Hoppa yfir valmynd
3. mars 2021 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 21/2020 - Úrskurður

Mál nr. 21/2020

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Flugleiðahótelum ehf. (Icelandair Hotels)

 

Uppsögn á meðgöngu. Laun á uppsagnarfresti. Frávísun á kröfu. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun F um að segja henni upp störfum á meðgöngu, synja henni um greiðslu launa á uppsagnarfresti og að gengið hafi verið framhjá henni við endurráðningu. Þar sem krafa A beindist að ágreiningi um uppgjör launa við starfslok, sem heyrir ekki undir valdsvið kærunefndar, var henni vísað frá nefndinni. Þá var ekki talið að sýnt hefði verið fram á að fæðingarorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft áhrif á uppsögn kæranda eða við endurráðningu fyrrum samstarfsmanns. Var því ekki fallist á að F hefði gerst brotlegt við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 3. mars 2021 er tekið fyrir mál nr. 21/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dags. 25. október 2020, kærði A ákvörðun Flugleiðahótela ehf. (Icelandair Hotels) um að segja henni upp störfum á meðgöngu, synja henni um greiðslu launa á uppsagnarfresti og að gengið hafi verið framhjá henni við endurráðningu. Af kærunni má ráða að kærandi telji að með þessu hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 3. nóvember 2020. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 2. desember 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 3. desember 2020. Athugasemdir bárust ekki.

  MÁLAVEXTIR

 4. Kærandi hóf störf hjá kærða sem sölu- og bókunarfulltrúi í deildinni Sales Leisure á árinu 2017. Í lok apríl 2020 var kæranda sagt upp störfum. Í rökstuðningi vegna uppsagnarinnar, dags. 5. júní 2020, var vísað til þess að kærði hefði neyðst til að fara í ítrekaðar hópuppsagnir vegna „gríðarlegs tekjufalls“ sökum þess einstaka neyðarástands sem hefði ríkt um allan heim vegna kórónuveirufaraldursins (COVID-19). Hefði kærði þurft að segja upp flestum starfsmönnum félagsins, þ. á m. öllum starfsmönnum í fæðingarorlofi og á leið í fæðingarorlof eins og ætti við um kæranda. Þá liggur fyrir að einn starfsmaður af þeim sem störfuðu í sömu deild og kærandi hafi verið endurráðinn.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 5. Athugasemdir kæranda beinast einkum að því að hún hafi ekki fengið greidd laun á uppsagnarfresti sem hún telur sig eiga rétt á. Heldur kærandi því fram að sú ákvörðun að greiða henni ekki laun á uppsagnarfresti hafi verið byggð á þeim rökum að hún væri að fá laun greidd annars staðar frá. Yfirmenn kæranda hafi verið meðvitaðir um að vinnuframlag hennar væri skert vegna veikinda á meðgöngu og hafi hún fengið greitt fyrirfram frá Fæðingarorlofssjóði. Bendir kærandi á að hún hafi þurft að minnka töluvert við sig vinnu vikurnar fyrir uppsögn en á sama tíma hafi kærði farið svokallaða 25% leið og starfshlutfall hennar í samræmi við það einungis verið 25%.
 6. Eftir að kærði hafi sagt kæranda upp störfum hafi kærandi reynt að fá upplýsingar um greiðslur launa á uppsagnarfresti. Hafi hún loks fengið svör rúmlega fimm mánuðum síðar þess efnis að þar sem hún hafi þegið greiðslur annars staðar frá, eða frá Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu, hafi kærði ekki þurft að greiða henni laun á uppsagnarfresti.
 7. Kæranda þykir eðlilegt að hún fái að minnsta kosti greiddan hluta af uppsagnarfrestinum, ef ekki allan „vegna stöðu hennar“ og þar sem henni hafi verið sagt upp störfum undir lok meðgöngunnar.
 8. Kærandi bendir á að starfsmenn sem hafi gegnt sama starfi og hún eða sambærilegu starfi hafi ekki verið sagt upp störfum hjá kærða. Enn sé starfsemi í þeirri deild sem hún gegndi störfum í en sú deild og aðrar sambærilegar deildir hafi ekki verið lagðar niður hjá kærða. Hefði verið mjög auðvelt fyrir kærða að færa hana til í starfi eða bjóða henni endurráðningu. Þá hafi starfsmaður sem hafi unnið hjá kærða mun skemur en hún verið endurráðinn til að gegna hennar starfi og þannig verið tekinn fram yfir hana.
 9. Kærandi tekur fram að hún hafi verið með ráðningarsamning við kærða og hafi unnið fyrir hann hátt í þrjú ár. Um leið og hún hafi orðið barnshafandi hafi hún misst allan rétt, henni hafi verið sagt upp og neitað um greiðslur á uppsagnarfresti, þrátt fyrir að geta augljóslega ekki unnið uppsagnarfrestinn þar sem henni hafi verið sagt upp tíu vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Tekur kærandi fram að hún hafi leitað til VR eftir aðstoð við að ná fram rétti sínum. Félagið hafi hins vegar ekki verið tilbúið til að leita lausna fyrir hennar hönd, meðal annars með vísan til þess að réttur hennar hafi ekki verið skýr.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 10. Kærði bendir á að áhrif kórónuveirufaraldursins á rekstur félagsins hafi verið gríðarleg. Af um það bil 650 starfsmönnum félagsins í febrúar 2020 hafi 94% þeirra verið sagt upp á vormánuðum 2020. Kæranda hafi verið sagt upp ásamt 308 manns í lok apríl en þá hafi öllum þeim sem höfðu sinnt sama starfi og hún verið sagt upp störfum vegna samdráttar.
 11. Kærandi hafi starfað sem sölu- og bókunarfulltrúi í deildinni Sales Leisure sem hafi séð um sölu og bókanir fyrir ferðamenn en verkefnastaðan hafi hrunið í þeirri deild þegar ferðamenn hættu nánast að heimsækja landið. Hafi uppsagnirnar náð til allra sem höfðu sama starfstitil og kærandi og því enginn sem var í sambærilegu starfi og kærandi haldið starfinu. Uppsagnirnarí sömu deild og kærandi hafi náð til sjö kvenna og eins karlmanns, en deildin hafi að mestu verið skipuð konum. Hafi kæranda hvorki verið mismunað á grundvelli kyns vegna þessara uppsagna né á grundvelli aðstæðna sem eru tengdar meðgöngu og barnsburði.
 12. Þegar liðið hafi verið á sumarið hafi komið tækifæri til að endurráða starfsmenn en aðallega á hótelum á landsbyggðinni. Þá hafi skapast tækifæri til að endurráða einn starfsmann af þessum átta sem hafði verið sagt upp en sá starfsmaður hafi þurft að hafa víðtækari þekkingu og reynslu og geta gengið í fleiri störf og sinnt fleiri verkefnum en áður hafi tilheyrt viðkomandi starfssviði. Endurráðning þess starfsmanns, sem er kona, hafi verið byggð á því að hún hefði þekkingu og reynslu til að ganga í fyrirliggjandi verkefni. Það sé því ljóst að kæranda hafi ekki verið mismunað vegna kyns við þessa endurráðningu og hafi aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hennar ekki heldur haft áhrif á endurráðninguna.
 13. Eins og kærandi hafi tekið fram í kærunni hafi hún átt erfitt með að sinna starfi sínu vegna veikinda. Þannig hafi hún tilkynnt 19. mars 2020 að hún þyrfti að minnka við sig vinnu og gæti unnið 60% starf. Á svipuðum tíma hafi áhrif kórónuveirufaraldursins orðið með þeim hætti að flestir starfsmenn hótelanna hafi farið á hlutabótaleið og því aðeins skilað 25% starfi. Hafi hún getað sinnt því starfshlutfalli. Í lok apríl var kæranda sagt upp vegna þess samdráttar sem hafði orðið í rekstri kærða og óvissunnar framundan. Þar sem starfsmenn á uppsagnarfresti hafi ekki getað nýtt sér hlutabótaleiðina hafi kærandi því aftur farið í 100% starf. Hún hafi í framhaldinu tilkynnt um 60% veikindi og unnið 40% á móti. Starf hennar hafi þá verið aðlagað að því sem hafi hentað henni og kærða best. Þann 6. maí 2020 hafi kæranda verið ráðlagt af lækni að fara í fullt veikindafrí. Hún hafi fengið greidda þá daga sem hún hafi átt eftir af veikindarétti sínum en greiðslu veikindadaga samkvæmt kjarasamningi hafi lokið 15. maí 2020.
 14. Kærði bendir á að kærandi hafi leitað til VR vegna framhaldsins og þar hafi henni verið ráðlagt að leita til Fæðingarorlofssjóðs vegna veikinda á meðgöngu því að sú leið myndi vera henni hagstæðust. Fæðingarorlofssjóður hafi samþykkt umsókn hennar.
 15. Eftir að kærandi eignaðist barn sitt X. júlí 2020 hafi í samráði við hana verið ákveðið að hún tæki fyrstu tvær lögbundnu vikurnar í fæðingarorlofi og að send yrði tilkynning um breytingu á fæðingarorlofi hennar svo að kærði gæti greitt henni það sem eftir lifði uppsagnarfrestsins. Hún hafi því fengið greidd laun fyrir tímabilið 21.-31. júlí og uppgjör orlofs og uppbóta í ágústmánuði. Hún hafi svo aftur farið í fæðingarorlof 1. september 2020.
 16. Vegna athugasemda kæranda um greiðslur á uppsagnarfresti tekur kærði fram að í samræmi við almennar reglur á vinnumarkaði þá falli starfsfólk í veikindum af launaskrá þegar það hafi fullnýtt rétt sinn hjá vinnuveitanda. Önnur úrræði taki þá við, en í tilviki kæranda hafi hún bæði getað leitað til sjúkrasjóðs VR og Fæðingarorlofssjóðs. Geti kærandi ekki tekið við greiðslum frá Fæðingarorlofssjóði á sama tíma og hún fái greiðslur frá öðrum aðilum, sbr. til dæmis 33. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.
 17. Kærði tekur fram að hann hafi gert upp allar greiðslur sem tengist starfslokum kæranda. Þá sé því enn fremur hafnað að henni hafi verið mismunað á nokkurn hátt á grundvelli kyns eða að fæðingar- eða foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu hafi haft neikvæð áhrif á þær ákvarðanir sem teknar hafi verið vegna starfsloka hennar hjá kærða. Kærði hafni því að ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin.

  NIÐURSTAÐA

 18. Í máli þessu er deilt um uppsögn á meðgöngu og vangoldin laun í uppsagnarfresti, auk þess sem gerð er athugasemd við endurráðningu fyrrum samstarfsmanns kæranda. Ganga verður út frá að kærandi haldi því fram að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008 með því að hafa látið fæðingarorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa áhrif á uppsögn kæranda með ólögmætum hætti, sbr. 1. og. 2. mgr. 26. gr. laganna.
 19. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í 1. mgr. 26. gr. laganna er tekið fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingar, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna. Þá er óheimilt að láta fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í 2. mgr. 5. gr. er tekið fram að verkefni kærunefndar jafnréttismála sé að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Samkvæmt því takmarkast valdsvið kærunefndar jafnréttismála við að kveða upp úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 10/2008 hafi verið brotin.
 20. Kærandi telur sig ekki hafa fengið greidd þau laun á uppsagnarfresti sem hún hafi átt rétt á. Af gögnum þeim sem lögð hafa verið fyrir nefndina verður ekki betur séð en að um sé að ræða ágreining um uppgjör launa við starfslok en ekki ágreining um það hvort ákvæði laga nr. 10/2008 hafi verið brotin. Slík krafa heyrir eins og að framan er rakið ekki undir valdsvið kærunefndar. Verður samkvæmt því að vísa þeirri kröfu kæranda frá nefndinni.
 21. Stendur því eftir að taka afstöðu til þeirrar kröfu kæranda að fæðingarorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu hafi haft áhrif á uppsögn hennar, og þá ákvörðun kærða um að endurráða einn starfsmann sem gegndi sambærilegu starfi og hún.
 22. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 26. gr. kemur það í hlut starfsmanns sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft neikvæð áhrif á uppsögn. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar aðstæður en fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
 23. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að fæðingarorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft áhrif á uppsögn hennar hjá kærða.
 24. Ágreiningslaust er að mikill fjöldi starfsmanna kærða var sagt upp störfum á sama tíma og kæranda vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á rekstur félagsins. Af hálfu kærða er upplýst að þetta hafi átt við um 308 manns. Þar af hafi öllum átta starfsmönnum í deild kæranda, Sales Leisure, verið sagt upp störfum, sjö konum og einum karlmanni en kærandi var ein þessara kvenna. Er því lýst að verkefnastaða í deildinni hafi hrunið þegar ferðamenn hættu nánast að heimsækja landið.
 25. Ekki verður séð af þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja í málinu að ástæður uppsagnarinnar hafi verið þær að kærandi hafi verið barnshafandi. Þá er ekkert sem bendir til þess í gögnum málsins að kærði hafi látið fæðingarorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu hafa áhrif á uppsögn kæranda. Verður ekki betur séð en að öllum starfsmönnum í deild kæranda hafi verið sagt upp á sama tíma vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, óháð kyni eða því hvort þeir hafi verið barnshafandi. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að ástæður þess að einn starfsmaður úr deild kæranda, Sales Leisure, var endurráðinn hafi tengst meðgöngu hennar eða barnsburði.
 26. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að fæðingarorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft áhrif á uppsögn kæranda og endurráðningu eins starfsmanns sem gegndi sambærilegu starfi og hún. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 10/2008.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kröfu kæranda, A, um að kærði, Flugleiðahótel ehf. (Icelandair Hotels), greiði henni laun í uppsagnarfresti er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

Kærði, Flugleiðahótel ehf. (Icelandair Hotels), braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við uppsögn kæranda, A, eða við endurráðningu fyrrum samstarfsmanns kæranda.

 

Kristín Benediktsdóttir

Andri Árnason

Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira