Hoppa yfir valmynd
27. október 1994 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/1994

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 1/1994

A
gegn
Grindavíkurbæ

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 27. október 1994 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 12. janúar 1994 óskaði A, verkstjóri, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í starf forstöðumanns Sundlaugar Grindavíkurbæjar bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum um menntun, starfsreynslu og sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var. Svarbréf C, lögmanns Grindavíkurbæjar er dagsett 30. mars 1994. Lagðar voru fram upplýsingar um fjölda umsækjenda svo og afrit af starfsauglýsingu. Á fund kærunefndar mættu A, kærandi málsins, D, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar og E, lögfræðingur.

Staða forstöðumanns Sundlaugar Grindavíkurbæjar var auglýst laus til umsóknar í september 1993 og var umsóknarfrestur til 1. desember s.á. í stöðuna var ráðið frá og með 1. janúar 1994. Í starfsauglýsingu er óskað eftir upplýsingum um menntun og fyrri störf en ekki tilgreind nein hæfnisskilyrði. Umsækjendur um stöðuna voru 17, þar af ein kona A, kærandi þessa máls. Samkvæmt upplýsingum bæjarstjóra var ekki talin þörf á að ræða við umsækjendur þar sem flestir voru þekktir í bænum. Á fundi bæjarstjórnar þann 8. desember 1993 var ákveðið að ráða B í stöðuna.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem lagðar hafa verið fyrir kærunefnd er menntun og starfsreynsla A og B þessi:

A: Stúdentspróf frá viðskiptabraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fisktæknir frá Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði. Hún hefur sótt fjölda námskeiða m.a. í íþróttaþjálfun þ.m.t. sundþjálfun, námskeið Rauða kross Íslands í fyrstu hjálp og Slysavarnarskóla sjómanna. A hefur auk sumarstarfa við afgreiðslu- og bankastörf, verið íþróttaþjálfari í mörg ár og rekið ásamt eiginmanni sínum útgerð í 25 ár og fiskvinnslu í 12 ár. Starfaði hún þar sem verkstjóri í fiskvinnslunni og sá að mestu um bókhald.

B: Skipstjórnarréttindi annað stig, útskrifaðist 1989, lauk áður verknámi í netagerð og bóknámi að mestu. Hann hefur sótt námskeið Rauða kross Íslands í fyrstu hjálp og Slysavarnarskóla sjómanna. Hann starfaði við netagerð á árunum 1982 til 1985 og síðan við sjómennsku til 1987. Eftir 1989 vann hann sem stýrimaður, m.a. við eigin útgerð í tvö ár.

A telur sig hæfari til að gegna stöðu forstöðumanns Sundlaugar Grindavíkur en sá sem ráðinn var. Í því sambandi bendir hún á að hún hafi lokið námi af viðskiptabraut framhaldsskóla og hafi reynslu af að stjórna fyrirtæki, þ.m.t. að sjá um innkaup og allan almennan rekstur. Hún hafi áratuga reynslu af umgengni við börn og íþróttaþjálfun. Að auki beri að líta til þeirra skyldu Grindavíkurbæjar að jafna hlut kynjanna í störfum hjá bænum í stjórunarstörfum halli verulega á konur.

Lögmaður Grindavíkurbæjar leggur áherslu á að B hafi bæði meiri menntun og reynslu að því er tekur til þess starfs sem sótt var um. Hann hafi bæði skipstjórnarréttindi fram yfir hana og lokið 10 stigum í sundi sem hún hafi ekki. Í máli sínu fyrir kærunefnd lagði bæjarstjóri Grindavíkurbæjar áherslu á að í starfi forstöðumanns sundlaugar fælist að ræsa og hafa daglegt eftirlit með dýrum og flóknum tækjabúnaði sundlaugarinnar, auk innkaupa og umsjónar með almennum rekstri laugarinnar. Jafnframt var upplýst að forstöðumaður sinnir baðvörslu á vöktum á móti öðrum starfsmönnum. Hafi það verið mat bæjarstjórnar að menntun B og reynsla af því að vinna með vélar og tæki sé mikilvæg fyrir forstöðumann sundlaugar.

Vegna þeirrar áherslu sem lögmaður bæjarins lagði á mikilvægi skipstjórnarmenntunar fyrir starfið, bendir A á að hún hafi skipstjórnarréttindi á 30 tonna bát. Skv. upplýsingum frá Sjómannaskóla Íslands er það nám sem tekur 8 vikur. A leggur hins vegar áherslu á að til umfjöllunar sé starf forstöðumanns sundlaugar ekki skipstjórnarstarf. Hún mótmælir því að B hafi meira sundnám en hún. Bæði hafi þau stundað nám í sundi í barnaskóla og gagnfræðaskóla. Frekara sundnám hafi hann ekki stundað. Hún eigi hins vegar að baki nám í íþróttaþjálfun sem m.a. feli í sér sundnám.

Engar kröfur um hæfni koma fram í auglýsingu Grindavíkurbæjar um starf forstöðumanns sundlaugarinnar. Skv. upplýsingum bæjarstjóra felst starfið í eftirfarandi:

  1. Eftirliti og umsjón með rekstri, þ.m.t innkaup á vörum og eftirlit með fjárreiðum. Bókhald og greiðsla reikninga er hins vegar á vegum bæjarskrifstofu.
  2. Þjónustu við sundlaugargesti.
  3. Eftirliti með tækjabúnaði og þess sé gætt að hann virki eðlilega.
  4. Mannaforráðum.
  5. Baðvörslu á móti öðrum starfsmönnum.

Upplýst er að aðrar sambærilegar stjórnunarstöður hjá Grindavíkurbæ, s.s. forstöðumaður íþróttahúss, hafnarstjóri og félagsmálastjóri, eru mannaðar körlum. Eina staðan sem telja verður sambærileg þessari og mönnuð er konu er staða forstöðumanns leikskóla bæjarins.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga er að koma á jafnrétti kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Sérstök áhersla er á að bæta þurfi stöðu kvenna á vinnumarkaði. Til að því markmiði verði náð eru ýmsar skyldur lagðar á atvinnurekendur. Má þar nefna 5. gr. laganna sem kveður á um að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvist að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skuli atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. sömu laga er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf. Telji einhver rétt á sér brotinn samkvæmt þeirri grein og vísi máli sínu til kærunefndar jafnréttismála, skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Ekki var tekið fram í starfsauglýsingu hvaða kröfur umsækjendur þyrftu að uppfylla. Þegar horft er til þeirrar lýsingar sem bæjarstjóri hefur gefið á starfi forstöðumanns verður að telja bæði hæf en A hæfari. Hún hefur reynslu af stjórnun og rekstri fyrirtækis og hefur aflað sér menntunar á því sviði. Að auki felur starfsferill hennar sem verkstjóri og reynsla af íþróttaþjálfun í ríkara mæli í sér samskipti við fólk en starfsferill B en samkvæmt starfslýsingu á starfi forstöðumanns sundlaugar er það talinn ein þáttur forstöðumannsstarfsins. Því er haldið fram að B hafi meiri reynslu af að sinna vélum og tækjum þar sem hann hafi starfað sem skipstjórnarmaður í mörg ár. Hins vegar hefur komið fram að reynsla A á því sviði var ekki athuguð sérstaklega en hún hefur bæði unnið við sjómennsku og verið verkstjóri í fiskvinnslu. Hvorugt hefur menntun á þessu sviði og telst ósannað að B standi A þar framar.

Verulega hallar á konur þegar skoðað er hlutfall kvenna og karla í stjórnunar- og ábyrgðarstörfum hjá Grindavíkurbæ.

Að öllu þessu virtu telur kærunefnd að bæjarstjórn Grindavíkur hafi með ráðningu B í starf forstöðumanns Sundlaugar Grindavíkur brotið gegn 2. tl. 6. gr. jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla , sbr. 5. gr. og 1. gr. sömu laga.

Þeim tilmælum er beint til bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar að fundin verði viðunandi lausn sem kærandi getur sætt sig við.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira