Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 11/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 11/2016

Miðvikudaginn 16. nóvember 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. janúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. nóvember 2015 um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá og með 1. desember 2015 og hætta að greiða kæranda mæðralaun vegna þriggja barna frá 1. desember 2015 og að greiða henni mæðralaun vegna tveggja barna frá sama tíma.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Tryggingastofnun ríkisins hafði milligöngu um meðlagsgreiðslur með dóttur kæranda, B, frá X auk þess sem kærandi naut mæðralauna með þremur börnum frá X. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. nóvember 2015, var kæranda tilkynnt um stöðvun meðlagsgreiðslna frá 1. desember 2015 þar sem dóttir kæranda stundaði nám við C og væri búsett þar, sbr. 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga. Með bréfi Tryggingastofnunar, dagsettu sama dag, var kæranda jafnframt tilkynnt að vegna sömu ástæðna yrðu mæðralaun vegna þriggja barna stöðvaðar frá 1. desember 2015 og mæðralaun vegna tveggja barna greidd frá sama tíma. Var kæranda veittur frestur til 23. nóvember 2015 til að gera athugasemdir, koma fram andmælum eða koma á framfæri gögnum sem sýndu fram á annað.

Með bréfi, dags. 12. nóvember 2015, sendi kærandi athugasemdir sínar til Tryggingastofnunar ríkisins þar sem fram kemur að dóttir kæranda stundi nám við C en hún hafi þó lögheimili á heimili kæranda þar sem hún sé í námsleyfum. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2015, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda að fyrri ákvörðun um stöðvun meðlags stæði óbreytt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. janúar 2016. Með bréfi, dags. 27. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 10. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 17. febrúar 2016. Athugasemdir voru sendar Tryggingastofnun með bréfi, dags. 18. febrúar 2016. Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 24. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. febrúar 2016, var viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Tryggingastofnun ríkisins verði gert að greiða kæranda það meðlag og þau mæðralaun sem hún eigi rétt á.

Kæranda hafi borist tvö bréf frá Tryggingastofnun þann 9. nóvember 2015 er hafi varðað stöðvun greiðslu meðlags og mæðralauna. Í bréfunum hafi komið fram að henni væri veittur tveggja vikna frestur til að gera athugasemdir, koma fram andmælum eða koma á framfæri öðrum upplýsingum eða gögnum er varði mál kæranda.

Kærandi hafi sent athugasemdir til Tryggingastofnunar þar sem ákvörðun stofnunarinnar hafi verið andmælt og auk þess farið fram á að fá afrit af þeim gögnum sem stofnunin hafi stuðst við er ákvörðunin var tekin. Kæranda hafi borist bréf þann 25. nóvember 2015 frá Tryggingastofnun þar sem staðfest hafi verið móttaka á athugasemdum hennar. Í bréfinu hafi verið tekið fram að Tryggingastofnun hefði ekki heimild til að greiða kæranda meðlag og væri fyrri ákvörðun því staðfest.

Auk þess sem komi fram í bréfi kæranda til Tryggingastofnunar, dags. 12. nóvember 2015, vilji kærandi sýna fram á að Tryggingastofnun hafi ítrekað brotið stjórnsýslulög við meðferð máls hennar.

Ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fjalli um rannsóknarskyldu stjórnvalds. Að mati kæranda hafi rannsóknarskyldu Tryggingastofnunar ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti. Tryggingastofnun hafi verið búin að kveða upp úrskurð í málinu áður en kæranda hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um málið og því geti Tryggingastofnun ekki hafa verið með öll gögn í málinu þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Samkvæmt bréfi frá stofnuninni hafi hún einungis verið með bréf frá skóla dóttur kæranda en skólar séu ekki þær stofnanir sem sjái um að skrá búsetu fólks samkvæmt landslögum.

Ákvæði 12. gr. stjórnsýslulaga fjalli um meðalhófsregluna. Kærandi telur að Tryggingastofnun hafi brotið þessa reglu enda hafi stofnunin tekið þá ákvörðun að hætta að greiða meðlagið jafnvel þótt stofnunin hafi undir höndum samning staðfestan af sýslumanni sem kveði meðal annars á um umræddar meðlagsgreiðslur. Verði ekki séð að Tryggingastofnun hafi leitað allra leiða til að leysa mál kæranda án þess að tekin væri íþyngjandi ákvörðun í því.

Ákvæði 14. gr. stjórnsýslulaga fjalli um tilkynningu um meðferð máls. Kæranda hafi ekki verið tilkynnt um að Tryggingastofnun hefði mál hennar til skoðunar heldur hafi kærandi fengið tilkynningu um úrskurð og frest til að bregðast við honum. Að mati kæranda sé þetta skýrt brot á 14. gr. stjórnsýslulaga.

Þá fjalli 15. gr. stjórnsýslulaga um upplýsingarétt. Kærandi hafi farið fram á, í athugasemdum sínum til Tryggingastofnunar, að fá afrit af þeim gögnum sem stofnunin hefði undir höndum og legið hafi til grundvallar ákvörðunar í málinu.

Tryggingastofnun styðjist við reglugerð um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga í málatilbúnaði sínum sem byggi meðal annars á barnalögum nr. 76/2003. Í 56. gr. laganna segi að sá sem standi straum af útgjöldum vegna framfærslu barns geti krafist þess að meðlag sé ákveðið og innheimt, enda hafi viðkomandi forsjá barns eða barn búi hjá honum samkvæmt lögmætri skipan.

Kærandi telur að réttur hennar til meðlagsgreiðslna sé hafinn yfir allan vafa, enda komi fram í lögum um lögheimili að um námsmenn gildi sérákvæði og þeir geti stundað nám á öðrum stöðum en þeir hafi lögheimili, en lögheimili teljist vera þar sem þeir séu í leyfum eins og segi í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi telji það staðfest að stofnunin fari með rangar staðhæfingar í greinargerð sinni. Þar komi fram að samkvæmt upplýsingum frá C hafi dóttir kæranda búsetu þar. Einu gögnin sem Tryggingastofnun sé með frá skólanum sé staðfesting á skólavist á tímabilinu X til X.

Það sem Tryggingastofnun virðist byggja rök sín á sé afrit af vefskilaboðum frá barnsföður kæranda. Í þeim skilaboðum sé kærandi að upplýsa hann um hvar dóttir hans hafi aðsetur á meðan hún sé við nám í D. Hennar aðsetur á þeim tíma sé hjá móður kæranda þar sem hún hafi húsnæði og fæði í umboði kæranda. Það sé alveg ljóst að dóttir kæranda sé á hennar framfæri og því sjái kærandi ekkert í rökum eða gögnum Tryggingastofnunar sem bendi til annars og því eigi hún rétt á meðlagsgreiðslum vegna dóttur sinnar. Kærandi telji í raun með ólíkindum að stofnun geti farið svona fram af fullu afli gagnvart einstæðri móður með engin haldstæð rök og komist upp með að brjóta stjórnsýslulög ítrekað eins og kærandi hafi bent á í kæru sinni.

Það sé líkt og Tryggingastofnun hafi ákveðið að hundsa lög um lögheimili og þar með lögmætt heimili dóttur kæranda við umfjöllun um mál hennar. Eins og fram komi í gögnum sem fylgt hafi athugasemdum sé staðfest að lögheimili dóttur kæranda sé hjá kæranda.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili komi fram að dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst geti hann átt lögheimili þar áfram enda hafi hann þar bækistöð í leyfum og taki ekki upp fasta búsetu annars staðar.

Eins komi það á óvart að Tryggingastofnun geti ákveðið að kæranda og barnsföður hennar beri ekki að framfæra barn sitt en hún sé aðeins X ára. Í 53. gr. barnalaga komi fram að foreldrum sé skylt, báðum saman og hvoru um sig, að framfæra barn sitt. Framfærslu barns skuli haga með hliðsjón af högum foreldra og þörfum barns.

Í gildi sé samningur staðfestur af sýslumanni og líkt og komi fram í 76. gr. barnalaga gildi hann til 18 ára aldurs dóttur kæranda. Þá vísar kærandi til 55. gr. barnalaga þar sem fjallað sé um samning um meðlag.

Það sama komi einnig skýrt og greinilega fram á vef Innheimtustofnunar sveitarfélaga að samkvæmt íslenskum lögum sé barni tryggð lágmarks framfærsla. Sá aðili sem standi straum af framfærslu barnsins eigi rétt á meðlagi frá hinum meðlagsskylda.

Eins og fram hafi komið hafi kærandi staðið straum af framfærslu dóttur sinnar frá því að hún hóf nám þann X eins og allan tímann frá því að hún og barnsfaðir hennar skildu árið X.

Ef þessi málatilbúnaður Tryggingastofnunar sé rétt túlkun á lögum og reglugerðum þá sé í raun búið að skerða tækifæri og mannréttindi barna og einstæðra foreldra til að sækja nám við þá skóla sem þeir kjósi. Til að tryggja framfærslugreiðslur frá Tryggingastofnun geti þeir ekki haft aðsetur í öðru húsnæði en hjá því foreldri sem þiggi meðlagsgreiðslur.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að 63. gr. laga um almannatryggingar kveði á um það að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum.

Samkvæmt 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga falli meðlagsgreiðslur niður þegar barn flytji af heimili meðlagsmóttakanda.

Þá segi í 5. mgr. 6. gr. sömu reglugerðar að ávallt sé skilyrði að barn sé búsett á heimili meðlagsmóttakanda við upphaf greiðslna.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafi börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og séu búsett hér á landi. Þá segi í 1. gr. reglugerðar nr. 540/2002 um mæðra-/feðralaun að skilyrði sé að foreldri hafi tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára á framfæri sínu og að börnin séu búsett hér á landi hjá foreldri samkvæmt lögmætri skipan.

Tryggingastofnun hafi haft milligöngu um meðlag með dóttur kæranda, B, frá X. Þá hafi Tryggingastofnun greitt kæranda mæðralaun með þremur börnum hennar frá X. Í nóvember 2015 hafi Tryggingastofnun borist upplýsingar um að dóttir kæranda væri í námi við C og byggi þar. Því hafi kæranda verið send tvö bréf, dags. 9. nóvember 2015, þar sem henni hafi verið tilkynnt að Tryggingastofnun myndi stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna og stöðva greiðslu mæðralauna með þremur börnum frá 1. desember 2015, en frá sama tíma fengi kærandi greidd mæðralaun með tveimur börnum.

Kærandi hafi mótmælt þeirri ákvörðun með bréfi, dags. 12. nóvember 2015. Í bréfinu segi meðal annars að það sé rétt að dóttir kæranda stundi nám við C en sé með lögheimili hjá kæranda að E, en hún sé hjá sér í skólaleyfum og sé á sinni framfærslu. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 25. nóvember 2015, hafi kæranda verið tilkynnt að stöðvun meðlagsgreiðslna stæði óbreytt frá 1. desember 2015.

Tryggingastofnun telur að ekki sé unnt að líta fram hjá skýru ákvæði reglugerðar nr. 945/2009 um að meðlagsgreiðslur skuli falla niður þegar barn flytji af heimili meðlagsmóttakanda. Það komi skýrt fram í gögnum málsins að dóttir kæranda stundi nám við C í D og sé búsett ýmist hjá X eða X í D en ekki hjá kæranda í E. Það viðurkenni kærandi sjálf í gögnum málsins. Þá sé einungis heimilt að greiða mæðralaun með þeim börnum sem búsett séu hjá einstæðu foreldri. Með vísan til alls framanritaðs telur Tryggingastofnun því að rétt hafi verið að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá 1. desember 2015 og einnig að stöðva greiðslu mæðralauna með þremur börnum kæranda frá sama tíma og greiða henni í stað þess mæðralaun með tveimur börnum. Benda megi á að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi komist að sömu niðurstöðu í sambærilegu máli varðandi stöðvun meðlagsgreiðslna í máli nefndarinnar nr. 177/2015.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi farið yfir viðbótargögn frá kæranda en sjái ekki ástæðu til sérstakra athugasemda. Vísi stofnunin til fyrri greinargerðar sinnar í málinu en vilji þó taka það fram að ákvörðun Tryggingastofnunar hafi engin áhrif á skyldu barnsföður kæranda til að greiða meðlag með dóttur kæranda samkvæmt meðlagsákvörðun frá því að milliganga Tryggingastofnunar hafi hætt. Kærandi geti því sótt þær greiðslur samkvæmt almennum reglum úr hendi barnsföður síns.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. nóvember 2015 um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá og með 1. desember 2015 og að hætta að greiða henni mæðralaun vegna þriggja barna frá 1. desember 2015 og að greiða henni mæðralaun vegna tveggja barna frá sama tíma.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er mælt fyrir um rétt til fyrirframgreiðslu meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“

Óumdeilt er að dóttir kæranda leggur stund á nám við C og býr þar en ekki á heimili móður sinnar í E þrátt fyrir að lögheimili hennar sé skráð hjá móður. Þar sem dóttir kæranda var ekki lengur búsett á heimilinu felldi Tryggingastofnun ríkisins niður milligöngu meðlagsgreiðslna. Kærandi byggir á því að dóttir hennar sé enn á framfæri hennar á meðan hún er við nám í D.

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur þegar umsækjandi hefur lögformlega meðlagsákvörðun. Það skilyrði er sett fyrir milligöngunni að það barn sem greiða skuli meðlag með sé á framfæri umsækjanda. Reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, með síðari breytingum, hefur verið sett með stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Í 8. gr. reglugerðarinnar eru talin upp þau tilvik þar sem meðlagsgreiðslur falla niður. Í 2. tölul. 8. gr. segir að greiðslur falli niður ef „barn flytur af heimili meðlagsmóttakanda eða er af öðrum ástæðum ekki lengur á framfæri meðlagsmóttakanda“. Einnig kemur fram í 5. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar að ávallt sé skilyrði að barn sé búsett á heimili meðlagsmóttakanda við upphaf greiðslna. Samkvæmt framangreindum reglugerðarákvæðum er það skilyrði fyrir meðlagsgreiðslum að barnið búi á heimili meðlagsmóttakanda en greiðslur falla niður flytji það brott.

Fjallað er einnig um framfærslu barns og meðlagsgreiðslur í barnalögum nr. 76/2003. Þar segir í 1. málsl. 1. mgr. 53. gr. að foreldrum, báðum saman og hvoru um sig, sé skylt að framfæra barn sitt. Í 56. gr. er kveðið á um hverjir geti krafist meðlags. Þar segir í 1. mgr.: „Sá sem stendur straum af útgjöldum vegna framfærslu barns getur krafist þess að meðlag sé ákveðið og innheimt, enda hafi viðkomandi forsjá barns eða barn búi hjá honum samkvæmt lögmætri skipan.“ Samkvæmt barnalögum er því nægilegt að meðlagsmóttakandi standi straum af útgjöldum vegna framfærslu barns og hafi annaðhvort forsjá eða barn búi hjá honum. Þegar um sameiginlega forsjá er að ræða er gert ráð fyrir því að það foreldri sem barn eigi lögheimili hjá sé meðlagsmóttakandi samkvæmt því sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laganna.

Einnig má líta til ákvæða laga nr. 21/1990 um lögheimili þar sem lögheimili er skilgreint í 1. mgr. 1. gr. sem sá staður þar sem maður hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í ákveðnum tilvikum telst dvöl á tilteknum stað ekki vera talin ígildi fastrar búsetu og eru í 3. mgr. 1. gr. talin upp slík tilvik, þeirra á meðal dvöl í heimavistarskóla. Þá er sérstök heimild fyrir námsmenn sem stunda nám í öðru sveitarfélagi í 3. mgr. 4. gr. en þar segir: „Dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst getur hann átt lögheimili þar áfram enda hafi hann þar bækistöð í leyfum og taki ekki upp fasta búsetu annars staðar.“

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 er gerð krafa um að meðlagsmóttakandi hafi barn á framfæri sínu en ekki verður ráðið af orðlagi ákvæðisins að ætlun löggjafans hafi verið að milliganga meðlagsgreiðslna einskorðist við þau tilvik sem barn og meðlagsmóttakandi séu búsett á sama heimili, sbr. 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009. Framangreind ákvæði barnalaga og lögheimilislaga styðja ekki heldur slíka túlkun á ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Hafa ber í huga að um íþyngjandi skilyrði er að ræða sem takmarkar verulega rétt til milligöngu meðlagsgreiðslna. Í lagaákvæðinu er ekki kveðið á um að meðlagsmótttakandi og barn skuli hafa sama heimili og kemur því til skoðunar hvort framangreint skilyrði reglugerðarinnar hafi næga lagastoð en almennt er ekki unnt að skerða réttindi til greiðslna samkvæmt almannatryggingalögum með reglugerð nema hún hafi stoð í skýru og ótvíræðu lagaákvæði.

Reglugerð nr. 945/2009 er sett með stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007. Ákvæði 70. gr. laganna veitir ráðherra einungis almenna heimild til að kveða á um nánari framkvæmd laganna í reglugerð. Þá hljóðar reglugerðarheimildin í 6. mgr. 63. gr. svo:

„Heimilt er að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar þar sem m.a. er kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn eru búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála fær hvorki ráðið að í 6. mgr. 63. gr. né 70. gr. felist heimild til að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarka verulega rétt til milligöngu meðlagsgreiðslna. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefði framangreint skilyrði í reglugerð nr. 945/2009 annaðhvort þurft að koma fram í lögunum sjálfum eða að ráðherra hefði verið veitt heimild til að setja sjálfstæð efnisleg skilyrði í reglugerð með skýrri og ótvíðræðri reglugerðarheimild í lögum. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvæði 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009, um að meðlagsgreiðslur falli niður flytji barn af heimili meðlagsmóttakanda, eigi sér ekki næga stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun á milligöngu meðlags til kæranda á grundvelli 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 er hrundið. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til nýrrar meðferðar á grundvelli ákvæða laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Kemur þá til skoðunar ákvörðun Tryggingastofnunar um að breyta greiðslu mæðralauna til kæranda úr greiðslu með þremur börnum í greiðslu með tveimur börnum. Mæðralaun eru greidd samkvæmt heimild í 2. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð en 1. mgr. hljóðar svo:

„Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eru búsett hér á landi. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. Þar er einnig heimilt að skilyrða greiðslu mæðra- og feðralauna við að meðlagsúrskurður hafi verið kveðinn upp eða fyrir liggi staðfest samkomulag um greiðslu framfærslueyris.“

Á grundvelli reglugerðarheimildar í framangreindu lagaákvæði hefur verið sett reglugerð nr. 540/2002 um mæðra- og feðralaun, með síðari breytingum. Þar segir í 1. gr.:

„Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að fenginni umsókn, að greiða mæðra- og feðralaun þeim sem eiga lögheimili hér á landi. Skilyrði er að foreldri hafi tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára á framfæri sínu, og að börnin séu búsett hér á landi hjá foreldri samkvæmt lögmætri skipan.“

Líkt og áður hefur komið fram býr dóttir kæranda ekki á heimili móður sinnar þar sem hún stundar nám við C. Tryggingastofnun ríkisins breytti greiðslu mæðralauna á þeim grundvelli að dóttir kærandi byggi ekki lengur á sama stað og kærandi, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 540/2002, en kærandi kveðst engu að síður enn hafa hana á framfæri sínu á meðan hún er við nám.

Skilyrði fyrir greiðslu mæðra- og feðralauna samkvæmt framangreindri 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/2007 er að um einstætt foreldri sé að ræða, að barn undir 18 ára aldri sé á framfæri þess og það sé búsett hér á landi. Í reglugerð nr. 540/2002 eru sett viðbótarskilyrði fyrir greiðslunum, meðal annars er þess krafist að börnin séu búsett hjá foreldri samkvæmt lögmætri skipan. Sá áskilnaður er ekki gerður í lagaákvæðinu og kemur því til skoðunar hvort næg lagastoð sé fyrir því skilyrði.

Reglugerð nr. 540/2002 var sett með stoð í þágildandi 2. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 118/1997 um félagslega aðstoð, nú 2. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 er ráðherra veitt almenn reglugerðarheimild til að setja frekari ákvæði um greiðslu félagslegrar aðstoðar samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er ráðherra falið að setja nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna með reglugerð og sérstaklega er nefnt að í slíkri reglugerð sé heimilt að skilyrða greiðslur við að „meðlagsúrskurður hafi verið kveðinn upp eða fyrir liggi staðfest samkomulag um greiðslu framfærslueyris“. Ekki eru tilgreind önnur tilvik sem heimilt væri að setja sem skilyrði fyrir greiðslum. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekki fullnægjandi lagaheimild fyrir því skilyrði mæðralauna að börn búi hjá foreldi, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 540/2002. Slíkt skilyrði hefði annaðhvort þurft að koma fram í lögunum sjálfum eða að skýr og ótvíræð reglugerðarheimild hefði mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja slíkt skilyrði í reglugerð. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því með vísan til framangreinds að það skilyrði um búsetu barna hjá foreldri samkvæmt lögmætri skipan sem fram kemur í 1. gr. reglugerðar nr. 540/2002 eigi sér ekki næga stoð í 2. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að breyta greiðslu mæðralauna til kæranda úr greiðslu með þremur börnum í greiðslu með tveimur börnum er hrundið. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til nýrrar meðferðar á grundvelli ákvæða laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins um að fella niður milligöngu meðlagsgreiðslna til A, og breyta greiðslu mæðralauna til hennar úr greiðslu með þremur börnum í greiðslu með tveimur börnum er hrundið. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum