Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 23. - 29. apríl


Áfengisneysla Íslendinga samkvæmt könnun Lýðheilsustöðvar

Mikill munur er á áfengisdrykkju landsmanna eftir aldri og kyni og þróun áfengisneyslu er töluvert ólík milli aldurshópa. Karlar drekka nánast þrefalt meira en konur, eða 72% alls áfengis, á meðan konur drekka 28% áfengis reiknað í hreinum vínanda. Konur á aldrinum 18-34 ára hafa aukið áfengisneysluna um 28% frá árinu 2001, reiknað í hreinum vínanda, og karlar á sama aldri um 22%. Fólk á aldrinum 18-34 ára drekkur nú rúmlega þrefalt meira en fólk á aldrinum 55-75 ára. Bjórdrykkja er áberandi og drekka íslendingar meira af honum en öðrum áfengum drykkjum, reiknað í hreinum vínanda. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem gerð var á vegum Lýðheilsustöðvar í nóvember 2004 meðal fólks á aldrinum 18 - 75 ára. Fjallað er um niðurstöður könnunarinnar á heimasíðu Lýðheilsustöðvar.

Stjórnunarupplýsingar Landspítala - háskólasjúkrahúss frá janúar til mars 2005

Birtar hafa verið stjórnunarupplýsingar Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrir janúar - mars 2005. Þar kemur fram að launagjöld eru nokkurn veginn í samræmi við áætlun en rekstrarkostnaður tæp 2% umfram áætlun. Launagjöld hafa lækkað um 1,6% frá í fyrra. Í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga segir að umtalsverður árangur hafi náðst í lækkun rekstrargjalda, s.s. með auknum útboðum, hertum vinnureglum og útgáfu lyfjalista fyrir sjúkrahúsið. Lyfjaútgjöld hafa lækkað frá í fyrra og eru nánast í samræmi við rekstraráætlun. Sértekjur hafa lækkað um 4,1% vegna lækkunar gjaldskrár rannsóknardeilda. Dráttarvaxtagreiðslur eru umfram áætlun vegna uppsafnaðs rekstrarhalla liðinna ára.
Nánar á vef LSH...

Endurmat Lyfjastofnunar Evrópu á notkun þunglyndislyfja hjá börnum og unglingum
Lyfjastofnun Evrópu hefur lokið endurmati sínu á tveimur lyfjaflokkum þunglyndislyfja og komist að þeirri niðurstöðu að þau skuli ekki nota hjá börnum og unglingum nema samkvæmt skráðri ábendingu. Frá þessu er sagt á heimasíðu Lyfjastofnunar. Þar kemur fram að sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu sem fjallaði um umrædd lyf mæli með því að sett verði sterk varnaðarorð í lyfjatexta lyfjanna til að upplýsa lækna og foreldra um þessa áhættu. Einnig skal upplýsa lækna og foreldra um að þessi lyf eigi eingöngu að nota þegar um er að ræða skráða ábendingu. Nánar er sagt frá þessu á heimasíðu Lyfjastofnunar og greint frá því um hvaða lyf er að ræða.

Ársfundur Landspítala - háskólasjúkrahúss 2005

Haldinn var í dag, 29. apríl, ársfundur Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) 2005, í Salnum í Kópavogi. Framtíðarspítalinn var til umfjöllunar á fundinum í samnefndu erindi Jóhannesar M Gunnarssonar, setts forstjóra LSH. Þá flutti Susan Frampton forseti Planetree samtakanna í Bandaríkjunum og einn af höfundum bókarinnar "Putting Patients First: Designing and Practicing Patient-Centered Care" erindi um nýjustu strauma í hönnun sjúkrahúsa og sjúklingamiðaða heilbrigðisþjónustu. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ávarpaði fundinn og það gerði einnig Birna Kr. Svavarsdóttir, formaður stjórnarnefndar LSH. Magnús Pétursson, forstjóri LSH fjallaði á fundinum um Samfélagslegt gildi heilbrigðisþjónustu. Anna Lilja Gunnarsdóttir, framvkæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga gerði grein fyrir ársreikningum LSH. Þá voru í lok fundarins veittar viðurkenningar fyrir vísindastörf og starfsmenn sjúkrahússins heiðraðir fyrir vel unnin störf. Unnt var að fylgjast með ársfundinum í beinni útsendingu á Netinu.

Endurbætur á húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, undirritaði á samkomulag um endurbætur á húsnæðis heilsugæslunnar á Akureyri í gær. Gert verður við hluta húsnæðisins fyrir 43 milljónir króna, en sá hluti var úr sér genginn.

Mikil uppbygging í öldrunarmálum á Akureyri

Fyrsta skóflustungan að glæsilegri nýbygginu við Öldrunarstofnun Akureyrarbæjar, Hlíð, var tekin á Akureyri í gær að viðstöddu fjölmenni. Í byggingunni verður hjúkrunarheimili með 60 einstaklingsherbergjum, eldhús, matsalur og búningsaðstaða fyrir starfsmenn. Verkinu á að vera fulllokið 15. september 2006. Fyrirtækið Trétak átti lægsta tilboð í verkið og sér um bygginguna. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem undirritaði samninga um verkið fyrir hönd ráðuneytisins vakti athygli á að til verksins væri veitt stærsta einstaka framlagi sem komið hefði úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
29. apríl 2005



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum