Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 1996 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/1995

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 6/1995

A
gegn
Akureyrarbæ

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála 26. febrúar 1996 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 7. september 1995 fór A, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort bæjarstjórn Akureyrar hafi með ráðningu B sem starfsmanns reynslusveitarfélagsverkefnis brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Akureyrarbæ um:

  1. Afstöðu bæjarstjórnar Akureyrar til erindisins.

  2. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um framangreint starf.

  3. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda hann hefði til að bera, sbr. 8. gr. laganna.

  4. Hlutfall kynja í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá Akureyrarbæ.

  5. Annað það er bæjarstjórn Akureyrar teldi að gæti skipt máli við mat á því hvort jafnréttislög hefðu verið brotin.

Greinargerð bæjarstjóra Akureyrar, C er dags. 6. nóvember 1995. Með bréfi dags. 19. desember 1995 sendi kærandi athugasemdir sínar við greinargerð bæjarstjóra til kærunefndar.

Kærandi máls þessa, kom á fund nefndarinnar 29. janúar 1996. Af hálfu Akureyrarbæjar var ekki óskað eftir að senda fulltrúa á fund kærunefndar.

Staða starfsmanns reynslusveitarfélagsins var auglýst laus til umsóknar í júní 1995. Í auglýsingunni segir: „Umsækjandi þarf að hafa háskólamenntun á sviði samfélagsfræða, reynslu af stjórnun, skipulagningu, félagsmálum og staðgóða þekkingu á sveitarstjórnarmálum.“

Í greinargerð bæjarstjóra kemur fram að fimm manns hafi sótt um starfið, fjórir karlar og ein kona en einn karlanna hafi dregið umsókn sína til baka.

Þá segir að um ráðninguna hafi verið fjallað á fundi framkvæmdarnefndar reynslusveitarfélagsins 31. júlí 1995. Hafi fjórir nefndarmanna talið B hæfari til starfsins en tveir talið A og B standa jafnt að vígi og því bæri samkvæmt starfsmannastefnu Akureyrarbæjar og jafnréttislögum að ráða A. Í bréfi bæjarstjóra til kæranda dags. 21. ágúst 1995 kemur fram að bæjarráð Akureyrar hafi fjallað um fundargerð framkvæmdanefndarinnar á fundi sínum hinn 3. ágúst og staðfest vali meirihluta hennar á B í starfið.

Í bréfi frá bæjarlögmanni Akureyrar dags. 16. janúar 1996 kemur fram hlutfall kynja í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá Akureyrarbæ þegar ráðið var í umrætt starf. Samkvæmt því eru slíkar stöður 54 og eru karlar í 30 þeirra og konur í 24, þar af eru 17 konur við leikskóla, skóladagheimili og skólavistun. Engin kona er í æðstu stöðum innan bæjarins.                                                                                                   

A lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands árið 1988. Hún lauk B.A. prófi í stjórnmálafræði með fjölmiðlafræði sem aukagrein árið 1993. Lokaritgerð hennar í stjórnmálafræði fjallaði um sameiningu sveitarfélaga á Íslandi. Auk ýmissa sumarstarfa og vinnu með námi hefur A starfað frá 1993-1994 í Vesturbæjarapóteki og frá ársbyrjun 1995 sem deildarsérfræðingur hjá Vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins

A kveðst hafa mikla reynslu af félagsstörfum. Hún hafi á námsárum sínum við H.Í. tekið virkan þátt í félagsmálum stúdenta, m.a. setið í ýmsum nefndum á vegum Stúdentaráðs og verið formaður í tveimur stórum nemendafélögum. Að námi loknu hafi hún átt þátt í stofnun Félags stjórnmálafræðinga og sitji í stjórn þess.

B lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1988. Hann lauk B.A. prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1993. Auk ýmissa sumarstarfa og vinnu með námi kenndi hann við Menntaskólann á Akureyri frá 19934994 og frá ágúst 1994 hefur hann starfað sem deildarbókarvörður við Háskólann á Akureyri auk stundakennslu við kennaradeild skólans haustið 1994. Í umsókn B kemur fram að hann hafi verið framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og starfað sem blaðamaður í hjáverkum s.l. tvö ár. B kveðst hafa unnið mikið að félagsstörfum á námsárum sínum.

A leggur áherslu á að menntun hennar falli mun betur að auglýsingu um starfið en þess sem ráðinn var. Auglýst hafi verið eftir starfsmanni með menntun á sviði samfélagsfræða. Hún mótmælir því að heimspekimenntun geti talist samfélagsfræði. Kveðst hún hafa rætt við nokkra aðila innan H.Í. og hafi allir verið á einu máli um að heimspeki teldist ekki til samfélagsfræða. Þá telur A að með vísan í jafnréttislög og jafnréttisáætlun Akureyrarbæjar, en samkvæmt henni sé það stefna bæjaryfirvalda Akureyrarbæjar að auka hlut kvenna í áhrifastöðum, hafi borið að ráða hana. Ljóst sé af lista yfir konur í stjórnunarstöðum hjá Akureyrarbæ að þau störf sem þar eru talin flokkist flest undir svokölluð „kvennastörf“.

Í greinargerð bæjarstjóra Akureyrar segir að starfið sé nýtt og ómótað og því hafi kröfurnar verið svo almennt orðaðar í auglýsingunni. Auglýst hafi verið eftir starfsmanni með menntun á sviði samfélagsfræði en menntun ekki tilgreind nánar. Enda þótt það geti verið álitamál hvað telja megi til samfélagsfræða hafi það verið skoðun reynslusveitarfélagsnefndarinnar að menntun beggja, þ.e. stjórnmálafræði og heimspeki, félli þar undir.

Þá segir í greinargerðinni að starfið sé tvíþætt. Annars vegar felist það í söfnun upplýsinga um einstaka þætti reynslusveitarfélagsverkefisins og dreifingu þeirra, annast fundi og vera tengiliður þeirra er að málinu vinna. Þessi hluti starfsins krefjist ekki mikillar fræðilegrar menntunar og hefði starfið eingöngu verið fólgið í honum hefði væntanlega verið auglýst eftir ritara og kröfum lýst í samræmi við það. Enda þótt það sé kostur hvað varðar þennan hluta starfsins að hafa starfsmann, sem hefur fjallað um sameiningu sveitarfélaga í BA ritgerð, sé það alls ekki nauðsynlegt. Hins vegar felist starfið í framkvæmdastjórn þess hluta reynslusveitarfélagaverkefnisins, sem lúti að breytingum á stjórnsýslu og fræðsluátaki innan hennar. Þessi hluti starfsins reyni mun meira á fræðilega þekkingu og krefjist sjálfstæðari vinnubragða en sá fyrrnefndi. Ekki sé augljóst að stjórnmálafræðimenntun sé besta menntunin fyrir þennan hluta þó hún komi vissulega til greina.

Bæjarstjóri vísar í greinargerð sinni í bréf sitt til A, dags. 6. september 1995 um frekari rökstuðning. Í bréfi þessu segir að í drögum að starfslýsingu sé einkum getið fjögurra þátta; starfsmaðurinn þurfi að hafa heildaryfirsýn yfir verkefnið, samræmi upplýsingasöfnun og dreifi upplýsingum, starfi með deildarstjórum Akureyrarbæjar við framkvæmd einstakra verkþátta en hafi auk þess sjálfur með höndum framkvæmdastjórn stjórnsýslutilrauna innan bæjarins, sem hafi það að markmiði að bæta tengsl stjórnkerfisins við bæjarbúa og auka skilvirkni bæjarkerfisins. Þær tilraunir muni ekki síst felast í fræðsluátaki fyrir starfsmenn, sem nokkuð hafi verið undirbúið. B hafi starfað sem kennari í heimspeki, af honum fari gott orð sem kennara, honum sé einkar lagið að setja efni fram á skilmerkilegan og áhugaverðan hátt en í starfinu reyni mjög á þá hæfileika sem einkenni góðan kennara, hæfni til að fræða, vinna fólk tilfylgis við nýmæli og breyta viðhorfum með nýrri sýn og upplýsingum. Meirihluti nefndarinnar áleit að nám B í heimspeki, heimspekilegri aðferð og hinni gagnrýnu hugsun sem henni fylgi mundi nýtast vel í þessu skyni. Þá hafi B staðarþekkingu, hann hafi starfað í tengslum við Akureyrarbæ og þekki til innviða bæjarkerfisins án þess að tengjast þeim um of. Það komi til með að flýta fyrir því að hann komi að fullu gagni sem skipti máli við tímabundið starf.

Í athugasemdum sínum við greinargerð bæjarstjóra bendir A á að misræmi sé í lýsingu á starfi og æskilegum umsækjendum í auglýsingu annars vegar og svari Akureyrarbæjar hins vegar. Í auglýsingu hafi verið nefndir þó nokkrir eiginleikár sem umsækjandi þyrfti að uppfylla en í svarbréfinu sé ítrekað tekið fram að starfið sé nýjung „og af þeim sökum fyrirfram örðugt að skilgreina þær kröfur sem það mun gera“. Kröfur bæjarins til umsækjenda hafi breyst töluvert eftir að ljóst hafi verið hverjir sóttu um starfið. Í bréfinu sé lögð áhersla á „hæfnina til að fræða, vinna fólk til fylgis við nýmæli og breyta viðhorfum með nýrri sýn og upplýsingum“. A kveðst aldrei hafa verið spurð hvort hún byggi yfir þessum eiginleikum, sem hún teldi sig gera, m.a. vegna þátttöku sinnar í félagsmálum. Þá telur hún Akureyrarbæ ekki hafa svarað þeirri spurningu að hvaða leyti sá sem ráðinn var sé hæfari til starfsins. Einu sjáanlegu ástæðurnar virðist vera kynferði hans og „staðarþekking“. Loks leggur hún áherslu á að sé hægt að breyta kröfum sem gerðar séu um auglýst starf eftir á, séu litlar líkur til að jafnrétti verði að veruleika á vinnumarkaðinum.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvalli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem í minnihluta er í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Samkvæmt jafnréttisáætlun Akureyrarbæjar 1993-1997, sem samþykkt var í bæjarstjórn 2. nóvember 1993, segir í lið 2.1.1.:

„Þegar ráða á í stjórnunarstörf innan bæjarkerfisins verði leitað markvisst að konum í þau störf, bæði innan bæjarkerfisins og utan. Í auglýsingum um þau störf skulu konur hvattar sérstaklega til að sækja um. Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar. Jafnréttisfulltrúi veitir aðstoð í því sambandi.“

Í máli því sem hér er til umfjöllunar eru umsækjendur báðir með BA próf frá Háskóla Íslands, A í stjórnmálafræði og B í heimspeki. Í auglýsingu um starfið var krafist menntunar á sviði samfélagsfræða og staðgóðrar þekkingar á sveitastjórnarmálum. Það er mat kærunefndar að menntun beggja geti nýst vel í starfínu en menntun A falli betur að þeim kröfum sem gerðar voru í auglýsingu. Hvorugt hefur langa starfsreynslu því að bæði útskrifuðust úr H.Í. 1993. Að því leyti verður að telja bæði jafnhæf til starfsins.

Af hálfu bæjarstjórnar Akureyrar hefur verið lögð áhersla á reynslu B við kennslu, að hann hafi heppilega menntun, af honum fari gott orð sem kennara og öllum heimildum beri saman um að honum sé einkar lagið að setja efni fram á skilmerkilegan og áhugaverðan hátt Þá hafi hann staðarþekkingu, hafi starfað í tengslum við Akureyrarbæ og þekki til innviða bæjarkerfisins án þess að tengjast þeim um of.

Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu virðist ekki hafa farið fram nein athugun á hæfni A til að fræða eða setja efni fram á skilmerkilegan og áhugaverðan hátt.

Hvað staðarþekkingu B varðar getur nefndin ekki fallist á að slík sjónarmið réttlæti ráðninguna, ekki síst þegar jafnréttisáætlun Akureyrar er höfð í huga en samkvæmt henni ber við ráðningu í stjórnunarstörf að leita markvist að konum bæði innan bæjarkerfisins og utan.                                                

Þegar skoðað er hlutfall kynja í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá Akureyrarbæ kemur í ljós að af 54 stjórnunar- og ábyrgðarstöðum eru konur í 24, þar af eru 17 við leikskóla, skóladagheimili og skólavistun þ.e.a.s. í hefðbundnum kvennastörfum. Engin kona var í hópi æðstu embættismanna bæjarins þegar ráðið var í umrædda stöðu.

Með vísan til þessa er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að bæjarstjórn Akureyrar hafi með ráðningu B í stöðu starfsmanns reynslusveitarfélagsverkefnis Akureyrarbæjar brotið gegn ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga hr. 28/1991, sbr. 8. gr. sömu laga.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til bæjarstjórnar Akureyrar að fundin verði viðunandi
lausn á málinu sem kærandi getur sætt sig við.                                  

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira