiknistofa bankanna (RB) fól henni tiltekin störf sem karlmaður áður gegndi án þess að greiða henni laun og gefa henni stöðuheiti til samræmis við það. Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Reiknistofu bankanna um:

  1. Afstöðu Reiknistofu bankanna til erindisins.
  2. Stöðuheiti, laun og fríðindi þess sem starfinu áður gegndi svo og A.
  3. Fjölda yfirmanna stofnunarinnar og hvernig þeir skiptast eftir kyni.

  4. Annað það sem að mati RB gæti komið að gagni í málinu.

Svarbréf Reiknistofu bankanna er dagsett 26, júní 1995 og var kæranda sent afrit þess. Hún sendi síðan athugasemdir sínar með bréfum dagsettum 4. júlí 1995 og 8. september 1995. A og B, skrifstofustjóri RB komu á fund kærunefndar 21. ágúst 1995.

Kærandi máls þessa, A, sem er yfirkerfisfræðingur hjá RB, lýsir málavöxtum svo að fyrir rúmum fjórum árum hafi þess verið farið á leit að hún setti sig inn í aðalbókhaldskerfi og reikningagerð og nokkur önnur minni kerfi sem aðalbókari RB hafði á sinni könnu með það fyrir augum að hún tæki við yfirumsjón þessara kerfa. Segir hún að svo hafi verið um talað að þegar hún teldist vel fær um að taka við þeim, eftir u.þ.b. tvö ár, yrði hún gerð að forstöðumanni. Hún hafi gengist inn á þetta en enga umbun enn fengið. Hún hafi innt yfirmenn sína öðru hverju eftir því hvort ekki yrði staðið við fyrrnefnt loforð en ekki fengið skýr svör. Árið 1993 hafi aðalbókarinn tekið nokkurra mánaða orlof og hún orðið staðgengill hans. Hún hafi tekið við störfum aðalbókarans á kerfissviði og sæti hans á forstöðumannafundum hjá framkvæmdastjóra kerfissviðs og sem staðgengill hafi hún fengið forstöðumannslaun. Eftir að aðalbókarinn kom úr leyfinu hafi hún gegnt þessum störfum áfram en aðalbókarinn ekki viljað við það una, viljað fá aftur sína fyrri stöðu á kerfissviði og hafi svo orðið.

A segir að gerðar hafi verið skipulagsbreytingar á kerfissviði í október 1994. Þessar breytingar hafi haft það í för með sér að áðurgreind verkefni á kerfissviði hafi verið falin henni en án þess að hún fengi stöðu- eða launahækkun. Staða hennar hafi jafnframt verið færð undir annan forstöðumann á kerfissviði.

Í bréfi til C, forstjóra RB, dags. 27. apríl 1995 óskaði A eftir skýringum á því hvers vegna hún hefði ekki fengið þau laun sem hún teldi að sér hefði verið lofað. Í viðtali við kærunefnd kom fram að í fjarveru aðalbókarans hefði hún eingöngu gegnt þeim hluta starfs hans sem tilheyrði kerfissviði og fyrir þau störf hafi hún fengið staðgengilslaun, aðrir hefðu séð um þau störf hans sem tilheyrðu aðalbókarastarfinu.

Kærandi leggur áherslu á að hér sé um það að ræða, að tiltekin störf sem tilheyri kerfissviði og áður hafi verið metin til stöðu og launa sambærilegum forstöðumannsstöðu þegar karlmaður gegndi þeim, hafi fengið annað vægi og minna þegar hún tók við þeim. Þessu til stuðnings vísar hún í lýsingu á starfi D á kerfissviði frá 4. júlí 1990 en þar segir að staðgengill D vegna kerfissviðsstarfa sé forstöðumaður á kerfissviði.

Í svarbréfi RB, dagsettu 26. júní 1995 kemur fram að aðalbókari taki laun skv. 163. launaflokki bankamanna, auk þess fái hann greidda 30 tíma í óunna yfirvinnu á mánuði, bifreiðastyrk, 900 km á mánuði, 13. mánuð, orlofsframlag, fastagjald síma og greiðslu afmælismánaða á 5 ára fresti eftir 15 ára starf. A taki laun eftir 162. launaflokki bankamanna, fái greidda 20 tíma í óunna yfirvinnu á mánuði, 800 km bifreiðastyrk m.v. 100% vinnu, en A vinni 90% starf, 13, mánuð, orlofsframlag, fastagjald síma og afmælisgreiðslur.

Í bréfi RB kemur fram að skipulagslegt vandamál hafi fylgt því að aðalbókara, sem sé jafn settur launalega og virðingarlega og forstöðumaður kerfissviðs, hafi verið falin störf yfirkerfisfræðings á kerfissviði. Ástæðan hafi verið sú að þegar D tók við stöðu aðalbókara hafi hann séð um aðalbókhaldskerfi bankanna auk nokkurra smáverkefna. Ekki hafi verið völ á jafn færum bókara í kerfisfræðingahópi reiknistofunnar á þeim tíma og því hafi hann haldið áfram um sinn umsjón með þeim verkefnum, sem hann áður hafði. Þessi skipan hafi alltaf verið til vandræða, m.a. þar sem skrifstofustjóri og forstjóri hafi af þessum sökum þurft að sinna ýmsum eðlilegum störfum aðalbókara. Þetta hafi verið lagfært með umræddri skipulagsbreytingu sl. haust.

Þá bendir C, forstjóri RB, í bréfi sínu á, að staðgengilslaun þau sem A hafi fengið er hún leysti aðalbókarann af í leyfi hans hafi hún ekki fengið af því að staðgengill D skuli vera forstöðumaður, heldur vegna þess að hún hafi leyst af yfirmann, sem hefði forstöðumannslaun.

Þá kemur einnig fram í bréfinu að mörg verkefni hafi verið flutt milli yfirkerfisfræðinga og/eða forstöðumanna og hafi yfirkerfisfræðingum verið fækkað um einn, karlmann, sem nú starfi undir stjórn A, en án þess að hafa verið lækkaður í launum. Við endurskipulagninguna hafi ýmsar aðrar breytingar verið gerðar m.a. hafi verkefni aðalbókhalds sem heyrt hafi undir aðalbókara verið flutt til forstöðumanns, sem sé hliðsettur aðalbókara. Þá leggur RB áherslu á að þau störf sem A telji að hafi flust yfir til hennar beri henni sem yfirkerfisfræðingi að sinna samkvæmt starfslýsingu yfirkerfisfræðinga.

A heldur því hins vegar fram að verkefni hennar séu mun ábyrgðarmeiri en annarra yfirkerfisfræðinga. Hún hafi yfirumsjón með og beri ábyrgð á verkum sem snerti marga aðila. Hún stjórni verkum sem nái langt út fyrir þann hóp sem hún stýri samkvæmt skipuriti. Hins vegar skorti hana vald til að forgangsraða vinnu annarra hópa og þurfi því að leita til forstöðumanna og framkvæmdastjóra til þess en beri þó alla ábyrgðina og verði að svara fyrir gang verkanna í heild sinni gagnvart bönkunum.

Í viðtali við kærunefnd staðfesti B, skrifstofustjóri RB, að í fjarveru aðalbókarans hafi kærandi eingöngu gegnt þeim störfum hans sem tilheyrðu kerfissviði og að hún hefði haldið því áfram eftir að hann kom úr leyfinu, en þá farið aftur á yfirkerfisfræðingslaun. Í samningum bankamanna sé kveðið á um hvernig fara skuli með greiðslur til staðgengla og eftir þeim hafi verið farið. Þá sagði hún að erfitt væri að bera saman störf yfirkerfisfræðinga og taldi sig ekki geta sagt til um hvort starf kæranda væri ábyrgðarmeira en annarra yfirkerfisfræðinga. Í máli hennar kom einnig fram að aðalbókarinn hefði fengið laun og stöðu sambærilega við forstöðumannsstöður, þegar hann tók við nýstofnaðri stöðu aðalbókara 1988.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991 er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Vegna þessa eru lagðar ýmsar skyldur á atvinnurekendur og má þar nefna ákvæði 5. gr. laganna sem kveður á um að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 4. gr. sömu laga skulu konum og körlum greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu eftir kynferði og gildir það m.a. um: 1) laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir starf, 2) ráðningu, setningu eða skipun í starf, 3) stöðuhækkun og stöðubreytingar, 4) uppsögn úr starfi, 5) vinnuaðstæður og vinnuskilyrði og 6) veitingu hvers konar hlunninda. Telji einhver rétt á sér brotinn og vísi máli sínu til kærunefndar jafnréttismála skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.

Kærandi máls þessa hefur haldið því fram að Reiknistofa bankanna hafi brotið 4. gr. laganna með því að störf sem karlmaður áður gegndi, þ.e. þau störf aðalbókarans sem tilheyrðu kerfissviði, hafi fengið annað vægi og minna þegar kona tók við þeim. Starfið hafi verið metið sem forstöðumannsstaða þegar karlmaður gegndi því sbr. starfslýsingu frá 4. júlí 1990, en sé nú metið sem yfirkerfisfræðingsstarf. Þá bendir hún á að hún hafi fengið hærri laun þegar hún gegndi því formlega í tímabundinni fjarveru aðalbókarans. Af hálfu Reiknistofu bankanna er því hins vegar haldið fram að hún hafi fengið staðgengilslaunin eingöngu vegna þess að hún leysti af yfirmann, en á því hafi hún átt rétt samkvæmt samningum bankamanna. Starf hennar sé hins vegar yfirkerfisfræðingsstarf og hafi einnig verið það þegar aðalbókarinn gegndi því. Launahækkun hafi hann fengið þegar hann tók við starfi aðalbókara, en samningar bankamanna kveði á um hver laun aðalbókara skuli vera.

Í máli þessu ber aðilum ekki saman um hvort störf kæranda, sem er yfirkerfisfræðingur, séu sambærileg störfum annarra yfirkerfisfræðinga. Það er hins vegar óumdeilt að í fjarveru aðalbókarans hafi kærandi gegnt þeim störfum hans er tilheyrðu kerfissviði og fengið staðgengilslaun fyrir. Þá eru aðilar sammála um að kærandi gegni enn stærstum hluta þessara starfa.

Það er álit kærunefndar að við mat á verðmæti starfa skv. 4. gr. l. 28/1991 sé nauðsynlegt að skoða hvað í þeim felist. Hvernig starf sé staðsett í skipuriti stofnunar eða fyrirtækis geti ekki eitt og sér ráðið úrslitum um mat á því. Starf kæranda er samkvæmt skipuriti yfirkerfisfræðingsstarf og hefur Reiknistofa bankanna mótmælt því að starf hennar sé annars eðlis eða ábyrgðarmeira en störf annarra yfirkerfisfræðinga.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að sú staðreynd að kærandi fékk laun sambærileg forstöðumannslaunum þegar hún sinnti störfum aðalbókara á kerfissviði í fjarveru hans skapi henni ekki rétt til að halda þeim launum enda þótt hún hafi gegnt starfinu að mestu leyti áfram. Vinnuveitandi hljóti að hafa um það nokkurt val hvernig störfum er skipt milli starfsmanna auk þess sem hann hafi heimild til að fela undirmanni hluta af störfum yfirmanns án þess að það leiði sjálfkrafa til launahækkunar, þó innan skynsamlegra og sanngjarnra marka. Óumdeilt er að aðalbókarinn hafi fengið laun og stöðu sambærilega forstöðumannsstöðu þegar hann tók við starfi aðalbókara árið 1988. Kærunefnd telur að Reiknistofa bankanna hafi sýnt fram á að sú launahækkun hafi komið til vegna starfa hans sem aðalbókari en ekki vegna starfa hans á kerfissviði. Það er því álit kærunefndar að kærandi geti ekki krafist hærri stöðu með vísan til launa og stöðu aðalbókarans.

Kærandi hefur haldið því fram að störf hennar séu ábyrgðarmeiri og flóknari en annarra yfirkerfisfræðinga en því hefur verið mótmælt af hálfu RB. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hafa komið í máli þessu telur kærunefnd ýmislegt benda til að kærandi hafi nokkra sérstöðu meðal yfirkerfisfræðinga RB. Kærunefnd telur þessa sérstöðu þó ekki nægjanlega til að fullyrt verði að jafnréttislög hafi verið brotin.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að með því að fela A tiltekin störf sem aðalbókari áður gegndi án þess að greiða henni hærri laun fyrir hafi Reiknistofa bankanna ekki brotið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 28/1991.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira