Hoppa yfir valmynd
9. apríl 1996 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 9/1995

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 9/1995

A
gegn
Hollustuvernd ríkisins

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þriðjudaginn 9. apríl 1996 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 27. október 1995 óskaði A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort að vinnuaðstæður hennar hjá Hollustuvernd ríkisins og uppsögn úr starfi á árinu 1992 hefðu brotið í bága við ákvæði 4. og 5. tl. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftir afstöðu Hollustuverndar ríkisins til erindisins. Svarbréf Hollustuverndar er dags. 4. janúar 1996. Kærandi hefur lagt fram ýmis gögn máli sínu til stuðnings, m.a. afrit af bréfum milli hennar og forstöðumanns Hollustuverndar ríkisins frá árunum 1991 til 1994 sem varða samskipti hennar við yfirmenn og uppsögn úr starfi, endurrit úr dómabók Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. apríl 1994 í máli hennar gegn ríkissjóði og minnispunkta um starfsskilyrði og starfslok hennar hjá Hollustuvernd ríkisins. Einnig liggja fyrir afrit af samkomulagi milli A og fjármálaráðuneytisins dags. 23. október 1995.

A hóf störf á rannsóknarstofu Hollustuverndar ríkisins í janúar 1983, fyrst við ýmis afleysingastörf og sérverkefni en sem fastráðinn starfsmaður frá 1987. Frá byrjun ársins 1990 starfaði hún sem fagdeildarstjóri. Samkvæmt gögnum málsins voru verulegir erfiðleikar í samskiptum milli A og yfirmanns hennar, forstöðumanns rannsóknarstofu. Þessir samskiptaerfiðleikar leiddu til þess að henni var sagt upp störfum í september 1992 frá og með 1. október s.á. með þriggja mánaða fyrirvara og var vinnuframlag hennar á uppsagnarfresti afþakkað. Í framhaldi af því leitaði hún til stéttarfélags síns sem vísaði máli henni til laganefndar BHMR. Niðurstaða laganefndar dags. 14. janúar 1993 var sú að ekki væri tilefni til aðgerða enda þótt álitamál væri hvort uppsögnin væri að öllu leyti í samræmi við ákvæði laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

A höfðaði mál gegn heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til greiðslu skaðabóta þann 3. nóvember 1993. Var bótakrafan á því byggð að uppsögnin hefði nánast falið í sér brottvikningu úr starfi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 22. apríl 1994 voru stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

Með bréfi dags. 4. júlí 1994 óskaði A eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort framkoma yfirmanns við hana og uppsögn hennar úr starfi hjá Hollustuvernd ríkisins bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Erindinu var hafnað með þeim rökum að uppsögn hennar hefði verið til meðferðar hjá dómstólum.

Í máli þessu liggur fyrir svohljóðandi samkomulag milli A og fjármálaráðuneytisins, sem hún hefur lýst sig samþykka með undirskrift sinni:

Fjármálaráðherra barst bréf dags. 1. sept. 1995, þar sem þér lýsið því yfir að ljúka megi deilumáli vegna uppsagnar úr starfi sérfræðings hjá Hollustuvernd ríkisins með tilteknum hætti.

Fjármálaráðuneytið hefur haft mál yðar til sérstakrar skoðunar og m.a. átt viðræður við umhverfisráðuneytið. Aðilar eru sammála um að ljúka umræddu deilumáli með kr. 300.000 greiðslu við starfslok, eins og þér lýsið yður samþykka í áður nefndu bréfi. Með þessari niðurstöðu líta ráðuneytin svo á að málinu sé lokið af hálfu allra aðila.

Erindi A sem hér er til umfjöllunar byggir á því að hún hafi allt frá árinu 1984 er hún hóf störf hjá Hollustuvernd ríkisins mátt þola margs konar lítilsvirðingu af hendi yfirmanns síns, forstöðumanns rannsóknarstofu stofnunarinnar. Þetta hafi komið fram við val á þeim verkefnum sem henni voru falin og almennri framkomu hans. Í minnispunktum hennar til kærunefndar dags. 24. október 1995 segir:

- 1991, sumar: Á starfsmannafundi tilkynnti … flutning verkefna úr mínum höndum yfir til sín og ... Ég gekk út af fundinum þar sem ég taldi um kynferðislega mismunun að ræða og móðgandi kynferðislega áreitni. Ástæða þess var að verkefni voru flutt úr mínum höndum yfir til … sem er karlmaður og … sem var skilgreind með félagslega kynferðið tveggja barna móðir. Sjálf var ég skilgreind með félagslega kynferðið einhleypur, barnlaus kvenmaður. Ég mótmælti þessari hegðan yfirmanns míns skriflega með bréfi dags. 10.07 1991.

og síðar í sömu minnispunktum segir:

Mér var hótað uppsögn vegna samstarfserfiðleika með bréfi dags. 23. október 1991. Þar sem mér var fyllilega ljóst að verið væri að áreita mig og setja mig í óviðunandi starfsaðstæður vegna félagslega skilgreinds kynferðis míns „einhleypur og barnlaus kvenmaður“ leitaði ég til stéttarfélags míns FÍN með bréfi dags. 31.10. 1991.

Í bréfi B, framkvæmdastjóra Hollustuverndar ríkisins til kærunefndar dags. 4. janúar 1996 er öllum ásökunum A vísað á bug. Jafnframt er vísað til framangreinds samkomulags hennar við fjármálaráðherra frá 23. október 1995 um lok á deilumálum hennar við stofnunina.

NIÐURSTAÐA

Erindið sem hér er óskað afstöðu nefndarinnar til hefur að hluta til sætt úrlausn dómstóla, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. apríl 1994. Jafnframt liggur fyrir að hinn 23. október 1995, fjórum dögum áður en erindi þetta var sent kærunefnd jafnréttismála, gerði kærandi samkomulag við fjármálaráðherra um lok deilumála hennar við Hollustuvernd ríkisins vegna starfsloka hennar þar.

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd jafnréttismála erindi A, dags. 27. október 1995, því ekki heyra undir nefndina, sbr. 19. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum