Hoppa yfir valmynd
16. janúar 1996 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 8/1995

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 8/1995

A
gegn
Langholtsskóla

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þriðjudaginn 16. janúar 1996 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 24. september 1995 fór A, trésmiður, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort stjórn Langholtsskóla hefði með ráðningu B í starf umsjónarmanns við skólann brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Langholtsskóla um:

 1. Afstöðu stjórnar Langholtsskóla til erindisins.

 2. Menntun og starfsreynslu þeirrar sem ráðin var ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda hún hefði til að bera, sbr. 8. gr. laganna.

 3. Hlutfall kynja í sambærilegum stöðum, annars vegar innan Langholtsskóla og hins vegar innan grunnskóla Reykjavíkurborgar.

Svarbréf skólastjóra Langholtsskóla er dags. 1. nóvember 1995. Með bréfi dags. 12. nóvember 1995 sendi kærandi athugasemdir sínar við bréf skólastjóra til kærunefndar.

C, aðstoðarskólastjóri Langholtsskóla, kom á fund kærunefndar þann 22. desember 1995. Kærandi óskaði ekki eftir að koma á fund nefndarinnar.

Starf umsjónarmanns við Langholtsskóla var auglýst laust til umsóknar sumarið 1995. Í auglýsingu voru ekki tilteknar neinar sérstakar hæfniskröfur en tekið var fram að starfið ætti að geta höfðað til beggja kynja.

Í greinargerð skólastjóra segir að innan Langholtsskóla séu ekki nein önnur störf hliðstæð umsjónarmannsstarfi. Umsjónarmenn við grunnskóla Reykjavíkurborgar séu 29, þar af 21 karl og 8 konur.

Kærandi málsins, A, lauk námi í húsgagnasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1967 og í húsasmíði frá sama skóla árið 1974. Auk þess hefur hann lokið meiraprófi bifreiðarstjóra. Hann vann við trésmíðar og viðhald hjá Áburðarverksmiðju ríkisins frá 1985-1987, Iðnskólanum í Reykjavík 1987-1989 og Verki h.f. 1989-1993. Frá 1993 hefur hann starfað sjálfstætt við trésmíðar.

B lauk sjúkraliðaprófi frá Sjúkraliðaskóla Íslands árið 1976. Auk húsmóðurstarfa og uppeldis fimm barna hefur hún starfað við sjúkraliðastörf á Landspítalanum frá 1976. Þá hefur hún sinnt störfum umsjónarmanns við Langholtsskóla í afleysingum s.l. átta ár.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji menntun sína falla mun betur að hinu auglýsta starfi en menntun B. Hann hafi sótt um starfið í þeirri trú að verið væri að leita eftir manneskju með reynslu eða þekkingu á viðhaldi húsa, iðnaðarmanni eða handlögnum manni og fái hann ekki séð hvernig sjúkraliðamenntun komi þar að gagni. Hann þekki til starfa húsvarða þar sem faðir hans hafi verið húsvörður við grunnskóla í yfir tuttugu ár og hann hafi unnið ýmis störf með honum síðustu árin. Þá sé B eiginkona fyrrverandi húsvarðar við Langholtsskóla og greinilegt sé að fyrirfram hafi verið ákveðið að hún fengi stöðuna og auglýsingin hafi því eingöngu verið til málamynda. Sé auglýsingin grannt skoðuð sé greinilegt að með orðalaginu „störf við húsvörslu og kaffiumsjón“ sé verið að fela að um stöðu húsvarðar sé að ræða.

Í greinargerð skólastjóra Langholtsskóla segir að ljóst sé að A hafi ekki gert sér glögga grein fyrir starfi umsjónarmanns skóla. Það sé mikill misskilningur að starfið felist fyrst og fremst í viðhaldi húsa og búnaðar samanber starflýsingu Skólaskrifstofu Reykjavíkur á starfinu. Eitt aðalverksviðið sé samkvæmt starfslýsingu verkstjórn ræstingarfólks og ábyrgð á þeim störfum gagnvart skólastjóra. B hafi öðlast traust þessa starfsfólks og sýnt starfsemi skólans sérstaka lipurð og umhyggjusemi. Hún hafi verið búsett í skólahúsinu undanfarin átta ár, sinnt ýmsum störfum fyrir skólann á þeim tíma og leyst þau fljótt og af vandvirkni.

Starfslýsing fyrir umsjónarmann skóla, en svo nefnist hin umrædda staða, frá Skólaskrifstofu Reykjavíkurborgar dags. 18. maí 1995 fylgdi greinargerð Langholtsskóla. Í henni segir:

STARFSHEITI: Umsjónarmaður skóla

YFIRMAÐUR: Skólastjóri

Umsjónarmaður skóla lýtur daglegri verkstjórn skólastjóra í umboði Skólaskrifstofu Reykjavíkur. Skólastjóri ræður umsjónarmann til starfa í umboði Skólaskrifstofu Reykjavíkur.

MARKMIÐ:

Að taka þátt í því uppeldisstarfi sem fram fer innan skólans þar sem áhersla er lögð á vellíðan nemenda.

HELSTU VERKEFNI:

 1. Er verkstjóri starfsmanna skóla I-III og ræstingafólks og ber ábyrgð á skráningu vinnutíma þeirra gagnvart skólastjóra. Hefur eftirlit með gæðum ræstingar. Húsvörður annast ekki ráðningu starfsfólks, nema að honum sé falið það af yfirmanni sínum.

 2. Veitir fyrstu hjálp ef slys ber að höndum.

 3. Hefur eftirlit með nemendum þegar aðstæður kalla á slíkt og leiðbeinir þeim í samskiptum við aðra nemendur og starfsfólk skólans.

 4. Sér um að húsnæði, allur búnaður og lóð skólans séu ávallt í fullnægjandi ástandi og aðgengilegt fyrir starfsfólk og nemendur. Sér um að skólahúsnæðið sé opið við upphaf skóladags og ber ábyrgð á frágangi húsnæðis í lok skóladags.

 5. Sér um að lýsing og hiti skólahúsnæðis sé fullnægjandi.

 6. Sinnir almennu viðhaldi (skiptir um perur, skrár í hurðum og skápum, losar stíflur úr handlaugum o.s.frv.).

 7. Kallar til iðnaðarmenn til stærri verka samkv. beiðnakerfi Skólaskrifstofu og hefur eftirlit með starfi þeirra.

 8. Sér um innkaup á ræstingarvörum og öðru er varðar verksvið viðkomandi og einnig að gjaldaliðir ræstingar séu innan fjárheimilda.

 9. Önnur þau störf er starfsmanni kunna að vera falin af skólastjóra.

TENGSL:

Daglega: nemendur og starfsfólk skólans.

Sjaldnar: Skólaskrifstofa Reykjavíkur

Í viðtali við C, aðstoðarskólastjóra, kom fram að hún teldi starfsreynslu B falla betur að starfinu en starfsreynslu A. Hún hafi búið í skólahúsinu s.l. átta ár og í veikindum eiginmanns síns, sem áður var húsvörður, hafi hún gegnt mörgum þáttum starfs hans. M.a. hafi hún tekið að sér alla skráningu fyrir hann svo og pantanir.

Í máli C kom ennfremur fram að svo virtist sem kærandi hefði misskilið auglýsingu um starfið. Um hefði verið að ræða tvö óskyld störf, annars vegar við húsvörslu og hins vegar við kaffiumsjón enda stæði í auglýsingunni „...bæði störfin eiga að geta höfðað til beggja kynja.“

Þá mótmælti C þeirri fullyrðingu A að fyrirfram hefði verið ákveðið að ráða B í starfið. Stjórnendur skólans hefðu ekki vitað að hún hygðist sækja um fyrr en eftir að staðan var auglýst. Margar góðar umsóknir hafi borist en það hafi verið mat skólastjóra að B væri fremst í þeim hópi og því verið andstætt hagsmunum stofnunarinnar að ganga fram hjá henni.

Að sögn C hefur umsjónarmannsstarfið breyst töluvert á undanförnum árum. Mikið sé lagt upp úr sveigjanleika og að almennir starfsmenn skólans geti gengið hver í annars starf eftir þörfum. Viðhald húsnæðis heyri ekki lengur starfinu til. Öll vinna iðnaðarmanna sé unnin samkvæmt sérstökum samningum. Hlutverk umsjónarmanns sé að kalla til iðnaðarmenn þegar þess sé þörf og eftirlit hans með störfum þeirra felist í því að fylgjast með veru þeirra á staðnum og staðfesta að vinna hafi farið fram. Í 4. lið starfslýsingar segi að umsjónarmaður sjái um að húsnæði, allur búnaður og lóð skólans séu ávallt í fullnægjandi ástandi. Í því felist ekki að umsjónarmaður eigi sjálfur að laga það sem aflaga fari heldur kalla til aðstoð eftir því sem við eigi hverju sinni.

Það hafi verið mat skólastjórnar að starfið hentaði báðum kynjum svo sem getið hafi verið um í auglýsingu og ekki þörf á neinni sérstakri menntun. Starfsreynsla B væri lengri en A og hefði hún ásamt farsælum starfsferli hennar við skólann ráðið úrslitum við ráðninguna.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvalli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar voru ekki gerðar neinar menntunarkröfur í auglýsingu. Kærandi hefur haldið því fram að menntun hans falli mun betur að starfinu en menntun þeirrar sem ráðin var. Stjórnendur Langholtsskóla hafa mótmælt því og lagt fram starfslýsingu umsjónarmanns máli sínu til stuðnings. Þegar horft er til hennar svo og þeirrar lýsingar sem aðstoðarskólastjóri gaf á starfinu er það álit kærunefndar að menntun A og B falli álíka vel að umræddu starfi. Sé litið til starfsreynslu þeirra þá hefur A starfað í tæp 30 ár við trésmíðar og viðhald og B í tæp 20 ár sem sjúkraliði auk húsmóðurstarfa og barnauppeldis í rúm 20 ár þar á undan. Að auki hefur B starfað nokkuð við umsjónarmannsstörf við Langholtsskóla. Starfsreynsla þeirra, hvors á sínu sviði, má því teljast sambærileg.

Með menntun og starfsreynslu í huga verður að telja að bæði uppfylli þær kröfur sem gerðar voru.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hallar verulega á konur í umsjónarmannsstörfum hjá Reykjavíkurborg, en þær eru 8 af 29 umsjónarmönnum.

Að öllu þessu virtu er það mat kærunefndar jafnréttismála að með ráðningu B í starf umsjónarmanns við Langholtsskóla hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira