Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2025 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 18/2024-Úrskurður

Mál nr. 18/2024

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

B

 

 

Frávísun. Kærufrestur.

Málinu var vísað frá kærunefnd jafnréttismála þar sem kæran barst kærunefnd eftir að lögmæltur kærufrestur var liðinn. Þar sem einnig var liðið meira en ár frá því að kærufrestur byrjaði að líða var ekki unnt að taka til skoðunar hvort taka ætti málið til meðferðar vegna sérstakra ástæðna.

1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 27. febrúar 2025 er tekið fyrir mál nr. 18/2024 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

2. Með kæru, dags. 27. ágúst 2024, kærði A notkun Leikskólans […], sem rekinn er af B, á kynfræðslubókmenntum í leikskólastarfi sínu. Kærandi telur að með notkun bókarinnar Hver bjó mig til? hafi Leikskólinn […] brotið gegn 10. gr. laga nr. 85/2018 með því að nota kennslu- og námsgögn sem væru til minnkun­ar og lítilsvirðingar þeim sem hafa ákveðna lífsskoðun eða trú og eru á vissum aldri. Í kær­unni kemur fram að kynfræðslubækur eigi ekki erindi inn á leikskóla sem námsgögn enda henti slíkt námsefni ekki börnum á leikskólastigi. Barn kæranda hafi verið […] ára haustið 2022 þegar upp hafi komist um notkun kynfræðslunámsgagna innan leikskólans. Leikskólinn hafi ekki upplýst foreldra um námsefnið, hvorki fyrir né eftir atvikið. Í kæru kemur fram að málið hafi verið í langan tíma í skoðun hjá sveitarfélaginu […] og síðustu samskipti málsins verið í júní 2024.

3. Með tölvupósti 16. október 2024 var kæranda gefinn kostur á að gera nánari grein fyrir því á hvaða mismununargrundvelli kæran byggði, þ.e. hvaða lífsskoðun, trú og aldri. Með tölvu­pósti 14. nóvember 2024 barst kærunefnd samantekt kæranda um grundvöll mismununar.

Niðurstaða

 

4. Í 1. gr. laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018.

5. Í 2. gr. laga nr. 85/2018 kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnu­markaði, nr. 86/2018.

6. Í 10. gr. laga nr. 85/2018 er fjallað um bann við mismunun í skólum og öðrum mennta­stofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi, en þar segir í 1. mgr. að í skólum, öðrum menntastofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi sé hvers kyns mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. óheimil. Skylt sé að gæta þessa í námi, kennslu, starfsháttum og daglegri um­gengni við nemendur. Í 2. mgr. 10. gr. laganna kemur fram að kennslu- og námsgögn skuli þannig úr garði gerð að ekki sé mismunað á grundvelli þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. og þau séu ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar þeim sem hafa ákveðna lífsskoðun eða trú, eru á vissum aldri, af tilteknum kynþætti eða þjóðernisuppruna eða í ljósi fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar viðkomandi.

7. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, er mælt fyrir um að erindi skuli berast kærunefnd jafnréttismála skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot á lögum nr. 85/2018 lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á lögunum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Kærunefndin getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til meðferðar þótt framangreindur frestur sé liðinn, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár.

8. Í kæru greinir kærandi að í júní 2022 hafi komist upp um notkun kennsluefnisins sem kæran varðar. Í ljósi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 verður að ganga út frá því að kærufrestur hafi byrjað að líða í júní 2022 þegar kæranda varð kunnugt um notkun Leikskólans […] á bókinni Hver bjó mig til? Kæran barst kærunefnd 27. ágúst 2024. Samkvæmt því er hún utan sex mánaða frestsins sem tiltekinn er í fyrrgreindu ákvæði sem og utan þess ársfrests sem tiltekinn er í 3. ml. 3. mgr. 9. gr. laganna. Að því virtu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá, sbr. og 2. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 408/2021, um kærunefnd jafn­réttismála.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Ari Karlsson

Andri Árnason

Maren Albertsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta