Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 3. apríl 2009


Mætt:
Lára Björnsdóttir formaður (LB), fulltrúi félags- og tryggingamálaráðherra, Björn Ragnar Björnsson (BRB), tiln. af fjármálaráðuneyti, Garðar Hilmarsson (GH), tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Öryrkjabandalagi Íslands og Þroskahjálp, Héðinn Unnsteinsson f.h. Guðrúnar Sigurjónsdóttur (GS), tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson (KS), tiln. af Rauða krossi Íslands, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti, Páll Ólafsson, tiln. af Bandalagi háskólamanna, Sigurrós Kristinsdóttir (SK), tiln. af Alþýðusambandi Íslands, Stefán Stefánsson (StSt), tiln. af menntamálaráðuneyti, Ellý A. Þorsteinsdóttir f.h. Stellu K. Víðisdóttur (SKV), tiln. af Reykjavíkurborg, og Vilborg Oddsdóttir (VO), tiln. af Biskupsstofu, auk Þorbjarnar Guðmundssonar (ÞG) og Ingibjargar Broddadóttur (IB) starfsmanna.

1. Fundargerðir 6. fundar stýrihópsins

Fundargerðin var samþykkt.

2. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um velferð, mars 2009

Aðgerðaáætluninni var dreift og rætt um verkefni stýrihópsins í tengslum við hana. Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur að mestu falið velferðarvaktinni að fylgja úr hlaði og hafa umsjón með þeim aðgerðum sem ráðuneytið ber ábyrgð á. Verða formönnum hópanna sendar fyrir páska tillögur um aðgerðir í áætluninni sem hver og einn hópur gæti tekið sér. Varðandi þær aðgerðir í áætluninni sem eru á ábyrgð annarra ráðuneyta verður skoðað sérstaklega hvort og með hvaða hætti velferðarvaktin getur komið að framkvæmd þeirra. LB hvatti hópana til að hugleiða hvort þeir teldu nauðsynlegt að bæta við fólki í hópana og væri þeim í sjálfsvald sett fá fleiri til liðs við sig.

3. Félagsvísar

Sigríður Jónsdóttir (SJ) félagsfræðingur kynnti bæði umræðu í Bretlandi um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu og á hvað beri að leggja áherslu við úrvinnslu félagsvísa. Áhersla sé lögð á aukið samstarf ríkis og sveitarfélaga og að sníða þjónustuna að þörfum einstaklinganna. Einstaklingsmiðuð þjónusta leiði til fjölbreyttara vals, aukins valds notanda og meiri sveigjanleika þar sem einstaklingurinn metur sjálfur hvaða þjónustu hann þarf í samráði við sérfræðinga (Personal Budget). Árangur þjónustunnar, sem byggir á settri stefnu, er síðan mældur og áhersla lögð á heildrænt mat (Joint Strategic Needs Assessment). SJ nefndi nokkra flokka sem notaðir eru til að mæla árangur milli svæða undir hugtakinu lýðfræðilegur ójöfnuður: a) Börn og ungt fólk, b) þroskaskerðing, c) geðfötlun, d) öldrun, og e) langvinnir sjúkdómar. Í framhaldi ræddi SJ hvað væri hugsanlega nánar hægt að mæla með félagsvísum og nefndi nokkur dæmi.

Ellý Alda Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg kynnti aðgerðateymi Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem stofnað var 8. október og greindi fá vöktun tölulegra upplýsingar hjá sviðinu. Lagðar voru fram tölulegar upplýsingar, dags. 25. mars síðastliðinn, meðal annars um atvinnuleysi í borginni skipt eftir hverfum, komur í þjónustumiðstöðvar, yfirlit yfir fjölda mála í málaskrá og umsóknir um fjárhagsaðstoð. Þessar lykiltölur kæmi vel til greina að útfæra nánar í tengslum við félagsvísa.

LB lagði til að stofnaður yrði vinnuhópur um félagsvísa með sérfræðingum í félagsráðgjöf, félagsfræði og hagfræði. Margrét Sæmundsdóttir myndi leiða starf hópsins. Með henni í hópnum yrðu meðal annarra Sigríður Jónsdóttir félagsfræðingur, Guðný Björk Eydal HÍ, Guðjón Magnússon HR, Ólafur Darri Andrason ASÍ og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir HÍ. Var tillagan samþykkt.

4. Kynning á island.is

Kristján Kristjánsson upplýsingafulltrúi og Elísabet Sigurðardóttir, lögfræðingur í forsætisráðuneyti, kynntu vefinn island.is og greindu einnig frá símsvörun ráðuneytisins og tölvupósti sem þangað berst með fyrirspurnum. Fyrirspurnir sem svarað er í tölvupósti eru flokkaðar á eftirfarandi hátt: Almennar fyrirspurnir, barnabætur, fjölmiðlar, gengismál, greiðsluerfiðleikar, atvinnumissir, Íbúðalánasjóður, frysting lána, Kaupþing edge og Icesave reikningar, tryggingar og innstæður í innlendum bönkum, verðbréf og sjóðir, séreignasparnaður og lífeyrismál. Eru iðulega tengsl milli þess sem spurt er um og þess sem er efst á baugi í fjölmiðlum á hverjum tíma. Upplýsingamiðstöðin hefur fengið á sextánda hundrað erinda frá því hún var stofnuð í kjölfar efnahagshrunsins.

4. Önnur mál

Samþykkt að LB, ÞG, IB ásamt KS og SS vinni að mótun reglna fyrir hinn nýja mótvægissjóð velferðarvaktarinnar.

Næsti fundur verður föstudaginn 8. maí 2009 kl. 14.00–16.00.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum