Hoppa yfir valmynd
19. maí 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra á fundi með einum framkvæmdastjóra ESB

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, átti í vikunni fund í Brussel með belgískum starfsbróður sínum Rudy Demotte um viðfangsefni heilbrigðisyfirvalda í ríkjunum. Ráðherrarnir kynntu hvor fyrir öðrum helstu verkefni yfirvalda á heilbrigðissviði og ræddu sérstaklega sjúkrahúss- og almannatryggingamál, einkum öldrunarmál, sem eru ofarlega á baugi í Belgíu. Heimsótti Jón Kristjánsson háskólasjúkrahúsið St. Luc í Brussel í tengslum við heimsóknina til belgíska ráðherrans og kynnti sér starfsemi þess. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra átti einnig fund með framkvæmdastjóra ESB á sviði heilbrigðis- og neytendamála, sendiherra og starfsmönnum fastanefndar Ísland gagnvart ESB, sem og aðstoðarframkvæmdastjóra og starfsmönnum EFTA skrifstofunnar í Brussel. Í viðræðunum við embættismenn kynnti heilbrigðisráðherra sér sérstaklega tillögu framkvæmdastjórnar ESB um tilskipun á sviði þjónustuviðskipta. Sú tillaga hefur verið umdeild og skiptar skoðanir um hana bæði á Evrópuþinginu og meðal aðildarríkja Evrópusambandsins. Gagnrýnt hefur verið að heilbrigðisþjónusta, önnur en sjúkrahúsþjónusta er felld undir tilskipunina og þar með sett undir sama hatt og önnur þjónustuviðskipti, óháð því hvers eðlis þau eru. Evrópuþingið hefur nýlega fjallað um tillöguna og voru lagðar til margar og umtalsverðar breytingar á henni, m.a. sú að heilbrigðismál verði tekin út. Á fundi Jóns Kristjánssonar með framkvæmdastjóra ESB á sviði heilbrigðis- og neytendamála, Makros Kyprianou, gerði sá síðarnefndi ráðherra grein fyrir stöðunni varðandi tilskipunina. Fram kom að óvíst væri hver niðurstaðan yrði þegar málið kæmi aftur til umfjöllunar hjá ráðherraráði ESB, en búast mætti við ýmsum breytingum. Vitnaði Kyprinaous í þessu sambandi til að framkvæmdastjóri ESB á sviði innri markaðar hefði látið þau orð falla að til greina kæmi að ákvæði tilskipunarinnar sem tækju til heilbrigðismála yrðu hugsanlega felld út úr henni svo sátt mætti takast um hana. Auk þessa ræddu Jón Kristjánsson og Makros Kyprianou nýja áætlun ESB á sviði heilbrigðis- og neytendamála sem kynnt var í apríl síðastliðnum.

Fréttasíða háskólasjúkrahússins St. Luk (á frönsku): http://www.saintluc.be/press/index.html

Frétt um heimsókn heilbrigðismálaráðherra (á frönsku):  http://www.saintluc.be/press/commu/2005/islande-17-05-2005.pdf (pdf skjal 67 Kb)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum