Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 169/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 169/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020048

Beiðni […] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 6. febrúar 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 28. ágúst 2017 um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi og endursenda hann til Litháens. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda þann 12. febrúar 2018. Þann 19. febrúar 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Af kröfugerð í greinargerð kæranda, sem barst í málinu ásamt fylgigögnum þann 23. febrúar 2018, má ráða að jafnframt sé gerð krafa um að nefndin endurupptaki mál hans. Kærunefnd sendi framlagt vegabréf kæranda til vegabréfarannsóknarsviðs Flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum þann 13. mars 2018 og barst skýrsla með niðurstöðu rannsóknar á vegabréfinu þann 19. mars sl.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Í beiðni kæranda kemur fram að ómögulegt hafi verið að afla frumrita læknisfræðilega gagna frá heimaríki og ekki sé sanngjarnt að ætla honum að afla þeirra. Hins vegar hafi kæranda tekist að nálgast frumrit vegabréfs sem hann hafi áður lagt fram ljósrit af og því sé um að ræða ný gögn í máli hans og ástæður til þess að endurupptaka málið og úrskurða í því á ný. Frumrit vegabréfs kæranda sýni fram á að ekki sé um fleiri ferðir til og frá Schengen svæðinu að ræða en fram hafi komið við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd. Það sé því fullsannað að kærandi hafi dvalið í heimaríki sínu, utan Schengen svæðisins, í þann tíma sem hann hafi áður haldið fram. Kærandi geri kröfu um að kærunefnd útlendingamála endurupptaki mál hans, fjalli um fyrri kröfu hans um að mál hans fái efnislega meðferð hjá Útlendingastofnun og úrskurður stofnunarinnar um að kærandi verði sendur til Litháen verði felldur út gildi. Litháen geti ekki borið ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd þar sem skilyrði d-liðar 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) séu ekki uppfyllt, sbr. 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Við fyrri meðferð máls kæranda hjá kærunefnd hafði kærandi lagt fram gögn til sönnunar þess að hann hafi yfirgefið Schengen svæðið um a.m.k. þriggja mánaða skeið og ábyrgð Litháen því fallin niður, sbr. 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Meðal gagnanna voru afrit blaðsíðna vegabréfs hans og læknisfræðilegra gagna frá heimaríki. Það var mat kærunefndar í úrskurði, dags. 6. febrúar 2018, í máli kæranda að framlögð gögn kæranda í málinu gæfu ekki heildstæða mynd af ferðum hans en í því sambandi var m.a. litið til skorts á frumritum framlagðra gagna og annarra gagna er sannað gætu dvöl hans í heimaríki á tímabilinu. Því var það niðurstaða kærunefndar að ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar stæðu því ekki í vegi að yfirvöld í Litháen yrðu krafin um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur nú lagt fram frumrit framangreinds vegabréfs síns. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 6. febrúar 2018 ásamt upplýsingum í fylgiskjölum sem kærandi hefur vísað til auk skýrslu Lögreglustjórans á Suðurnesjum um rannsókn á vegabréfi kæranda. Í ljósi þessara nýju gagna og upplýsinga sem fram hafa komið frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp þann 6. febrúar sl. er það mat nefndarinnar, þegar litið er heildstætt á málsatvik og þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar upphaflegur úrskurður féll í máli kæranda, að líta verði svo á að grundvöllur málsins hafi breyst verulega. Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laganna er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Í 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar kemur fram að skuldbindingarnar sem um geti í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skuli falla niður ef aðildarríkið sem beri ábyrgð geti sannað, þegar það er beðið um að taka aftur við umsækjanda eða öðrum einstaklingi eins og um getur í c- eða d-lið 1. mgr. 18. gr., að viðkomandi einstaklingur hafi yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkjanna um a.m.k. þriggja mánaða skeið, nema hann hafi undir höndum gilt dvalarskjal, gefið út af aðildarríkinu sem ber ábyrgð. Ofangreint ákvæði felur í sér, samkvæmt orðanna hljóðan, möguleika fyrir aðildarríki til þess að sanna að ábyrgð þess á umsókn um alþjóðlega vernd sé fallin niður fyrir þær sakir að umsækjandi hafi yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar. Í dómi Dómstóls Evrópusambandsins í máli George Karim gegn Migrationsverket (mál nr. C-155/15 frá 7. júní 2016) var komist að þeirri niðurstöðu að umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi rétt á að koma að vörnum sem lúta að réttri beitingu skilyrða Dyflinnarreglugerðarinnar fyrir endursendingu að því er varðar hvort 2. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar leiði til þess að líta beri svo á að umsækjandi hafi lagt fram nýja umsókn um alþjóðlega vernd eftir dvöl utan yfirráðasvæðis aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar sem ekki verði framsend til annars ríkis.Í máli þessu liggur fyrir að litháísk stjórnvöld hafa viðurkennt skyldu sína til þess að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. bréf þess efnis dags. 24. maí 2017. Kærandi sótti um vernd í Litháen þann 2. desember 2011 og liggur fyrir að litháísk stjórnvöld hafi samþykkt beiðni um viðtöku kæranda þrátt fyrir að tölvupóstssamskipti litháískra og íslenskra stjórnvalda beri með sér að Litháen hafi lýst yfir efasemdum um ábyrgð sína vegna 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi byggði m.a. á því við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun að hann hafi dvalið lengur en þrjá mánuði utan Schengen-svæðisins. Kom kærandi þessum athugasemdum á framfæri í viðtali hjá stofnuninni þann 8. júní 2017 og með tölvubréfi dags. 9. júní 2017. Í bréfinu hélt kærandi því fram að hann hefði dvalið í heimaríki í þrjú ár eftir að hann sótti um alþjóðlega vernd í Litháen. Útlendingastofnun óskaði eftir gögnum til stuðnings framangreindri málsástæðu kæranda og lagði kærandi fram ljósmyndir af fjórum opnum úr eldra vegabréfi sínu og stimplum á síðum þess. Stimplar í ljósriti af vegabréfi kæranda gefa til kynna að kærandi hafi í eitt skipti, þann 2. apríl 2014, farið yfir landamæri Spánar og í þrígang yfir landamæri […], þ.e. dagana 14. júní 2014, 20. október 2014 og 23. janúar 2017. Kærandi lagði fram nýtt vegabréf sitt, útgefið af […] stjórnvöldum þann 18. apríl 2017, við meðferð málsins hjá íslenskum stjórnvöldum. Í því gefur stimpill til kynna að hann hafi farið yfir landamæri Spánar þann 4. maí 2017 á leið sinni hingað til lands. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram afrit af gögnum sem hann kveður vera læknisfræðileg gögn frá heimaríki sínu, dagsett á tímabilinu 9. apríl 2014 til 20. apríl 2017, en af þeim gögnum gat kærandi aðeins lagt fram frumrit gagnanna frá apríl 2017. Þá liggur fyrir í málinu að kærandi fékk útgefið dvalarleyfi í Frakklandi árið 2012 en hafi ekki verið í samskiptum við frönsk stjórnvöld frá árinu 2013.

Kærunefnd fór þess á leit við kæranda, með tölvubréfi dags. 17. nóvember 2017, að hann legði fram frumrit eldra vegabréfs og önnur gögn sem væru til þess fallin að varpa ljósi á málsástæðu kæranda. Í tölvubréfi, dags. 4. desember 2017, kom kærandi því á framfæri að hann hafi þurft að fá gefið út nýtt vegabréf í heimaríki þar sem eldra vegabréf hans hafi ekki verið með örgjörva, sem hafi gert það að verkum að kærandi hafi ekki getað ferðast án vegabréfsáritunar. Hann hafi lagt inn eldra vegabréf sitt þegar hann fékk útgefið nýtt vegabréf og hafi því ekki frumrit eldra vegabréfsins undir höndum.

Kærandi hefur nú lagt fram það vegabréf sitt, útgefið 31. maí 2013. Á blaðsíðum þess má sjá þá stimpla, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, sem kærandi hafði lagt fram afrit af við meðferð málsins hjá kærunefnd. Þá er einnig að finna vegabréfsáritun til Rússlands með gildistímann 30. desember til 15. mars 2017 í vegabréfi kæranda.

Kærunefnd sendi vegabréfið til rannsóknar hjá Flugstöðvardeild Lögreglustjórans á Suðurnesjum þann 14. mars 2018 og barst niðurstaða rannsóknar þann 19. mars sl. Í skýrslu vegabréfarannsóknarstofu kemur fram að ekki hafi verið neitt að sjá í vegabréfinu sem hafi gefið til kynna að búið væri að eiga við það á einn eða annan hátt. Mörg öryggisatriði hafi verið skoðuð og sannreynd.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 6. febrúar 2018, kom fram að upplýsingar í máli kæranda hafi leitt líkur að því að kærandi hafi verið í heimaríki sínu í apríl 2017 en hann hafi ekki sýnt fram á samfellda dvöl utan Schengen svæðisins lengur en í þrjá mánuði og var sérstaklega litið til þess að kærandi hafi ekki skilað inn frumriti af eldra vegabréfi eða öðrum gögnum sem gæfu skýrari mynd af innihaldi þess vegabréfs. Er það því mat kærunefndar að með framlagningu frumrits vegabréfs kæranda hafi hann með trúverðugum gögnum sýnt fram á að hann hafi yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins um a.m.k. þriggja mánaða skeið. Kærunefnd telur því að ekki sé lengur fyrir hendi heimild skv. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, til þess að krefja Litháen um að taka við kæranda. Ber því að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Samantekt

Það er niðurstaða kærunefndar að endurupptaka mál kæranda. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál hans til efnismeðferðar.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.The Directorate of Immigration shall examine the merits of the applicant’s application for international protection in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                             Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum