Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 312/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 312/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050034

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. apríl 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. apríl 2018, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Þá krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli náms.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi hér á landi vegna náms þann 14. júní 2016 og fékk útgefið leyfi á þeim grundvelli með gildistíma frá 23. ágúst 2016 til 15. febrúar 2017. Mun kærandi hafa dvalið hér á landi síðan þá. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 16. janúar 2017 en var synjað þar sem Vinnumálastofnun synjaði honum um atvinnuleyfi. Í ljósi þess sem fram kom um tilgang dvalar kæranda tók Útlendingastofnun umsókn hans til skoðunar að nýju með hliðsjón af því hvort kærandi uppfyllti skilyrði 78. gr. laga um útlendinga fyrir dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. febrúar 2018, var þeirri umsókn synjað. Þann 22. febrúar 2018 bárust ný gögn frá kæranda sem leiddu til endurupptöku málsins hjá Útlendingastofnun, m.a. um fjölskylduaðstæður hans í heimaríki og framfærslu. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 12. apríl 2018, var umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið synjað. Ákvörðunin var aðgengileg kæranda á pósthúsi þann 17. apríl 2018 og móttekin af honum degi síðar. Hinn 23. apríl 2018 barst Útlendingastofnun kæra kæranda á ákvörðun stofnunarinnar. Kæran barst kærunefnd útlendingamála frá Útlendingastofnun þann 14. maí 2018. Með kærunni fylgdu athugasemdir kæranda vegna málsins. Þá bárust frekari athugasemdir frá kæranda þann 24. maí 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að tengsl sem útlendingur myndar við dvöl hér á landi vegna náms gætu ekki talist til sérstakra tengsla við landið, sbr. 5. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Leysti Útlendingastofnun því úr málinu á grundvelli 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga og 20. gr. reglugerðar um útlendinga, um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi. Í ákvörðuninni kom fram að systkini móður kæranda og afkomendur þeirra væru búsett hér á landi og að hann hafi átt mikil og regluleg samskipti við þau. Vísaði Útlendingastofnun til þess að kærandi hafi lokið grunn- og framhaldsnámi í heimaríki og stundað háskólanám. Þá hafi hann verið virkur í samfélagi sínu í heimaríki, t.a.m. á vegum [...]. Var það mat Útlendingastofnunar að fjölskyldu- og félagsleg tengsl kæranda við heimaríki væru ekki slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá væri fjárhagsleg umönnun skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla. Kom fram að kærandi hafi verið á framfæri ættingja sinna hér á landi að hluta til á árunum 2010-2014 meðan hann hafi verið við nám. Horfði Útlendingastofnun til þess að töluverður tími væri liðinn síðan kærandi hefði þegið framfærslu frá ættingjum sínum hér á landi. Þá yrði ekki séð að önnur umönnunarsjónarmið væru til staðar í málinu. Að virtum gögnum málsins og aðstæðum kæranda í heild var ekki talið að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita kæranda ekki dvalarleyfi hér á landi. Var umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kæranda vísar kærandi til þess að hann hafi dvalið hér á landi í tæp tvö ár og hafi eignast marga vini. Óskar kærandi eftir því að fá að dvelja hér á landi og vera nær fjölskyldumeðlimum sínum, en hann stefni einnig á að vinna hér á löglegan hátt og hefja nýtt líf. Kærandi kveður erfitt að fá vinnu í heimaríki en telur líkur á að hann geti fengið vinnu. Launin séu þó lág og uppihaldskostnaður eilítið hærri. Kærandi kveðst hafa glímt við erfiðleika allt sitt líf og m.a. misst báða foreldra sína. Í athugasemdum kæranda, dags. 24. maí 2018, kemur fram að hann hafi skráð sig í nám við Háskóla Íslands. Kærandi hyggist leggja fram umsókn um dvalarleyfi vegna náms og óskar eftir því að dvalarleyfi hans á þeim grundvelli verði endurnýjað.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Kærandi var með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli náms frá 23. ágúst 2016 til 15. febrúar 2017. Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga geta sérstök tengsl m.a. verið tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika. Í 5. mgr. 78. gr. er hins vegar kveðið á um að til sérstakra tengsla skv. 2. mgr. geta ekki talist þau tengsl sem útlendingur myndar við dvöl hér á landi samkvæmt ákvæðum sem þar eru tilgreind, m.a. vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 er fjallað um mat á umsóknum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið hafi umsækjandi áður búið á Íslandi. Þar segir m.a. að leggja skuli heildarmat á aðstæður umsækjenda en sérstaklega skuli horfa til ákveðinna atriða, m.a. lengdar lögmætrar dvalar, fjölskyldutengsla, fjölskyldumunsturs, fjölskyldustærðar, fjölskyldustöðu, fjölskylduaðstæðna og skyldleika auk umönnunarsjónarmiða.

Eins og fram kom í ákvörðun Útlendingastofnunar geta tengsl sem kærandi myndaði við landið á grundvelli dvalar vegna náms ekki talist til sérstakra tengsla í skilningi 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Þótt kærandi hafi dvalið hér á landi í tæplega tvö ár liggur fyrir að hann hefur aldrei dvalið hér á grundvelli dvalarleyfis sem getur myndað sérstök tengsl við landið í skilningi 78. gr. laga um útlendinga. Af hálfu kæranda hefur komið fram í málinu að hann hafi misst báða foreldra sína á barnsaldri. Í heimaríki hafi hann verið búsettur ásamt frænku sinni í húsi er hafi verið í eigu afa hans og ömmu, sem einnig séu látin. Er umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið byggð á því að hann eigi í nánu sambandi við ættingja hans í móðurætt sem séu búsettir hér á landi ásamt fjölskyldum þeirra. Þá kemur fram í gögnum málsins að fjölskylda kæranda hér á landi sé „sennilega“ stærri en fjölskylda hans í heimaríki. Samkvæmt framansögðu verður lagt til grundvallar við úrlausn þessa máls að kærandi eigi enga nánustu aðstandendur, hvorki í heimaríki né hér á landi. Þá telur kærunefnd liggja fyrir að kærandi eigi bæði ættingja hér á landi og í heimaríki. Gögn málsins benda til þess að frænka kæranda hér á landi hafi í fjögur skipti á árunum 2010, 2011 og 2014 millifært fé á frænku hans í heimaríki sem hafi verið ætlað að standa straum af kostnaði við nám og framfærslu kæranda á tímabilinu. Að mati kærunefndar verður ekki litið svo á að umræddar millifærslur bendi til þess að kærandi njóti umönnunar frænku sinnar hér á landi enda er langt liðið síðan umræddar færslur áttu sér stað, sem vörðuðu auk þess óverulegar fjárhæðir.

Í ljósi framangreinds, einkum grundvallar dvalar kæranda hér á landi og fjölskylduaðstæðna hans, er það niðurstaða kærunefndar að skilyrði veitingar dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, séu ekki fyrir hendi í máli kæranda. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Kærandi krefst þess einnig að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli náms. Vísar kærandi til þess að hann hafi skráð sig í nám við Háskóla Íslands og hyggist leggja fram umsókn um dvalarleyfi á þeim grundvelli hjá Útlendingastofnun. Vegna þessarar kröfu tekur kærunefnd fram að í hinni kærðu ákvörðun var aðeins tekin afstaða til umsóknar kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Kærunefnd útlendingamála úrskurðar aðeins í málum sem kærð eru til nefndarinnar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga. Þar sem Útlendingastofnun hefur ekki tekið ákvörðun varðandi umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli náms, sem kærð hefur verið til kærunefndar, eru ekki forsendur til að taka umrædda kröfu hans til greina.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir                                                                     Gunnar Páll Baldvinsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum