Hoppa yfir valmynd
11. júní 2012 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Yfir 800 manns á ráðstefnu Norræna vegasambandsins í Reykjavík

Ráðstefna Norræna vegasambandsins, NVF, hófst í Hörpu í Reykjavík í morgun með ávörpum  vegamálastjóra og innanríkisráðherra. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði meðal annars að almenningur á Íslandi hefði mikinn áhuga á samgöngubótum sem sýndi sig jafnan í hinni víðtæku og almennu umræðu um vega- og samgöngumál.

Innanríkisráðherra tók þátt í setningarathöfn ráðstefnu Norræna vegasambandsins í dag.
Innanríkisráðherra tók þátt í setningarathöfn ráðstefnu Norræna vegasambandsins í dag.

Ísland, með Vegagerðina í fararbroddi, hefur stýrt starfi sambandsins síðan árið 2008 þegar Via Nordica var haldin í Helsinki í Finnlandi. NVF er byggt upp af 16 tækninefndum, í anda heimsvegasambandsins PIARC. Nefndirnar starfa fjögur árin á undan Via Nordica ráðstefnunum. Hver nefnd heldur árlega málstofur eða eigin ráðstefnur. Á þeim vettvangi skiptast vegagerðir, verktakar og ráðgjafar í vegagerð á þekkingu, kunnáttu og reynslu þvert á landamæri norrænu ríkjanna.

Mikilvægt að ræða stefnumörkun

Ögmundur Jónasson sagði mikilvægt að ræða stefnumörkun á ráðstefnum sem þessum um leið og þær ættu að vera fræðandi. Hann kvaðst vera þeirrar skoðunar að í víðu samhengi ætti lýðræði að ríkja varðandi ákvarðanatöku varðandi samgönguframkvæmdir. Sagði hann það veikleika ef ákvarðanataka væri um of eftir sjónarmiðum fjármögnunaraðila, ákafra verktaka eða stjórnmálamanna, of oft gleymdist að spyrja þá sem greiða, skattgreiðendur eða þá sem greiða veggjöld hver þeirra sjónarmið væru.

Ögmundur Jónasson ávarpaði ráðstefnu Norræna vegasambandsins sem hófst í Hörpu í morgun.Ráðherra sagði mikla uppbyggingu hafa átt sér stað á íslenska vegakerfinu á síðustu árum og áratugum og að það væru alltaf miklar hátíðir þegar vegamannvirki væru vígð. Þá minntist ráðherra á fyrirhugaða endurskipulagningu samgöngustofnana sem nú er til meðferðar á Alþingi. Hann sagði Íslendinga hafa orðið hart úti í fjármálakreppunni og hefðu skilning á að víða yrði að skera niður en gerðu sér líka grein fyrir því að með sameinuðu átaki gæti þjóðin unnið sig úr henni.

Auk vegamálastjóra og innanríkisráðherra fluttu ávörp í setningarathöfninni þeir Jean-Francois Corte, framkvæmdastjóri PIARC, alþjóða vegamálasambandsins, sem þakkaði langt og gott samstarf milli alþjóðasambandsins og þess norræna og Skirmantas Skrinskas, formaður vegasambands Eystrasaltsríkjanna, sem sagði það mikinn heiður að sambandið fékk aðild að norræna sambandinu 1992.

Yfirskrift ráðstefnunnar er: Á krossgötum og eru fyrirlesarar bæði íslenskir og erlendir sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum vega- og samgöngumála, svo sem hönnun, vegalagning, brúarsmíði, upplýsingatækni, öryggismál, stefnumörkun og áætlanagerð, umhverfismál, jarðgöng og umferð í þéttbýli. Þátttakendur eru rúmlega 800, flestir frá Norðurlöndunum og af þeim fjölda eru kringum 200 Íslendingar. Þá kynna kringum 50 sýnendur margvíslega starfsemi sína sem tengjast vegagerð og umferð.

Að lokinni setningarathöfn voru fluttir tveir fyrirlestrar undir yfirskriftinni: Hvar í ósköpunum er heilbrigð skynsemi? Pólitík og samgönguyfirvöld. Þar fjölluðu sænski sagnfræðingurinn Gunnar Wetterberg og Páll Skúlason heimspekiprófessor um hvernig ákvarðanir væru teknar varðandi vegagerð. Í kjölfar erinda þeirra voru síðan pallborðsumræður þar sem innanríkisráðherra var meðal þátttakenda.

Ögmundur Jónasson opnaði sýninguna formlega í hádegishléi í gær að viðstöddum Hreini Haraldssyni vegamálastjóra og tveimur fyrrverandi vegamálastjórum, þeim Helga Hallgrímssyni og Jóni Rögnvaldssyni ásamt Helgu Þórhallsdóttur. Ráðstefnunni lýkur síðdegis á miðvikudag.

Kringum 50 aðilar kynna starfsemi sína á ráðstefnunni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira