Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2016 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 477/2016 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. nóvember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 477/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16060046

Kæra […]

og barns hennar

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. júní 2016 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. júní 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar og sonar hennar […], fd. […], um hæli á Íslandi og endursenda þau til Frakklands. Eiginmaður kæranda sótti einnig um hæli á Íslandi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um hæli til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Til vara krefst kærandi þess, verði ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest, að íslensk stjórnvöld fái einstaklingsbundna tryggingu frá frönskum yfirvöldum um að fjölskyldunni verði tryggðar viðunandi móttökuaðstæður.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 12. apríl 2016. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 12. apríl 2016, kom í ljós að fingraför hennar höfðu hvergi verið skráð. Þar sem kærandi er með vegabréfsáritun í Frakklandi var þann 19. apríl 2016 send beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um hæli beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 3. maí 2016 barst svar frá frönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 20. júní 2016 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hún skyldi endursend til Frakklands. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 28. júní 2016 til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hennar væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 29. júní 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 14. júlí 2016. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 15. september og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur. Viðbótargögn voru lögð fram í málinu þann 17. október 2016.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar, dags. 20. júní 2016, var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hún skyldi endursend til Frakklands. Lagt var til grundvallar að Frakkland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Frakklands ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu.

Það væri mat Útlendingastofnunar að kærandi og fjölskylda hennar eigi raunhæfa möguleika á að leita réttar síns fyrir stjórnvöldum í Frakklandi og eftir atvikum fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Ljóst væri að kærandi ætti raunhæfa möguleika á að leita til franskra yfirvalda sem væru í stakk búin til þess að veita henni og fjölskyldu hennar vernd. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að það sé niðurstaða stofnunarinnar, að gættum ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskra laga er málið varða, að hagsmunum barns kæranda sé ekki stefnt í hættu með því að það fylgi foreldrum sínum til Frakklands.

Varðandi andmæli kæranda sem sneru að því að fjölskyldan hafi ekki ætlað til Frakklands, var lagt til grundvallar í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar að ábyrgð á umsókn kæranda væri engu að síður hjá Frakklandi þar sem vegabréfsáritun var gefin út af þarlendum stjórnvöldum en ekki íslenskum. Útlendingastofnun mat það svo að frönsk yfirvöld séu í stakk búin til þess að vernda kæranda og fjölskyldu hennar, gerist þess þörf. Að mati Útlendingastofnunar getur það eitt og sér að um barnafjölskyldu sé að ræða ekki leitt til þess að kærandi teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Samkvæmt rannsókn Útlendingastofnunar á aðstæðum í Frakklandi verði að telja að Frakkland standist þær kröfur sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gerir til móttökuríkja og sé það mat Útlendingastofnunar að kærandi og fjölskylda hennar séu ekki í þeirri stöðu að eitthvað sé því til fyrirstöðu að þau verði send til Frakklands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hún vilji alls ekki fara aftur til Frakklands. Hún kveður flóttann frá […] hafa verið skipulagðan af smyglara en að öðru leiti hafi hún ekki verið meðvituð um öll atriði í tengslum við skipulagningu flóttans. Kærandi kveður náin tengsl vera á milli franskra og […] stjórnvalda og að margir íslamskir öfgamenn séu í Frakklandi sem gætu unnið eiginmanni hennar mein vegna fyrri starfa og athafna hans í […]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun nefndi kærandi að hryðjuverk hafi verið framin á […] flóttamönnum í Frakklandi og nefndi hún í því skyni nöfn tveggja […] manna sem hún kveður að hafi verið myrtir í Frakklandi.

Í greinargerð kæranda er fjallað um aðbúnað og húsnæði hælisleitenda í Frakklandi, aðstæður fyrir fjölskyldufólk og öryggisástand í landinu um þessar mundir. Þar kemur fram að nýlega hafi verið gerðar margvíslegar breytingar á hæliskerfinu í Frakklandi og sem dæmi þurfi hælisleitendur ekki lengur að gefa upp heimilisfang í tengslum við hælisumsókn. Skráð heimilisfang sé hins vegar til þess fallið að tryggja að hælisleitendum berist allar tilkynningar frá stjórnvöldum, þar sem samskipti milli stjórnvalda og hælisleitenda í Frakklandi fari fram með bréfpósti. Hælisleitendum sé enn gert skylt að skila skriflegri umsókn um hæli innan þriggja vikna og skuli hún rituð á frönsku. Fram kemur í greinargerð að kærandi hafi ekki sótt um hæli í Frakklandi og hafi því aldrei verið þar í hælismeðferð. Einu tengsl hennar við Frakkland séu að smyglarinn sem hafi komið henni til Evrópu hafi útvegað henni vegabréfsáritun útgefna af frönskum yfirvöldum. Þá segir í greinargerð að þrátt fyrir að hælisleitendur eigi rétt á húsnæði á vegum yfirvalda, hafi stjórnvöld ekki getað séð öllum fyrir húsnæði undanfarin misseri. Fjöldi móttökumiðstöðva sé ekki nægjanlegur svo unnt sé að veita öllum hælisleitendum aðgang að húsnæði í samræmi við móttökutilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2013/33. Þeim sem ekki komist að í móttökumiðstöðvum sé komið fyrir í neyðarhúsnæði eða þeir neyðist til að búa á götunni. Þá bendir kærandi á að hælisleitendur eigi ekki rétt á neins konar félagslegum bótum fyrir fjölskyldufólk.

Í greinargerð kæranda er túlkun Útlendingastofnunar á hugtakinu „kerfisbundinn galli“ gagnrýnd. Íslensk stjórnvöld hafi í framkvæmd túlkað hugtakið með mjög ströngum hætti og ekki sé vitað til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu geri kröfur um kerfisbundinn galla með sama hætti.

Af hálfu kæranda er vakin athygli á að því að tveggja ára sonur kæranda og eiginmanns hennar sé með í för. Við töku ákvörðunar í málinu sé því mikilvægt að kærunefndin hafi í huga ákvæði 2. mgr. 23. gr. útlendingalaga, en þar komi fram að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi. Í tilskipun Evrópubandalagsins nr. 2011/95/EB frá 13. desember 2011 komi fram í 3. mgr. 20. gr. að við mat á þörf á alþjóðlegri vernd skuli taka sérstakt tillit til berskjaldaðra einstaklinga, s.s. barna, og í 5. mgr. sömu greinar segi að ávallt skuli hafa það sem barninu sé fyrir bestu að leiðarljósi. Þá er vísað til 2. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem samskonar regla komi fram. Þá bendir kærandi á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi í dómum sínum talið að við mat á því hvort atvik séu með þeim hætti að þau nái tilteknum lágmarks alvarleika í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þurfi að gefa því sérstakan gaum ef um viðkvæma hópa líkt og fjölskyldur með börn sé að ræða, en staða þeirra sé viðkvæmari en ella. Þá teljist börn óumdeilanlega til sérstaklega viðkvæms hóps hælisleitenda, hvort sem þau séu í fylgd umönnunaraðila eða ekki.

Þá kemur fram í greinargerð að endursending kæranda og fjölskyldu hennar til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar brjóti gegn meginreglu þjóðarréttar um non-refoulement. Sé þetta byggt á þeim heimildum sem vísað sé til í greinargerð sem og reynslu talsmanna Rauða krossins af öðrum sambærilegum málum varðandi aðbúnað, aðstæður og réttindi umbjóðenda þeirra sem hafa verið hælisleitendur í Frakklandi eftir að hafa fengið synjun hjá íslenskum stjórnvöldum á beiðni um alþjóðlega vernd. Í tengslum við þetta komi fram í greinargerð kæranda að hún og eiginmaður hennar hræðist íslamska öfgamenn í Frakklandi og óttist að þeir muni ná til eiginmannsins og valda honum skaða vegna fyrri starfa hans í […].

Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, meginreglunnar um að vísa ekki fólki aftur þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu sbr. 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, 1. mgr. 3. gr. barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna, 3. gr. mannréttindasáttamála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. 

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

1. Afmörkun úrlausnarefnis

Fyrir liggur í máli þessu að frönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka umsókn kæranda og barns hennar um hæli ekki til efnismeðferðar og vísa þeim til Frakklands.

2. Réttarstaða barns kæranda

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að ákvarða réttarstöðu barnsins í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar.

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er kveðið á um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Þá hefur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verið lögfestur hér á landi, sbr. lög nr. 19/2013. Í 22. gr. samningsins jafnframt fjallað sérstaklega um ábyrgð ríkja á að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð gagnvart börnum sem leita eftir réttarstöðu sem flóttamaður, hvort sem það er fylgd foreldra eða annarra eða ekki.

Í 1. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, segir að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Í 2. mgr. 1. gr. laganna segir að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Þá er í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga sérstaklega áréttað að ákvarðanir sem varða barn skuli teknar með það sem því er fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varðar og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

Svo sem fram er komið kom barn kæranda með henni og eiginmanni hennar hingað til lands. Haldast úrskurðir er varða foreldra og börn þeirra í hendur í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar, þegar barn er í fylgd annars eða beggja foreldra. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd beggja foreldra sinna.

3. Lagarammi

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má heldur ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

4. Aðstæður og málsmeðferð í Frakklandi

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu getur sú staða komið upp að óheimilt sé að endursenda hælisleitendur til einstakra ríkja vegna ástands í viðkomandi móttökuríki. Aðildarríki mannréttindasáttmálans verða að vera meðvituð um alvarlega galla sem kunna að vera á meðferð hælisumsókna eða móttöku hælisleitenda í því aðildarríki sem endursenda skal til á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Verður því að skoða aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð í Frakklandi.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Frakklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Guide for Asylum Seekers in France (Ministry of the Interior, General Directorate for Foreign Nationals in France, 1. nóvember 2015)
  • Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exiles, desember 2015)
  • France 2015 Human Rights Report (United States Department of State, 13. apríl 2016)
  • Dublin II Regulation & Asylum in France – Guide for Asylum Seekers – 2012 (Forum réfugiés, European Refugee Fund, 2012)
  • Amnesty International Report 2015/16 – France (Amnesty International, 24. febrúar 2016)
  • Freedom in the World 2016 – France (Freedom House, 7. mars 2016)
  • First Steps for Demanding Asylum (Dom‘Asile, nóvember 2015)
  • Report of Human Rights Commissioner of the Council of Europe following his visit to France from 22 to 26 september 2014 (Commissioner for Human Rights, Council of Europe, 17. febrúar 2015)

Að mati kærunefndar bera gögn málsins það með sér að stjórnvöld í Frakklandi veiti fullnægjandi vernd gegn brottvísun hælisleitenda til landa þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað (non-refoulement). Er þá sérstaklega litið til þess að þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að málsmeðferð franskra yfirvalda sé nægilega vönduð og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd viðunandi úrræði til að leita réttar síns auk þess sem einstaklingsbundið mat sé lagt á aðstæður þeirra. Ekkert bendir til þess að […] hælisleitendum sé sjálfkrafa synjað um hæli í Frakklandi eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli.

Fram er komið í málinu að kærandi hafi ekki sótt um hæli í Frakklandi og ekki verið í hælismeðferð þar í landi. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um málsmeðferð hælisumsókna í Frakklandi má ráða að hælisleitendur geta sótt um hæli á landamærum Frakklands eða inni í landinu. Þá kemur fram að hælisleitendur í Frakklandi eigi rétt á viðtali áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra hjá frönsku útlendingastofnuninni (f. Office Français sur l’Immigration et l’Intégration). Hælisleitendur sem fengið hafa synjun á hælisumsókn sinni geta kært niðurstöðuna til stjórnsýsludómstóls (f. Cour nationale du droit d’asile). Hælisleitendur sem fengið hafa neikvæða niðurstöðu í hælismáli sínu eiga jafnframt möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um hæli. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli kæranda geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Þá eiga hælisleitendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á hæli hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Þá er af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér ljóst að frönsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við hælisleitendur skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Á kærustigi geta hælisleitendur sótt um að fá lögfræðiaðstoð greidda af frönskum yfirvöldum. Slíkar umsóknir eru að jafnaði samþykktar að þeim skilyrðum uppfylltum að umsækjendur geti ekki greitt fyrir þessa þjónustu sjálfir auk þess sem umsókn getur verið hafnað sé hún talin bersýnilega tilhæfulaus. Sé umsókn hælisleitanda um lögfræðiaðstoð á kærustigi hafnað getur hann kært niðurstöðuna til stjórnsýsludómstóls.

Framangreind gögn benda til þess að hælisleitendur í Frakklandi eigi möguleika á því að fá annaðhvort húsaskjól í hefðbundnum móttökumiðsstöðvum eða í tímabundnum gistiskýlum á vegum stjórnvalda á meðan þeir eru á biðlista eftir plássi í móttökumiðstöð. Af gögnunum verður jafnframt ráðið að fjölskyldur séu í forgangi þegar kemur að því að fá úthlutað plássi í móttökumiðstöð.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um andlega heilsu kæranda en þann 17. október sl. var mat sálfræðings á andlegu ástandi hennar lagt fram í málinu. Í matinu kom fram að kærandi hafi farið í fimm viðtöl hjá sálfræðingnum. Kærandi hafi svarað DASS prófi (e. Depression Anxiety Stress Scale) og niðurstöður þess hafi sýnt […] einkenni þunglyndis og kvíða en einkenni streitu hafi verið töluverð. Þá kemur fram í sálfræðimatinu að kærandi eigi erfitt með að koma sér að verki og finni litla gleði yfir því sem áður hafi veitt henni ánægju. Miklar svefntruflanir hrjái hana og hún sé sífellt þreytt og úrvinda. Að mati sálfræðings sé ljóst að kvíði og þunglyndiseinkenni séu að hrjá kæranda og vildi sálfræðingur vísa henni til læknis svo hægt væri að meta hvort lyf við kvíða, depurð og svefnvanda gætu hjálpað henni að takast á við vanlíðan sína. Þá kemur fram í skýrslu sálfræðingsins að fyrirhuguð séu áframhaldandi viðtöl þar sem farið verði yfir leiðir til að hjálpa kæranda að takast á við vanlíðan sína.

Í fyrrgreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað hælisleitenda í Frakklandi kemur fram að hælisleitendum þar í landi er tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í frönskum lögum, sbr. m.a. skýrsla Asylum Information Database, Country Report: France (European Council on Refugees and Exiles, desember 2015). Þá fer í öllum tilvikum fram mat á því hvort umsækjandi um hæli teljist vera viðkvæmur einstaklingur. Þó svo að mikið álag sé á hæliskerfi Frakklands um þessar mundir telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Frakklandi, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi. Það er því mat kærunefndar í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður og þjónustu við hælisleitendur í Frakklandi og að teknu sérstöku tilliti til barns kæranda og stöðu fjölskyldunnar í heild, þar á meðal í ljósi andlegrar heilsu fjölskyldumeðlima, að endursending fjölskyldunnar til Frakklands sé ekki í andstöðu við 45. gr. laga um útlendinga.

Athugun kærunefndar á aðstæðum hælisleitenda í Frakklandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði hælisleitenda þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda og barns hennar til Frakklands brjóti í bága við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði þau send þangað. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Frakklandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu hælisleitenda til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi ofangreinds telur kærunefnd ekki ástæðu til að binda niðurstöðu sína því skilyrði að aflað verði einstaklingsbundinnar tryggingar frá frönskum yfirvöldum um að fjölskyldunni verði tryggðar tilteknar móttökuaðstæður.

5. Sérstök tengsl við landið eða aðrar sérstakar ástæður skv. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 25. maí 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Gögn málsins benda ekki til þess að aðstæður hennar séu svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til stöðu fjölskyldunnar í heild og hagsmuna barns kæranda að teknu tilliti til 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna, sbr. framangreint ákvæði.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um fyrri hluta 2. mgr. 46. gr. a sem lítur að tengslum kæranda við Ísland. Engin bein umfjöllun er hins vegar um síðari hluta málsgreinarinnar er lítur að öðrum sérstökum ástæðum sem kunna að kalla á að íslensk stjórnvöld taki mál kæranda til efnismeðferðar. Kærunefnd hefur litið til þess að þrátt fyrir þennan annmarka fjallar ákvörðunin um þær ástæður sem gætu leitt til þess að mál yrði tekið til efnismeðferðar þó svo að stofnunin vísi ekki beint til síðari hluta 2. mgr. 46. gr. a. Kærunefnd telur því að þessi ágalli sé ekki svo verulegur að vísa beri málinu til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun eins og hér stendur sérstaklega á.

6. Samantekt

Í máli þessu hafa frönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og barni hennar og umsóknum þeirra um hæli á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er fallist á að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja um efnismeðferð á umsókn kæranda og barns hennar um hæli hér á landi og ákveða að senda þau til Frakklands með vísan til d-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Líkt og að ofan greinir var barn kæranda í fylgd með henni hingað til lands. Hefur mál kæranda og barns hennar verið skoðað í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Eins og að framan greinir telur kærunefnd það ekki andstætt réttindum barns kæranda að umsóknir kæranda og barns hennar verði ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi og að fjölskyldan verði send til Frakklands.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Tryggvadóttir                                                                      Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum