Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2008 Innviðaráðuneytið

Tillögur Ríkisendurskoðunar ræddar

Tillögur Ríkisendurskoðunar um breytta skipan samgöngustofnana eru nú til skoðunar hjá Kristjáni L. Möller samgönguráðherra. Í dag kallaði hann til sín forstöðumenn stofnananna til að heyra ofan í þá um þessar hugmyndir. Ráðherra stefnir að því að framhald málsins verði ljóst fyrir árslok.

Tillögur Ríkisendurskoðunar ganga í stuttu máli út á það að þrjár stofnanir taki við öllum verkefnum sem nú er sinnt af Vegagerðinni, Flugmálastjórn, Umferðarstofu og Flugstoðum. Ein verði stjórnsýslustofnun, önnur framkvæmdastofnun sem sinni áætlanagerð og framkvæmd hennar og sú þriðja verði ríkisfyrirtæki sem annist rekstur og viðhald samgöngumannvirkja. Auk framangreindra breytinga telur Ríkisendurskoðun að huga þurfi að reglum og aðferðum sem gætu stuðlað að hagkvæmari og árangursríkari samgönguframkvæmdum, svo sem agaðri framkvæmd samgönguáætlunar, skýrari staðla og meiri stærðarhagkvæmni í útboðsverkum.

,,Mér finnst aðalatriðið að fara vel yfir þessar tillögur og heyra sjónarmið forstöðumanna samgöngustofnana ráðuneytisins svo og Flugstoða. Þess vegna var mjög gagnlegt að fá þá á fund til að heyra skoðanir þeirra og ábendingar,” segir ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum