Hoppa yfir valmynd
13. mars 2001 Forsætisráðuneytið

Mannréttindadómstóll Evrópu vísar frá tveimur kærumálum gegn Íslandi

Fréttatilkynning
Nr. 10/ 2001

Mannréttindadómstóll Evrópu vísar frá tveimur kærumálum gegn Íslandi


Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá máli Vífilfells ehf. og Péturs Björnssonar gegn íslenska ríkinu. Á árinu 1997 var íslenska ríkið kært til dómstólsins fyrir brot á eignaréttarákvæði mannréttindasáttmála Evrópu í 1. gr. 1. viðauka vegna niðurstöðu hæstaréttardóms í skattamáli gegn fyrirtækinu. Einnig var kæruefni að seta Péturs Hafsteins hæstaréttardómara í málinu hefði leitt til þess að dómstóllinn hefði ekki verið sjálfstæður og óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. samningins, vegna hagsmunatengsla sem stofnast hefðu vegna forsetaframboðs Péturs á árinu 1996. Mannréttindadómstóllinn féllst á hvorugt kæruefnið. Hann taldi að skattálagning á fyrirtæki kæranda sem um var deilt í stæðist eignarréttarákvæði sáttmálans og fæli ekki í sér mismunun sem bryti gegn 14. gr. sáttmálans. Einnig lýsti dómstóllinn því að kærandi hefði ekki sýnt fram á að dómstóllinn hefði ekki verið sjálfstæður og óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. Þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu vísað frá kæru Jakobs Ragnarssonar gegn Íslandi, en þar var einnig kært yfir meintu vanhæfi Péturs Hafsteins hæstaréttardómara til setu í máli kæranda. Kæran barst dómstólnum á árinu 1998, en að mati dómstólsins var þá runninn út sex mánaða kærufrestur frá því að hæstaréttardómur var kveðinn upp í máli kæranda. Af þeirri ástæðu var kærunni vísað frá dómstólnum.

Nokkuð er um liðið síðan fyrrgreindar ákvarðanir voru teknar af Mannréttindadómstól Evrópu, sú fyrri þann 3. júlí 2000 og sú síðari 9. október 2000. Þar sem kærum þessum var vísað frá eftir frumskoðun hjá dómstólnum, án þess að óskað væri eftir greinargerð frá íslenska ríkinu var engum tilkynnt um ákvarðanirnar nema kærendum sjálfum. Ekki tíðkast að tilkynna viðkomandi ríki sem kært er, um niðurstöður í slíkum málum en unnt er að fá þær afhentar ef þess er óskað eftir að ákvörðun liggur fyrir. Stefnt er að því að íslenska ríkið fari þess formlega á leit við Mannréttindadómstól Evrópu að allar ákvarðanir af þessu tagi sem teknar eru í kærumálum gegn Íslandi verði einnig kynntar íslenska ríkinu.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
13. mars 2001.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum