Hoppa yfir valmynd
22. mars 1996 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 12/1995

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 12/1995

A
gegn
Leikfélagi Reykjavíkur

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 22. mars 1996 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 23. nóvember 1995 fór A, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Leikfélag Reykjavíkur (LR) hefði með ráðningu B í starf leikhússtjóra brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Leikfélagi Reykjavíkur um:

  1. Afstöðu L.R. til erindisins.

  2. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um framangreint starf.

  3. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda hann hafi til að bera, sbr. 8. gr. laganna.

  4. Hlutfall kynja í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá L.R.

  5. Annað það er leikhúsráð teldi að gæti skipt máli við mat á því hvort jafnréttislög hefðu verið brotin.

  6. Reglur/samþykktir um stjórnskipulag L.R.

Greinargerð leikhúsráðs L.R. er dags. 20. desember 1995. Með bréfi dags. 18. janúar 1996 sendi kærandi athugasemdir sínar við greinargerð leikhúsráðs til kærunefndar.

Kærandi máls þessa, og C, varaformaður leikhúsráðs L.R., komu á fund kærunefndar 19. febrúar 1996.

Staða leikhússtjóra L.R. var auglýst laus til umsóknar í júní 1995. Í auglýsingunni voru ekki gerðar neinar hæfniskröfur til umsækjenda og starfinu ekki lýst.

Í greinargerð L.R. kemur fram að tíu manns hafi sótt um starfið, sex konur og fjórir karlar.

A lauk prófi frá Listdansskóla Þjóðleikhússins 1961. Hún stundaði nám við The Royal Ballet School í London 1961-1963 og listdanskennaranám við The Royal Academy of Dancing í London 1961-1964. Hún stundaði söngnám við Tónlistarskólann í Reykjavik 1966-1968. Hún fór í náms- og kynnisferð erlendis 1971-1972 þar sem hún sótti m.a. endurmenntunarnámskeið fyrir leikara á RADA í London og námskeið í Comedia deirarte í París. Árið 1976 lauk A stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Hún fór til náms- og starfsdvalar í Þýskalandi 1994-1995 þar sem hún nam þýsku og sótti tíma í leikhúsfræðum við háskólann í Frankfurt og fylgdist með æfingum í leikhúsum og óperu í Wiesbaden og Berlín. Auk þess hefur hún sótt ýmis námskeið hérlendis og erlendis er tengjast leiklist og farið árlega utan til að kynna sér þróun hennar.

A var kennari við Listdansskóla Þjóðleikhússins 1963-1965 og við Leiklistaskóla Íslands 1977-1980. Hún starfaði með leikfélaginu Grímu 1965-1968, m.a. sem danshöfundur og leikari og var einn af stofnendum Leiksmiðjunnar. Þá starfaði hún við Leikfélag Akureyrar um nokkurra ára skeið sem leikari, leikstjóri og þjálfari og var einn af stofnendum Alþýðuleikhússins. Hún rak eigin listdansskóla í Reykjavík og Keflavík 1965-1969 og á Akureyri 1969-1971. Aðalstarf A hefur verið leikstjórn og hefur hún leikstýrt hjá stofnanaleikhúsum, áhugaleikfélögum og íslensku óperunni. Auk þess hefur hún leikstýrt fjölda verka fyrir sjónvarp og hljóðvarp. Hún var einn af stofnendum Kvennaframboðsins í Reykjavík og síðan Samtaka um Kvennalista, hefur verið varaborgarfulltrúi, þingmaður og varaþingmaður. Þá er hún fimm barna móðir. Hún hefur verið listgagnrýnandi, hlotið starfslaun listamanna og listamannalaun.

A kveðst hafa mikla reynslu af félagsstörfum. Hún hafi m.a. verið formaður Félags leikstjóra í fjögur ár, gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í þágu leiklistar og sótt fjölmargar ráðstefnur og þing utanlands sem innan í tengslum við þessi störf.

B stundaði nám við Leiklistaskóla SÁL 1973-1975 og lauk því við Leiklistaskóla Íslands 1976. Hann hefur sótt ýmis námskeið er tengjast leikhúsi bæði hér á landi og erlendis og farið í náms- og kynnisferðir í leikhús erlendis.

B hefur starfað við leiklist frá því hann lauk námi. Hann hefur kennt leiklist bæði við Leiklistaskóla Íslands 1988 og 1990 og í skólum og hjá félagasamtökum. Hann stofnaði EGG-leikhúsið og hefur rekið það í 12 ár. Þá hefur hann starfað sem leikari og leikstjóri einkum við áhugamannaleikhús og frjálsa leikhópa auk þess sem hann hefur leikstýrt nokkrum sýningum við Leikfélag Akureyrar og einni sýningu við Þjóðleikhúsið. Þá hefur hann unnið að fjölda útvarpsþátta um leiklist. Hann hefur starfað sem leikhússtjóri L.A. frá 1993. Þá kveðst hann hafa gegnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum í þágu leiklistar.

Í greinargerð leikhúsráðs L.R. segir að því fari fjarri að kynferði hafi ráðið nokkru um val í starf leikhússtjóra. Til grundvallar hafi verið lagt mat á hæfileikum umsækjenda og menntun, reynslu þeirra og framtíðarsýn, myndugleika og lipurð í samskiptum. Þessir þættir hafi verið kannaðir skipulega í ítarlegum viðræðum leikhúsráðs við umsækjendur. Þá sé erfitt að meta starf leikhússtjóra á sama veg og stjórnunarstörf á almennum markaði. L.R. hafi átt undir högg að sækja og opinber gagnrýni hafi verið hörð á nýliðnu leikári. Því hafi leikhúsráði þótt mikilvægt að í stöðuna veldist maður sem hefði skýrar hugmyndir um listræna og rekstrarlega framtíð L.R. Hvorki A né B hafi nokkra þá sérmenntun sem telja megi að komi öðru fremur að gagni í umræddu starfi og hafi leikhúsráð ekki gert upp á milli menntunar þeirra.

Í greinargerðinni segir ennfremur að enginn mælikvarði sé nothæfur til að meta hvort umsækjenda hafi meiri eða gagnlegri reynslu af listrænu starfi í leikhúsi og hafi leikhúsráð því metið þau jafn hæf að starfsreynslu. Þá álíti leikhúsráð reynslu B af starfsemi sjálfstæðra leikhópa meiri. Ráðið telur að með hliðsjón af reynslu B við rekstur og stjórn Egg-leikhússins og starfsreynslu hans sem leikhússtjóri L.A. standi hann kæranda framar í reynslu af stjórnunarstörfum.

Mikilvægt hafi þótt að leikhússtjóri væri vel að sér í leikbókmenntum og því sem væri að gerast á leiklistasviðinu hér á landi og erlendis. Með hliðsjón af framlögðum gögnum fullyrði ráðið að B beri af öðrum umsækjendum að þessu leyti enda hafi hann sótt námskeið og leiklistahátíðir víða um heim nánast árlega undanfarin 20 ár. Þá hafi B haft betur mótaðar hugmyndir um framtíðarstarf L.R. og leiðir til úrbóta en aðrir umsækjendur.

Í greinargerð L.R. segir ennfremur að í lögum þess séu engar reynslu- eða menntunarkröfur gerðar til leikhússtjóra. Í auglýsingu um starfið hafi verið óskað upplýsinga um menntun og starfsreynslu umsækjenda en ekki tilgreindar neinar sérstakar kröfur þar um, þar sem erfitt væri að segja fyrir um hvers konar menntun eða starfsreynsla hæfði best. Við mat á listrænu starfi umsækjenda hlyti alltaf að ráða huglægt mat og smekkur þeirra sem um það fjölluðu og á hæfni umsækjenda yrðu ekki lagðir sömu mælikvarðar og þegar um væri að ræða yfirmannastöður hjá „venjulegum“ fyrirtækjum.

A leggur áherslu á að sé horft til menntunar hennar og starfsferils telji hún sig mun hæfari til að gegna starfi leikhússtjóra en sá sem ráðinn var. Almenn menntun hennar sé meiri auk þess sem hún hafi stundað tungumála- og leikhúsfræðanám við erlenda háskóla. Þá standi hún honum mun framar hvað starfsreynslu varði. Hún hafi verið leikstjóri um áratuga skeið bæði við stofnanaleikhús, óperu og áhugamannaleikhús, sett upp fjölmargar stórar sýningar og stjórnað fjölda manns. Þá hafi hún meiri reynslu af starfi leikhópa. B hafi stofnað og stýrt EGG-leikhúsinu og samkvæmt meðfylgjandi gögnum hafi það sett upp 8 sýningar, þar af hafi B leikstýrt sjálfum sér í þremur og leikið einleik í nokkrum. Hún hafi hins vegar verið einn af stofnendum Leiksmiðjunnar, Alþýðuleikhússins, norðan- og sunnandeildar auk þess sem hún hafi starfað talsvert með Grímu. Á vegum þessara leikhópa hafi hún sett upp fjölda sýninga og unnið öll þau störf sem til falli í leikhúsi. Þá hafi undirbúningur, skipulagning og stjórnun leikferða innanlands sem utan hjá norðandeild Alþýðuleikhússins hvílt að miklu leyti á hennar herðum svo og fjármál þess. Hún hafi því mun víðtækari og meiri reynslu af stjórnun og starfi bæði í atvinnuleikhúsi og hjá frjálsum leikhópum en sá sem ráðinn var og sé reynsla hans engan veginn sambærileg við hennar enda hafi hann fyrst og fremst reynslu af stjórnun minni leikhópa og áhugamannahópa.

A vísar á bug þeirri fullyrðingu leikhúsráðs að B sé betur að sér í leikbókmenntum en aðrir umsækjendur enda hafi sumir umsækjenda haft sérmenntun á sviði leikbókmennta. Leikbókmenntaþekking umsækjenda hafi ekki verið könnuð enda illmögulegt. Hún hafi, mun lengur en B, farið árlega í náms- og kynnisferðir víða um heim og dvalist 2 ár erlendis.

A mótmælir því að um ráðningu í stöðu leikhússtjóra gildi önnur sjónarmið en um stjórnunarstöður á almennum markaði. Hver stofnun eða starfsemi sé sérstæð að einhverju leyti en við ráðningar í slíkar stöður hljóti faglegt mat á hæfni umsækjanda, svo sem menntun þeirra og starfsferli, að ráða en ekki óskilgreint huglægt mat. Faglegt mat annarra á henni hafi leitt til þess að henni hafi verið falin umfangsmikil og stór verkefni við leikhús og óperu, sem hún hafi hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir, m.a. hafi uppsetning hennar á Niflungahringnum eftir Richard Wagner verið valin einn af tíu merkustu viðburðum ársins af BBC Music Magazine. A kveðst hafa verið mjög virk í allri umræðu um menningu og listir hér á landi, verið frummælandi á listamannaþingum og tekið þátt í fjölda umræðuþátta í fjölmiðlum um menningarmál Þá hafi hún verið fengin ásamt fulltrúum hinna Norðurlandaþjóðanna til að fara yfir rekstur og starfsemi Dramatiska Institutet í Stokkhólmi og koma með tillögur til úrbóta, en skólann hafi þá sætt mikilli gagnrýni.

A leggur áherslu á að hún viti ekki hvaða hugmyndir B hafi haft til úrbóta varðandi stöðu L.R. og framtíð. Hún hafi hins vegar haft þar margt fram að færa enda hafi viðræður hennar við leikhúsráð fyrst og fremst snúist um listrænan vanda L.R. og hafi hún talið sig reiðubúna til að takast á við þennan vanda í krafti reynslu sinnar af störfum í leikhúsi.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvalli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5, gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem í minnihluta er í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar hefur leikhúsráð L.R. haldið því fram að báðir umsækjendur séu jafnhæfir með tilliti til menntunar. A er menntuð sem listdansari og listdanskennari en B er leikaramenntaður. A hefur lokið stúdentsprófi og stundað nám erlendis á sviði leiklistar auk þýsku. Menntun hennar, bæði almenn og sérstök, er því meiri en B. Kærunefnd fellst því ekki á skoðun leikhúsráðs og telur A hæfari að þessu leyti.

Leikhúsráð telur B standa kæranda framar að starfsreynslu, einkum er lýtur að stjórnunarreynslu. Kærandi hefur mun meiri og lengri starfsreynslu við stofnanaleikhús eins og L.R. er. A hefur sinnt stjórnunarstörfum við leikhús frá 1968 fyrst og fremst sem leikstjóri, m.a. margra stórra sýninga, og einnig verið í forystu ýmissa frjálsra leikhópa og telur kærunefnd að reynsla B af rekstri EGG-leikhússins og tveggja ára starfsaldur hans sem leikhússtjóri L.A. geti ekki vegið upp á móti þeirri reynslu. Kærunefnd getur því ekki fallist á þessa niðurstöðu ráðsins.

Leikhúsráð hefur haldið því fram að um ráðningu í stöðu listræns stjórnanda gildi önnur sjónarmið en um aðra stjórnendur þar sem mat á listrænni hæfni þeirra sé fyrst og fremst huglægt og háð smekk þeirra sem um það fjalla og enginn mælikvarði sé nothæfur til að meta slíka hæfni. Fallast má á það með leikhúsráði að slík sjónarmið eigi rétt á sér um störf á sviði lista. Engu að síður verður að gera kröfu til þess að slíkt huglægt mat byggi á einhverjum áþreifanlegum forsendum. Samanburður á listrænu starfi umsækjenda leiðir ekki að mati kærunefndar til þess að B verði talinn hæfari.

Af hálfu leikhúsráðs er fullyrt að B hafi borið af öðrum umsækjendum í þekkingu á leikbókmenntum og því sem sé að gerast í leiklist hér á landi og erlendis m.a. þar sem hann hafi sótt námskeið og leiklistahátíðir víða um heim nánast árlega undanfarin 20 ár. Upplýst er að kærandi hefur einnig sótt slíkar ferðir, bæði fleiri og um lengri tíma. Engin athugun fór fram á bókmenntaþekkingu umsækjenda og hefur því ekki verið sýnt fram á að B sé hæfari en kærandi á því sviði.

Leikhúsráð telur að B hafi lagt fram skýrari greiningu á vanda leikhússins en aðrir umsækjendur og haft betri tillögur til úrbóta og væri því öllum umsækjendum líklegri til að leiða L.R. út úr þeim vanda sem það er í. Jafnframt er því haldið fram að allir umsækjendur hafi átt þess kost að láta í ljósi tillögur sýnar til úrbóta. Í viðtölum bæði kæranda og varaformanns leikhúsráðs við kærunefnd kom fram að viðtöl við umsækjendur hafi verið með óformlegum hætti og ekki hafi um fyrirfram ákveðnar spurningar að ræða til umsækjenda. Ekki hefur verið upplýst að hvaða leyti hugmyndir B hafi verið betri og getur kærunefnd því ekki tekið afstöðu til þessa atriðis.

Að öllu þessu virtu er það álit kærunefndar jafnréttismála að leikhúsráð Leikfélags Reykjavíkur hafi með ráðningu B í stöðu leikhússtjóra L.R. brotið gegn ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttismála nr. 28/1991, sbr. 8. gr. sömu laga.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til Leikfélags Reykjavíkur að fundin verði viðunandi lausn á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira